Mál nr. 353/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 353/2016
Miðvikudaginn 8. mars 2017
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 14. september 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um barnalífeyri, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 12. og 14. september 2016.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslu barnalífeyris vegna B á vefsvæði Tryggingastofnunar ríkisins 5. september 2016. Með bréfi, dags. 12. september 2016, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að þegar hafi verið samþykkt að greiða til hennar barnalífeyri með drengnum frá 1. október 2013. Með öðru bréfi, dags. 14. september 2016, sendi stofnunin kæranda leiðrétta synjun. Í bréfinu segir að stofnunin hafi frá 1. október 2016 haft milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda með drengnum frá móður hans. Þá hafi kærandi fengið greiddan barnalífeyri með drengnum vegna örorku móður hans sem ígildi meðlagsgreiðslna á tímabilinu frá 1. október 2013 til 30. september 2016. Ekki sé heimilt að greiða kæranda einnig barnalífeyri vegna örorku móður drengsins þegar stofnunin hafi milligöngu um meðlag frá móður drengsins til kæranda. Þar að auki eigi drengurinn framfærsluskylt foreldri á lífi og því hafi stofnunin ekki heimild til að greiða kæranda, sem stjúpforeldi barnsins, barnalífeyri vegna örorku hennar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. september 2016. Rökstuðningur kæru barst með tölvupósti kæranda 10. október 2016. Með bréfi, dags. 11. október 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 1. nóvember 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en af gögnum málsins má ráða að hún krefjist þess að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um barnalífeyri verði felld úr gildi og samþykkt verði að greiða henni barnalífeyri.
Í kæru segir að Tryggingastofnun ríkisins komi með ýmis rök fyrir því að greiða ekki barnalífeyri. Í einu bréfi stofnunarinnar komi fram að þar sem móðir drengsins, sem fari ekki með forsjá hans, fái greiddan barnalífeyri sem breytist í ígildi meðlags til kæranda sé ekki unnt að greiða kæranda barnalífeyri, þrátt fyrir að stofnuninni sé kunnugt um að fyrir liggi úrskurður um að móður drengsins beri að greiða meðlag. Stofnunin hafi séð um milligöngu meðlags til kæranda frá móður drengsins um nokkurt skeið.
Það væri fínt ef stofnunin myndi líta til baka og kanna hvað hafi farið úrskeiðis þegar kærandi hafi ekki fengið greitt meðlag í rúmlega tvö ár þegar hún bjó tímabundið í C, en móðir drengsins hafi þó fengið barnalífeyri greiddan með drengnum í mörg ár.
Eftir að kærandi hafi ítrekað haft samband við stofnunina á þessum tíma hafi hún sagt að þar sem milliríkjasamband á milli C og Íslands hefði breyst gæti stofnunin ekki greitt kæranda meðlag frá foreldrum drengsins. Kærandi hafi bent á að hún fengi engar greiðslur frá þeim. Hefði stofnunin notað sömu reglu og hún noti í dag, hefði hún fengið meðlagið greitt. Kærandi hafi því ekki fengið meðlag greitt í nokkur ár og stofnunin hafi vitað af því en sagt að hún gæti ekkert gert.
Það sé hægt að fletta upp öllum greiðslum sem kærandi hafi fengið vegna forsjár drengsins frá X. Þar sé hægt að sjá að hún hafi ekki fengið meðlög þegar hún hafi búið tímabundið úti. Hún hafi ekki fengið greiðslur frá öðrum löndum. Þá hafi hún aldrei haft tekjur frá öðrum löndum og alltaf borgað skatta og skyldur til Íslands. Hins vegar hafi hún ekki fengið barnabætur með drengnum fyrr en nýlega.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að með bréfi, dags. 14. september 2016, hafi kæranda verið synjað um greiðslu barnalífeyris með dóttursyni sínum, bæði vegna örorku móður hans og kæranda.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, sé annað hvort foreldra látið eða örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram.
Í 2. mgr. sömu greinar segi að sömu réttarstöðu hafi stjúpbörn og kjörbörn þegar eins standi á. Þó skuli ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris, sé framfærsluskylt foreldri barnsins á lífi.
Þá segi í 5. mgr. sömu greinar að barnalífeyrir greiðist foreldrum barna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum sem annast framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 64. gr.
Í 4 mgr. 64. gr. laga um almannatryggingar segi að þegar svo hátti til að Tryggingastofnun ríkisins hafi milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni, samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laganna, og hið meðlagsskylda foreldri öðlist rétt til barnalífeyris samkvæmt 20. gr. laganna vegna barnsins, sé stofnuninni heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verði þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.
Með umsókn, móttekinni 5. september 2016, sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris frá stofnuninni með dóttursyni sínum. Kærandi fari með forsjá drengsins samkvæmt staðfestu samkomulagi um forsjá, dags. X. Föður drengsins beri að greiða kæranda meðlag með honum, sbr. úrskurð Sýslumannsins í Reykjavík, dags. X, og móðir drengsins hafi samþykkt að greiða kæranda meðlag með drengnum, sbr. staðfestingu á samkomulagi um meðlag frá Sýslumanninum í Reykjavík, dags. X. Þá séu bæði kærandi og móðir drengsins örorkulífeyrisþegar
Kæranda hafi verið synjað um barnalífeyri með hinni kærðu ákvörðun en leiðrétt synjun hafi verið send með bréfi, dags. 14. september 2016.
Frá 1. október 2016 hafi stofnunin haft milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda með drengnum frá móður hans. Frá 1. október 2013 til 30. september 2016 hafi kærandi fengið greiddan barnalífeyri með drengnum vegna örorku móður hans sem ígildi meðlagsgreiðslna. Þá hafi stofnunin einnig haft milligöngu um meðlag með drengnum til kæranda frá föður hans frá 1. október 2014. Stofnunin hafi því greitt kæranda tvöfalda framfærslu með drengnum síðustu ár, þ.e. framfærslu bæði frá föður og móður.
Þar sem stofnunin hafi nú milligöngu um meðlag til kæranda frá móður drengsins sé stofnuninni ekki heimilt að greiða kæranda einnig barnalífeyri vegna örorku móður. Þá hafi stofnunin greitt kæranda barnalífeyri vegna örorku móður drengsins sem ígildi meðlagsgreiðslna síðustu þrjú ár.
Þar sem barnið eigi framfærsluskylt foreldri á lífi hafi stofnunin enn fremur ekki heimild til að greiða kæranda, sem stjúpforeldri barnsins, barnalífeyri með barninu vegna örorku hennar.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um barnalífeyri. Úrskurðarnefnd fær ráðið af gögnum málsins að ágreiningur snúist um synjun stofnunarinnar um greiðslu barnalífeyris til kæranda vegna örorku hennar.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Í 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar segir að sömu réttarstöðu hafi stjúpbörn og kjörbörn þegar eins standi á. Í 2. málsl. sömu málsgreinar segir að þó skuli ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris ef barnið á framfærsluskylt foreldri á lífi. Þá segir í 5. mgr. 20. gr. að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum sem annist framfærslu þeirra að fullu.
Í 4. mgr. 64. gr. laga um almannatryggingar segir að þegar svo háttar til að Tryggingastofnun ríkisins hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni samkvæmt 1. mgr. 63. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris samkvæmt 20. gr. vegna barnsins er stofnuninni heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verður þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.
Fyrir liggur að kærandi, sem er örorkulífeyrisþegi, fer með forsjá dóttursonar síns. Samkvæmt gögnum málsins eru foreldrar drengsins meðlagsskyld og kærandi fær greitt sem nemur fjárhæð einfalds meðlags fyrir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins frá hvoru þeirra um sig. Í tilviki móður drengsins er barnalífeyrisgreiðslum, sem hún á rétt til vegna örorku sinnar, ráðstafað til kæranda á grundvelli 4. mgr. 64. gr. laga um almannatryggingar.
Samkvæmt 20. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að greiða foreldri, sem er örorkulífeyrisþegi, barnalífeyri. Þá hafa kjörforeldrar sömu réttarstöðu og foreldrar og einnig stjúpforeldrar ef barnið á ekki framfærsluskylt foreldri á lífi. Þrátt fyrir að kærandi fari með forsjá drengsins verður hún að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ekki talin foreldri, kjörforeldri eða stjúpforeldri í skilningi framangreinds lagaákvæðis. Engar heimildir eru til þess að greiða öðrum aðilum en að framan greinir barnalífeyri vegna örorku þeirra. Þrátt fyrir að fallist yrði á að jafna stöðu kæranda við stjúpforeldri í skilningi 2. mgr. 20. gr. laganna, líkt og Tryggingastofnun gerir, þá væri samt sem áður ekki heimilt að greiða henni barnalífeyri, enda liggur fyrir að drengurinn á framfærsluskylda foreldra á lífi, sbr. 2. málsl. 20. gr. laganna. Málsástæður kæranda, er varða synjun Tryggingastofnunar um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til hennar á þeim tíma sem hún bjó í C, hafa ekki áhrif á þá niðurstöðu, enda lýtur hin kærða ákvörðun ekki að því tímabili.
Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki sé heimilt að greiða kæranda barnalífeyri með dóttursyni hennar vegna örorku hennar. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um barnalífeyri er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um barnalífeyri er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir