Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 120/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 120/2023

Miðvikudaginn 21. júní 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags 22. febrúar 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. nóvember 2022 um að synja kæranda um framlengingu lífeyrisgreiðslna þrátt fyrir dvöl á hjúkrunarheimili.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júlí 2022, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun lífeyrisgreiðslna 1. ágúst 2022 vegna dvalar á hjúkrunarheimili. Með umsókn, dags. 26. ágúst 2022, sótti kærandi um framlengingu lífeyrisgreiðslna þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. nóvember 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að ekki væri hægt að sjá að framlenging væri nauðsynleg vegna rekstrarkostnaðar íbúðarhúsnæðis. Með beiðni 21. nóvember 2022 var farið fram á rökstuðning stofnunarinnar fyrir hinni kærðu ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 9. mars 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 29. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. maí 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. maí 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er gerð sú krafa að felld verði úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 7. nóvember 2022, og að fallist verði á framlengingu lífeyrisgreiðslna þrátt fyrir dvöl kæranda á hjúkrunarheimili til allt að sex mánaða frá niðurfellingu lífeyrisgreiðslna 1. ágúst 2022.

Óskað hafi verið eftir rökstuðningi vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar, dags. 7. nóvember 2022, sem hafi ekki borist þrátt fyrir ítrekun. Ákvörðunin sé því kærð án þess að hún hafi verið rökstudd.

Kærandi sé þinglýstur eigandi íbúðar að C, hún sé öryrki og ófær um að búa í eigin húsnæði. Þann 14. júlí 2022 hafi kærandi hafið búsetu á hjúkrunarheimili og frá og með 1. ágúst 2022 hafi lífeyrisgreiðslur til hennar fallið niður, sbr. bréf Tryggingastofnunar, dags. 21. júlí 2022.

Kærandi greiði áfram af húsnæðisláni sem hvíli á íbúðinni. Með umsókn, dags. 26. ágúst 2022, hafi kærandi sótt um framlengingu lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun þrátt fyrir dvöl á hjúkrunarheimili til næstu sex mánaða, frá og með 1. ágúst 2022 eða svo lengi sem heimilt væri lögum samkvæmt, vegna þessara afborgana af húsnæðisláni og fleira. Þrátt fyrir vistaskipti sé heildargreiðslubyrði af íbúðinni 156.000 kr. á mánuði eins komið hafi fram í umsókninni og þar af 98.498 kr. vegna húsnæðislánsins.

Eiginmaður kæranda sé einnig öryrki en hann eigi þess ekki kost að flytja inn á hjúkrunarheimilið með kæranda þar sem hún búi í einstaklingsherbergi en ekki hjónaíbúð. Eiginmaður kæranda sé því áfram búsettur í íbúð kæranda. Áður en hafi komið að vistun kæranda á hjúkrunarheimilinu hafi þau notið hagræðis af sambúðinni, samanlagðar lífeyristekjur beggja hafi dugað fyrir rekstri af húsnæði kæranda. Þessar lífeyrisgreiðslur hafi nú verið stöðvaðar til kæranda frá og með 1. ágúst 2022, það hafi gerst fyrirvaralaust og án aðlögunar fyrir hjónin. Kærandi hafi eftir sem áður verið greiðandi af íbúðinni án þess að hafa nokkrar tekjur. Lífeyristekjur eiginmanns kæranda dugi ekki einar og sér fyrir afborgunum og rekstrarkostnaði af íbúðinni. Sú aðlögun sem framlenging á lífeyrisgreiðslum í sex mánuði sem lög heimili hefði breytt miklu fyrir afkomu þeirra hjóna en vegna synjunarinnar hafi safnast hjá þeim skuld.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun um framlengingu lífeyrisgreiðslna þrátt fyrir dvöl kæranda á hjúkrunarheimili. Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á framlengingu lífeyrisgreiðslna samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 1250/2016 um heimild til að framlengja bætur þrátt fyrir dvöl á hjúkrunar- eða dvalarheimili fyrir aldraða eða á sjúkrahúsi, sbr. 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Breytingar á lögum nr. 100/2007 hafi tekið gildi 12. apríl 2023 en þar sem ákvörðun í málinu hafi verið tekin fyrir þær breytingar, sé málið skoðað samkvæmt lögum fyrir þær breytingar.

Ellilífeyrir greiðist samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar til þeirra sem hafi náð 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 og 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Samkvæmt 5. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar falli lífeyrir niður ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dveljist lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem sé á föstum fjárlögum ef dvölin hafi varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst sé frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar sé að ræða falli bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt sé þó að víkja frá tímamörkum í 1. málsl. málsgreinarinnar ef sérstaklega standi á og skuli við mat á framlengingu á greiðslu lífeyris og bótum honum tengdum höfð hliðsjón af tekjum samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar. Í 10. mgr. 48. gr. laganna komi fram heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 1250/2016 segi að lífeyrisþega sé heimilt að sækja um framlengingu bóta í því skyni að gera honum og eftir atvikum maka hans kleift að standa tímabundið skil á afborgunum eða rekstrarkostnaði íbúðarhúsnæðis þeirra eftir að bætur hafi fallið niður. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segi að við mat á því hvort heimila skuli framlengingu bóta skuli líta heildstætt á allar aðstæður umsækjanda og eftir atvikum maka hans, þ.m.t. tekjur, eignir og skuldastöðu. Í því sambandi skuli einkum litið til þess hvort framlenging bóta sé nauðsynleg vegna afborgana eða annars rekstrarkostnaðar íbúðarhúsnæðis umsækjanda. Þá segi í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að framlenging bóta sé aðeins heimil ef mánaðarleg greiðslubyrði umsækjanda sé hærri en mánaðarlegar tekjur hans að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að bætur frá Tryggingastofnun hafi fallið niður. Sama eigi við ef mánaðarlegar tekjur umsækjanda að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að bætur frá Tryggingastofnun hafi fallið niður séu lægri en sem nemi fullu ráðstöfunarfé, sbr. 8. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, að teknu tilliti til útgjalda vegna íbúðarhúsnæðis og dvalarkostnaðar ef við eigi. Í 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segi að óheimilt sé að framlengja bætur ef maki umsækjanda fái á sama tíma greidda heimilisuppbót. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar sé heimilt að framlengja greiðslur í allt að þrjá mánuði í senn en þó ekki lengur en í samtals sex mánuði. Heimilt sé að greiða ráðstöfunarfé til lífeyrisþega þegar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun hafi fallið niður, sbr. 8. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar. Ráðstöfunarfé sé tekjutengt.

Málavextir séu þeir að Tryggingastofnun hafi sent kæranda bréf, dags. 21. júlí 2022, þar sem lífeyrisgreiðslur hafi verið stöðvaðar vegna dvalar á hjúkrunarheimili, en búseta hafi hafist þann 14. júlí 2022. Greiðslur frá Tryggingastofnun hafi í framhaldinu verið stöðvaðar þann 1. ágúst 2022. Kærandi hafi 26. ágúst 2022 óskað eftir framlengingu lífeyrisgreiðslna þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða. Með bréfi, dags. 6. október 2022, hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum um húsnæðiskostnað. Frekari gögn hafi borist 20. október 2022. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2022, hafi framlengingu vegna lífeyrisgreiðslna verið hafnað. Óskað hafi verið eftir rökstuðningi vegna ákvörðunarinnar með bréfi, dags 21. nóvember [2022], sem hafi verið veittur með bréfi, dags. 9. mars 2023. Beðist sé velvirðingar á því hversu seint hann hafi borist.

Við mat á umsókn um framlengingu lífeyrisgreiðslna sé stuðst við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við matið 7. nóvember 2022 hafi legið fyrir umsókn kæranda um framlengingu, greiðsluáætlun Íslandsbanka hf. frá september 2022 til ágúst 2023 vegna reksturs á eign kæranda, reikningar vegna greiðslu húsnæðisláns frá júní til október 2022 ásamt reikningum vegna fasteignagjalda frá júní til október 2022. Auk þess hafi fylgt kostnaður við hússjóð og orku (hiti, rafmagn og vatn), sbr. greiðsluáætlun og greiðsluyfirlit.

Í umsókn kæranda hafi komið fram að hún væri þinglýstur eigandi íbúðar að C, en hún sé nú búsett á D hjúkrunarheimili. Þrátt fyrir að vera búsett þar þurfi hún að greiða kostnað af rekstri íbúðarinnar, en í september 2022 hafi kostnaðurinn numið 156.000 kr. Í kæru segi að eiginmaður kæranda sé öryrki og eigi þess ekki kost að flytja inn á hjúkrunarheimilið með henni þar sem hún búi í einstaklingsherbergi og sé hann því búsettur í íbúð kæranda. Fyrir vistun kæranda hafi þau notið hagræðis af sambúðinni, en samanlagðar lífeyristekjur beggja hafi ekki dugað fyrir rekstri af húsnæði kæranda. Lífeyrisgreiðslur til kæranda hafi nú verið stöðvaðar en hún þurfi samt sem áður að greiða af íbúðinni, án þess að hafa nokkrar tekjur. Lífeyristekjur maka hennar dugi ekki fyrir afborgunum og rekstrarkostnaði vegna íbúðarinnar og framlenging á lífeyrisgreiðslum hefði breytt miklu fyrir afkomu hjónanna.

Til þess að eiga rétt á framlengingu lífeyrisgreiðslna verði að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 1250/2016, sbr. 5. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar. Í synjunarbréfi Tryggingastofnunar hafi eftirfarandi komið fram:

Við mat á því hvort heimila skuli framlengingu greiðslna skal líta heildstætt á allar aðstæður umsækjanda og eftir atvikum maka hans, þ.m.t. tekjur, eignir og skuldastöðu. Í því sambandi skal einkum litið til þess hvort framlenging greiðslna sé nauðsynleg vegna afborgana eða annars rekstrarkostnaðar íbúðarhúsnæðis, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1250/2016. Við mat á umsókn þinni um framlengingu er tekið mið af tekjum þínum og maka. Með vísan til framangreinds er ekki hægt að sjá að framlenging sé nauðsynleg vegna rekstrarkostnaðar íbúðarhúsnæðis.

Við framangreint mat hafi verið farið yfir gögn sem hafi borist frá kæranda ásamt því að aðstæður hennar og maka hafi verið skoðaðar. Við reikninginn hafi bæði verið tekið með inn í kostnaðinn þátttaka kæranda í dvalarkostnaði og án hans. Í umsókn um framlengingu hafi komið fram að 156.000 kr. mánaðarlegur kostnaður vegna húsnæðis. Í útreikningi Tryggingastofnunar sé kostnaður vegna húsnæðis, án þátttöku í dvalarkostnaði 158.860 kr. Með þátttöku í dvalarkostnaði sé upphæðin 194.590 kr.

Tekjur kæranda eftir skatt séu 162.044 kr. og tekjur maka eftir skatt 333.283 kr. Miðað við útreikning Tryggingastofnunar á kostnaði þá sé kostnaður kæranda 64.749 kr., ef miðað sé við helming kostnaðar, en 82.114 kr. ef þátttaka í dvalarkostnaði sé tekin með. Af því megi sjá að tekjur kæranda eigi að duga fyrir kostnaði, bæði ef reiknað sé með þátttöku í dvalarkostnaði og án hennar.

Í kæru segi að tekjur maka kæranda dugi ekki einar og sér til að greiða afborganir af húsnæði og rekstrarkostnað. Ef litið sé til útreiknings stofnunarinnar þá megi sjá að eftir skatt sé maki kæranda með 333.283 kr. á mánuði. Miðað við þær tekjur þá ættu tekjur hans að duga fyrir helmingi kostnaðar á móti kæranda og gæti hann einnig staðið einn undir þeim ef svo bæri til.

Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. júlí 2023, til kæranda þegar greiðslustöðvun hafi verið tilkynnt, hafi verið farið yfir rétt hennar til þess að fá ráðstöfunarfé eftir að lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun hafi verið felldar niður. Rétturinn til þess að fá slíkar greiðslur falli niður þegar tekjur einstaklings nái 132.368 kr. fyrir skatt. Samkvæmt umræddu bréfi hafi kærandi ekki átt rétt á ráðstöfunarfé. Í bréfinu hafi einnig verið farið yfir þátttöku hennar í dvalarkostnaði, en í bréfinu segi að séu tekjur umfram 107.165 kr. á mánuði, eftir skatt, eftir að lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun falli niður, þá muni kærandi taka þátt í dvalarkostnaði, sbr. lög um málefni aldraðra nr. 125/1999 og 3. gr. reglugerðar um stofnanaþjónustu fyrir aldraða nr. 1112/2006. Þátttaka kæranda í dvalarkostnaði sé 35.730 kr. og séu því tekjur umfram 107.165 kr. á mánuði. Við útreikning á ráðstöfunarfé og þátttöku í dvalarkostnaði hafi verið miðað við tekjur kæranda í fyrirliggjandi tekjuáætlun.

Í kæru komi fram að 21. nóvember 2022 hafi verið óskað eftir rökstuðningi vegna afgreiðslu málsins hjá Tryggingastofnun, en hann hafi ekki borist áður en ákvörðunin hafi verið kærð og sé því afgreiðsla málsins kærð án rökstuðnings. Tryggingastofnun bendi á að rökstuðningur hafi verið sendur til kæranda 9. mars 2023 og sé beðist velvirðingar á því hversu seint hann hafi borist. Hann hafi borist til kæranda áður en kæra hafi verið send til úrskurðarnefndar í velferðarmálum. Í rökstuðningnum hafi verið farið yfir að einungis sé heimilt að framlengja greiðslur ef mánaðarleg greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar væri hærri en mánaðarlegar tekjur, að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að greiðslur frá Tryggingastofnun hafi fallið niður. Það sama eigi við ef mánaðarlegar tekjur, að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að greiðslur frá Tryggingastofnun hafi fallið niður, séu lægri en sem nemi óskertu ráðstöfunarfé (þegar rökstuðningurinn hafi verið birtur hafi ráðstöfunarfé verið hærra en þegar greiðslustöðvun hafi verið tilkynnt). Í rökstuðningnum hafi verið vakin athygli á því að ekki hefðu borist upplýsingar um „aðrar skuldir“ sem hafi komið fram á skattframtali kæranda árið 2021.

Bent hafi verið á að ef það ætti við um húsnæðiskostnað, þá þyrfti að koma gögnum um slíkt til Tryggingastofnunar. Ekki hafi borist gögn um þær skuldir. Þá hafi maki kæranda einnig fengið samþykkta heimilisuppbót til sín frá 1. ágúst 2022, en samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1250/2016 segi að óheimilt sé að framlengja bætur ef maki umsækjanda fái á sama tíma greidda heimilisuppbót.

Af öllu framangreindu virtu sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að kærandi eigi ekki rétt á framlengingu lífeyrisgreiðslna. Sú ákvörðun sé byggð á því að ekki sé hægt að sjá að framlenging sé nauðsynleg vegna rekstrarkostnaðar íbúðarhúsnæðis, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1250/2016.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja umsókn um framlengingu lífeyrisgreiðslna sé rétt, miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar, dags. 7. nóvember 2022, um að synja kæranda um framlengingu lífeyrisgreiðslna.

V.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. nóvember 2022 þar sem umsókn kæranda um framlengingu lífeyrisgreiðslna þrátt fyrir dvöl kæranda á hjúkrunarheimili var synjað.

Í þágildandi 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er fjallað um framlengingu lífeyrisgreiðslna þrátt fyrir dvöl á hjúkrunarheimili. Svohljóðandi er ákvæðið:

„Ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum fellur lífeyrir hans og bætur honum tengdar niður ef dvölin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum í 1. málsl. þessarar málsgreinar ef sérstaklega stendur á og skal við mat á framlengingu á greiðslu lífeyris og bótum honum tengdum höfð hliðsjón af tekjum skv. 16. gr.“

Með stoð í þágildandi 10. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar var sett reglugerð nr. 1250/2016 um heimild til að framlengja bætur þrátt fyrir dvöl á hjúkrunar- eða dvalarheimili fyrir aldraða eða á sjúkrahúsi. Fjallað er um framlengingu greiðslna í 2. gr. reglugerðarinnar en þar segir:

„Lífeyrisþega, sbr. 1. gr., er heimilt að sækja um framlengingu bóta í því skyni að gera honum og eftir atvikum maka hans kleift að standa tímabundið skil á afborgunum eða rekstrarkostnaði íbúðarhúsnæðis þeirra eftir að bætur hafa fallið niður. Tryggingastofnun er heimilt að víkja frá tímamörkum sem tilgreind eru í 1. gr. og framlengja greiðslum bóta þegar sérstaklega stendur á, sbr. 3. málsl. 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og að uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar.“

Svohljóðandi er 3. gr. reglugerðarinnar um mat á aðstæðum og skilyrði:

„Við mat á því hvort heimila skuli framlengingu bóta skal líta heildstætt á allar aðstæður umsækjanda og eftir atvikum maka hans, þ.m.t. tekjur, eignir og skuldastöðu. Í því sambandi skal einkum litið til þess hvort framlenging bóta sé nauðsynleg vegna afborgana eða annars rekstrarkostnaðar íbúðarhúsnæðis umsækjanda.

Framlenging bóta er aðeins heimil ef mánaðarleg greiðslubyrði umsækjanda er hærri en mánaðarlegar tekjur hans að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að bætur frá Tryggingastofnun hafa fallið niður. Sama á við ef mánaðarlegar tekjur umsækjanda að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að bætur frá Tryggingastofnun hafa fallið niður eru lægri en sem nemur fullu ráðstöfunarfé, sbr. 8. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, að teknu tilliti til útgjalda vegna íbúðarhúsnæðis og dvalarkostnaðar ef við á.

Framlenging bóta er ekki heimil ef maki umsækjanda fær á sama tíma greidda heimilisuppbót skv. 8. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess að lífeyrisgreiðslur til kæranda voru felldar niður á grundvelli þágildandi 2. málsl. 5. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar þar sem um varanlega búsetu á hjúkrunarheimili var að ræða. Í lögum um almannatryggingar á þeim tíma var ekki kveðið á um heimild til þess að framlengja lífeyrisgreiðslur í slíkum tilvikum heldur einungis þegar lífeyrisgreiðslur voru felldar niður á grundvelli þágildandi 1. málsl. 5. mgr. 48. gr. laganna. Í reglugerð nr. 1250/2016 er aftur á móti kveðið á um heimild til þess að framlengja lífeyrisgreiðslur sem hafa verið felldar niður á grundvelli þágildandi 2. málsl. 5. mgr. 48. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 2. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins eru lífeyrissjóðs- og fjármagnstekjur kæranda samtals 162.044 kr. á mánuði, að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Mánaðarleg greiðslubyrði vegna fasteignar kæranda er 158.860 kr. án þátttöku í dvalarkostnaði en 194.590 kr. með þátttöku í dvalarkostnaði. Þá kemur fram í greinargerð Tryggingastofnunar að mánaðarlegar tekjur maka séu 333.283 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Byggt er á því í kæru að kærandi sé eigandi fasteignarinnar sem eiginmaður hennar búi nú einn í. Kærandi geti ekki staðið undir rekstrarkostnaði eignarinnar og þá dugi lífeyristekjur eiginmanns hennar ekki einar og sér fyrir afborgunum og rekstrarkostnaði íbúðarinnar. Tryggingastofnun ríkisins synjaði umsókn kæranda um áframhaldandi greiðslur ellilífeyris á þeim forsendum að ekki væri hægt að sjá að framlenging væri nauðsynleg vegna rekstrarkostnaðar íbúðarhúsnæðis.

Við mat á greiðslugetu gerir Tryggingastofnun ráð fyrir að eiginmaður kæranda taki þátt í að greiða afborganir og rekstrarkostnað vegna fasteignarinnar sem hún er skráð eigandi að. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við það þar sem í fyrrgreindri 3. gr. reglugerðar nr. 1250/2016 segir að líta skuli heildstætt á allar aðstæður umsækjanda og eftir atvikum maka hans. Þar að auki liggur fyrir að eiginmaður kæranda er búsettur í íbúðinni. Samkvæmt framangreindum upplýsingum um tekjur kæranda telur úrskurðarnefndin að hún sé fær um að greiða helminginn af afborgunum og rekstrarkostnaði vegna íbúðarinnar. Þá hefur maki kæranda samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun einnig fengið samþykkta heimilisuppbót frá 1. ágúst 2022.

Með hliðsjón af framangreindu og heildstæðu mati á aðstæðum kæranda er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. nóvember 2022, um að synja kæranda um framlengingu lífeyrisgreiðslna þrátt fyrir dvöl á hjúkrunarheimili. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um framlengingu lífeyrisgreiðslna þrátt fyrir dvöl á hjúkrunarheimili, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta