Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Úrskurður nr. 354 - Slysatrygging

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins


Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 30. nóvember 2005 kærir B f.h. A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Trygginga­stofnunar ríkisins um bótaskyldu vegna slyss.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að tilkynnt var til Tryggingastofnunar um slys sem kærandi varð fyrir við vinnu sína þann 17. júlí 2005 sem sérhæfður tollvörður. Tilkynning er dags. 11. ágúst 2005 og í henni segir um tildrög slyss:


„ Starfsmaður var að vinna við fíkniefnaeftirlit á tónleikum við mjög erfiðar aðstæður innan um mikið fólk.

Fíkniefnaleitarhundur sem starfsmaður starfar með fer mjög hratt yfir og þurfti starfsmaður þ.a.l. að skáskjóta sér á milli fólks með alls kyns snúningum og tilfæringum sem orsaka högg og snúning á hnén. Starfsmaður hlaut við þessar aðstæður áverka á liðþófa á vinstra hné.”


Í áverkavottorði dags. 11. ágúst 2005 segir:


„ Var að vinna við gæslu á tónleikum í gærkvöldi, var að elta fíkniefnahund, mikil hlaup til og frá. Fann fyrir verk í vi hné um kl. 22 í gærkvöldi, orðið verra í dag, draghaltur.

Vi. hné ekki sýnilegur áverki, ekki bólga eða vökvi. Góð hreyfigeta í hnénu, en stöðugur vægur verkur. Við palpation á liðbili er sj. hvellaumur yfir smá nabba yfir med. liðbili. Við flexio færist þessi nabbi lengra posteriort. Hnéð er stöðugt, en verkur við variserandi álag. McMurray positívur.

Fær teygjusokk. Mælt með hvíld og kælingu á hnéð næstu daga. Einnig Ibuprofen 400mg x3, líka Paracetamol ef þörf á. Mælt með að gefa þessu nokkra daga til vikur á ofangreindri meðferð. Sj. mun sjá til hvort hann hafi samband við bæklunarlækni í framhandinu.”


Tryggingastofnun synjaði um bótaskyldu með bréfi dags. 12. september 2005.


Með bréfi dags. 18. október 2005 var óskað endurupptöku málsins. Trygginga­stofnun synjaði um endurupptöku með bréfi dags. 21. október 2005.


Í rökstuðningi með kæru segir:


„ Í fyrrnefndu bréfi til Tryggingastofnunar dags. 18. október sl. kemur fram ítarlegur rökstuðningur á því hvernig umrætt atvik er talið falla undir umrætt lagaákvæði. Kemur þar fram að fíkniefnaleitarhundur sá er sérþjálfaður hundaþjálfari starfar með er eign embættis A og vinnutæki þess tollvarðar er með hann starfar. Hundur og tollvörður starfa samkvæmt ákveðnu kerfi og vinnureglum sem báðir eru þjálfaðir eftir. Samkvæmt þessum vinnureglum og kerfi er það hundurinn sem stjórnar leit, hundaþjálfarinn á að fylgja honum eftir og halda í hann svo ekki hljótist skaði af í umhverfinu. Má það því ljóst vera að hundaþjálfarinn stjórnar ekki aðstæðum. Þær hreyfingar sem hann þarf að framkvæma markast af stefnu hundsins í hvert og eitt skipti ásamt þeim aðstæðum og því umhverfi sem hann vinnur í hverju sinni. Í umræddu bréfi er sýnt fram á hvernig hundurinn tekur oft ófyrirsjáanlegar stefnubreytingar er hann nemur lykt sem valda óvæntum hreyfingum hjá hundaþjálfara. Verður því að teljast að hundaþjálfari hafi orðið fyrir „skyndilegum utanaðkomandi atburði”, þ.e. hundurinn nam lykt, elti hana og olli þ.a.l. þessum óvæntu hreyfingum.

Tryggingastofnun bendir einnig á það í svarbréfi sínu að nauðsynlegt sé að leggja öll gögn fram sem upplýsa gætu málið og að leggja þurfi fram læknisvottorð er votti um umrætt slys og tilheyrandi áverka. Af þessu tilefni má benda á að í bréfi Tryggingastofnunar frá 12. september sl. er tilvísun í læknisvottorð C læknis dags. 11. ágúst. Umrætt vottorð var sent beint til Trygginga­stofnunar frá bráðamóttöku LSH og getur undirrituð því ekki vitnað nánar í umrætt skjal en teljast verður að vottorð hafi verið lagt fram. Einnig má benda á að með bréfi tollstjóra frá 18. október sl. var sent afrit úr dagbók D læknis er lýsir sjúkrasögu A frá því umrætt atvik átti sér stað. Ennfremur er tekið fram í umræddu bréfi að trúnaðarlæknir embættisins, E sé að rannsaka það skjal og að von sé á greinargerð til Tryggingastofnunar í framhaldinu. Ekki kemur fram í svarbréfi Tryggingastofnunar frá 21. október sl. að tillit hafi verið tekið til þessara viðbótarupplýsinga er von var á. Af skeyti E til undirritaðrar dags. 27. október (sjá fylgiskjal #7) má ráða að þær upplýsingar gætu haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Af framangreindu er því dregin sú ályktun að Tryggingastofnun hafi ekki framfylgt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaganna, um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, er hún tók þá ákvörðun að hafna endurupptöku málsins sbr. bréf dags. 21. október sl.”


Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 5. desember 2005. Barst greinargerð dags. 16. desember 2005. Þar segir:


„ Eitt af skilyrðum þess að um slys sé að ræða er að utanaðkomandi atburður hafi átt sér stað í tenglum við hinn tryggða, þ.e. eitthvað verður að hafa gerst utan líkama hins tryggða. Það verður að hafa gerst eitthvað sem veldur tjóni á líkama hans og sem áhorfandi getur áttað sig á hafi gerst. Þetta getur verið vandasamt að meta þegar skyndileg meiðsl eiga sér stað. Meginreglan er þó í raun alveg skýr. Svo framarlega sem aðstæður eru á þann veg sem hinn tryggði bjóst við þ.e. ekki verða frávik frá þeirri atburðarrás sem búast mátti við og engar óvæntar aðstæður koma upp, er ekki um slys að ræða. Ef meiðsl verða við að lyfta þungum hlut er um að ræða innra tjón sem ekki veitir rétt til bóta. Til að atvik teljist slys verður eitthvað óvænt að hafa gerst, td. það að hinn tryggði renni til á hálu gólfi er hann lyftir hlut og fær þannig óvæntan slynk á bakið.

Sá sem óskar bóta samkvæmt almannatryggingum þarf eðli máls samkvæmt að sýna fram á að atvik hans eigi undir ákvæði laganna. Til stuðnings umsókn um slysabætur er nauðsynlegt að öll gögn séu lögð fram sem upplýst geta málið. Meðal annars er nauðsynlegt að leggja fram læknisvottorð er votti um umrætt slys og tilheyrandi áverka vegna slyssins.

Í slysatilkynningu segir: “Starfsmaður var að vinna við fíkniefnaeftirlit á tónleikum við mjög erfiðar aðstæður innan um mikið af fólki. Fíkniefnaleitarhundur sem starfsmaður starfar með fer mjög hratt yfir og þurfti starfsmaður þ.a.l. að skáskjóta sér á milli fólks með alls kyns snúningum og tilfæringum sem orsaka högg og snúning á hnén. Starfsmaður hlaut við þessar aðstæður áverka á liðþófa á vinstra hné.”

Í læknisvottorði C dags. 11. ágúst 2005 segir: “Var að vinna við gæslu á tónleikum í gærkvöldi, var að elta fíkniefnahund, mikil hlaup til og frá. Fann fyrir verk í vi.hné um kl. 22 í gærkvöldi, orðið verra í dag, draghaltur.”

Með bréfi um endurupptöku fylgdi sjúkraskrá og þar er skráð þann 25. ágúst 2005, fimm vikum eftir slys “Vinnur með fíkniefnahund hjá tollgæslunni. Var við leit á tónleikum í júlí. Fékk rotations áverka á vi. hné þegar hundurinn fór snöggt til hliðar. Fór að finna fyrir þessu um kvöldið og var síðan frá vinnu í viku.”

Í beiðni um endurupptöku málsins kom fram frekari lýsing á umræddum atburði. Þar er m.a lýst álagi sem getur lagst á hné við hlaup, snúninga og að spyrna í gólf við að stjórna hundinum. Í bréfinu segir auk þess að það sé trú Guðna og embættisins að í einum að þessum snúningum hafi liðþófi rifnað. Hvorki í bréfinu né í atvikalýsingu er hins vegar lýst skyndilegum utanaðkomandi atburði eins og lögin áskilja heldur virðist vera um áverka sem hlýst við álag. Slysatryggingar almannatrygginga taka hins vegar ekki til álagsmeiðsla svo sem við að fá í bakið við að lyfta þungum hlut eða verkja í hné eftir mikil hlaup.

Ofangreind sjúkraskrá virðist vísa til ákveðins atburðar er slys varð. Þar er byggt á framburði kæranda fimm vikum eftir slys en það er í mótsögn bæði við frásögn kæranda í slysatilkynningu svo og áðurnefnt læknisvottorð.

Af framsögðu má sjá að slys verður hér án þess utanaðkomandi óvæntur atburður hafi átt sér stað, vinnuaðstaða hafi verið óvenjuleg eða að frávik hafi orðið á eðlilegri atburðarrás. Samkvæmt því er ekki um slys í skilningi almannatryggingalaga að ræða.


Í ljósi framangreinds var umsókninni um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga synjað.”


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 19. desember 2005 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.


Bárust athugasemdir kæranda dags. 12. janúar 2006 sem kynntar voru Trygginga­stofnun.


Barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar dags. 23. janúar 2006 og var hún send kæranda til kynningar.


Barst bréf kæranda dags. 6. febrúar 2006. Var það kynnt Tryggingastofnun.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kærandi hafi þann 17. júlí 2005 orðið fyrir slysi sem telst bótaskylt samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.

Kærandi starfar sem sérhæfður tollvörður (hundaþjálfari). Þann 17. júlí 2005 var hann að vinna við fíkniefnaleit á tónleikum, með hundinn sér til aðstoðar, þegar hann fékk áverka á liðþófa á vinstra hné.


Í rökstuðningi með kæru segir að fíkniefnaleitarhundur og tollvörður starfi samkvæmt ákveðnu kerfi og vinnureglum sem báðir séu þjálfaðir eftir. Það sé hundurinn sem stjórni leit, hundaþjálfarinn eigi að fylgja honum eftir og halda í hann svo ekki hljótist skaði af í umhverfinu. Hundaþjálfarinn stjórni ekki aðstæðum. Þegar hundurinn fór snöggt til hliðar hafi þjálfarinn orðið fyrir slysi sem flokkist undir utanaðkomandi atburð.


Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að skilyrði 1. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga um skyndilegan utanaðkomandi atburð sé ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Vitnað er til fyrirliggjandi málsgagna og er það ályktun Tryggingastofnunar að slys kæranda hafi orðið án þess að utanaðkomandi atburður hafi átt sér stað, vinnuaðstaða hafi verið óvenjuleg eða að frávik hafi orðið á eðlilegri atburðarás.

Í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar ásamt síðari breytingum segir:

,,Slysatryggingar taka til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni, enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður samkvæmt ákvæðum 24. eða 25. gr. Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.”


Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort kærandi hafi þann 17. júlí 2005 orðið fyrir slysi í skilningi 2. málsliðs 1. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga.


Að mati úrskurðarnefndar verður við mat á bótaskyldu í hverju tilviki að skoða vel hvert eðli starfs viðkomandi starfsmanns er og meta allar aðstæður í viðkomandi tilviki. Starf kæranda er sérstakt að því leyti að hann vinnur með hundi sem er þjálfaður til að leita að fíkniefnum. Eðli málsins samkvæmt bregst hundurinn skjótt við lykt sem hann finnur. Það er því í raun hundurinn sem ræður ferðinni og tollvörður verður að fylgja hundinum eftir fyrirvaralaust í hvaða átt sem er. Það gerir aðstæður erfiðari fyrir tollvörð að fylgja hundinum eftir þegar þeir eru í miklu fjölmenni þar sem ekki er greitt að komast um.


Kærandi hlaut liðþófaáverka á hné. Slíkir áverkar geta stafað af álagi án þess að slys eigi sér stað. Við mat á slíku í tilviki kæranda er til þess að líta að hann var ungur maður eða tæplega þrítugur, þegar atburður átti sér stað, og ekkert hefur komið fram um að hann hafi búið við veiklun í hné fyrir 17. júlí 2005 sem hafi síðan magnast það kvöld. Þvert á móti segir í nótu F, bæklunarskurðlæknis þann 25. ágúst 2005 að kærandi hafi fengið snúningsáverka á vinstra hné þegar hundurinn fór snöggt til hliðar. Að mati nefndarinnar er þessi lýsing sennileg miðað við allar aðstæður og verður lögð til grundvallar málsatvikum þó svo hún sé gefin nokkru eftir slysið og líklega höfð eftir kæranda. Styður þessi lýsing læknisins það að ekki hafi verið undirliggjandi veiklun í hnénu.


Við mat á því hvort um skyndilegan, utanaðkomandi atburð sem veldur slysi er að ræða verður að líta til þess, að slysatryggingaákvæði almannatryggingalaga eru af félagslegum toga runnin, þar sem mælt er fyrir um bótarétt verði slys í ákveðnum tengslum við vinnu. Löggjafinn hefur ákveðið að tryggja mönnum bætur vegna slyss við þær aðstæður. Tilgangur og sérstakt eðli almannatrygginga leiða til þess að skýra ber ákvæði rúmri lögskýringu.


Í áliti Umboðsmanns Alþingis frá 31. ágúst 2000 í málinu nr. 2516/1998 er fjallað um slysahugtak almannatrygginga samkvæmt þágildandi lögum, en með lögum nr. 74/2002 er það lagaskilyrði tekið beint upp í lögin, að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á viðkomandi og gerist án vilja hans. Ekki er að finna í lögunum sjálfum skýringu á því hvað átt er við með utanaðkomandi atburði. Við mat á því horfir nefndin m.a. til norrænnar réttarframkvæmdar á sviði almannatrygginga, þar sem reynt hefur á hvort um slys sé að tefla ef líkamstjón verður þó ekki sé um að ræða utanaðkomandi atburð í þrengri merkingu þess orðs, t.d. þegar tjón verður við að lyfta byrðum eða þegar unnið er í óheppilegum vinnustellingum. Ljóst er að einatt er um að ræða vandmeðfarin takmarkatilfelli. Ræður úrskurðarnefndin m.a. af norrænni réttarframkvæmd, að tekið sé nokkurt tillit til þess ef starf hefur almennt í sér fólgna hættu á því líkamstjóni sem starfsmaður verður fyrir. Úrskurðarnefndin telur hins vegar, að afleiðing undirliggjandi sjúkdóma eða líkamsástands sé undanskilið. Þegar kærandi varð fyrir líkamstjóni var hann sannanlega að störfum við mjög óvenjulegar aðstæður sem fólu í sér stóraukna hættu á tjóni af því tagi er hann varð fyrir. Á þetta m.a. rót að rekja til þess að vegna hundsins er kærandi fylgir verða snöggar og óvæntar hreyfingar við erfiðar ytri aðstæður. Þegar þannig háttar er að mati nefndarinnar afar líklegt að öllu virtu að tjónið eigi rót að rekja til utanaðkomandi atvika í skilningi laganna.


Slysið verður þannig ekki rakið til sérstakra atvika eða aðstæðna hjá kæranda heldur almennra utanaðkomandi þátta. Vegna sérstakra atvika í þessu máli telur nefndin að leggja eigi til grundvallar neikvæða skilgreiningu á umræddu skilyrði 22. gr. atl., þannig að líkur séu á því að slys sé af utanaðkomandi orsökum í skilningi 22. gr. almannatryggingalaga, ef það verður ekki rakið til undirliggjandi sjúkdóms eða óeðlilegs líkamsástands þess er fyrir slysinu verður.


Þegar litið til eðlis starfs kæranda, og þess að ekkert hefur komið fram um aðra orsök rofs á liðþófa en þá að hann var að vinna við erfiðar aðstæður sem gátu falið í sér hættu á líkamlegum áverka er það niðurstaða úrskurðarnefndar að viðurkenna beri bótaskyldu samkvæmt almannatryggingalögum vegna slyss kæranda þann 17. júlí 2005.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Viðurkennt er að A hafi orðið fyrir bótaskyldu slysi þann 17. júlí 2005.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



_____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta