Mál nr. 255/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 255/2024
Miðvikudaginn 28. ágúst 2024
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 1. júní 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. maí 2024 um að stöðva greiðslu félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða afturvirkt frá 1. júlí 2021 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddra greiðslna.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Tryggingastofnun samþykkti að greiða kæranda félagslegan viðbótarstuðning við aldraða vegna tímabilsins 1. júlí 2021 til 30. júní 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. mars 2024, var kæranda tilkynnt um að grunur hafi vaknað hjá stofnuninni um að búseta kæranda væri í B og hafi verið það frá 1. júlí 2021. Þá var kæranda bent á í bréfinu að leggja fram gögn sem sýndu fram á að núverandi skráning lögheimilis væri rétt. Auk þess var kæranda bent á að til greina kæmi að stöðva greiðslur afturvirkt og endurreikna réttindi frá og með 1. júlí 2021. Með tölvupósti 1. apríl 2024 lagði kærandi fram reikningsyfirlit fyrir tímabilið 1. júlí til 26. mars 2024 og skýringu á búsetu hans. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. maí 2024, var kæranda annars vegar tilkynnt um stöðvun greiðslu félagslegs viðbótarstuðnings frá 1. júlí 2021 og hins vegar um endurgreiðslukröfu að fjárhæð 1.764.203 kr.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. júní 2024. Með bréfi, dags. 4. júní 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. júní 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júní 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærðri ákvörðun sé mótmælt. Frá árinu 2021 hafi kærandi verið að ferðast en hann hafi verið mest á Íslandi. Kærandi sé hjartveikur, hann hafi þurft að fara í aðgerð og fá gangráð og hafi verið í eftirliti hjá lækni. Hjartalæknir kæranda sé í B og þar sem kærandi skilji mjög litla íslensku hafi hann farið oft til B. Kærandi hafi verið heilsuhraustur þegar hann hafi flutt til Íslands en síðan þá hafi heilsan farið versnandi. Kærandi eigi fjölskyldu bæði á Íslandi og í útlöndum og hann heimsæki þau líka þegar hann fari til útlanda. Sé þess krafist geti kærandi sent yfirlit yfir færslur í heimabanka sínum héðan í frá.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun, dags. 10. maí 2024, um að endurkrefja kæranda um greiðslur félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða, sem hann hafi fengið greiddar á tímabilinu 1. júlí 2021 til 1. maí 2024.
Viðbótarstuðningur taki til þeirra einstaklinga sem séu 67 ára eða eldri og hafi fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelji varanlega á Íslandi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/2020 um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða.
Þeir sem uppfylli skilyrði laga um félagslegan viðbótarstuðning geti fengið greiddan félagslegan viðbótarstuðning sér til framfærslu, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða.
Í 1. mgr. 9. gr. framangreindra laga komi fram að viðbótarstuðningur greiðist eftir á fyrir einn mánuð í senn. Heimilt sé að ákvarða viðbótarstuðning til allt að 12 mánaða í einu. Sækja þurfi um viðbótargreiðslur að nýju að loknu hverju greiðslutímabili.
Í 2. mgr. sömu greinar komi fram að greiðslur hefjist frá og með mánuðinum eftir að skilyrði greiðslna teljist uppfyllt. Einnig komi fram að greiðslur verði stöðvaðar frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er skilyrði greiðslna teljist ekki lengur uppfyllt.
Í 10. gr. laganna komi fram að hafi greiðsla viðbótarstuðnings átt sér stað án þess að skilyrðum laganna sé fullnægt skuli Tryggingastofnun endurkrefja greiðsluþega um hina ofgreiddu fjárhæð. Í 2. mgr. 10. gr. segi að heimilt sé að draga hina ofgreiddu fjárhæð frá viðbótarstuðningi sem greiðsluþegi kunni síðar að fá ákvarðaðan, en ekki hærri fjárhæð en sem nemi 20% af mánaðarlegum greiðslum nema um annað sé samið. Í 3. mgr. sömu greinar segi að heimilt sé að draga hina ofgreiddu fjárhæð frá bótum eða öðrum greiðslum sem greiðsluþegi kunni að njóta samkvæmt lögum um almannatryggingar eða lögum um félagslega aðstoð og fari þá um meðferð endurkröfu samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar.
Í 13. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning segi að Tryggingastofnun skuli reglubundið sannreyna réttmæti greiðslna og upplýsingar sem ákvörðun um greiðslu byggist á. Grundvöll greiðslna viðbótarstuðnings megi endurskoða hvenær sem er og samhæfa greiðslur þeim breytingum sem hafi orðið á aðstæðum greiðsluþega. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins sé Tryggingastofnun heimilt að óska eftir upplýsingum og gögnum frá þeim aðilum sem taldir séu upp í 12. gr. og nauðsynleg séu til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna. Þá segi í 3.-5. mgr. ákvæðisins að leiki rökstuddur grunur á að heimild til greiðslna sé ekki fyrir hendi sé heimilt að fresta greiðslum tímabundið meðan mál sé rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að skilyrðum greiðslna sé ekki fullnægt. Um endurkröfur ofgreiðslna fari samkvæmt 10. gr. laganna. Leiki rökstuddur grunur á að greiðslur eigi sér stað á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga frá greiðsluþega sé heimilt að afla upplýsinga frá þriðja aðila sem ætla megi að geti veitt upplýsingar er máli skipta í því skyni að leiðrétta greiðslur. Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá óréttmætar greiðslur skuli greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi.
Í 15. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning segi að ákvæði V. og VI. kafla laga um almannatryggingar gildi eftir því sem við eigi um framkvæmd laganna. Í 53. gr. laga um almannatryggingar segi að Tryggingastofnun skuli reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Stofnuninni sé heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum frá þeim aðilum sem taldir séu upp í 51. gr. laganna og nauðsynleg séu til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.
Málvextir séu þeir að kærandi hafi fengið samþykktan félagslegan viðbótarstuðning við aldraða með bréfum, dagsettum 30. júlí 2021, 20. september 2022, og 12. júlí 2023 fyrir tímabilin 1. júlí 2021 til 1. júlí 2022, 1. júlí 2022 til 30. júní 2023 og 1. júlí 2023 til 30. júní 2024.
Kærandi hafi komið og sótt um framangreindar greiðslur með því að mæta í eigin persónu á starfsstöð Tryggingastofnunar og leggja fram skilríki. Þann 5. júní 2021 hafi kærandi komið með skilríki og hafi sótt um greiðslur. Þann 30. maí 2022 hafi kærandi sótt um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Þann 4. júlí 2022 hafi Tryggingastofnun óskað eftir því að kærandi kæmi og staðfesti dvöl með því að koma í eigin persónu í þjónustumiðstöð eða umboð stofnunarinnar. Þann 29. ágúst 2022 hafi kærandi komið og staðfest dvöl sína hér á landi. Þann 26. júní 2023 hafi kærandi mætt og sótt um greiðslur og staðfest dvöl sína hér á landi.
Á grundvelli eftirlitsheimilda hafi Tryggingastofnun reglubundið eftirlit með greiðslum félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða. Við reglubundið eftirlit hjá stofnuninni hafi vaknað grunur um að búseta kæranda væri í B og hafi verið það síðan 1. júlí 2021 og hafi kærandi verið upplýstur um það með bréfi, dags. 12. mars 2024. Kæranda hafi verið bent á að leggja fram gögn sem sýndu fram á að núverandi skráning á lögheimili væri rétt og grunur Tryggingastofnunar væri ekki á rökum reistur. Kæranda hafi verið bent á að til greina kæmi að stöðva greiðslur til hans afturvirkt og endurreikna réttindi frá og með 1. júlí 2021.
Í tölvupósti 1. apríl 2024 hafi kærandi sent stofnuninni reikningsyfirlit fyrir tímabilið 1. júlí 2021 til 26. mars 2024 og útskýringu á búsetu hans.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. maí 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að könnun málsins væri lokið og að yfirfarin hafi verið öll gögn tengd málinu. Niðurstaðan hafi verið sú að talið væri að greiðslur vegna félagslegs viðbótarstuðnings hefðu verið ofgreiddar frá 1. júlí 2021 og yrðu endurkrafðar. Framangreind ákvörðun hafi verið kærð 1. júní 2024.
Tryggingastofnun hafi reglubundið eftirlit með þeim sem fái greiddan félagslegan viðbótarstuðning við aldraða þar sem strangar kröfur séu gerðar til dvalar hér á landi á meðan einstaklingar fái umræddar greiðslur. Reglulega sé tekinn út listi yfir þá sem fái félagslegan viðbótarstuðning við aldraða greiddan og einstaklingar séu skoðaðir af handahófi. Komi í ljós grunur um að einstaklingur dvelji ekki hér á landi fari frekari rannsókn í gang.
Kærandi hafi verið með samþykktan félagslegan viðbótarstuðning við aldraða vegna tímabilsins 1. júlí 2021 til 30. júní 2024. Í samþykktarbréfum Tryggingastofnunar hafi komið fram skilyrði þess að eiga rétt á greiðslunni. Í bréfum, dags. 30. júlí 2021 og 20. september 2022, segi eftirfarandi:
„Til að eiga rétt á greiðslu viðbótarstuðnings er gerð krafa um að greiðsluþegi dvelji varanlega hér á landi og fellur greiðslan niður ef greiðsluþegi dvelur erlendis eða hyggst dvelja erlendis lengur en 90 daga samfellt eða lengur en 90 daga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili.
Tilkynna ber því til Tryggingastofnunar um fyrirhugaða dvöl erlendis fyrir brottför sem og um komu til landsins. Þá er skylt að tilkynna um allar breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á ákvörðun um stuðning og greiðslu hans.“
Í bréfi, dags. 12. júlí 2023, komi eftirfarandi fram:
„Til að eiga rétt á greiðslu viðbótarstuðnings er gerð krafa um að greiðsluþegi dvelji varanlega hér á landi og fellur greiðslan niður ef greiðsluþegi dvelur erlendis eða hyggst dvelja erlendis lengur en 90 daga samfellt eða lengur en 90 daga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili.
Tilkynna ber því til Tryggingastofnunar um fyrirhugaða dvöl erlendis fyrir brottför sem og um komu til landsins. Þá er skylt að tilkynna um allar breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á ákvörðun um stuðning og greiðslu hans.
Tryggingastofnun getur óskað eftir því hvenær sem er á greiðslutímabilinu að greiðsluþegi staðfesti dvöl sína hér á landi, m.a. með því að koma til viðtals.“
Tryggingastofnun hafi sent kæranda bréf, dags. 12. mars 2024, þar sem grunur hafi verið um að búseta hans væri mögulega erlendis, nánar tiltekið í B.
Í kjölfarið hafi borist gögn frá kæranda, reikningsyfirlit vegna tímabilsins 1. júlí 2021 til 26. mars 2024, en samkvæmt því yfirliti séu fáar færslur sem tengjast almennum daglegum kostnaði, líkt og búðarferðir og annað almennt uppihald. Borist hafi útskýringar frá kæranda 30. mars 2024 um stöðu hans, hvar hann byggi og að hann greiði hvorki leigu né annan kostnað. Í útskýringunum komi fram að hann sé lítið búinn að vera að borga í búðum þar sem hann sé að borga niður lán í B og að dóttir hans og maki hennar hafi verið að halda honum mest megnis uppi fjárhagslega.
Til hliðsjónar við eftirlit Tryggingastofnunar skoði stofnunin innskráningar einstaklinga inn á „Mínar síður“ og IP-skráningar og séu þær notaðar til hliðsjónar og stuðnings öðrum gögnum. Samkvæmt IP-skráningum frá kæranda hafi kærandi frá 19. desember 2018 til 22. júní 2024 að mestu skráð sig inn frá B, fyrir utan nokkur skipti frá C og síðan nokkrar innskráningar frá Íslandi á tímabilinu 26. júní 2023 til 1. júlí 2023. Á sama tíma hafi kærandi sótt um framlengingu á greiðslum félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða en til þess að sækja um slíkar greiðslur hafi hann mætt í eigin persónu í eitt af umboðum Tryggingastofnunar.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. maí 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að niðurstaða rannsóknar hafi verið sú að ekki hafi verið réttur á greiðslu félagslegs viðbótarstuðnings frá 1. júlí 2021 og greiðslur félagslegs viðbótarstuðnings frá þeim tíma hafi verið ofgreiddar og yrðu endurkrafðar. Kærandi hafi verið upplýstur um kröfu til innheimtu samtals að fjárhæð 1.764.203 kr.
Samkvæmt framangreindu hafi Tryggingastofnun talið að kærandi hefði ekki sýnt nægjanlega fram á að hann hefði dvalið varanlega hér á landi á meðan umræddar greiðslur hafi farið fram. Ekki hafi verið að sjá að nein dagleg almenn neysla færi fram hjá kæranda sem sýndi fram á að hann væri staddur hér á landi og þrátt fyrir útskýringar kæranda um að hann byggi hjá dóttur sinni og að hún sæi honum farboða, þá séu innskráningar kæranda síðustu ár erlendis frá.
Tryggingastofnun hafi verið falið að annast framkvæmd laga um viðbótarstuðning, sbr. 17. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Varðandi málsmeðferð þá skuli sækja um greiðslur viðbótarstuðnings í eigin persónu hjá Tryggingastofnun og gildi hið sama um endurnýjun umsókna samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna. Þetta séu skýr lagafyrirmæli sem stofnunin þurfi að fara eftir. Einstaklingur sem hljóti slíkar greiðslur skuli dvelja varanlega á Íslandi og greiðslur falli niður ef greiðsluþegi dvelji erlendis eða hafi í hyggju dvelja erlendis lengur en 90 daga samfellt eða lengur en 90 daga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili.
Tryggingastofnun telji að hún hafi upplýst kæranda um þau lagaskilyrði sem uppfylla þurfi til að eiga rétt á viðbótarstuðningi og einnig um að það þurfi að sækja um að nýju að loknu hverju greiðslutímabili.
Ágreiningur málsins snúi að ákvörðun Tryggingastofnunar um að endurkrefja kæranda afturvirkt um greiðslur félagslegs viðbótarstuðning við aldraða fyrir tímabilið 1. júlí 2021 til 1. maí 2024. Í 8. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða segi að greiðslur falli niður þegar greiðsluþegi dvelji eða hyggst dveljast erlendis lengur en 90 daga samfellt eða lengur en 90 daga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili. Tryggingastofnun telji að þetta hafi komið skýrt fram í samþykktarbréfum til kæranda og að stofnunin hafi ríka eftirlitsheimild með greiðslum, sbr. 13. gr. laga nr. 74/2020, og geti á þeim grundvelli haft reglubundið eftirlit með þeim.
Samkvæmt 10. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða hafi Tryggingastofnun heimild til þess að endurkrefja um ofgreidda fjárhæð.
Tryggingastofnun fari fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar frá 10. maí 2024 um að krefja kæranda um ofgreiddar greiðslur félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða frá 1. júlí 2021 til 1. maí 2024.
Í 1. gr. laga nr. 74/2020 um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða segir að markmið laganna sé að styrkja framfærslu aldraðra einstaklinga sem búsettir séu hér á landi og eigi engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum. Í 2. gr. laganna segir að lögin taki til einstaklinga sem séu 67 ára eða eldri sem hafi fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelji varanlega á Íslandi.
Í 8. gr. laganna er fjallað um dvöl erlendis. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Greiðsla viðbótarstuðnings fellur niður þegar greiðsluþegi dvelur eða hyggst dvelja erlendis lengur en 90 daga samfellt eða lengur en 90 daga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili.
Sé dvölinni ætlað að vara lengur en í 90 daga samfellt fellur greiðslan niður frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er dvöl erlendis hófst. Í öðrum tilvikum fellur greiðslan niður frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er dvöl erlendis hafði varað í 90 daga eða þegar dvöl erlendis nemur 90 dögum samtals á greiðslutímabilinu.
Greiðsluþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um fyrirhugaða dvöl erlendis fyrir brottför sem og um komu til landsins, sbr. einnig 11. gr. Sé upplýsingaskyldu ekki sinnt af hálfu greiðsluþega eða maka hans gilda ákvæði 10. gr. eftir því sem við á.“
Í 1. mgr. 10. gr. laganna er fjallað um endurkröfur. Þar segir að hafi greiðsla viðbótarstuðnings átt sér stað án þess að skilyrðum laganna sé fullnægt skuli Tryggingastofnun endurkrefja greiðsluþega um hina ofgreiddu fjárhæð. Um upplýsingaskyldu tiltekinna annarra aðila er fjallað í 12. gr. laganna.
Í 13. gr. laganna er fjallað um eftirlit, svohljóðandi eru 1.-3. mgr. ákvæðisins:
„Tryggingastofnun skal reglubundið sannreyna réttmæti greiðslna viðbótarstuðnings og upplýsingar sem ákvörðun um greiðslu byggist á. Grundvöll greiðslna viðbótarstuðnings má endurskoða hvenær sem er og samhæfa greiðslur þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum greiðsluþega.
Tryggingastofnun er heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum frá þeim aðilum sem taldir eru upp í 12. gr. og nauðsynleg eru til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.
Leiki rökstuddur grunur á að heimild til greiðslna sé ekki fyrir hendi er heimilt að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að skilyrðum greiðslna er ekki fullnægt. Um endurkröfur ofgreiðslna fer skv. 10. gr.“
Eins og komið hefur fram þarf að uppfylla skilyrði 2. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða um lögheimili og varanlega dvöl á Íslandi til að eiga rétt á þeim greiðslum. Í 8. gr. laganna eru tilgreind atvik sem leiða til þess að greiðslur viðbótarstuðnings falli niður við dvöl erlendis og auk þess segir í 3. mgr. sömu greinar að greiðsluþega sé skylt að tilkynna stofnuninni um fyrirhugaða dvöl erlendis fyrir brottför.
Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins að kærandi fékk samþykktan félagslegan viðbótarstuðning við aldraða með bréfum, dags. 30. júlí 2021, 20. september 2022 og 12. júlí 2023 fyrir tímabilin 1. júlí 2021 til 1. júlí 2022, 1. júlí 2022 til 30. júní 2023 og 1. júlí 2023 til 30. júní 2024. Í kjölfar niðurstöðu rannsóknar á réttmæti greiðslna þann 10. maí 2024 var kærandi endurkrafinn um greiðslur frá 1. júlí 2021 að fjárhæð 1.764.203 kr. Ákvörðunin var tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt gögnum um IP-tölu þegar kærandi skráði sig inn á „Mínar síður“ hjá Tryggingastofnun á umdeildu tímabili má sjá að hann var staddur á B þegar hann skráði sig inn í ágúst 2021. Þá má sjá margar og reglulegar innskráningar á árunum 2022, 2023 og byrjun árs 2024 frá B og C. Á reikningsyfirliti sem kærandi lagði fram vegna tímabilsins 1. júlí 2021 til 26. mars 2024 má einungis sjá örfáar færslur vegna kortanotkunar á Íslandi og ávallt í skamman tíma í senn. Þá má ráða af gögnum málsins að kærandi hafi mætt í starfstöð stofnunarinnar 5. júní 2021, 29. ágúst 2022 og 26. júní 2023.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þau gögn sem liggja fyrir í málinu séu nægjanleg til þess að sýna fram á, þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að kærandi hafi dvalið erlendis lengur en 90 daga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslu félagslegs viðbótastuðnings við aldraða á umdeildum greiðslutímabilum.
Kærandi vísar til þess að ástæða þess að kærandi hafi dvalið erlendis hafi verið læknisheimsóknir í B og heimsóknir til ættingja. Ekki verður ráðið að lögum um viðbótarstuðning við aldraða að heimilt sé að víkja frá þeim skilyrðum um dvöl erlendis sem fram koma í 8. gr. laganna með vísan til framangreindra málsástæðna kæranda.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur félagslegs viðbótarstuðnings til kæranda og endurkrefja hann um ofgreiddar bætur frá 1. júlí 2021 til 1. maí 2024, staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða til A, og endurkrefja um ofgreiddar bætur frá 1. júlí 2021, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir