Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 454/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 454/2016

Miðvikudaginn 29. mars 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. nóvember 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. nóvember 2016 þar sem umsókn kæranda um heimilisuppbót var synjað.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málavextir eru þeir að með umsókn 1. nóvember 2016 sótti kærandi um heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 11. nóvember 2016, var umsókn kæranda um heimilisuppbót synjað með þeim rökum að sonur kæranda væri búsettur á heimili hans og var kærandi því ekki talinn uppfylla skilyrði um að vera einn um heimilisrekstur. Kærandi hafði samband við Tryggingastofnun þann 14. nóvember 2016 og greindi frá því að þótt sonur hans væri búsettur hjá honum væri ekki sjálfgefið að hann tæki þátt í heimilisrekstri hans. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 14. nóvember 2016, var kæranda gefið færi á að leggja fram gögn því til staðfestingar að hann nyti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambúð með syni sínum. Kærandi svaraði bréfi Tryggingastofnunar með tölvubréfi 25. nóvember 2016 þar sem hann upplýsti um að hann myndi ekki leggja fram nein gögn til stofnunarinnar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 24. nóvember 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 20. desember 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að umsókn hans um heimilisuppbót verði samþykkt.

Í kæru segir að kæranda hafi borist ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þess efnis að umsókn hans um heimilisuppbót hafi verið hafnað. Forsenda þeirrar ákvörðunar hafi verið sú að sonur hans sé skráður til heimilis á sama stað og þar með hafi stofnuninni þótt líklegt að kærandi væri sennilega ekki einn um heimilisrekstur. Þarna sé um afskaplega hæpinn úrskurð að ræða. Einungis hafi verið stuðst við hugboð og grunsemdir og séu svona vinnubrögð ekki boðleg. Vissulega sé sonur kæranda skráður til heimilis á sama stað en það komi hvergi fram að hann taki þátt í heimilishaldi og sé það í verkahring Tryggingastofnunar að sanna hvort svo sé eða ekki og þar með styðja synjun sína með óyggjandi rökum. Kærandi hafi fengið bréf með tilvísun í lög nr. 99/2007 og reglugerð nr. 1052/2009. Samkvæmt lögunum skuli umsækjandi vera einhleypur, njóta tekjutryggingar og vera einn um heimilisrekstur. Að mati kæranda standist hann öll þessi skilyrði og verði ekki séð að synjunin eigi nokkurn rétt á sér.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun um heimilisuppbót, dags. 11. nóvember 2016.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega sem sé einhleypingur og sé einn um heimilisrekstur án þess að hann njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri komi fram að heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem svo sé ástatt um sem hér segi.

„1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila.

2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka eða ríkis og bæja.

3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Kærandi hafi sótt um heimilisuppbót með umsókn á Mínum síðum Tryggingastofnunar þann 1. nóvember 2016 og hafi hann skilað fylgigögnum daginn eftir.

Þann 11. nóvember 2016 hafi Tryggingastofnun synjað umsókn kæranda þar sem sonur hans B, væri skráður til heimilis á sama stað og kærandi. Tryggingastofnun taldi kæranda því ekki uppfylla það skilyrði að vera einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagsleg samræðis af sambýli við aðra.

Kærandi hafi sent Tryggingastofnun skilaboð þann 14. nóvember 2016 þar sem fram hafi komið að sonur hans byggi vissulega á heimilinu en það væri ekki þar með sjálfgefið að hann tæki þátt í heimilishaldi kæranda.

Tryggingastofnun hafi skoðað erindið og talið ástæðu til þess að kanna aðstæður þeirra feðga frekar og meta hvort ástæða væri til að taka málið upp á nýjan leik. Kæranda hafi því verið sent bréf samdægurs þar sem óskað hafi verið upplýsinga um tekjur sonar kæranda svo að Tryggingastofnun gæti metið hvort kærandi væri einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Komið hafi fram í bréfinu að bærust umbeðin gögn ekki innan tveggja vikna yrði ósk kæranda um endurupptöku vísað frá.

Þann 25. nóvember 2016 hafi kærandi sent tölvupóst til Tryggingastofnunar þar sem fram hafi komið að kærandi ætlaði ekki að senda inn frekari gögn. Því hafi fyrri ákvörðun Tryggingastofnunar staðið. Rétt sé að vekja athygli á því að þann 25. nóvember hafði kærandi þá þegar verið búinn að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar.

Í þessu máli sé sonur kæranda skráður búsettur á sama lögheimili og kærandi. Kærandi hafi einnig staðfest það að sonur hans búi hjá honum með erindi sínu, dags. 14. nóvember 2016.

Kæranda hafi verið gefinn kostur á að skila inn gögnum til Tryggingastofnunar um aðstæður þeirra feðga en hann hafi kosið að gera það ekki. Kærandi hafi því neitað að skila inn gögnum sem gætu sýnt fram á að hann nyti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu við son sinn.

Stofnunin líti svo á að almennt teljist einstaklingar eldri en tvítugir, sem búa saman og séu skráðir með sama lögheimili, hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Sé þetta viðhorf í samræmi við afstöðu sem fram hafi komið í úrskurðum úrskurðarnefndar og megi þar meðal annars benda á úrskurð í máli nr. 314/2005, en þar sagði meðal annars:

„Skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar er samkvæmt tilvitnuðum laga- og reglugerðarákvæðum að um einhleyping sé að ræða sem sé einn um heimilisrekstur og njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skiptir þar engu máli hvort um er að ræða systkini, vini eða aðra sem búa saman. Ef tveir eða fleiri einstaklingar deila húsnæði er alltaf ákveðið hagræði af því að nota t.d. eldunaraðstöðu saman. Vissulega getur sambýli tveggja eða fleiri einstaklinga haft mismikið hagræði í för með sér en ljóst er að með því einu að deila húsnæði með öðrum einstaklingi/einstaklingum er um fjárhagslegt hagræði að ræða.“

Í tölvupósti kæranda þann 25. nóvember 2016 og einnig að einhverju leyti í kæru sem sé dagsett þann 18. sama mánaðar, hafi komið fram sú skoðun kæranda að hann eigi ekki að þurfa að skila inn þeim gögnum sem Tryggingastofnun hafi óskað eftir. Sé það viðhorf hans að það sé „stofnunarinnar að verða sér úti um þau gögn“.

Þetta sé rangt hjá kæranda. Upplýsingaskylda kæranda sé rík samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Megi þar meðal annars benda á 39. gr. laganna en þar komi meðal annars fram að umsækjanda sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra.

Rannsóknarskylda Tryggingastofnunar byggist annars vegar á 38. gr. laga um almannatryggingar og hins vegar á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þeim ákvæðum séu lagðar þær kvaðir á stofnunina að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Í 38. gr. laga um almannatryggingar sé sérstaklega kveðið á um að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar þurfi að liggja fyrir.

Eins og fram komi í skýringum við 10. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum þá felist ekki í rannsóknarreglunni að stjórnvald þurfi sjálft að afla allra upplýsinga. Þegar aðili sæki um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu hjá stjórnvaldi geti stjórnvald beint þeim tilmælum til hans að hann veiti upplýsingar og leggi fram þau gögn sem nauðsynleg séu og með sanngirni megi ætla að hann geti lagt fram án þess að það íþyngi honum um of.

Kærandi búi með syni sínum að X. Þær upplýsingar komi fram í Þjóðskrá og hafi verið staðfestar af kæranda.

Í framkvæmd hafi Tryggingastofnun alla jafna litið svo á að búi lífeyrisþegi með öðrum einstaklingi þá njóti hann fjárhagslegs hagræðis af því sambýli nema sýnt sé fram á annað. Kæranda hafi staðið til boða að skila inn upplýsingum en hafi ákveðið að gera það ekki.

Tryggingastofnun telji að umsókn kæranda hafi réttilega verið synjað.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er kveðið á um heimilisuppbót, þar segir:

„Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót, 23.164 kr. á mánuði. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skal lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.“

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði lagaákvæðisins að vera uppfyllt. Í 1. tölulið 1. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð. Samkvæmt 2. málslið 13. gr. þeirra laga skal beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga um félagslega aðstoð. Þá kemur og fram í 14. gr. sömu laga að ákvæði laga um almannatryggingar gilda um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.

Samkvæmt 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, hvílir sú rannsóknarskylda á Tryggingastofnun að stofnunin skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. Einnig er rannsóknarregla stjórnvalds sérstaklega tilgreind í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 39. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um upplýsingaskyldu umsækjanda og greiðsluþega og er þar tiltekið sérstaklega að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, meðal annars með því að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun í máli umsækjanda.

Eins og framangreind ákvæði kveða á um þá er umsækjanda eða greiðsluþega rétt og skylt að veita þær upplýsingar sem stofnuninni sé nauðsynlegt að fá svo að unnt sé að taka ákvörðun í máli viðkomandi. Óumdeilt er í málinu að fullorðinn sonur kæranda býr á heimili hans. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja framkominni umsókn kæranda um heimilisuppbót er byggð á þeim grunni að um fjárhagslegt hagræði sé að ræða af sambýli feðganna. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að jafnan séu líkur á því að afkomendur á fullorðinsaldri, sem búa hjá foreldrum sínum, hafi fjárhagslega aðkomu að heimilisrekstri. Kærandi hefur neitað að leggja fram gögn sem varpað gætu ljósi á það hvort um fjárhagslegt hagræði sé að ræða af sambýli hans við son sinn. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að nauðsynlegt hafi verið fyrir Tryggingastofnun að fá frekari upplýsingar frá kæranda sem sýni fram á að ekki sé um fjárhagslegt hagræði að ræða af sambýli feðganna. Þar sem kærandi hefur neitað að afhenda Tryggingastofnun ríkisins gögn sem geti varpað ljósi á málið verður kærandi að bera hallann af því.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um heimilisuppbót staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um heimilisuppbót er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta