Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Úrskurður nr. 340 - Slysatrygging

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins





Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


A, kærir til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Trygginga­stofnunar ríkisins á bótaskyldu vegna slyss. Kæran er móttekin 15. nóvember 2005.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með tilkynningu dags. 22. nóvember 2004 tilkynnti kærandi Tryggingastofnun ríkisins um umferðarslys sem hann hefði orðið fyrir þann 30. ágúst 2004. Atviki er lýst svo í tilkynningu:


„Ók út af á leið frá slægingarvinnu í B.“


Í vottorði læknis, dags. 26. október 2004, vegna tilkynningar til Tryggingastofnunar kemur fram að kærandi hafi fyrst leitað til læknis vegna slyssins þann 1. september 2004. Var um að ræða bólgur í hnélið.


Tryggingastofnun synjaði um bótaskyldu með bréfi dags. 16. ágúst 2005 þar sem ekki hafi verið séð að kærandi væri annað hvort með laun eða reiknað endurgjald fyrir slægingarvinnu.


Enginn rökstuðningur fylgdi kæru.


Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 16. nóvember 2005. Barst greinargerð dags. 24. nóvember 2005. Þar segir:


Þann 24. nóvember 2005 [Innsk. Misritun, á að vera 2004] barst Tryggingastofnun ríkisins tilkynning um slys er kærandi varð fyrir þann 30. ágúst 2004 (29/8 skv. skýr. kæranda). Umsókninni var synjað með bréfi slysatryggingadeildar dags. 16. ágúst 2005 þar sem hvorki væri að sjá laun fyrir umrædda vinnu né reiknað endurgjald vegna eigin atvinnurekstrar skv. upplýsingum Ríkisskattstjóra. Auk þess sem ósamræmi var í atvikalýsingu í gögnum málsins. Sú ákvörðun er nú kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Launþegar eru slysatryggðir við vinnu sína samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna telst maður vera við vinnu:

a. þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar og kaffitímum.

b. í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.

Ennfremur er talið að tildrög slyss verði að hafa verið viðkomandi því starfi sem launþegi sinnir og tryggingagjöld eru greidd vegna. Einnig eru slysatryggðir atvinnurekendur sem starfa að eigin atvinnurekstri sbr. g. liður 24. gr. laganna.

Sá sem óskar bóta skv. almannatryggingalögum þarf eðli máls samkvæmt að sýna fram á að atvik hans eigi undir ákvæði laganna.

Í slysatilkynningu kom fram að kærandi hefði slasast í umferðarslysi er hann var á leið heim frá slægingarvinnu í B. Starf er sagt vera bóndi.

Samkvæmt upplýsingum úr skattskrá og framlögðu skattframtali kæranda var hann ekki með laun á umræddum tíma frá C eða fyrir slægingarvinnu. Kærandi var heldur ekki með reiknað endurgjald vegna eigin rekstrar en var skráður með eigin rekstur við nautgriparækt.


Til fjölmargra ára hefur Tryggingastofnun stuðst við upplýsingar frá Ríkisskattstjóra til staðfestingar á launþegasambandi eða til staðfestingar á eigin rekstri atvinnurekanda.


Nákvæm skilgreining er ekki í almannatryggingalögunum um hvað sé launþegi og hvað sé atvinnurekandi. Ályktanir hafa verið dregnar af ýmsum lagaákvæðum og stuðst er við almenna málvenju og lögskýringar.

Í almannatryggingalögunum kemur fram að það séu launþegar og atvinnurekendur við eigin rekstur sem eru tryggðir. Í 3. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993 kemur fram að launþegi telist hver sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi í því sambandi, hvort sem um er að ræða tímakaup, föst laun aflahlut eða greiðslu fyrir ákvæðisvinnu.

Í 9. gr. b. í sömu lögum kemur fram að Tryggingastofnun sé heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a. (búi ekki á Íslandi) enda starfi viðkomandi fyrir aðila sem hafi aðsetur og starfsemi á Íslandi og tryggingagjald sé greitt hér á landi af launum hans.

Þegar um atvinnurekstur í skilningi almanntryggingalaga er að ræða er gerð sú krafa að viðkomandi reikni sér laun fyrir vinnu sína. Litið er til 2. mgr. A liðar 7. gr. laga um tekju og eignarskatt nr. 90/2003 en þar kemur fram að vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skuli hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila.

Slysatryggingar almannatrygginga eru fjármagnaðar með tryggingagjaldi sem greitt er af öllum launþegum og sérstökum iðgjöldum sbr. 31. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993. Tryggingin nær því til þeirra sem greitt er tryggingagjald vegna en ólaunuð vinna telst ekki falla undir vinnuslysatryggingu almannatrygginga.

Kærandi var hvorki launþegi né með reiknað endurgjald vegna eigin rekstrar og var því ekki talið að hann félli undir ákvæði vinnuslysatrygginga skv. almannatryggingalögum.

Í gögnum málsins kom auk þess fram ósamræmi um atvikalýsingu. Í læknisvottorði D dags. 27. janúar 2005 vegna dagpeninga, er vísað til þess að kærandi væri frá vinnu vegna óstöðugs hnés og verkja. Hann hafi hrasað í hálku fyrir tveimur dögum. Slysdagur er sagður vera 20. ágúst 2004. Aðspurður segir kærandi slysdag vera 29/8 2004 en engin skýring er gefin á öðru ósamræmi.


Með vísan til framangreinds var umsókninni synjað“


Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 25. nóvember 2005 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir kæranda bárust þann 9. desember 2005 og voru þær kynntar Tryggingastofnun. Í athugasemdunum segir m.a.:


„Ég var einyrki að E á árunum 1972 til 1983, á móti F bróður mínum. Ég tók við búrekstri af föður mínum, á G á árinu 1983, og hef búið það síðan. Ég hef átt smábát með F bróður mínum frá 1981 til 2005, og höfum við gert hann út með búskapnum. Ég varð öryrki 1994 og hætti þá að róa á bátnum.

Ég hef ekki verið launþegi í fjöldamörg ár.


Kl 19, að kvöldi 28/8 2004, ók ég til B, í vinnubíl bínum, sem er eingöngu notaður vegna atvinnurekstrar, enda VSK bíll með rauðum númerum. Til stóð að hefja slægingu eftir komu mína til B, en sökum takmarkaðs afla, var ég settur í að þrífa stakkageymslu og vinnuaðstöðu, en það er hluti af vinnuskyldu minni sem verktaka, þó svo að ég skrifi vinnureikninga eingöngu vegna slægingar.


Eftir þrifin fór ég um borð í bát minn, sem var í Bhöfn, og skipti um öryggi í rafmagnstöflu og fór yfir og gerði við eitt og annað, en áríðandi var að báturinn kæmist á sjó daginn eftir til að fullnýta níu klukkustundir sem báturinn átti eftir og þurfti að nýta fyrir kvótaáramótin. Ég ók svo heimleiðis upp úr miðnætti og lendi í slysinu á heimleiðinni. Í þessu tilviki er ótvírætt um slys á leið úr vinnu að ræða.


Á árinu 2004 var tap á rekstri mínum. Í 59 grein laga nr 75/1981, um ákvörðun reiknaðs endurgjalds, segir orðrétt: “Ákvörðun skattstjóra samkvæmt þessari grein má aldrei mynda tap sem er meira en nemur samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. gr. og gjaldfærslu skv. 53. gr”.


Ég færði reiknað endurgjald mitt 2004, niður í núll, eins og heimilt er, sbr 59 gr hér að ofan, en ég hafði reiknuð mér endurgjald í mörg ár fram til ársins 2004.


Á læknisvottorði D er slysdagur ranglega skráður 20/8 04, sem hlýtur að vera skráningarvilla, en mér er ekki kunnugt um ástæðu.“



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu slysabóta vegna slyss sem kærandi varð fyrir laust eftir miðnætti þann 29. ágúst 2004. Kærandi greinir frá því í tilkynningu um slys að hann hafi þá verið að koma úr slægingarvinnu í B. Tryggingastofnun synjaði greiðslu bóta þar sem samkvæmt skattskrá RSK væri ekki að sjá laun eða reiknað endurgjald vegna slægingarvinnu.


Samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, nánar tiltekið 2. gr., taka slysatryggingar til slysa við vinnu enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður samkvæmt 24. eða 25. gr. sömu laga og að slys hafi ekki hlotist af athöfnum slasaðs sjálfs, sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna.


Enginn rökstuðningur fylgdi kæru en í athugasemdum kæranda dags. 9. desember 2005, í tilefni af greinargerð Tryggingastofnunar, greinir hann frá því hver atburðarás umrætt kvöld var áður en hann lagði af stað heim frá B. Í athugasemdunum kemur fram að kærandi hafi að kvöldi 28. ágúst 2004 ekið til B og hafi staðið til að hann færi í slægingarvinnu. Þegar hann hafi komið til B hafi hann, vegna takmarkaðs afla, verið settur í að þrífa stakkageymslu og vinnuaðstöðu sem sé hluti af vinnuskyldu hans sem verktaka. Hann skrifi þó ekki reikninga vegna þess konar vinnu. Eftir þrifin hafi hann farið um borð í bát sinn, sem var í Bhöfn og skipt þar um öryggi í rafmagnstöflu ásamt fleiri smáviðgerðum.


Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að ákvæði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar hafi verið skýrt svo í framkvæmd að tildrög slyss hafi verið viðkomandi því starfi sem hlutaðeigandi sinni og tryggingagjöld séu greidd vegna. Kærandi hafi á þeim tíma þegar slys varð hvorki verið með laun frá C né reiknað endurgjald vegna eigin rekstrar, hann hafi hins vegar verið skráður með eigin rekstur við nautgriparækt.


2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar er svohljóðandi:


„Maður telst vera við vinnu:

  1. þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

  2. í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.“


Í 2. mgr. 22. gr. kemur fram að launþegi er tryggður í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, og er þá litið svo á að ferð til og frá vinnustað sé nauðsynlegur þáttur í rækslu starfans. Úrskurðarnefndin telur að ætlan löggjafans hafi verið sú að tryggingavernd næði til þeirrar slysahættu sem fylgir þeim ferðum sem starfsmaður verður að takast á hendur til að sinna vinnunni. Hefur í framkvæmd verið litið svo á að launþegi sé tryggður þegar hann er á beinni og eðlilegri leið milli heimilis og vinnustaðar.


Úrskurðarnefndin telur að megintilgangur slysatryggingar sé að tryggja starfsmenn fyrir þeim hættum sem bundnar eru við framkvæmd vinnu og að við beitingu lagaákvæðisins verði að áskilja a.m.k. nokkur tengsl ferða við vinnu og framkvæmd hennar. Þetta megininntak slysatryggingar mæli almennt gegn því að beitt sé lögskýringarkostum sem leiða til rýmkunar gildissviðs tryggingarinnar fram yfir atvik sem eiga sér stað í vinnutíma eða standa að öðru leyti í nánum tengslum við framkvæmd vinnu. Því telur nefndin að ákvæðið eigi ekki við þegar starfsmaður kýs að halda ekki beina leið frá vinnu heldur rýfur för frá vinnustað með því að dvelja eða sinna erindum annars staðar sem ekki hefur tengsl við vinnu.


Í áðurnefndum athugasemdum kæranda dags. 9. desember 2005 getur hann þess að þegar hann hafi lokið vinnu fyrir C ehf. hafi hann farið í bát sinn, sem legið hafi í Bhöfn, og verið í ýmsum smáviðgerðum á bátnum áður en hann svo lagði af stað heim. Var því ekki um að ræða beina leið á milli heimilis og vinnu þar sem kærandi rauf för sína með því að fara í bátinn og sinna þar einkaerindum sem ekki voru tengd vinnu. Var hann því ekki tryggður umrætt sinn.


Ennfremur ber við úrlausn málsins að líta til 3. mgr. 24. gr. Hefði kærandi ekki rofið för sína hefði verið leyst úr málinu á þeim grundvelli. Í 3. mgr. 24. gr. segir að launþegi teljist hver sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi. Að mati úrskurðarnefndar verður að ætla að sambærileg sjónarmið gildi um þann sem er með eigin rekstur, þ.e. að um reiknað endurgjald sé að ræða vegna vinnu. Meðal málsgagna eru afrit reikninga kæranda til C ehf. vegna vinnu vikuna 23. ágúst - 29. ágúst 2004. Samkvæmt þeim er eingöngu um að ræða vinnu dagana 24., 25. og 26. ágúst. Kærandi getur þess í athugasemdum dags. 9. desember 2005 að sú vinna sem hann innti af hendi að kvöldi 28. ágúst 2004 sé hluti af vinnuskyldu hans sem verktaka þó svo að hann skrifi eingöngu reikninga vegna slægingar.


Þegar farið er fram á greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga vegna slyss við vinnu er við skýringu orðsins vinna gerð krafa um endurgjald fyrir vinnu. Þess vegna hafa þeir sem vinna sem sjálfboðaliðar ekki verið taldir tryggðir, svo dæmi sé tekið. Ekki er fram komið í málinu að kærandi hafi fengið greitt fyrir vinnu sína að kvöldi 28. ágúst 2004 hjá C ehf. enda segist kærandi sjálfur ekki hafa skrifað reikning fyrir þeirri vinnu.


Telur úrskurðarnefndin með vísan til alls framangreinds að kærandi hafi ekki verið tryggður samkvæmt slysatryggingakafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar þegar hann lenti í umferðarslysi á leið heim frá B laust eftir miðnætti 29. ágúst 2004 og er bótaskyldu því hafnað.



Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Bótaskyldu Tryggingastofnunar ríkisins vegna slyss sem A, varð fyrir þann 29. ágúst 2004 er hafnað.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



_____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta