Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 434/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 434/2022

Miðvikudaginn 21. september 2022

A

gegn

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. ágúst 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála tafir fjármála- og efnahagsráðuneytisins á að svara beiðni hans frá 22. júlí 2022 um greiðslur frá ráðuneytinu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 22. júlí 2022, óskaði kærandi eftir greiðslum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu með þeim rökum að ellilífeyrisgreiðslur til hans hefðu ekki hækkað í samræmi við launaþróun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. ágúst 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að að kærandi hafi fengið tvo úrskurði frá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem staðfest sé að túlkun og framkvæmd á 69. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar falli ekki undir Tryggingastofnun ríkisins heldur stjórnvöld og Alþingi.

Í lögum um almannatryggingar sé skýrt tekið fram að lögin falli undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið nema annað sé tekið fram. Tveir ráðherrar í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu hafi staðfest það með bréfi til kæranda að fjármála- og efnahagsráðherra hefði nú það vald. Þá hafi fjármála- og efnahagsráðherra staðfest í tveimur bréfum að hann hafi þetta vald. Hvergi komi fram hjá þeim að valdið sé hjá Alþingi.

Í framhaldi af staðfestingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á því að túlkun og framkvæmd 69. gr. laga um almannatryggingar falli undir fjármála- og efnahagsráðherra hafi kærandi sent bréf þar sem krafist sé leiðréttingar á greiðslum samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar. Engin svör hafi borist þótt kominn sé mánuður frá sendingu bréfsins.

Kærandi krefjist þess að úrskurðarnefnd velferðarmála „fari í málið“ þar sem fyrir liggi að fjármála- og efnahagsráðuneytið sé það stjórnvald sem hafi með málið að gera. Kæran til úrskurðarnefndarinnar sé í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála.

IV.  Niðurstaða

Kæra í máli þessu varðar beiðni kæranda til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 22. júlí 2022, um leiðréttingu á greiðslum almannatrygginga.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurð í málinu. Þá er mælt fyrir um það í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til.

Af kæru verður ráðið að kærandi sé ósáttur við að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi ekki svarað beiðni hans um leiðréttingu á greiðslum almannatrygginga. Ákvarðanir fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem æðra setts stjórnvalds sæta ekki endurskoðun úrskurðarnefndar velferðamála og verður mál þetta því ekki tekið til meðferðar á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Kæru er því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að heimilt er að kvarta til umboðsmanns Alþings vegna málsmeðferðar aðila sem fást við stjórnsýslu ríkisins, þar á meðal ráðuneyta.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta