Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 336/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 336/2016

Miðvikudaginn 8. mars 2017

A og B

v/C

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. september 2016, kærðu B, og A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. ágúst 2016 um stöðvun umönnunargreiðslna vegna sonar þeirra C, frá 1. júlí 2015 og endurkröfu vegna ofgreiddra umönnunargreiðslna.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júní 2016, var kærandi B upplýst um að borist hefðu upplýsingar um að sonur hennar hefði ekki verið búsettur hjá henni frá X 2015 og því yrðu umönnunargreiðslur stöðvaðar frá 1. júlí 2015. Vísað var til þess að samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð væri heimilt að greiða umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi. Kæranda var gefinn frestur til 27. júní 2016 til að sýna fram á að sonur hennar hefði verið búsettur hjá henni. Tekið var fram að bærust engin andmæli yrði litið svo á að skilyrði fyrir umönnunargreiðslum frá 1. júlí 2015 væru ekki uppfyllt, sem leiddi til endurkröfu að fjárhæð 472.662 kr. vegna tímabilsins frá 1. júlí 2015 til 30. júní 2016. Þann 22. júní 2016 bárust stofnuninni upplýsingar frá Barnavernd D um ýmsan kostnað sem kærendur hefðu greitt vegna sonar þeirra á tímabilinu frá 1. júlí 2015 til 30. júní 2016 og var tekið fram að þau hefðu tekið virkan þátt í umönnun drengsins frá því að hann fór í fóstur.

Með öðru bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. ágúst 2016, var kæranda B tilkynnt um að ákvörðun um ofgreiddar umönnunargreiðslur hefði verið endurskoðuð en samkvæmt 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna falli umönnunargreiðslur til framfærenda niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum. Þá segir að þar sem vistun sonar kærenda sé greidd af félagsmálayfirvöldum sé ekki heimilt að greiða umönnunargreiðslur vegna hans á nefndu tímabili. Ákvörðun um ofgreiðslu umönnunargreiðslna að fjárhæð 472.662 kr. stæði því óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. september 2016. Með bréfi, dags. 8. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. september 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda B með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera kröfu um að ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun umönnunargreiðslna frá 1. júlí 2015 og endurkröfu vegna ofgreiddra umönnunargreiðslna verði felldar úr gildi.

Í kæru segir að drengur kærenda hafi miklar sérþarfir og sé erfiður í hegðun sökum mikils skynjunarvanda. Hann hafi verið tengdur Barna- og unglingageðdeild frá árinu X. Læknisfræðilegar greiningar hans séu ofvirkniröskun F90.1, kipparöskun F95,9 og væg þroskahefting, veruleg skerðing atferlis sem krefst athygli eða meðferðar F70.1.

Vandi drengsins hafi verið til staðar frá fæðingu og farið vaxandi með árunum. Það hafi skapað mikla erfiðleika heima, í skóla og umhverfi. Í gegnum árin hafi margs konar þjónusta og ráðgjöf verið veitt inn á heimilið, til kennara og varðandi frístundir. Kærendur hafi ætíð verið í samvinnu við það fagfólk sem hafi veitt ráðgjöf en það hafi ekki dugað til að koma í veg fyrir eða draga úr óæskilegri hegðun hans.

Að lokum hafi staðan verið orðin þannig að kærendur hafi valið þá leið að óska eftir vistun drengsins til að skerma hann frá þáverandi umhverfi og eins vernda þau og yngri bróður hans frá hegðun hans, þar sem beiting ofbeldis gagnvart heimilisfólki hafi verið orðin viðvarandi.

Þetta hafi verið kærendum mjög erfið ákvörðun og gerð í fullri samvinnu við bæði félagsmála- og barnaverndaryfirvöld á D. Þau séu með fullt forræði yfir syni sínum og fylgi honum því eftir á allan þann hátt sem þeim sé mögulegt.

Frá því að drengurinn fór í fóstur hafi þau tekið virkan þátt í umönnun hans, enda sé það hluti af markmiði með vistun utan heimilis. Umgengni þeirra við son sinn sé mikil og regluleg, að lágmarki önnur hvor helgi auk páskafrís, sumarfrís, jólafrís og þar að auki tilfallandi fría.

Eftir að sonur þeirra fór í fóstur hafi þau séð alfarið um allan lyfjakostnað, kostnað vegna læknisþjónustu, keypt allan fatnað og greitt kostnað vegna ferðalaga, einnig hafi þau séð um vasapeninga og greitt kostnað vegna allra skemmda sem hann hafi valdið. Auk þess hafi þau keyrt reglulega á E á samráðsfundi með skóla og mætt á [íþrótt] þar sem hann hafi verið að keppa á E og í Reykjavík.

Það sé því ljóst að kærendur beri eins og áður allan kostnað af sértækri umönnun sonar síns, en sveitarfélagið greiði fósturforeldrum hans eingöngu fósturlaun fyrir vistun hans. Þetta sé því ólíkt hefðbundnu fóstri þar sem fósturforeldrar sjái um allan kostnað við barnið.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kveðið sé á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að stofnuninni sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljist í heimahúsi eða á sjúkrahúsi. Nánar sé fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997, með síðari breytingum.

Samkvæmt nefndu lagaákvæði og 1. gr. reglugerðar nr. 504/1997 sé það skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá stofnuninni að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segi að almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerði ekki umönnunargreiðslur en að önnur dagleg sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerði greiðslur.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 sé lagaákvæðið nánar útfært. Þar segi í 4. mgr. að umönnunargreiðslur til framfærenda falli niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Þá segi í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að hafi Tryggingastofnun ríkisins ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til. Einnig eigi stofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.

Samkvæmt 13. gr. laga um félagslega aðstoð skuli beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga þessara.

Í júní 2016 hafi stofnuninni borist upplýsingar um að sonur kærenda væri vistaður í fóstri og hefði verið frá X 2015, sbr. tölvupóst frá Barnaverndarnefnd D, dags. 10. júní 2016. Því hafi kæranda B verið sendar hinar kærðu ákvarðanir.

Þann 22. júní 2016 hafi borist bréf frá Barnaverndarnefnd D þar sem fram hafi komið að frá því að drengurinn fór í fóstur hafi kærendur alfarið séð um allan lyfjakostnað, kostnað vegna læknisþjónustu, keypt allan fatnað, greitt kostnað vegna ferðalaga, séð um vasapeninga og greitt kostnað vegna allra skemmda sem drengurinn hafi valdið. Þá hafi verið farið fram á endurskoðun á stöðvun og endurkröfu barnalífeyris og umönnunargreiðslna.

Með bréfi, dags. 5. ágúst 2016, hafi kæranda B verið tilkynnt um að fallið hefði verið frá endurkröfu barnalífeyris en stöðvun og endurkrafa umönnunargreiðslna stæði óbreytt þar sem samkvæmt 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna falli umönnunargreiðslur til framfærenda niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum. Tryggingastofnun ríkisins hafi borist tölvupóstur frá Barnaverndarnefnd D, dags. 19. júlí 2016, þar sem staðfest hafi verið að fósturforeldrum væri greitt umfram tvöfaldan barnalífeyri með drengnum.

Almennt sé litið svo á að venjulegur framfærslukostnaður barns sé sú fjárhæð sem svari til tvöfalds barnalífeyris, þ.e. einfalds frá hvoru foreldri. Stofnunin telji að sem meginreglu skuli líta á fósturráðstöfun sem vistun greidda af félagsmálayfirvöldum í skilningi ofangreinds reglugerðarákvæðis þar sem greiðslur til fósturforeldra með barni séu umfram venjulegan framfærslukostnað. Umönnunargreiðslum sé ætlað að mæta sannanlegum tilfinnanlegum útgjöldum og kostnaði við sérstaka umönnun eða gæslu barna, sbr. 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þessum útgjöldum megi, eðli málsins samkvæmt, ekki vera mætt af öðrum aðilum samtímis því að umönnunargreiðslur eigi sér stað.

Í málinu liggi fyrir upplýsingar um að sonur kærenda hafi verið í fóstri frá X 2015 og fósturforeldrar fái greiðslur umfram tvöfaldan barnalífeyri með honum. Með vísan til framanritaðs líti stofnunin svo á að vistun drengsins sé greidd af félagsmálayfirvöldum og kostnaði við umönnun sé mætt. Af þeim sökum sé stofnuninni ekki heimilt að greiða umönnunargreiðslur eftir að fóstur hófst X 2015. Því hafi stofnuninni borið að stöðva og endurkrefja um umönnunargreiðslur frá 1. júlí 2015.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva umönnunargreiðslur til kæranda B frá 1. júlí 2015 og endurkröfu vegna ofgreiddra umönnunargreiðslna á tímabilinu frá 1. júlí 2015 til 30. júní 2016, samtals að fjárhæð 472.662 kr.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. þeirrar lagagreinar segir meðal annars að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi. Í 2. mgr. sömu greinar segir að almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerði ekki umönnunargreiðslur en önnur dagleg, sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerðir umönnunargreiðslur. Í 4. mgr. sömu greinar segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997, með síðari breytingum.

Samkvæmt 5. málsl. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997, með síðari breytingum falla umönnunargreiðslur til framfærenda niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Fyrir liggur að sonur kærenda hefur verið í fóstri á vegum Barnaverndarnefndar á D frá X 2015. Samkvæmt 5. málsl. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 falla umönnunargreiðslur niður sé vistun greidd af félagsmálayfirvöldum. Gögn málsins staðfesta að fósturforeldrar drengsins fá greidda fjárhæð frá félagsmálayfirvöldum á D sem er umfram tvöfaldan barnalífeyri. Að þessu virtu telur úrskurðarnefnd að framangreind skilyrði umönnunargreiðslna hafi ekki verið uppfyllt frá X 2015 þegar sonur kærenda flutti til fósturforeldra.

Kærendur byggja á því að þrátt fyrir að sonur þeirra hafi verið í fóstri taki þau virkan þátt í umönnun hans. Umgengni við hann er lýst nánar og greint frá ýmsum útgjaldaliðum vegna hans sem kærendur greiði. Þrátt fyrir þetta telur úrskurðarnefnd að af framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum verði ráðið að ekki sé heimilt að greiða umönnunargreiðslur í tilvikum þar sem börn eru vistuð utan heimilis og vistun er greidd af félagsmálayfirvöldum, eins og raunin sé í máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva umönnunargreiðslur til kæranda B frá 1. júlí 2015 staðfest.

Tryggingastofnun ríkisins hefur krafið kæranda B um endurgreiðslu vegna ofgreiddra umönnunargreiðslna á tímabilinu frá 1. júlí 2015 til 31. júní 2016, samtals að fjárhæð 472.662 kr.

Umönnunargreiðslur greiðast á grundvelli laga um félagslega aðstoð og samkvæmt 14. gr. þeirra laga eiga ákvæði laga um almannatryggingar við um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Í 55. gr. laga um almannatryggingar segir í 1. málsl. 1. mgr. að hafi Tryggingastofnun ríkisins ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Í 2. málsl. sömu málsgreinar segir að stofnunin eigi einnig endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.

Að því virtu að kærandi B fékk greiddar umönnunargreiðslur á umræddu tímabili án þess að skilyrði greiðslnanna væri uppfyllt telur úrskurðarnefnd velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að krefja hana um endurgreiðslu vegna ofgreiddra umönnunargreiðslna, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Ákvörðun stofnunarinnar þar um er því staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva umönnunargreiðslur til B, frá 1. júlí 2015 er staðfest. Einnig er endurkrafa stofnunarinnar á hendur kæranda B vegna ofgreiddra umönnunargreiðslna á tímabilinu frá 1. júlí 2015 til 31. júní 2016 að fjárhæð 472.662 kr. staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta