Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 252/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 252/2017

Miðvikudaginn 15. nóvember 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, dags. 3. júlí 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. júní 2017 um synjun á umsókn kæranda um heimilisuppbót.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 28. júní 2017, sótti kærandi um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 29. júní 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að sonur hennar væri skráður til heimilis á lögheimili hennar. Af þeirri ástæðu var ekki talið að kærandi væri ein um heimilisrekstur sem væri eitt af skilyrðum heimilisuppbótar. Með bréfi, dags. 3. júlí 2017, óskaði kærandi endurmats stofnunarinnar á þeirri ákvörðun. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 6. júlí 2017, var kærandi upplýst um að bréf hennar breytti ekki upphaflegri ákvörðun um synjun og tekið var fram að þar sem sonur hennar fengi örorkulífeyri teldist hún ekki vera ein um heimilisrekstur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. júlí 2017. Með bréfi, dags. 6. júlí 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. júlí 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. júlí 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um heimilisuppbót verði endurskoðuð.

Í kæru segir að kærandi hafi um árabil átt lögheimili í eigin húsnæði að B. Í ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sé réttilega sagt að [...] sonur hennar sé heimilisfastur í húsnæði hennar en jafnframt ranglega fullyrt að hún deili heimilisrekstri með öðrum. Þar sé greinilega átt við son kæranda en það hafi hún aldrei gert í þessu húsnæði heldur hafi hún haft verulegan kostnað af eigin fé við að veita honum fæði, þjónustu og húsaskjól.

Forsaga málsins sé sú að sonur kæranda [...]. Hann reyki ekki og sé laus við notkun hvers konar vímuefna. Fyrir allmörgum árum hafi hann verið í sjálfstæðri búsetu [...]. Hann hafi á þeim tíma [...] og þess vegna misst það húsnæði sem hann hafi haft til umráða. [Kunningjar] hans hafi ráðlagt honum að skrá sig bara einhvers staðar til lögheimilis og það hafi orðið til þess að hann hafi skráð sig í C. Hann hafi aldrei búið þar [...].

Þá hafi sonur kæranda skyndilega birst fyrir X árum á heimili [...]. Það hafi tekið soninn talsverðan tíma að [...] en þau séu nú í góðri umsjá [...] hjá Heilsugæslu C. Skömmu eftir að sonur kæranda hafi birst hafi hún rætt við tiltekinn starfsmann Þjónustumiðstöðvar D um búsetuúrræði fyrir hann. Kæranda hafi verið tjáð að sonur hennar þyrfti sjálfur að mæta svo að hægt væri að taka á móti umsókn um raunhæft félagslegt húsnæði fyrir hann. Einnig að lítið væri hægt að gera fyrir hann þar sem lögheimili hans væri í C. Einnig hafi kæranda verið tjáð að sonur hennar gæti ekki haft lögheimili í C og hafi íbúar þar kvartað vegna óheimilar lögheimilisskráningar hans. Einnig hafi komið í ljós að Ríkisskattstjóri, Tryggingastofnun ríkisins, [banki] og lögreglan hafi ítrekað reynt að ná í son kæranda í formi bréfa og/eða heimsókna á ætlað lögheimili hans. Eftir viðtal kæranda við þessar stofnanir hafi lögreglan, Tryggingastofnun ríkisins og [banki] ráðlagt að lögheimili sonar kæranda yrði tímabundið flutt á heimili hennar á meðan leitað yrði að hentugu húsnæði fyrir hann.

Það skuli ítrekað að það hafi verið lögreglan, Ríkisskattstjóri og Tryggingastofnun ríkisins sem hafi farið fram á að nota húsnæði kæranda sem lögheimili fyrir son hennar en það hafi ekki verið ósk þeirra mæðgina.

Einnig hafi verið spurt að því hjá Þjónustumiðstöð D hvort kærandi gæti ekki tímabundið skotið skjólshúsi yfir son hennar á meðan leitað væri að hentugu húsnæði. Ekki þurfi að orðlengja það að kærandi hafi sparað „Ríki og bæ“ gífurlega fjármuni með því að framfleyta skjólstæðingi (notanda) þeirra allan þennan tíma af takmörkuðum eigin tekjum.

Kærandi fari ekki fram á annað en að hún fái áfram að vera skráð ein til heimilis í eigin íbúð og Tryggingastofnun ríkisins leiðrétti ákvörðun sína um heimilisuppbót og dragi til baka „að hún deili heimilisrekstri með öðrum“. Þá hafi Tryggingastofnun ríkisins og Ríkisskattstjóri hafnað því sonur kæranda hafi eftirfarandi skráningu: Óstaðsettur í hús.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi, sem sé ellilífeyrisþegi, hafi sótt um heimilisuppbót samhliða umsókn um ellilífeyri. Með hinni kærðu ákvörðun hafi umsókn um heimilisuppbót verið synjað þar sem kærandi hafi ekki verið talin uppfylla skilyrði laga og reglugerðar um félagslega aðstoð um að vera ein um heimilishald. Nánar tiltekið hafi umsókninni verið synjað þar sem samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands væri annar einstaklingur, sem einnig væri með greiðslur frá stofnuninni í formi örorkulífeyris, skráður til heimilis á sama stað og kærandi. Aftur á móti hafi kæranda verið veittur ellilífeyrir afturvirkt til 1. janúar 2017. Beiðni um endurmat á fyrri synjun um heimilisuppbót hafi borist stofnuninni 3. júlí 2017 og þeirri beiðni verið synjað að nýju á sömu forsendum og áður.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skilyrðin sem þurfi því að uppfylla séu að heimilisuppbót greiðist einungis einhleypingum, þ.e. ógiftu fólki, og einungis þeim sem séu einir um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra.

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.

Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Samkvæmt framlögðum gögnum málsins og þeim skilyrðum, sem lög og reglugerðir um heimilisuppbót setji, sé stofnuninni ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót þar sem hún sé ekki ein um heimilishald, en það sé eitt af þeim skilyrðum sem bótaþegi þurfi að uppfylla til að eiga rétt á heimilisuppbót.

Í málinu liggi fyrir að kærandi deili heimili með öðrum einstaklingi sem einnig sé með fullar bætur frá stofnuninni í formi örorkubóta. Þegar svo hátti til sem hér segi, þ.e. þegar tveir einstaklingar deili heimili og báðir hafi fjárhagslegar tekjur, hljótist af því töluvert hagræði í formi ódýrari rekstrarkostnaðar heimilisins, enda deilist rekstur heimilisins niður á tvo einstaklinga.

Tryggingastofnun telji ljóst að synjun stofnunarinnar á heimilisuppbót hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem almennt hafi verið talið að einstaklingur sem búi með öðrum hafi fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Til nánari fyllingar þessarar niðurstöðu stofnunarinnar megi benda á úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 68/2017 þar sem málavextir voru nokkuð áþekkir. Á fyrrgreindum forsendum telji stofnunin ekki ástæðu til að breyta hinni kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um heimilisuppbót.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleypings sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Tryggingastofnun ríkisins synjaði umsókn kæranda um heimilisuppbót á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 8. gr. laganna um að vera ein um heimilisrekstur.

Samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands er sonur kæranda, sem er fæddur árið X, skráður til heimilis á lögheimili hennar. Kærandi byggir á því að þrátt fyrir að sonur hennar búi hjá henni njóti hún í raun ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu heldur hafi hún þvert á móti haft verulegan kostnað af því að veita honum fæði, þjónustu og húsaskjól. Jafnframt gerir hún grein fyrir [...] veikindum hans. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að sonur kæranda þiggur örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Að því virtu að sonur kæranda, sem er á fullorðinsaldri og hefur mánaðarlegar tekjur, býr hjá henni fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á að umrætt skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð sé uppfyllt í tilviki kæranda og á hún því ekki rétt á heimilisuppbót lögum samkvæmt. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um heimilisuppbót, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta