Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 283/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 283/2024

Miðvikudaginn 18. september 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 18. júní 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. mars 2024 þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. janúar 2022 til 31. ágúst 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 2.418.794 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi sótti um niðurfellingu framangreindrar kröfu 14. ágúst 2023. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. október 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að krafan væri réttmæt og að skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki fyrir hendi. Kærandi sótti á ný um niðurfellingu framangreindrar kröfu 7. febrúar 2024. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. mars 2024, var umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta synjað á þeim forsendum að krafan væri réttmæt og að skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki fyrir hendi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. júní 2024. Með bréfi, dags. 3. júlí 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. júlí 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. júlí 2024. Með bréfi, dags. 8. ágúst 2024, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. ágúst 2024. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram sú ósk að felld verði niður ofgreiðslukrafa vegna endurhæfingarlífeyris fyrir árið 2022.

Kærandi hafi á árinu 2022 þegið endurhæfingarlífeyri frá janúar og fram í ágúst vegna langvarandi álags og annara þátta, hún hafi einnig verið hjá VIRK. Í júní hafi verið í farvatninu að kærandi fengi greiddan arf/söluhagnað vegna jarðarhluta sem hún hafi átt erfðahlut í. Kærandi hafi haft samband við umboð Tryggingastofnunar ríkisins til að athuga hvort þessi tilvonandi greiðsla myndi hafa einhver áhrif á greiðslur hennar frá stofnuninni. Henni hafi henni verið tjáð að svo væri ekki og ef það yrði þá yrði það e.t.v. bara fyrir tímabilið sem hún væri á bótum eftir að peningarnir kæmu inn, það er hálfan júlí og ágúst. Þess megi geta að kærandi hafi fengið síðustu greiðslu frá Tryggingastofnun 1. ágúst 2023. Með þessar upplýsingar hafi kærandi gefið grænt ljós á að peningur yrði millifærður á hennar reikning.

Af þeirri upphæð sem kærandi hafi fengið greidda inn á hennar reikning hafi hún borgað vel yfir tvær milljónir króna í skatt. Afganginn hafi hún notað til að borga skuldir og niður húsnæðislán, svo hún gæti tryggt sér og langveikum syni sínum öruggt framtíðar húsaskjól.

Kærandi hafi alla tíð verið einstæð með langveikan dreng. Hún hafi ekki getað unnið fulla vinnu vegna veikinda hans og endurtekinna innlagna á spítala. Kærandi hafi þurft að stofna til skulda hjá bankanum þar sem laun hennar hafi ekki dugað til að framfleyta þeim. Hver mánuður geti orðið mjög fjárfrekur en það fari eftir líðan drengsins og hans þjónustu sem hún hafi oft þurft að sækja […]. Greiðslan sem hún hafi fengið fyrir sinn hlut í jörðinni hafi farið í að borga skuldir og húsnæðislán. Það hafi ekki breytt því að staða kæranda sé sú að hún geti enn ekki unnið fulla vinnu vegna heimilisaðstæðna og þurfi að borga sífellt hækkandi kostnað sem það kosti að halda heimili og sem því fylgi að vera með þak yfir höfuðið.

Kærandi hafi fengið rúmlega 2.418.794 kr. rukkun frá Tryggingastofnun og henni bjóðist að greiða um 40.000 kr. næstu 60 mánuði. Kærandi hafi að sjálfsögu ekki verið sátt og eftir að hafa leitað eftir svörum við þessu hafi hún þurft að borga til baka alla mánuðina sem hún hafi verið á bótum, en ekki einungis tvo mánuði líkt og starfsmaður Tryggingastofnunar hafi áður fullyrt. Það hafi komið á daginn að kærandi hafi ekkert getað gert nema borga þetta til baka og þarna hafi verið kominn óvæntur kostnaður og það ekki lítill ofan á þann kostnað sem hún hafi verið með fyrir.

Tekið sé skýrt fram að ef kærandi hefði fengið réttar upplýsingar, þá hefði hún aldrei látið millifæra þessa upphæð af sölunni inn á sinn reikning, þar sem það hafi í raun ekki skipt hana máli að fá fjárhæðina í janúar 2023.

Tryggingastofnun hafi synjað kæranda þar sem hún hafi ekki verið talin hafa sýnt fram á nægilega fjárhagslega eða félagslega þörf fyrir niðurfellingu. Þarna hafi krafan verið komin til sýslumanns þar sem hún hafi ákveðið að bíða með að borga þar til niðurstaða kæmi, enda hefði hún ekki 40.000 kr. til að greiða þetta mánaðarlega. Þess megi geta að sýslumaður hafi verið tilbúinn að semja um mánaðarlega greiðslur miða við hvað hún treysti sér að borga, því hann vildi frekar að fólk myndi borga en borga ekki. Þegar starfsmaður Tryggingastofnunar hafi heyrt þetta hafi stofnunin afturkallað kröfuna frá sýslumanni og hafi boðið henni að borga 28.796 kr. á mánuði. Þarna sé kærandi komin í þá stöðu að geta ekkert gert nema borga, þó svo að aðrir hlutir þyrftu að sitja á hakanum.

Það hafi komið í ljós að eitthvað hafi misfarist og gögn hafi ekki borist með fyrri umsókn um niðurfellingu og því hafi kærandi fengið að senda aftur inn umsókn. Þá hafi hún passað að öll gögn skiluðu sér, kvittanir fyrir skuldbindingum, afrit gagna þegar jarðarhluturinn hafi verið seldur, innkoma og fleira, í von um að fá ekki sömu niðurstöðu. Niðurstaða Tryggingastofnunar hafi verið sú sama og kærandi sé aftur komin í þá stöðu að geta ekkert gert nema borga, sem komi niður á lífsgæðum mæðginanna.

Kærandi geti ekki unnið fulla vinnu eins og greint hafi verið frá, sonur hennar þurfi utanumhald og stuðning, hann sé að kljást við ýmsar áskoranir sem jafnaldrar hans þurfi ekki að kljást við. […]

Kærandi sé ómenntuð og hafi ávallt verið í láglaunastörfum, hún hafi klesst á vegg og hafi leitað til VIRK vegna langvarandi álags og streitu. Hún hafi verið hvött til að fara á örorku en hafi ekki gert það fyrr en í fulla hnefana. Kærandi verði aftur á móti að geta séð sér og sínum farborða og eins og staðan sé í dag þá líti það ekki vel út. Kærandi óski eftir að Tryggingstofnun felli niður skuldina vegna fjárhags- og félagslegra aðstæðna.

Kærandi sé með meira en ein eina milljón í yfirdrátt, sem hún borgi á bilinu 15.-20.000 kr. af á mánuði. Matur sé um 80.000 kr. á mánuði, lyf fyrir soninn sé um 5.000 kr. á mánuði. Eldsneytiskostnaðar sé mikill þar sem að hún þurfi að keyra mikið og oft langar leiðir vegna sonarins og það sé því um 60.000 kr. á mánuði. Kostnaður vegna viðhalds bílsins sé oft um 25. til 30.000 kr. á mánuði. Kærandi hafi ekki sterkt bakland eða möguleika á að drýgja tekjur sínar vegna aðstæðna heima.

Kærandi borgi um 306.517 kr. á mánuði í fastan kostnað með bensíni og mat en þá sé eftir að kaupa aðrar nauðsynjar sem geti verið rokkandi milli mánaða. Kærandi voni að tekið verði jákvætt í bón hennar, 29.000 kr. næstu 60 mánuði muni suma ekki um á mánuði en sannarlega skipti það sköpum fyrir þau mæðginin.

Í athugasemdum, dags. 8. ágúst 2024, segir að kærandi hafi þegið endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun frá 1. janúar til 31. ágúst árið 2022. Staðgreiðsluskrá fyrir árið 2022 sýni að kærandi hafi fengið 1.424.893 frá Atvinnuleysistryggingasjóði og að fyrsta greiðsla hafi verið 1. september 2022 eða mánuðinn eftir að endurhæfingu hennar hafi lokið og hafi þær tekjur því ekki áhrif á rétt hennar eins og fram komi í greinargerð stofnunarinnar.

Kærandi hafi, ásamt systkinum sínum, fengið fyrirframgreiddan arf[…]. Umræddur arfur skýri það misræmi sem sé á milli tekjuáætlunar og fjármagnstekna í skattframtali vegna ársins 2022.

Kærandi hafi gert kaupsamning og afsal […]. Kærandi hafi 5. júlí 2022 fengið í sinn hlut greiddar 25.000.000 kr. Af þessari sölu hafi kæranda reiknast 7.436.235 kr. í formi söluhagnaðar og hafi kærandi fengið greiddar 54.639 kr. í formi vaxta af þeirri innistæðu.

Þó svo að lög um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags leggi þá skyldu á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur þá telji kærandi að sú undantekning í 11. gr. reglugerðarinnar eigi við í þessu tilviki.

Fyrir söluna hafi kærandi leitað símleiðis til Tryggingastofnunar til að fullvissa sig um að framangreind sala hefði ekki áhrif á bótarétt hennar og hafi henni verið tjáð að svo myndi ekki vera nema mögulega á þær bótagreiðslur sem hún fengi eftir þann tíma sem greiðslan færi fram sem hafi verið 5. júlí 2022.

Kærandi sé einstæð móðir langveiks sonar með fjölþættar áskoranir. […]. Kærandi þurfi oft að leita þeirrar nauðsynlegu þjónustu sem fylgi því að eiga langveikt barn út fyrir sitt bæjarfélag með tilheyrandi kostnaði. Kærandi sé enn þann dag í dag í þeirri stöðu að hún sé undir langvarandi álagi sem fylgi því að vera einstæð móðir með langveikt barn, hafi upplifað mörg áföll í gegnum tíðina og ljóst sé að lítið þurfi til þess að hún missi aftur starfsgetu sína.

Kærandi þurfi ein að bera allan kostnað sem fylgi heimilishaldi og laun hennar rétt dugi fyrir mánaðarlegum afborgunum og framfærslu og megi því lítið út af bera til þess að fjárhagurinn fari á hlið. Þær meðaltekjur sem Tryggingastofnun hafi reiknað á kæranda gefi engan vegin rétta mynd af hennar tekjum og geri kærandi athugasemd við þann útreikning. Eins og staðgreiðsluskrá sýni þá séu meðal mánaðartekjur kæranda fyrir skatt einungis 492.755 kr. á mánuði það sem liðið sé af árinu 2024 og einungis 423.206 kr. á mánuði árið 2023.

Kærandi hafi ætíð verið einstæð móðir og fái engan stuðning frá föður fyrir utan lögbundið meðlag og annan kostnað sem honum beri lögum samkvæmt að greiða.

Veikindi sonar kæranda hafi haft töluverð áhrif á bæði heilsu kæranda og sonar hennar. Drengurinn þurfi mikla aðstoð og þjálfun sem kærandi hafi ítrekað þurft að leita eftir utan hennar sveitafélags ásamt fjölmörgum bráðatilvikum […] til Reykjavíkur. Kærandi hafi þurft að standa straum af þeim kostnaði sem þessu hafi fylgt eins og flugi, uppihaldi, húsnæði og lyfjakaupum svo ekki sé minnst á vinnutapið.

Einnig hafi kærandi oft á tíðum þurft að berjast fyrir því að drengurinn fái þá þjónustu sem honum sé nauðsynleg með tilheyrandi álagi á andlega heilsu hennar.

Kærandi hafi þurft að dveljast vikum saman utan síns sveitafélags vegna sjúkrahúsdvalar drengsins í Reykjavík sem hafi haft verulegar slæmar afleiðingar á félagslíf drengsins. […] Þegar kæranda hafi hlotnast fyrirframgreiddur arfur og söluhagnaður vegna hans þá hafi það verið sem himnasending fyrir hana og hún hafi náð að losa sig úr þeim skuldum sem hafi hlaðist upp. Þrátt fyrir fenginn arf hafi kærandi þurft að stofna til skulda og hún nái ekki endum saman.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, dags. 18. mars 2024. Ofgreiðslan hafi myndast vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022.

Í þágildandi lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007 hafi sagt að um endurhæfingarlífeyri giltu ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Auk þess hafi sagt að um aðrar tengdar bætur færi eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þágildandi laga.

Um útreikning örorkulífeyris hafi verið fjallað í III. kafla þágildandi laga um almannatryggingar. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skuli standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars endurhæfingarlífeyris. Í 2. mgr. hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og frádráttarliða samkvæmt. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Þar á meðal séu fjármagnstekjur á borð við vexti og verðbætur og söluhagnað.

Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi örorkulífeyrir lækkað um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn félli niður. Sama hafi gilt um aldurstengda örorkuuppbót og tekjutryggingu, sbr. 1. mgr. 21. gr. og 3. mgr. 22. gr. þágildandi laga.

Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja 1/12 af áætluðum tekjum greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Þá hafi sagt að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi byggjast meðal annars á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna þar sem hafi sagt að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Í 6. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi komið fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skyldi Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009.

Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar hafi farið um það samkvæmt 55. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Í ákvæðinu sé Tryggingastofnun skylduð til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndast við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Kærandi hafi þegið endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá 1. janúar til 31. ágúst 2022.

Kæranda hafi verið send tillaga að tekjuáætlun fyrir árið 2022 með bréfum, dags. 28. janúar 2022. Þar hafi verið áætlað að kærandi kæmi til með að hafa 5.112 kr. í fjármagnstekjur á árinu. Kæranda hafi einnig verið bent á að það væri á hennar ábyrgð að upplýsingar á tekjuáætlun væru réttar og að mikilvægt væri að upplýsa stofnunina um allar breytingar á hennar tekjum yfir árið. Kærandi hafi fengið greiddar tekjutengdar greiðslur á grundvelli þeirrar tekjuáætlunar allt árið 2022.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur kæranda á árinu 2022 hafi legið fyrir hafi komið í ljós að tekjur hennar hefðu verið 1.424.893 kr. í atvinnutekjur í formi atvinnuleysisbóta og 7.490.874 kr. í fjármagnstekjur. Af fjármagnstekjunum hafi 7.436.235 kr. verið í formi söluhagnaðar og 54.639 kr. í formi vaxta af innistæðum. Kærandi hafi hins vegar þegið atvinnutekjur eftir að greiðslum endurhæfingarlífeyris hafi lokið 31. ágúst 2022. Þær hafi því ekki haft áhrif á rétt hennar, sbr. a-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Samkvæmt b-lið sömu málsgreinar skulu meðal annars fjármagnstekjur hafa áhrif á endurreikning í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem réttur til bóta hafi verið fyrir hendi í. Fjármagnstekjur kæranda sem hafi komið til skerðingar hafi því verið 4.993.912 kr. á tímabilinu. Áætlað hafi verið að kærandi hefði 3.408 kr. í fjármagnstekjur á tímabilinu. Samkvæmt því hafi fjármagnstekjur verið vanáætlaðar á áðurnefndri tekjuáætlun og hafi kærandi fengið samkvæmt endurreikningi 2.418.794 kr. í ofgreiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2022, að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kæranda hafi verið tilkynnt um niðurstöðu endurreikningsins með bréfi, dags. 23. maí 2023.

Kæranda hafi verið veittur frestur til 15. ágúst 2023 til að andmæla endurreikningnum og hafi verið tilkynnt að ef engin andmæli bærust teldist uppgjöri ársins 2022 lokið og að innheimta 2.418.794 kr. skuldar myndi hefjast 1. september 2023. Engin formleg andmæli hafi borist frá kæranda. Kæranda hafi verið birt innheimtubréf, dags. 8. ágúst 2023.

Kærandi hafi sótt um niðurfellingu ofgreiðslukröfu með umsókn, dags. 14. ágúst 2023. Með bréfi, dags. 27. október 2023, hafi umsókn kæranda verið synjað. Þann 31. október 2023 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi fyrir synjuninni sem hafi verið veittur með bréfi, dags. 29. nóvember 2023.

Kærandi hafi sótt á ný um niðurfellingu ofgreiðslukröfu með umsókn, dags. 7. febrúar 2024, sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 18. mars 2024, og sé sú ákvörðun kærð í máli þessu.

Í 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og tiltekinna frádráttarliða í 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga eða takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í þessu ákvæði hafi því verið tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun skyldi miða útreikning og endurreikning bóta og jafnframt hafi verið tilgreindar þær undantekningar sem stofnuninni hafi borið að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar hafi verið lagðar 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins í samræmi við 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Tekjurnar hafi verið áætlaðar á grundvelli upplýsinga um tekjur kæranda á fyrri árum. Tryggingastofnun hafi upplýst kæranda um forsendur bótaútreikningsins, minnt á skyldu hans til að tilkynna stofnunni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á greiðslur til og hafi gefið henni kost á að koma að athugasemdum með bréfum, dags. 28. janúar 2022, sbr. 9. mgr. 16. gr. þágildandi laga. Auk þess hafi kærandi verið upplýst um afleiðingar þess að tekjur væru vanáætlaðar á tekjuáætlun.

Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda sé Tryggingastofnun skylt að endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli endanlegra upplýsinga um tekjur greiðsluþega á árinu sem liggi þá fyrir, sbr. 6. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Hafi Tryggingastofnun ofgreitt bætur til greiðsluþega sé stofnuninni einnig skylt að endurkrefja það sem ofgreitt hafi verið í samræmi við 55. gr. þágildandi laga. Meginreglan hafi verið sú að ef tekjur sem lagðar hafi verið til grundvallar endurreikningi hafi reynst hærri en tekjuáætlun hefði gert ráð fyrir og ofgreiðsla hafi stafað af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður þá skyldi sú ofgreiðsla endurkrafin. Skipti þá ekki máli hvort greiðsluþegi hafi getað séð fyrir þessa tekjuaukningu eða breyttu aðstæður. Samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum hafi fjármagnstekjur kæranda verið vanáætlaðar á tekjuáætlun fyrir árið 2022. Sú vanáætlun hafi leitt til ofgreiðslu um 2.418.794 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Í 55. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd velferðarmála og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slík skuli skýra það þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Umdeild krafa hafi orðið til við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2022. Krafan sé réttmæt. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs. Eins og gögn málsins beri með sér sé ljóst að ástæða ofgreiðslunnar hafi verið röng tekjuáætlun. Í þessu tilfelli hafi helst verið um að ræða vanáætlun fjármagnstekna. Lífeyrisþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. þágildandi laga. Engar breytingar hafi verið gerðar á upprunalegri tekjuáætlun frá 28. janúar 2022 af hálfu kæranda. Kæranda hafi mátt vera ljóst að fjármagnstekjur hefðu áhrif á réttindi hennar til lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Þrátt fyrir það telji Tryggingastofnun ekki útilokað að kærandi hafi verið í góðri trú í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 þar sem óvíst sé að kærandi hafi áttað sig á áhrifum tekna hennar í formi söluhagnaðar, vegna sölu á hlutum í fasteignum sem kærandi hafi erft, á endurhæfingarlífeyrisgreiðslur á árinu. Það leiði eitt og sér aftur á móti ekki sjálfkrafa til þess að krafan sé felld niður heldur þurfi að meta aðstæður kæranda heildstætt með hliðsjón af öllum þeim atriðum sem tilgreind séu í 11. gr. reglugerðarinnar.

Í umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu komi fram að ástæða beiðninnar sé meðal annars sú að hún hafi verið í góðri trú um að tekjur hennar hafi verið rétt áætlaðar og þar af leiðandi líka um greiðslurétt sinn. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar hafi þó einnig litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna kæranda í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Samráðsnefnd hafi metið aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hafi aðgang að, meðal annars hafi verið horft til eignastöðu kæranda og tekna. Hvað varði fjárhagslegar aðstæður hafi meðaltekjur kæranda árið 2020 verið 626.940 kr. á mánuði samkvæmt skattframtali. Árið 2021 hafi meðaltekjur kæranda hafi verið 605.349 kr. á mánuði samkvæmt skattframtali. Að frátöldum greiðslum Tryggingastofnunar hafi kærandi verið með 742.980 kr. í meðaltekjur á mánuði árið 2022. Hluti þessara tekna hafi komið til vegna söluhagnaðar að fjárhæð 7.436.235 kr. á hlutum í tveimur fasteignum. Af kaupsamningi og afsali sem liggi fyrir megi ráða að þessi söluhagnaður hafi myndast af 25.000.000 kr. greiðslu sem kærandi hafi fengið í formi kaupverðs á hlutum hennar í áðurnefndum fasteignum. Auk þess hafi heildargreiðslur kæranda á árinu 2022 frá Tryggingastofnun verið 4.489.861 kr. Af þeim hafi verið 1.459.104 kr. óskattskyldar. Árið 2023 hafi meðaltekjur kæranda verið 461.643 kr. á mánuði Þá verði ráðið af gögnum málsins að eignastaða kæranda hafi verið vel umfram skuldir í lok árs 2023. Samkvæmt þessum upplýsingum hafi Tryggingastofnun talið að fjárhagslegar aðstæður kæranda væru slíkar að geta til endurgreiðslu væri til staðar. Einnig hafi verið horft til þess hvernig krafan hafi verið tilkomin. Félagslegar aðstæður kæranda hafi ekki verið taldar takmarka getu kæranda til endurgreiðslu þannig að um alveg sérstakar aðstæður væru að ræða.

Tryggingastofnun hafi þó talið rétt að koma til móts við kæranda með því að dreifa eftirstöðvum kröfunnar á 84 mánuði frá 1. apríl 2024 til 1. mars 2031, svo mánaðarleg greiðslubyrði kæranda af kröfunni væri sem minnst, en að jafnaði sé gert ráð fyrir að kröfur séu greiddar upp á 12 mánuðum, sbr. 3. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Endurgreiðslan verði þar að auki vaxtalaus ef kærandi standi við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningi um greiðsludreifingu, sbr. 3. mgr. 34. gr. laga um almannatryggingar. Þegar þetta sé skrifað standi krafan í 2.303.614 kr. og greiði kærandi 28.795 kr. á mánuði. Með hliðsjón af framangreindu hafi Tryggingastofnun talið að geta kæranda til endurgreiðslu eftirstöðva krafna hafi verið hendi. Skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um sérstakar aðstæður hafi það hins vegar ekki verið uppfyllt.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gilda um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta sem og innheimtu ofgreiddra bóta.

Tryggingastofnun fari því fram á að kærð ákvörðun stofnunarinnar frá 18. mars 2024 um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. mars 2024, um að synja beiðni kæranda niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta ársins 2022.

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 48. gr. laga um almannatryggingar.

Í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð kemur fram að fjárhæð endurhæfingarlífeyris skuli lækka um 9% af eigin tekjum lífeyrisþega, sbr. 30. gr. laga um almannatryggingar, uns greiðslur falla niður. Í 30. gr. og 33. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 3. mgr. 33. gr. laganna segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá 1. janúar til 31. ágúst 2022. Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2022, með bréfi, dags. 23. maí 2023. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hennar hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 2.418.794 kr. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að fjármagnstekjur voru ekki í samræmi við tekjuáætlun ársins.

Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni ber að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 34. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hún tók við hinum ofgreiddu bótum.

Í máli þessu lýtur ágreiningurinn að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfum sem höfðu myndast vegna ofgreiddra bóta ársins 2022.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að tekjutengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 1. mgr. 47. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Samkvæmt gögnum málsins má rekja kröfu vegna tekjuársins 2022 til vanáætlaðra fjármagnstekna. Heldur kærandi því fram að hún hafi verið í góðri trú þegar hún tók við hinum ofgreiddu bótum og telur Tryggingastofnun ekki útilokað að svo hafi verið. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir það eitt og sér aftur á móti ekki sjálfkrafa til þess að krafan sé felld niður heldur þurfi að meta aðstæður kæranda heildstætt með hliðsjón af öllum þeim atriðum sem tilgreind eru í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kemur þá til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar. Í beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu kemur fram að ástæða beiðninnar sé sú að á árinu 2022 hafi kærandi fengið greiddan arf vegna sölu eignar, hún hafi talað við starfsmann Tryggingastofnunar sem hafi sagt að þessar greiðslur ættu ekki að hafa mikil áhrif á réttindi hennar hjá stofnuninni. Kærandi hafi sótt um félagslega aðstoð hjá sveitarfélagi en umsókn hafi verið synjað vegna of hárra tekna. Úrskurðarnefndin telur ljóst að félagslegar aðstæður kæranda séu nokkuð bágbornar sökum veikinda sonar hennar. Hvað varðar tekjur voru meðaltekjur kæranda fyrstu sjö mánuðina á árinu 2024 samkvæmt staðgreiðsluskrá 500.998 kr. Meðaltekjur kæranda á árinu 2023 voru samkvæmt staðgreiðsluskrá 423.206 kr. á mánuði. Þá verður ráðið af gögnum málsins að eignir kæranda hafi verið umtalsverðar og skuldir óverulegar á árinu 2023. Jafnframt lítur úrskurðarnefndin til þess að Tryggingastofnun hefur dreift eftirstöðvum kröfunnar á 84 mánuði í stað þess að kærandi þurfi að endurgreiða ofgreiðslukröfuna á 12 mánuðum, eins og meginregla 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar kveður á um, þannig að mánaðarleg greiðslubyrði af kröfunni nemur 28.795 kr. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefndin að geta til endurgreiðslu sé fyrir hendi. Einnig lítur nefndin til þess að samkvæmt meginreglu 1. mgr. 34. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. mars 2024 um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta