Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 394/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 394/2024

Miðvikudaginn 6. nóvember 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið framsendi úrskurðarnefnd velferðarmála þann 26. ágúst 2024 ódagsetta kæru A, vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. maí 2024 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2023 og innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2023 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 1.128.392 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og fyrirhugaða innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024. Þá var kærandi upplýstur um greiðsludreifingu vegna skuldarinnar með bréfi, dags. 10. júní 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. ágúst 2024. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 16. september 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. september 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sé á örorku. Tryggingastofnun hafi sent honum kröfu vegna skerðinga á örorkubótum. Farið sé fram á að þetta verði leiðrétt, jafnvel fellt niður.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2023.

Í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum einstaklinga. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem hafi myndast við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi að þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skuli þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 segir:

„Komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skal það sem ofgreitt er dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta eigi eingöngu við ef tekjur þær sem lagðar eru til grundvallar bótaútreikningi reynast hærri en tekjuáætlun skv. 4. gr. gerði ráð fyrir og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum [reglum].“

Í 11. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um undanþágur frá endurkröfu. Þar komi fram að þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla hafi leitt í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skuli þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildi um dánarbú eftir því sem við eigi.

Í 12. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um innheimtu á ofgreiðslum. Að jafnaði skuli Tryggingastofnun draga ofgreiðslur frá greiðslum stofnunarinnar til bótaþega á næstu 12 mánuðum eftir árlegt uppgjör. Ef ljóst sé eftir endurreikning samkvæmt 9. gr. að bótaþegi muni ekki geta endurgreitt ofgreiðslu á 12 mánuðum skuli Tryggingastofnun ríkisins meta hvernig staðið verði að innheimtu, þar á meðal hvort lengja skuli endurgreiðslutímann, innheimta samkvæmt almennum reglum eða bjóða bótaþega upp á sérstakan samning um endurgreiðslu. Hið sama eigi við ef bótaþegi nái ekki að endurgreiða ofgreiðslu á 12 mánuðum, sbr. ákvæði 10. gr. Við mat á því hvernig staðið verði að innheimtu ofgreiddra bóta skuli Tryggingastofnun ríkisins hafa hliðsjón af heildartekjum bótaþega, eignastöðu og upplýsingum um aðrar aðstæður bótaþega eða dánarbús hans sem Tryggingastofnun hafi aðgang að.

Hafi endurkrafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið endurgreidd á 12 mánuðum frá því að krafa hafi verið stofnuð skuli greiða 5,5% ársvexti á eftirstöðvar kröfunnar. Heimilt sé að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu ofgreiddra bóta liggi fyrir og viðkomandi standi við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum.

Kærandi hafi frá árinu 1998 verið með örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun. Niðurstaða endurreiknings hafi verið 1.128.392 kr. skuld. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. maí 2024, hafi komið fram að greiðslur vegna ársins 2023 hafi verið endurreiknaðar á grundvelli skattframtals 2024. Kærandi hafi verið upplýstur um að innheimta myndi hefjast 1. september 2024 nema um annað verði samið og að tilkynnt verði um fyrirkomulag innheimtu að liðnum andmælafresti.

Veittur hafi verið frestur til 9. ágúst 2024 til að andmæla endurreikningnum og tekið fram að andmæli væri hægt að senda inn á Mínar síður hjá Tryggingastofnun. Ef engin andmæli bærust stofnuninni þá teldist uppgjöri ársins 2023 lokið. Einnig hafi verið á það bent að þegar alveg sérstakar aðstæður, einkum erfiðar fjárhags- eða félagslegar aðstæður, væru fyrir hendi væri hægt að sækja um niðurfellingu skuldar sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en hægt væri að sækja um niðurfellingu skuldar inn á Mínum síðum Tryggingastofnunar.

Við samanburð greiðslna og réttinda ársins 2023 hafi niðurstaðan verið 1.128.392 kr. ofgreiðsla, sem sé tilkomin vegna vanáætlunar á vaxtatekjum í innsendri tekjuáætlun fyrir árið 2023.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 komi fram varðandi ofgreiddar bætur að ef í ljós komi við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli það sem ofgreitt sé dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi muni síðar öðlast rétt til. Þetta eigi eingöngu við ef tekjur þær sem lagðar hafi verið til grundvallar bótaútreikningi hafi reynst hærri en tekjuáætlun samkvæmt 4. gr. hafi gert ráð fyrir og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Tryggingastofnun hafi farið yfir endurreikninginn sem hafi leitt í ljós 1.128.392 kr. Eins og áður hafi komið fram sé þessi ofgreiðsla tilkomin vegna misræmis í gerð tekjuáætlunar hjá kæranda og endanlegra tekna samkvæmt skattframtali.

Í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags komi fram í 11. gr. reglugerðarinnar, er varði undanþágur frá endurkröfu, að þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla hafi leitt í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skuli þá einkum litið til fjárhags- og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildi um dánarbú eftir því sem við eigi.

Við yfirferð málsins hafi verið horft til þess að krafan hafi myndast vegna þess að kærandi hafi ekki uppfært tekjuáætlun sína. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. mars 2024, hafi kærandi verið hvattur til að uppfæra tekjuáætlunina. Í bréfinu hafi komið fram að við samanburð á tekjuáætlun 2024 og fjármagnstekjum á skattframtali vegna tekna ársins 2023 hafi komið í ljós að fjármagnstekjur kæranda hafi verið hærri en sem gert hafi verið ráð fyrir í gildandi tekjuáætlun. Einnig hafi verið bent á að þar sem að greiðslur frá stofnuninni væru byggðar á tekjuáætlun væri mikilvægt að hún væri nákvæm því þannig yrðu greiðslur eins réttar og mögulegt væri. Að auki hafi verið bent á að upplýsingar í tekjuáætlun væru á hans ábyrgð.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. júní 2024, hafi kæranda verið boðin greiðsludreifing vegna framangreindrar skuldar. Í greinargerð stofnunarinnar er greint frá þeirri dreifingu.

Staða kæranda samkvæmt eignaskrá sé sú að kærandi eigi rúmar 39 milljónir á bankareikningi og hafi vaxtatekjur á síðasta ári numið alls 2.545.692 kr.

Kæranda hafi verið boðið upp á að greiða kr. 31.344 kr. á mánuði þar til krafan verði að fullu greidd. Bent skuli á að ofgreiðslukröfur þessar beri enga vexti og þar af leiðandi ættu þær ekki að hafa mikil íþyngjandi áhrif á framfærslu kæranda.

Að áliti Tryggingastofnunar séu ekki fyrir hendi skilyrði til niðurfellingar á ofgreiðslukröfu hjá kæranda. Við mat á þeim skilyrðum sé einkum horft til þess hvort kærandi hafi sinnt sinni skyldu að uppfæra tekjuáætlun sína, fjárhagsstöðu kæranda og félagslegar aðstæður. Kæranda hafi verið sendir póstar 23. september 2023 og 21. mars 2024 varðandi ábendingu um fjármagnstekjur en þeim póstum hafi ekki verið sinnt af hálfu kæranda varðandi uppfærslu á tekjuáætlun.

Í 34. gr. laga um almannatryggingar komi fram að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bætur til greiðsluþega skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem greiðsluþegi síðar kunni að öðlast rétt til.

Með vísan til framangreinds telji Tryggingastofnun að endurreikningur greiðslna ársins 2023 hafi verið réttur og endurgreiðslur hafi ákvarðaðar á réttmætan hátt og í samræmi við lög um almannatryggingar. Stofnunin fari því fram á það endurreikningur greiðslna ársins 2023, dags. 28. maí 2024, verði samþykktur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2023 og innheimtu ofgreiddra bóta.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2023. Samkvæmt 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 30. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 1. mgr. greinarinnar segir að til tekna samkvæmt VI. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Samkvæmt gögnum málsins gerði tillaga Tryggingastofnunar að tekjuáætlun, dags. 19. nóvember 2022, ráð fyrir kærandi fengi á árinu 1.254.900 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 130.128 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar út frá þessum tekjuforsendum. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. september 2023, var athygli kæranda vakin athygli á því að við skoðun á skattframtali tekjuársins 2022 væri líklega tilefni að uppfæra tekjuáætlun ársins vegna fjármagnstekna. Kærandi aðhafðist ekkert í kjölfarið.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2023 reyndust tekjur kæranda hafa verið 1.237.900 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 2.545.692 kr. í fjármagnstekjur. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins leiddi í ljós 1.128.392 kr. ofgreiðslu á árinu 2023 að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árinu 2023 en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða fjármagnstekjur sem er tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 30. gr. laga um almannatryggingar og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2023 og innheimta ofgreiddar bætur.

Í ljósi þess að kærandi gefur til kynna í kæru að hann óski niðurfellingar á kröfunni telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að vekja athygli kæranda á því að hann geti freistað þess að leggja fram beiðni um niðurfellingu ofgreiddra bóta til Tryggingastofnunar á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, og innheimtu á ofgreiddum bótum er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta