Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 419/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 419/2019

Miðvikudaginn 6. nóvember 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 4. október 2019, kærði A , til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. september 2019 um leiðréttingu á réttindum fyrir janúar og febrúar árið 2017.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. september 2019, var kæranda tilkynnt um að réttindi hennar fyrir janúar og febrúar 2017 hefðu verið endurreiknuð og leiðrétt í kjölfar dóms Landsréttar í máli nr. 466/2018. Í bréfinu kemur fram að greiddir hafi verið 5,5% ársvextir í samræmi við 4. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Kærandi gerði athugasemdir við niðurstöðuna með tölvupóstum 25. september og 1. október 2019. Skýringar bárust frá Tryggingastofnun með tölvupóstum 30. september og 1. október 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. október 2019.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að 17.191 kr. vextir sem kærandi hafi fengið frá Tryggingastofnun verði reiknaðir sem dráttarvextir.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi gert athugasemdir við fjármagnstekjuskatt vegna vaxta sem stofnunin hafi greitt henni vegna leiðréttingu greiðslna fyrir janúar og febrúar 2017. Í svari Tryggingastofnunar hafi komið fram sú túlkun stofnunarinnar að einungis sá einstaklingur sem hafi farið í mál eigi rétt á að fá dráttarvexti og að aðrir, sem hafi fengið leiðréttingu, hafi fengið greidda vexti.

Kærandi trúi ekki að túlkun Tryggingastofnunar sé rétt. Hún hafi haldið að þetta væri prófmál og að niðurstaða dómsins ætti við alla sem þessi lög hafi brotið á. Kærandi skilji ekki hvernig málshefjandi fái dráttarvexti en aðrir einungis venjulega vexti. Hver sé munurinn á henni og málshefjanda þar sem þær hafi báðar verið látnar sæta ólögmætum skerðingum vegna lífeyrissjóðstekna fyrir janúar og febrúar 2017 og báðar hafi þær fengið leiðréttingu vegna þess. Málshefjandi hafi fengið skaðabætur en kærandi hafi fengið fjármagnstekjur.

Kærandi geri alvarlega athugasemd við túlkun Tryggingastofnunar, jafnræðisreglan hljóti að eiga við hér. Kærandi fari fram á að nefndin komi því til leiðar að lögum eða reglugerð verði breytt svo að mál sem þetta þurfi ekki að koma upp aftur.

Farið sé fram á að nefndin úrskurði í málinu á þá leið að framangreind fjárhæð verði reiknuð sem dráttarvextir og þar af leiðandi verði ekki reiknaður skattur af upphæðinni þar sem dráttarvextir séu samkvæmt mörgum dómum Hæstaréttar ekki vextir heldur skaðabætur.

Einnig sé farið fram á að nefndin beiti sér fyrir því að allir sem hafi fengið leiðréttingu vegna handvammar ríkisins við lagasetningu fyrir janúar og febrúar 2017 fái leiðréttingu sinna mála án þess að hver og einn þurfi að brasa í því að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála.

III.  Niðurstaða

Kærð er sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að greiða kæranda vexti á leiðréttingu greiðslna til hennar vegna janúar og febrúar 2017 í stað dráttarvaxta. Þá gagnrýnir kærandi að hún þurfi að greiða fjármagnstekjuskatt af vaxtagreiðslunni.

Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu.

Samkvæmt framangreindu ákvæði getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um ágreining samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, svo og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum. Ljóst er að kveðið er á um greiðslu 5,5% ársvaxta í 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Af gögnum málsins verður aftur á móti ráðið að kærandi óskar eftir að fá greidda dráttarvexti samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það ágreiningsefni á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Kærandi gagnrýnir jafnframt skattalega meðhöndlun greiðslu vaxta frá Tryggingastofnun. Sú ákvörðun var ekki tekin á grundvelli laga um almannatryggingar. Það ágreiningsefni á því ekki heldur undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kæranda er bent á að ágreiningsefni um skattalega meðhöndlun greiðslna frá Tryggingastofnun fellur undir valdsvið skattyfirvalda. Kærandi getur því leitað til Ríkisskattstjóra vegna þess.

Þá telur úrskurðarnefndin að heimilt sé að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða kæranda vexti samkvæmt lögum um almannatryggingar í stað dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu til félagsmálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. nr. 37/1993. Kæranda er því bent á að hún geti leitað til ráðuneytisins vegna framangreinds.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta