Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 552/2021 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 552/2021

Miðvikudaginn 19. janúar 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 25. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. júlí 2021 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. júlí 2021, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2020 hafi leitt í ljós vangreiddar bætur að fjárhæð 1.787.788 kr., að teknu tilli til staðgreiðslu skatta. Í bréfinu kom fram að framangreindri inneign hefði verið ráðstafað til að lækka eldri skuldir kæranda við Tryggingastofnun. Með tölvubréfi 16. júlí 2021 andmælti kærandi framangreindri ráðstöfun vangreiddra bóta og skattalegri meðhöndlun stofnunarinnar og var þeim andmælum svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. desember 2021. Í millitíðinni var framangreindur endurreikningur kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála, kærumál nr. 377/2021, en kæra var afturkölluð þar sem erindi kæranda var enn til meðferðar hjá Tryggingastofnun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. október 2021. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 9. desember 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. desember 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvubréfi 4. janúar 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 10. janúar 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að í júlí 2021 hafi hann kært ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins til úrskurðarnefndarinnar, kærumál nr. 377/2021. Stofnunin hafi enn ekki afgreitt andmæli kæranda sem varði þá ákvörðun að eingreiðsla stofnunarinnar hafi leitt til greiðslu hátekjuskatts. Eins og komi skýrt fram í andmælum kæranda vilji hann meina að Tryggingastofnun hefði átt að dreifa eingreiðslunni niður á alla mánuði ársins en þannig hefði hann ekki þurft að greiða hátekjuskatt. Kærandi eigi ekki að þurfa að reka málið hjá Skattinum varðandi þetta atriði. Málið varði árin 2020 og 2021.

Undanfarin ár hafi kærandi ekki getað talið fram vegna ofsakvíða og hræðslu við hið opinbera en verið sé að aðstoða hann með að vinda ofan af því. Tryggingastofnun hafi svo gert framangreint og sagt kæranda að fara til Skattsins til að fá leiðréttingu en það muni aldrei ganga út af áætlunum. Sama sé að segja með það sem Tryggingastofnun taki af honum upp í eldri skuld, það komi til vegna áætlana en það ætti að vera komið í lag síðar í næsta mánuði.

Engu að síður ætlist kærandi til þess að Tryggingastofnun lagi oftekna skatta, hann eigi nóg með að sjá um leiðréttingar á öðrum stöðum. Stofnuninni sé ekki heimilt að taka allt af kæranda upp í eldri skuld, nema fyrir liggi samningur á milli hans og stofnunarinnar.

Málsmeðferð stofnunarinnar sé ekki boðleg, hluti af þessu sé þó kæranda að kenna en aðstæður hans hafi bara verið þannig. Að mati kæranda eigi hann ekki að sitja uppi með „svartapétur“, hann sé þó að vinna í sínum málum og skattyfirvöld hafi reynst honum mjög vel. Það hljóti að vera allra hagur að þessi mál séu í lagi.

Kærandi óski þess að nefndin taki mál hans upp og að Tryggingastofnun geri upp við hann í samræmi við það sem hafi komið fram í andmælum hans. Varðandi uppgjör 2021 þá sé sama sagan þar varðandi hátekjuskattinn en andmælum kæranda hafi ekki verið svarað vegna þess.

Í athugasemdum kæranda frá 4. janúar 2022 upplýsir kærandi að hann hafi ekki fengið leiðréttingu þá sem Tryggingastofnun hafi lofað honum vegna oftekinna skatta.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé meðferð stofnunarinnar á staðgreiðslu skatta og sú ákvörðun, dags. 9. júlí 2021, að skuldajafna inneign sem hafi myndast við uppgjör ársins 2020 á móti kröfum sem hafi myndast við uppgjör áranna 2015 og 2016. Ekki sé ágreiningur um útreikning bótagreiðslna fyrir árið 2020.

Kæruefnið sé að mestu það sama og í fyrri kæru kæranda, kærumál nr. 377/2021, en hann geri þó einnig athugasemd við að staðgreiðsla skatta hafi verið of há vegna breytinga á réttindum hans á árinu 2021 vegna breytinga á tekjuáætlun.

Tryggingastofnun sé skylt að endurreikna bótafjárhæðir viðkomandi bótaárs þegar endanlegar upplýsingar um tekjur þess liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Komi í ljós við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna, sbr. 8. mgr. 16. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar beri Tryggingastofnun skylda til að draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. ákvæðisins, hafi stofnunin eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum. Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum. Sambærilegt ákvæði sé í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Um tilhögun staðgreiðslu opinberra gjalda sé kveðið á um í lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, þá einkum II. og III. kafla.

Tryggingastofnun hafi þann 16. september 2021 sent upplýsingar á Skattinn vegna breytinga á réttindum kæranda í kjölfar uppgjörs árins 2020. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum eigi, nú í desember, að vera búið að ljúka endurupptöku á álagningu ársins 2020 vegna þess. Aðkomu Tryggingastofnunar að málum tengdum staðgreiðslu skatta vegna ársins 2020 ætti því að vera að fullu lokið.

Hvað varði leiðréttingu á staðgreiðslu skatta vegna breytinga sem hafi orðið á réttindum kæranda á árinu 2021 í kjölfar breytinga á tekjuáætlunum sé verið að vinna í því að leiðrétta staðgreiðslu þess árs. Vegna tæknilegra vandkvæða hafi sú leiðrétting tekið lengri tíma en áætlað hafi verið, en kærandi megi gera ráð fyrir því að leiðrétting verði framkvæmd á næstu dögum. Kærandi muni fá tilkynningu þegar þeirri leiðréttingu sé lokið.

Varðandi ráðstöfun inneignar hafi við uppgjör ársins 2020 myndast inneign að fjárhæð 1.787.788 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta, sem hafi verið ráðstafað inn á eldri kröfur kæranda sem útistandandi séu á hendur honum hjá stofnuninni vegna áranna 2015 og 2016.

Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar sé Tryggingastofnun skylt að draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til. Undantekning frá þessu komi einkum fram í 2. mgr. og 2. málsl. 3. mgr. 55. gr. laganna en síðara ákvæðið kveði á um að ekki sé heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, nema samið sé um annað, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla sé endurgreidd að fullu. Það ákvæði eigi hins vegar aðeins við um mánaðarlegar greiðslur til bótaþega en ekki inneignir sem hafi myndast við uppgjör. Stofnuninni sé því skylt að draga inneignir í uppgjörum upp í útistandandi kröfur, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 55. gr laganna. Skilyrði 2. mgr. 55. gr. séu talin uppfyllt þar sem um tekjutengda ofgreiðslu og tekjutengda vangreiðslu sé að ræða.

Þessi framkvæmd hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd velferðarmála, meðal annars í kærumáli nr. 369/2021.

Rétt sé að taka fram að til viðbótar skyldu Tryggingastofnunar til þess að draga inneignir í uppgjörum upp í útistandandi kröfur hafi stofnunin endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Það sé meginregla í íslenskum kröfurétti að heimilt sé að skuldajafna kröfum séu þær sömu rót runnar, hæfar til að mætast og gjaldfallnar. Í þessu máli hafi öll þau skilyrði verið uppfyllt.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um endurreikning tekjutengdra bóta og innheimtu krafna vegna ofgreiddra bóta. Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. júlí 2021, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er greint frá skyldu Tryggingastofnunar til að endurreikna bótafjárhæðir viðkomandi bótaárs þegar endanlegar upplýsingar um tekjur þess liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda. Í 8. mgr. sömu greinar er vísað til þess að ef í ljós komi við endurreikning að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. Svohljóðandi eru 1., 2. og. 3. mgr. ákvæðisins:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr.

Ofgreiddar bætur skal að jafnaði draga frá greiðslum til bótaþega á næstu 12 mánuðum eftir að krafa stofnast. Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, nema samið sé um annað, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu. Hafi endurkrafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd á 12 mánuðum frá því að krafa stofnaðist skal greiða 5,5% ársvexti á eftirstöðvar kröfunnar. Heimilt er að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu ofgreiddra bóta liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum.“

Samkvæmt gögnum málsins voru fyrirliggjandi tekjuforsendur ársins 2020 vegna greiðslna örorkulífeyris og tengdra greiðslna ekki réttar. Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins kom í ljós samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda að tekjur kæranda voru lægri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun ársins. Niðurstaða endurreiknings vegna ársins 2020 leiddi í ljós vangreiðslu að fjárhæð 1.787.788 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu, sem var greidd inn á eldri skuldir, þ.e. uppgjörskröfur kæranda við stofnunina vegna tekjuáranna 2015 og 2016.

Í málinu er deilt um þá ákvörðun Tryggingastofnunar að láta inneign kæranda sem myndaðist við endurreikning ársins 2020 ganga upp í eldri kröfur. Í 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í 2. mgr. 55. gr. segir að ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögunum séu ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skuli það sem ofgreitt sé dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlist rétt til. Þetta eigi eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli séu hærri en lagt hafi verið til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr. laganna. Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af framangreindu að Tryggingastofnun beri almennt að skuldajafna inneignum úr uppgjörum upp í útistandandi kröfur sem hafa myndast við uppgjör. Að mati úrskurðarnefndar er ekkert í gögnum málsins sem gefur tilefni til að ætla að slíkt hafi verið óheimilt í tilviki kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar um að skuldajafna inneign sem myndaðist við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 upp í eldri skuldir.

Í kæru er jafnframt gerð athugasemd við skattalega meðhöndlun greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu.

Ákvörðun um skattalega meðhöndlun greiðslna kæranda frá Tryggingastofnun var ekki tekin á grundvelli laga um almannatryggingar. Ágreiningsefnið á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu verður framangreint ágreiningsefni ekki tekið til skoðunar í málinu. Bent er á að um er að ræða ágreiningsefni sem fellur undir valdsvið skattyfirvalda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skuldajafna inneign sem myndaðist við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 upp í eldri kröfur A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta