Úrskurður nr. 217/2008
Miðvikudaginn 17. desember 2008
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
Úrskurðarnefnd almannatrygginga barst þann 6. ágúst 2008, erindi A, sem búsettur er í Svíþjóð, sem felur í sér beiðni um endurreikning á lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar ríkisins til hans árið 2007.
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins sendi kæranda bréf, dags. 30. júlí 2008, varðandi endurreikning og uppgjör bótagreiðslna árið 2007, þar sem segir að kæranda hafi verið ofgreiddar bætur árið 2007 að fjárhæð 23.563 kr.
Í rökstuðningi fyrir kæru segir:
„Ég vill biðja ykkur um að endurreikna lífeyrisgreiðslur mínar fyrir árið 2007.
Samkvæmt meðfylgjandi skjölum finnst mér ótrúlega lítil hækkun á örorkulífeyri mínum síðustu ára.
Samanburður á desembergreiðslu 2004 og 2007 er hækkunin aðeins 941. krónum meir í desember 2007 þrátt fyrir verðhrun á íslensku krónunni og verðbólgu í landinu, sérstaklega þetta og síðastliðið ár.
Samkvæmt endurreikningi fyrir árið 2006 varð ég að borga 30.349 krónur til baka, vegna “OFGREIÐSLU” og nú verð ég að borga fyrir árið 2007. 23.563 krónur.
Mér finnst að þetta geti ekki staðist og því bið ég um endurreikning á örorkubótum mínum.“
Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 8. ágúst 2008, eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Barst nefndinni greinargerð, dags. 28. ágúst 2008, þar sem segir:
„Kærður er endurreikningur Tryggingastofnunar vegna tekjuársins 2007 og endurkrafa ofgreiddra bóta til A, en krafan myndaðist við endurreikning tekjutengdra bóta til kæranda vegna ársins 2007.
Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 16. gr. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna.
Í 55. gr. almannatryggingalaga segir að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Er þessi skylda nánar útfærð í ákvæðinu m.a. varðandi tilhögun frádráttar.
Í uppgjöri Tryggingastofnunar fyrir árið 2007 voru tekjur kæranda reiknaðar út í samræmi við 16. gr. almannatryggingalaga. Í ljós kom að bætur til kæranda höfðu verið ofgreiddar sem nam 23.563 kr. og var kæranda tilkynnt niðurstaða endurreiknings með bréfi frá stofnuninni þann 30. júlí sl.
Ástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2008 vegna tekjuársins 2007 hafði farið fram, kom í ljós að tekjur kæranda á árinu 2007 reyndust af öðrum toga en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Í tekjuáætlun 2007 voru kæranda áætlaðar launatekjur kr. 1.235.040 og lífeyrissjóðstekjur kr. 254.092. Við bótauppgjör ársins 2007 kom hins vegar í ljós að kærandi var einungis með lífeyrissjóðstekjur kr. 1.208.397.
Í b-lið 2. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga segir að lífeyrisþegi geti valið að hafa 300.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Þar sem kærandi gerði ráð fyrir launatekjum á sinni tekjuáætlun þá leiddi þetta ákvæði til þess að þær tekjur sem lagðar voru til grundvallar útreikningi á tekjutryggingu voru lægri en tekjuáætlunin sagði og það skýrir að ofgreiðsla myndaðist við bótauppgjör ársins 2007 þrátt fyrir að tekjur kæranda á framtali séu lægri en á tekjuáætluninni.
Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur. Í framangreindu ákvæði felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.
Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og lífeyrisþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar verða á tekjum þeirra. Einnig er þetta áréttað í fylgibréfi með vélrænni tekjuáætlun í lok hvers árs. Til að auðvelda lífeyrisþegum að fylgjast með bótaútreikningi og meta hvort tilkynna þurfi breytingar hóf Tryggingastofnun í apríl 2004 að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhlið útsendra mánaðarlegra greiðslutilkynning. Eftir það hefði kærandi mátt sjá að þær tekjuforsendur sem stofnunin lagði til grundvallar voru ekki alfarið réttar.
Tryggingastofnun telur sig bundna af skýrum ákvæðum laga og reglna um útreikninga á tekjum einstaklinga. Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um endurreikning og innheimtu ofgreiddra bóta til kæranda.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. september 2008 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Engar athugasemdir eða viðbótargögn hafa borist frá kæranda.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör bótagreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda árið 2007.
Kærandi hefur óskað eftir að örorkubætur hans árið 2007 verði endurreiknaðar.
Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri ársins 2007 hafi verið sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2008 vegna tekjuársins 2007 hafi farið fram hafi komið í ljós að tekjur kæranda á árinu 2007 hafi reynst af öðrum toga en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Í tekjuáætlun 2007 hafi kæranda verið áætlaðar launatekjur að fjárhæð 1.235.040 kr. og lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 254.092 kr. Við bótauppgjör ársins 2007 hafi hins vegar komið í ljós að kærandi hafi einungis verið með lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 1.208.397.Í almannatryggingalögum sé kveðið á um að lífeyrisþegi geti valið um að hafa 300.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Þar sem kærandi hafi gert ráð fyrir launatekjum á tekjuáætlun sinni þá hafi ákvæði almannatryggingalaga leitt til þess að þær tekjur sem lagðar voru til grundvallar útreikningi á tekjutryggingu hafi verið lægri en tekjuáætlunin sagði til um og það skýri að ofgreiðsla hafi myndast við bótauppgjör ársins 2007 þrátt fyrir að tekjur kæranda á framtali séu lægri en í tekjuáætluninni.
Kæranda voru á árinu 2007 greiddar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins í formi örorkulífeyris, tekjutryggingar og aldurstengdrar örorkuuppbótar, auk orlofs- og desemberuppbóta.
Örorkulífeyrir og tekjutrygging eru hvort tveggja tekjutengdar bætur, sbr. 5. mgr. 18. gr. og 3. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007, en í 16. gr. laganna er mælt fyrir um hvað teljist til tekna við bótaútreikning.Í 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.
Þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum vegna tekjuársins 2007 lá fyrir fór fram endurreikningur á bótarétti kæranda árið 2007 hjá Tryggingastofnun í samræmi við framangreint ákvæði 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga. Byggðist endurreikningur á því að einu tekjur kæranda árið 2007 hefðu verið lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 1.208.397 kr. Af hálfu kæranda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við þær forsendur endurreikningsins og engin gögn hafa verið lögð fram sem gefa tilefni til að draga þær forsendur í efa. Mun úrskurðarnefnd almannatrygginga því leggja til grundvallar útreikningum sínum á rétti kæranda til lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins árið 2007 að tekjur hans það ár hafi verið lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 1.208.397 kr. Enn fremur mun úrskurðarnefndin leggja til grundvallar útreikningum sínum að vegna búsetu kæranda sé hlutfall lífeyris sem hann á rétt á frá Tryggingastofnun 27,5%, en samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hefur hann fengið það hlutfall greitt frá árinu 1994.
Samkvæmt endurreikningi Tryggingastofnunar var það niðurstaða stofnunarinnar að kærandi hafi árið 2007 átt rétt á greiðslu grunnlífeyris að fjárhæð 81.948 kr., tekjutryggingar að fjárhæð 130.164 kr. og aldurstengdrar örorkuuppbótar að fjárhæð 4.104 kr., auk orlofs- og desemberuppbóta að fjárhæð 5.423 kr. og jafnframt að kæranda hafi á árinu 2007 verið ofgreidd tekjutrygging að fjárhæð 22.620 kr., auk orlofs- og desemberuppbóta að fjárhæð 943 kr.
Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur yfirfarið endurreikning Tryggingastofnunar og er það niðurstaða nefndarinnar að endurreikningurinn hafi verið framkvæmdur á réttan hátt og gerir nefndin ekki athugasemdir við niðurstöðu hans.
Rétt þykir að vekja athygli á að sömu reglur gilda ekki um atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur við útreikning á tekjutryggingu. Í b-lið 2. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga er sérstakt ákvæði sem kveður á um að tekjur örorkulífeyrisþega af atvinnu skuli hafa áhrif við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar. Þannig geti lífeyrisþegi valið að hafa 300.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Sams konar ákvæði er ekki að finna um tekjur örorkulífeyrisþega úr lífeyrissjóði. Rekja má ofgreiðslu Tryggingastofnunar til kæranda á árinu 2007 til þessa, þar sem í tekjuáætlun var gert ráð fyrir að tekjur hans árið 2007 yrðu annars vegar launatekjur að fjárhæð 1.235.040 kr. og hins vegar lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 245.092 kr. en samkvæmt framtöldum tekjum kæranda voru launatekjur kæranda árið 2007 engar og lífeyrissjóðstekjur hans 1.208.397 kr.
Með vísan til þess sem að framan greinir er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. endurreikning stofnunarinnar, um fjárhæð bótagreiðslna til kæranda árið 2007 staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Staðfestur er endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á fjárhæð bótagreiðslna til A árið 2007, þ.e. örorkulífeyrir 81.948 kr., tekjutrygging 130.164 kr., aldurstengd örorkuuppbót 4.104 kr. og orlofs- og desemberuppbætur 5.423 kr.
Ennfremur er staðfest ákvörðun um endurkröfu ofgreiddra bóta.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
Friðjón Örn Friðjónsson,
formaður