Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 405/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 405/2022

Miðvikudaginn 19. október 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 9. ágúst 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. júlí 2022 þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. maí 2020 til 31. apríl 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 465.386 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. maí 2022, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta 2021 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 325.571 kr. Kæranda var tilkynnt um nýjan endurreikning með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. júní 2022, og var niðurstaðan sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 255.366 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi sótti um niðurfellingu framangreindrar ofgreiðslukröfu með tölvupósti 21. júlí 2022 vegna erfiðra fjárhagsaðstæðna. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. júlí 2022, var umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. ágúst 2022. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. ágúst 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi fari fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja henni um niðurfellingu ofgreiðslukröfu verði endurskoðuð.

Ástæðan fyrir beiðni kæranda sé sú að bakreikningar frá Tryggingastofnun séu vegna útgreiðslu starfslokasamnings frá fyrrverandi vinnustað sem kærandi hafi unnið á áður en hún hafi farið á endurhæfingarlífeyri vegna veikinda. Sú greiðsla komi Tryggingastofnun ekkert við, enda um laun/orlofsgreiðslur að ræða sem kærandi hafi átt inni áður en hún hafi byrjað að þiggja greiðslur frá stofnuninni. Kærandi hafi hætt störfum í janúar 2019 og hafi byrjaði á endurhæfingarlífeyri vorið 2020 en vegna starfslokagreiðslna frá árinu áður hafi endurhæfingarlífeyririnn verið skertur verulega. Það hafi verið mjög mikið áfall fyrir kæranda að greiðslan vegna starfsloka hafi verið miðuð við árið 2020 því að með réttu hafi átt að miða við árið 2019. Fyrir utan það hafi Tryggingastofnun sent bakreikning vegna atvinnuleysisbóta sem hún hafi alls ekki gert sér grein fyrir að myndu koma í hausinn á henni.

Fjárhagsleg staða kæranda hafi verið slæm og sé að versna heilmikið þar sem hún standi í skilnaði. Einnig megi bæta því við að greiðslan vegna starfslokasamningsins hafi einmitt farið beint í skuldafen sem hafi safnast upp eftir að hún hafi misst starf sitt. Kærandi sjái ekki einu sinni fram á að geta greitt reikninga um næstu mánaðamót.

Í marga mánuði hafi kærandi staðið í bréfaskiptum við Tryggingastofnun, hún hafi sótt um niðurfellingu sem henni hafi verið gefin von um en þeirri beiðni hafi verið synjað. Það þýði lítið fyrir kæranda að tala við stofnunina, en þetta sé eins ósanngjarnt og hugsast geti. Fyrir utan það finnist kæranda þetta hræðileg framkoma að koma með þessa bakreikninga þegar hún sé að safna kröftum og reyna að byggja sig upp til þess að koma lífi sínu aftur á réttan kjöl.

Kærandi sé ekki sammála Tryggingastofnun um að 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður séu ekki fyrir hendi. Stofnunin hafi fengið yfirlit yfir fjárhagsstöðu, yfirdráttarheimildir, kortaskuldir og fleiri skuldir en nú bætist við fjárhagslegt áfall vegna skilnaðar.

Framangreind niðurstaða sé því kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn kæranda um niðurfellingu á ofgreiðslukröfum sem hafi myndst í kjölfar uppgjöra tekjuáranna 2020 og 2021.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar, sem sé svohljóðandi: „Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndast við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi: „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Kröfur þær sem deilt sé um í þessu máli séu tilkomnar vegna uppgjörs tekjuáranna 2020 og 2021.

Á árinu 2020 hafi kærandi verið með endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá 1. maí til 31. desember 2020. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins, sem hafi verið tilkynnt kæranda þann 18. ágúst 2021, hafi leitt til 465.386 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og afskriftar kröfu að hluta. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2021 vegna tekjuársins 2020, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi andmælt framangreindri kröfu með tölvupósti 5. október 2021 sem hafi verið svarað með tölvupósti 21. október 2021. Kærufrestur vegna uppgjörs tekjuársins 2020 sé löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar.

Við endurmat á endurhæfingarlífeyri, sem hafi farið fram í desember 2020, hafi kærandi sent inn tekjuáætlun vegna ársins 2021. Í þeirri tekjuáætlun hafi kærandi ekki gert ráð fyrir neinum tekjum á árinu 2021. Tryggingastofnun hafi samþykkt þá áætlun en hafi gert ráð fyrir 144 kr. í vaxtatekjur á árinu og á grundvelli þeirrar tekjuáætlunar hafi kærandi fengið greitt frá 1. janúar 2021 til 30. apríl 2021.

Við bótauppgjör ársins 2021, dags. 19. maí 2022, hafi komið í ljós að endanlegar tekjur kæranda á tímabilinu 1. janúar 2021 til 30. apríl 2021 hafi verið 471.334 kr. í launatekjur, 228.196 kr. í atvinnuleysisbætur og 515 kr. í vexti og verðbætur

Þann 1. júní 2022 hafi uppgjör ársins verið endurskoðað þar sem komið hafi í ljós að atvinnuleysisbætur, sem hafi fallið til utan greiðslutímabils kæranda, hafi haft áhrif á útreikning greiðslna ársins. Þá hafi launatekjur í fyrri endurreikningi ekki verið réttar. Í nýju uppgjöri hafi endanlegar tekjur kæranda á tímabilinu 1. janúar 2021 til 30. apríl 2021 verið 520.927 kr. í launatekjur og 515 kr. í vexti og verðbætur.

Eingöngu sé miðað við þær launatekjur sem kærandi hafi fengið tímabilinu 1. janúar til 30. apríl árið 2021 og fram komi í staðgreiðsluskrá. Sú framkvæmd sé í samræmi við a-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009, en þar komi fram að við endurreikning bóta til þeirra sem hafi fengið greiðslur hluta úr bótagreiðsluári skuli byggja á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um sé að ræða tekjur sem séu staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eingöngu beri að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur hafi verið fyrir hendi í. 

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða seinni endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi verið sú að kærandi hafi fengið 1.511.234 kr. greiddar á tímabilinu en hefði með réttu átt að fá 1.138.709 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 255.366 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Tryggingastofnun hafi borist andmæli þann 20. júní 2022. Í þeim hafi einnig verið vísað í endurreikning ársins 2020 og hafi komið fram að óskað væri eftir að stofnunin felldi niður reikninga stofnunarinnar. Tryggingastofnun hafi litið á andmælin sem beiðni um niðurfellingu og hafi sent erindið til samráðsnefndar stofnunarinnar. Nefndin hafi tekið málið fyrir á fundi og hafi umsókninni verið synjað með bréfi, dags. 29. júlí 2022.

Við afgreiðslu á beiðni kæranda um niðurfellingu hafi, ásamt fyrirliggjandi gögnum, meðal annars verið skoðuð ástæða ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.

Í 55. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Umræddar kröfur hafi orðið til við endurreikninga áranna 2020 og 2021. Kröfurnar séu réttmætar. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs. Eins og meðfylgjandi gögn beri með sér sé ljóst að ástæða ofgreiðslnanna sé röng tekjuáætlun. Fyrst og fremst sé um að ræða launatekjur sem kærandi hafi fengið á greiðslutímabilinu og hafi ekki gefið upp. Þessar tekjur hafi ekki komið fram á tekjuáætlun kæranda. Lífeyrisþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna.

Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Af fyrirliggjandi gögnum verði ekki séð að þetta skilyrði sé uppfyllt í máli kæranda.

Samráðsnefnd hafi metið fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hafi aðgang að. Við skoðun þeirra hafi það verið mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til að fella niður kröfurnar. Hafi þar bæði verið horft til þeirra skattskyldu og óskattskyldu tekna sem kærandi hafi og eignastöðu. Það hafi því verið mat Tryggingastofnunar að ekki væri hægt að líta svo á að hún uppfyllti skilyrði undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Tryggingastofnun hafi þó talið rétt að koma til móts við kæranda með því að samþykkja dreifingu kröfunnar á 60 mánuði í stað þeirra 12 sem að jafnaði sé gert ráð fyrir.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir málið og telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta ársins 2020 og 2021.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 7. mgr. 16. gr. laganna segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. maí 2020 til 31. apríl 2021. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2020 með bréfi, dags. 18. ágúst 2021. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hennar hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 465.386 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að launatekjur voru ekki í samræmi við tekjuáætlun ársins. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2021 með bréfi, dags. 19. maí 2022. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hennar hefðu verið ofgreiddar að fjárhæð 325.571 kr., að teknu tillitit til staðgreiðslu skatta. Framkvæmdur var nýr endurreikningur 1. júní 2022 þar sem í ljós hafi komið að hluti tekna hafi fallið utan greiðslutímabils kæranda og hafi ekki verið réttur. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hennar hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 255.366 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að launatekjur voru ekki í samræmi við tekjuáætlun ársins.

Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni beri að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Tryggingastofnun ríkisins hefur hafnað því að heimild tilvitnaðs reglugerðarákvæðis eigi við í tilviki kæranda.

Í máli þessu lýtur ágreiningurinn að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu sem hafði myndast vegna ofgreiddra bóta áranna 2020 og 2021.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að endurhæfingarlífeyrir og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður hefur verið greint frá gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að kæranda hefði mátt vera kunnugt um að umræddar tekjur gætu haft áhrif á bótagreiðslur og því hafi henni borið að upplýsa um þær. Því er ekki fallist á að kærandi hafi verið í góðri trú í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kemur þá til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar. Meðaltekjur kæranda fyrstu sjö mánuði ársins 2022 samkvæmt staðgreiðsluskrá voru 861.624 kr. á mánuði. Þá verður ráðið af gögnum málsins að eignastaða kæranda hafi verið neikvæð á árinu 2021. Í beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu 20. júní 2022 kemur fram að ástæða beiðninnar séu erfiðar fjárhagslegar aðstæður og vísar kærandi þar einnig til þess að hún standi í skilnaði. Þá kemur fram í umsókninni að mánaðarleg greiðslubyrði sé 483.106 kr. Úrskurðarnefndin horfir til þess að Tryggingastofnun hefur dreift eftirstöðvum kröfunnar á 60 mánuði í stað þess að kærandi þurfi að endurgreiða ofgreiðslukröfuna á 12 mánuðum eins og meginreglan er samkvæmt 3. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Mánaðarleg greiðslubyrði af kröfunni nemur því 7.488 kr. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefndin að geta til endurgreiðslu sé fyrir hendi. Að lokum lítur nefndin til þess að samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Að öllu framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Úrskurðarnefndin telur rétt að benda kæranda á að hún geti óskað eftir niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar að nýju ef fjárhagsaðstæður hennar versni.

Úrskurðarnefndin vill einnig vekja athygli kæranda á þeim ráðleggingum Tryggingastofnunar sem koma fram í svörum við andmælum hennar vegna uppgjörs tekjuársins 2020, þ.e. að hún geti óskað eftir leiðréttingu á skattframtali hafi atvinnutekjur sem komu fram á skattframtali ársins 2020 verið vegna ársins 2019.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. júlí 2022 um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta