Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 557/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 557/2022

Miðvikudaginn 15. febrúar 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 30. nóvember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. ágúst 2022 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta hans vegna ársins 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2021. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 713.038 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. ágúst 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 6. desember 2022, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Með tölvubréfum 7. og 8. desember 2022 bárust athugasemdir frá kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að málið varði kröfu Tryggingastofnunar að fjárhæð 713.038 kr. sem sé tilkomin vegna þess að hann hafi ekki skilað „Samanburður greiðslna og réttinda“. Kærandi hafi ekki haft hugmynd um að hann hafi átt að skila inn tekjuupplýsingum og stofnunin hafi ekki bent honum á þetta. Auk þess hafi kærandi aldrei heyrt um þetta eyðublað, þ.e. tekjuáætlun.

Niðurstaða Tryggingastofnunar sé sú að hann skuldi  713.038 kr. vegna þess að hann hafi ekkert sagt um væntanlegar leigutekjur sem hann hafi þó gert í skattframtölum.

Kærandi hafi fengið símtal frá Tryggingastofnun þar sem honum hafi verið sagt að þetta væri alveg á hans ábyrgð og þegar hann hafi spurt um leiðréttingu og að Tryggingastofnun myndi borga honum þetta aftur hafi verið fátt um svör, bara síendurtekið að þetta væri á hans ábyrgð.

Kærandi hafi verið í sambandi við umboðsmann Alþingis sem hafi bent honum á úrskurðarnefndina.

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og fimm dagar frá því að kæranda var birt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. ágúst 2022, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. nóvember 2022. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 25. ágúst 2022 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. desember 2022, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Í athugasemdum kæranda segir að í ákvörðun Tryggingastofnunar komi fram að málið sé í biðstöðu og ekki hafi komið fram í ákvörðuninni að hann þyrfti að samþykkja eitthvað. Þetta séu mistök Tryggingastofnunar. Um sé að ræða háa kröfu og þá séu mánaðarlegar greiðslur hans mjög lágar. Auk þess segir að ábyrgðin sé alfarið Tryggingastofnunar. Hann vilji að minnsta kosti fá einhverjar sárabætur en helst að þessi krafa verði felld niður.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru framangreindar upplýsingar ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að hann getur freistað þess að leggja fram beiðni um niðurfellingu ofgreiddra bóta til Tryggingastofnunar á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta