Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 439/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 439/2016

Miðvikudaginn 29. mars 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 8. nóvember 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. nóvember 2016 um endurkröfu vegna meðlags sem stofnunin hafði milligöngu um á tímabilinu frá X 2016 til X 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Tryggingastofnun ríkisins hafði milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda vegna barnabarns hans sem búsett var hjá honum. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 3. nóvember 2016, var kærandi upplýstur um að meðlagsgreiðslur til hans yrðu stöðvaðar frá 1. ágúst 2016 þar sem þær falli niður þegar barn flytji af heimili meðlagsmóttakanda. Með sama bréfi var kærandi krafinn um endurgreiðslu vegna ofgreidds meðlags að fjárhæð 261.292 kr. vegna tímabilsins frá X 2016 til X 2016. Honum var veittur frestur til andmæla til 17. nóvember 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 10. nóvember 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 8. desember 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. desember 2016. Með bréfi, mótteknu 20. desember 2016, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2016. Viðbótargreinargerð, dags. 6. janúar 2017, barst frá stofnuninni og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. janúar 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu vegna ofgreidds meðlags verði endurskoðuð vegna tímabilsins frá X 2016 til X 2016.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að gerð sé alvarleg athugasemd við að endurgreiðsla miðist við X 2016 þar sem barnið hafi flutt af landi brott X 2016. Kærandi hafi sjálfur keyrt barnið út á flugvöll.

Kærandi kveðst hafa sætt sig við að endurgreiða ofgreitt meðlag, en einungis frá þeim tíma sem lögheimilið hafi verið flutt.

III. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja kæranda um meðlag sem stofnunin hafði milligöngu um að greiða til hans á tímabilinu frá X 2016 til X 2016.

Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um hlutverk nefndarinnar. Þar segir svo:

„Úrskurðarnefnd velferðarmála skal úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar.“

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála að því er varðar stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna. Ákvæðið hljóðar svo:

„Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.“

Í 13. gr. laga um almannatryggingar er tilgreint hvaða ágreiningsefni verða kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laganna. Úrskurðarnefndinni er því ekki heimilt að úrskurða um önnur ágreiningsefni en þau sem falla undir framangreint ákvæði.

Úrskurðarnefndin hefur samkvæmt framangreindri 1. mgr. 13 gr. heimild til þess að kveða upp úrskurð þegar ágreiningur varðar endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu bóta samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Í fyrrgreindri 55. gr. laga nr. 100/2007 er eingöngu verið að fjalla um þau tilvik þegar aðilar fá ofgreiddar eða vangreiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar sem meðlag telst ekki til bóta, tekur ákvæðið ekki til endurkröfuréttar vegna ofgreidds eða vangreidds meðlags.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að nefndin hafi ekki heimild til þess að fjalla um ágreining um endurkröfurétt vegna ofgreidds meðalags.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju. Í máli þessu er velferðarráðuneytið hið æðra stjórnvald, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, 4. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands og b-lið 3. tölul. 8. gr. forsetaúrskurðar, nr. 1/2017 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórnvaldsákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins verða því kærðar til velferðarráðuneytisins, nema annað leiði af lögum eða venju.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. nóvember 2016, þar sem kæranda er tilkynnt um að endurkrafa verði mynduð vegna tímabilsins X 2016 til X 2016, er með vísan til framangreinds heimilt að kæra til velferðarráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og áframsend velferðarráðuneytinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og áframsend til velferðarráðuneytisins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta