Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 388/2023-úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 388/2023

Miðvikudaginn 18. október 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. ágúst 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. maí 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2022. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2022 leiddi í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 867.566 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. ágúst 2023. Með bréfi, dags. 15. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 31. ágúst 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. september 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi lent í mjög alvarlegu bifreiðaslysi í nóvember 2008. Í kjölfarið hafi hún fengið slysabætur sem hafi verið ákveðið að reyna að ávaxta til efri ára. Þrátt fyrir að bætur geti létt undir, þá sé heilsan mun meira virði og að ná henni aftur sé þrotlaus vinna enn í dag. Margt af því sem hafi tapast í slysinu hafi aldrei komið aftur hjá kæranda og það hafi verið mjög erfitt að þurfa að hætta að vinna.

Árið 2008 hafi orðið bankahrun, hluti af lífeyri þeirra hjóna í lífeyrisjóðum hafi gufað upp, enda hvorugt þeirra ríkisstarfsmenn. Á þeim tíma hafi ekki nokkur maður treyst bankakerfinu til að geyma fjármuni.

Þau hjónin hafi rætt við fjármálaráðgjafa hvar best væri að ávaxta slysabæturnar, sem hafi ekki verið stór upphæð, en gæti kannski komið til móts við það sem þau hafi tapað í lífeyrissjóðum í hruninu. Hann hafi talið best að kaupa hlutabréf erlendis sem þau hafi gert, hann hafi nefnt tvö fyrirtæki sem hann hafi talið nokkuð góð. Einungis annað þeirra hafi skilað þeim hjónunum smá arði árlega sem þau hafi greitt af þau gjöld sem þeim hafi borið.

Árið 2022 hafi þau hjónin ákveðið að fjárfesta í raðhúsaíbúð í tengslum við B þar sem þau hafi talið sér best borgið í ellinni og þyrftu minnst að nota opinbert kerfi. Í þessa fjárfestingu hafi þau skrapað saman sparnaði þeirra, tekið bankalán og notað slysabæturnar sem þau hafi verið búin að ávaxta erlendis.

Þau hafi varla verið búin að fá eignina afhenta þegar Tryggingastofnu hafi komið með kröfu um að þau skuldi stofnuninni háa upphæð vegna þess að þeim hafi tekist að varðveita hluta af slysabótunum í þessi ár til að búa í haginn til efri ára. Það sé ítrekað að þetta hafi ekki verið laun heldur slysabætur.

Kærandi óski eftir upplýsingum um hvað fólk megi hafa í tekjur á ári án skerðinga, þessar slysabætur hafi verið að dafna og myndast síðan þau hafi keypt bréfin. Í fljótu bragði virðist að krafan sé sú að greiða eigi hluta af þeim örorkubótum sem kærandi hafi fengið til baka með þessum kröfum.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kæran varði uppgjör stofnunarinnar, þar sem kærandi hafi verið krafinn um 867.566 kr., sbr. innheimtubréf dags. 23. maí 2023.

Um útreikning ellilífeyris hafi verið fjallað í III. kafla laga um nr. 100/2007 almannatryggingar, með síðari breytingum. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skuli standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars ellilífeyris, sbr. 21. og 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. sömu greinar hafi komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 22. gr. núgildandi laga almannatryggingar.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið fjallað um fjármagnstekjur og þar sagði: „Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“ Hliðstætt ákvæði sé að finna í 22. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. þágildandi laga um almannatryggingar lækki ellilífeyrir um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður, sbr. 21. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi þegið ellilífeyri frá 1. apríl 2016. Með bréfi, dags. 23. maí 2023, hafi kæranda verið tilkynnt niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022. Niðurstaðan hafi verið skuld að upphæð 867.566 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu, þar sem heildargreiðslur til kæranda á árinu 2022 hafi numið hærri upphæð en hún hafi átt rétt á samkvæmt endanlegum upplýsingum skattyfirvalda um tekjur kæranda á árinu 2022 í skattframtali ársins 2023. Þennan mismun megi rekja til vanáætlunar fjármagnstekna. Fjármagnstekjur hjóna og sambúðarfólks séu skráðar sameiginlega og á skattframtali hafi komið fram að kærandi og eiginmaður hennar hefðu haft sameiginlegar fjármagnstekjur að upphæð 5.326.112 kr. ár árinu 2022, en fjármagnstekjur samkvæmt tekjuáætlun fyrir árið hefðu verið töluvert lægri eða 643.228 kr. Fjármagnstekjur samkvæmt skattframtali hafi sundurliðast á eftirfarandi hátt: 2.703.686 kr. í vexti og verðbætur, 285.319 kr. í arð og 2.337.107 kr. í söluhagnað.

Kærandi hafi ekki andmælt niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022, eins og hægt hefði verið að gera samkvæmt leiðbeiningum í uppgjörsbréfi, heldur hafi kært niðurstöðuna beint til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í kæru sé greint frá því að kærandi hafi lent bifreiðaslysi árið 2008 og hafi fengið slysabætur í kjölfarið. Fram komi að slysabæturnar hafi verið notaðar til að fjárfesta í hlutabréfum erlendis. Samkvæmt framangreindu hafi fjármagnstekjur kæranda reynst vera hærri árið 2022 en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætlun og hafi þær leitt til ofgreiðslukröfu. Eins og hafi komið fram séu fjármagnstekjur tekjustofn sem hafi áhrif á ellilífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar, sbr. 22. gr. núgildandi laga, og C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Í 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi komið fram að fjármagnstekjur skuli skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta, sbr. 22. gr. núgildandi laga. Tryggingastofnun greiði tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá beri stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur, sem greiddar hafi verið á grundvelli slíkra tekjuáætlana, með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun hafi því enga heimild til að líta fram hjá fjármagnstekjum sem komi fram á skattframtali kæranda.

Sjónarmið kæranda um að fjármagnstekjur á skattframtali eigi í raun ekki að virka til frádráttar þar sem þær eigi rætur að rekja til slysabóta sem hafi verið notaðar til fjárfestinga séu skiljanleg, en breyti þó engu varðandi uppgjör Tryggingastofnunar. Um leið og slysabæturnar séu notaðar til fjárfestinga þá fari um tekjur af slíkum fjárfestingum eins og um aðrar fjármagnstekjur á skattframtali og Tryggingastofnun beri að taka mið af upplýsingum um fjármagnstekjur á skattframtali. Stofnunin hafi ekki heimild til að líta til þess hvaða fjármunir hafi verið notaðir til fjárfestinga og undanskilja fjármagnstekjur sem eigi rætur í fjárfestingum fyrir slysabætur.

Að mati Tryggingastofnunar ráðist úrslit málsins af þessum staðreyndum og ekki þyki ástæða til að fjölyrða frekar um málsástæður stofnunarinnar. Að öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna kæranda vegna ársins 2022 hafi verið réttur, byggður á fyrirliggjandi gögnum, faglegum sjónarmiðum sem og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglum. Tryggingastofnun fari því fram á að niðurstöður endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna verði staðfestar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2022. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. þágildandi 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 617/2022 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2022, var 1. janúar til 31. maí á árinu 2022 sérstakt frítekjumark vegna fjármagnstekna samkvæmt a-lið 2. mgr. þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar 98.640 kr. og efra tekjumark ellilífeyris 7.720.560 kr. Frá 1. júní til 31. desember 2022 var sérstakt frítekjumark vegna fjármagnstekna óbreytt en efra tekjumark ellilífeyris var 7.943.173 kr.

Á grundvelli 3. mgr. 33. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins gerði Tryggingastofnun ráð fyrir að á árinu 2022 fengi kærandi 3.033.468 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 643.228 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Kærandi gerði ekki athugasemdir við framangreinda tekjuáætlun og var henni greitt samkvæmt henni út árið 2022.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2021 reyndust tekjur kæranda á árinu vera 3.131.665 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 360.000 kr. frá séreignarsjóði og 5.326.112 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins var sú að kærandi hafi fengið ofgreiddar bætur samtals að fjárhæð 867.566 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árinu 2022 en gert hafði verið ráð fyrir. Fyrst og fremst var um að ræða fjármagnstekjur sem er tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Þá segir í 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar að fjármagnstekjur skuli skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er að umræddur tekjustofn var vanáætlaður í tekjuáætlun. Engin heimild er í lögum að líta fram hjá fjármagntekjum með vísan til þess að þær megi rekja til rekja til slysabóta sem hafi verið notaðar til fjárfestinga. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2022.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta