Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 41/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 41/2020

Miðvikudaginn 26. ágúst 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. janúar 2020, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. október 2019, þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. nóvember 2018, var kæranda tilkynnt um stöðvun á greiðslu meðlags, mæðralauna og umönnunargreiðslna vegna flutnings úr landi og endurkröfu að fjárhæð 2.861.185 kr. vegna tímabilsins X 2017 til X 2018. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. kærumál nr. 419/2018. Með úrskurði, dags. 3. apríl 2019, staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um stöðvun greiðslna og innheimtu ofgreiddra mæðralauna og umönnunargreiðslna en vísaði frá kæru vegna ákvörðunar stofnunarinnar um endurkröfu ofgreidds meðlags og var hún framsend félagsmálaráðuneytinu. Kærandi sótti um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu með tölvupósti 27. ágúst 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 11. september 2019, var kæranda tilkynnt um greiðsludreifingu vegna ofgreiddra bóta hennar til 100 mánaða. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. október 2019, var umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta synjað. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar sem var svarað með tölvupósti 6. desember 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi, dags. 17. janúar 2020. Með bréfi, dags. 29. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. febrúar 2020. Athugasemdir kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar bárust með bréfi, dags. 20. mars 2020, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 24. mars 2020. Með bréfi, dags. 30. apríl 2020, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 12. maí 2020. Athugasemdir kæranda við viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar bárust með bréfi, dags. 2. júní 2020, og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi, dags. 3. júní 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í kæru kæranda að hún óski þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á niðurfellingu ofgreiðslukröfu verði endurskoðuð.

Í kæru segir að ákveðið hafi verið að vísa umsókn kæranda frá á þeim forsendum að samráðsnefnd um ofgreiðslur og kröfur hafi einungis heimild til að fella niður uppgjörskröfur. Enginn rökstuðningur hafi fylgt með eða vísun í lagagreinar.

Kærandi sé einstæð móðir með X börn undir X ára aldri. Hún hafi sótt um lögheimilisflutning þegar hún hafi flutt til C í X 2017 en Þjóðskrá hafi ekki afgreitt umsókn hennar fyrr en X 2018 og lögheimili hennar og barna hennar hafi verið flutt afturvirkt frá Íslandi til C með gildistöku X 2017.

Kærandi hafi fengið kröfu frá Tryggingastofnun ríkisins að upphæð 2.861.185 kr. vegna meðlags, mæðralauna og umönnunargreiðslna með fötluðu barni hennar. Tryggingastofnun ríkisins hafi sent henni bréf, dags. 9. október 2018, um stöðvun greiðslna vegna flutnings úr landi, stöðvun meðlags, mæðralauna og umönnunargreiðslna frá 1. nóvember 2018. Kærandi hafi andmælt en þrátt fyrir andmæli hennar hafi Tryggingastofnun ríkisins stöðvað greiðslurnar og endurkrafið hana um fjárhæð þeirra frá 1. nóvember 2018.

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins hafi kærandi verið látin taka á sig gríðarlega erfiðar byrðar vegna mistaka hjá Þjóðskrá. Í gögnum málsins komi fram að Þjóðskrá hafi fengið tilkynningu um flutning kæranda og barna hennar til C í X 2017 en lögheimilinu hafi ekki verið breytt fyrr en X 2018. Málið hefði litið allt öðruvísi út ef Þjóðskrá hefði brugðist rétt við á sínum tíma. Kærandi hafi talið allan tímann að hún væri að fá greiðslur frá Íslandi með réttum hætti þar sem hún hafði þegar flutt lögheimili sitt til C. Hún hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hún hafi tekið við greiðslunum og hafi ekki getað áætlað annað en að þær hafi verið réttar.

Þar sem enginn rökstuðningur hafi komið fram fyrir ákvörðuninni eigi kærandi erfitt með að átta sig á lagalegum grunni og rökstuðningi fyrir henni. Í málum þar sem sótt hafi verið um niðurfellingu eða lækkun krafna vegna ótekjutengdra greiðslna hafi Tryggingastofnun ríkisins synjað umsóknum á þeim forsendum að ekki sé um tekjutengdar greiðslur að ræða. Tryggingastofnun hafi beitt þeirri aðferðafræði að synja niðurfellingarkröfum á þeim grunni að reglugerð nr. 598/2009 banni stofnuninni að fella niður kröfur nema þegar um tekjutengdar greiðslur sé að ræða. Þessari aðferðafræði sé mótmælt þar sem Tryggingastofnun ríkisins sé kröfuhafi í skilningi laga og sem slíkur geti stofnunin alltaf fellt niður kröfur sem hún eigi.

Tryggingastofnun ríkisins sé einnig stjórnvald og verði að byggja allar sínar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Slíkt eigi við hvort sem um sé að ræða ákvarðanir um niðurfellingu krafna eða ákvarðanir um að verða ekki við umsóknum um niðurfellingu krafna. Í þessu máli hafi einstaklingi verið synjað um niðurfellingu á óljósum grunni og ef grunnurinn sé sá að hér sé ekki um tekjutengdar greiðslur að ræða sé þeirri aðferðarfræði stofnunarinnar hafnað þar sem slíkt geti ekki talist málefnalegur grunnur. Reglugerð nr. 598/2009 banni stofnuninni ekki að taka slíkar ákvarðanir. Ákvörðunin verði því að byggja á öðrum grunni.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 20. mars 2020, segir að í fyrsta lagi geti Tryggingastofnun ríkisins, eins og allir kröfuhafar, fellt niður allar þær kröfur sem stofnunin kjósi að fella niður. Stofnunin geti sem sagt fellt niður kröfuna á öðrum grundvelli en þeim þrönga grundvelli sem hún telji sig vera bundna af. Af því sé ljóst að hin stranga túlkun sem byggt sé á, sé bæði ómálefnaleg og ólögleg.

Í öðru lagi sé lagalegri aðferðafræði stofnunarinnar hafnað þar sem Tryggingastofnun ríkisins segi að ákvæðið sé undantekningarheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum.

Tryggingastofnun segi í fyrri hluta sömu greinargerðar að það komi beinlínis fram í textanum að reglugerðarákvæðið eigi einungis við um tekjutengdar greiðslur og segi þar með að fara eigi eftir reglugerðartextanum, eins og stofnunin skilji ákvæðið. Örstuttu síðar segi stofnunin að skýra eigi textann þröngt, þ.e. þrengra en það sem hægt sé að draga af orðalagi textans. Það sé því eins og Tryggingastofnun velji tvær aðferðir við að skýra sama ákvæðið en geti ekki ákveðið hvora leiðina stofnunin ætli að byggja ákvörðun sína á, eða mögulega að það skorti skilning á því hjá stofnuninni hvað þröng lögskýring sé. Til að gæta sanngirni sé á það fallist að Tryggingastofnun sé að beita þröngri lögskýringu í málinu.

Hin rétta aðferðafræði í þessu máli verði að byggjast á því að þar reyni á stjórnarskrárbundinn félagslegan rétt og sé stofnunin þar með bundnar hendur með ákveðnum hætti um það hvernig skýra eigi texta reglugerðarinnar. Stofnunin sé til dæmis bundin því að skýra ákvæði aldrei með þröngum skýringum. Á það sé fallist í greinargerð stofnunarinnar að stofnunin hafi skýrt reglugerðarákvæðið með þröngum hætti, og í ljósi þess verði að hafna niðurstöðu túlkunar stofnunarinnar þá þegar. Í ljósi tilgangsins sem ákvæðið byggi á, sé því hafnað að möguleiki sé á því að skýra ákvæðið þannig að það eigi ekki við um þær greiðslur sem á reyni í þessu máli. Í þessu samhengi verði að hafa í huga að þegar stjórnvald eins og Tryggingastofnun ríkisins standi frammi fyrir möguleika á því að skýra ákvæði með ákveðnum hætti skuli stofnunin velja þann lögskýringarmöguleika sem best samræmist tilgangi ákvæðanna sem unnið sé með.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins geti þar með ekki staðist.

Í athugasemdum við viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. apríl 2020, segir að í lokamálsgrein greinargerðar Tryggingastofnunar komi fram að stofnunin telji sig ekki hafa heimild til þess að fella niður kröfur samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Því sé mótmælt á þremur forsendum. Í fyrsta lagi á þeirri forsendu að allir kröfuhafar geti gefið eftir kröfur sínar. Ríkið geti það líka.

Í öðru lagi á þeirri forsendu að Tryggingastofnun ríkisins vísi ekki til lagaákvæða þegar komist sé að þeirri niðurstöðu að stofnunin hafi ekki slíka heimild.

Í þriðja lagi á þeim grundvelli að lagaákvæði leiði einfaldlega til gagnstæðrar niðurstöðu því að í 2. málsl. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, sbr. 15. gr. laga nr. 88/2015 og 7. gr. laga nr. 120/2009, segi beinlínis:

„Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Af þessu ákvæði sé ekki hægt að ráða annað en að almennar reglur kröfuréttar eigi við um kröfur sem þessar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um niðurfellingu ákvörðunar.

Athygli sé vakin á því að Tryggingastofnun líti svo á að í máli þessu sé eingöngu verið að kæra ákvörðun samráðsnefndar Tryggingastofnunar, dags. 17. október 2019. Réttmæti kröfu Tryggingastofnunar hafi áður verið tekið fyrir hjá úrskurðarnefnd í máli nr. 419/2018 og hjá félagsmálaráðuneytinu með úrskurði nr. 2/2019.

Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar, sem segi að hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig eigi Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi að þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skuli þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildi um dánarbú eftir því sem við eigi.

Um málavexti segir að vísað sé til greinargerðar og gagna Tryggingastofnunar í máli nr. 419/2018.

Tryggingastofnun hafi borist umsókn kæranda um niðurfellingu á kröfunni þann 16. september 2019. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna hafi tekið málið fyrir á fundi og hafi umsókninni verið vísað frá með bréfi, dags. 17. október 2019. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi með tölvupósti og hafi henni verið svarað með tölvupósti, dags. 6. desember 2019.

Um forsendur samráðsnefndarinnar segir að 55. gr. almannatryggingalaga fjalli um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Með ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé veitt heimild til þess að falla frá endurkröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem fram komi í reglugerðinni. Ákvæðið sé undantekningarheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Eins og skýrt og greinilega komi fram í ákvæðinu eigi það eingöngu við um kröfur sem myndist vegna endurreiknings á grundvelli III. kafla reglugerðar nr. 598/2009 en ekki aðrar kröfur.

Umrædd krafa hafi ekki orðið til við endurreikning samkvæmt III. kafla reglugerðar nr. 598/2009 heldur vegna þess að hún hafi ekki uppfyllt tiltekin skilyrði ákveðinna greiðslna, eins og fram komi í máli úrskurðarnefndar nr. 419/2018 og félagsmálaráðuneytis nr. 2/2019. Krafa Tryggingastofnunar gagnvart kæranda falli því ekki undir undanþáguheimild 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Af þeim sökum hafi erindi kæranda verið vísað frá.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins við athugasemdum kæranda, dags. 30. apríl 2020, segir að Tryggingastofnun vilji ítreka það sem áður hafi komið fram um að stofnunin telji sér ekki heimilt að víkja frá skýru orðalagi laga um almannatryggingar. Í 1. mgr. 55. gr. laganna sé tekið fram að hafi Tryggingastofnun ríkisins ofgreitt bætur samkvæmt lögunum skuli þær endurkrefjast. Í 7. mgr. 55. gr. laganna sé veitt heimild til þess að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar, til dæmis um undanþágur frá innheimtu.

Með 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags hafi sú heimild meðal annars verið útfærð. Samkvæmt skýru orðalagi reglugerðarákvæðisins sé eingöngu heimilt að falla frá endurkröfu í þeim tilvikum þar sem endurreikningur samkvæmt III. kafla reglugerðarinnar leiði til ofgreiðslunnar. Orðalag ákvæðisins sé skýrt og afgerandi og sé ekki hægt með neinni lögskýringaraðferð að fella aðrar kröfur stofnunarinnar undir ákvæðið.

Rétt sé að taka sérstaklega fram að hér sé ekki um að ræða kröfu sem hafi myndast við samninga á milli tveggja aðila á „einkamarkaði“. Um sé að ræða bætur sem hafi verið sannarlega ofgreiddar. Því til stuðnings bendir Tryggingastofnun ríkisins á úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 419/2018 og mál félagsmálaráðuneytisins nr. 2/2019. Um sé að ræða opinbert fé og kveðið sé á um skyldu til innheimtu á ofgreiddum bótum í lögum og reglugerðum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá lögum og reglugerðum í störfum sínum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. október 2019, um synjun á beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á tímabilinu 12. júní 2017 til 31. október 2018.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.

Um innheimtu bóta er fjallað í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Svohljóðandi er 1. mgr. ákvæðisins:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Í máli þessu er ekki deilt um réttmæti endurkröfunnar eða fjárhæðir heldur lýtur ágreiningurinn að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu sem hafði myndast vegna ofgreiddra bóta á tímabilinu X 2017 til X 2018.

Kærandi fer fram á að krafa stofnunarinnar á hendur henni verði felld niður. Tryggingastofnun vísaði frá umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Í greinargerð Tryggingastofnunar segir um þá ákvörðun að í samræmi við orðalag 11. gr. reglugerðarinnar sé stofnuninni eingöngu heimilt að fella niður kröfur á grundvelli ákvæðisins sem hafi myndast í kjölfar endurreiknings samkvæmt III. kafla reglugerðarinnar. Stofnuninni sé því ekki heimilt að fella niður kröfu kæranda á grundvelli 11. gr. reglugerðarinnar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindum rökstuðningi Tryggingastofnunar að í reynd hafi umsókn kæranda um niðurfellingu kröfunnar á grundvelli 11. gr. reglugerðarinnar verið synjað en ekki vísað frá, þrátt fyrir að orðalagið hafi verið með þeim hætti í hinni kærðu ákvörðun.

Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 kemur skýrt fram að heimildin geti einungis átt við þegar endurreikningur leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ofgreiðslukrafa á hendur kæranda myndaðist hins vegar ekki við endurreikning heldur vegna þess að kærandi fékk greiðslur frá Tryggingastofnun, án þess að uppfylla skilyrði fyrir greiðslum. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að ekki sé heimilt að fella niður kröfu á hendur kæranda með vísan til 11. gr. reglugerðarinnar.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi fluttist til C þann X 2017. Kærandi tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins ekki um flutning sinn og fjölskyldu þangað, svo sem henni var skylt að gera samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar.

Til stuðnings kröfu sinni um niðurfellingu skulda sinna hjá Tryggingastofnun bendir kærandi á að hún hafi tekið við greiðslum frá Tryggingastofnun í þeirri trú að hún ætti rétt á þeim, enda hafi hún sótt um lögheimilisflutning þegar hún hafi flutt til C. Kemur því til skoðunar hvort rétt sé að fella niður skuld kæranda með vísan til framangreindrar málsástæðu.

Tekið skal fram að af 55. gr. laga um almannatryggingar leiðir meðal annars sú meginregla að Tryggingastofnun ríkisins ber að innheimta ofgreiddar bætur. Af meginreglunni leiðir einnig að stofnunin á endurkröfurétt á hendur bótaþega í samræmi við almennar reglur. Ef móttakandi greiðslu veit eða má vita að greiðandi efnir án eða umfram skyldu, getur greiðandi yfirleitt krafist endurgreiðslu úr hendi móttakanda samkvæmt almennum reglum.

Í gögnum málsins kemur fram að rafrænar tilkynningar bárust Þjóðskrá vegna flutnings sonar kæranda til C, D, dags. X 2017, og vegna flutnings kæranda til C, dags. X 2017. Engar tilkynningar bárust Þjóðskrá vegna hinna barna kæranda. Því var, samkvæmt framkomnum gögnum frá Þjóðskrá, ekki hægt að skrá kæranda og D flutt til C þar sem kærandi hafði ekki tilkynnt til Þjóðskrár hvar og hjá hverjum hin börn hennar ættu að vera skráð. Skráningin hafi því verið sett á bið þar til upplýsingar bærust.

Varðandi þá röksemd kæranda að hún hafi tekið við greiðslum frá Tryggingastofnun í góðri trú lítur úrskurðarnefndin til þess að lögheimili kæranda var ranglega skráð á tímabilinu 12. júní 2017 til 31. október 2018. Kærandi byggir á því að um sé að ræða mistök hjá Þjóðskrá. Að mati úrskurðarnefndarinnar er aftur á móti ekki hægt að líta fram hjá því að kærandi vanrækti skyldu sína til þess að tilkynna Tryggingastofnun um breytingu á aðstæðum sínum svo sem henni var skylt að gera samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar. Því er ekki fallist á að fella niður endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar með vísan til þess að kærandi hafi tekið við greiðslunum í góðri trú.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. október 2019, um að synja umsókn A, um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta