Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 540/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 540/2024

Miðvikudaginn 27. nóvember 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. október 2024, kærði B, f.h. B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. júlí 2024, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2023.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2023 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 2.634.824 kr. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. október 2024. Með bréfi, dags. 24. október 2024, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Bréfið var ítrekað með tölvupósti 18. nóvember 2024.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að lögð sé fram kæra vegna endurreiknings og lækkunar á örorkubótum kæranda fyrir árið 2023, sem byggist á fjármagnstekjum eiginmanns hennar. Fjármagnstekjur eiginmanns kæranda séu hans séreign samkvæmt kaupmála milli þeirra hjóna sem hafi verið skráður í kaupmálabók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og þinglýst í fasteignabók embættisins þann 30. mars 2017. Í kaupmálanum komi meðal annars fram að arður af séreign skuli vera séreign.

Lækkunin á bótarétti kæranda leiði til skuldar upp á 2.634.823 kr., sem sé mjög íþyngjandi og hafi veruleg áhrif á fjárhagslegt sjálfstæði hennar. Talið sé að þessi ákvörðun sé ólögmæt og ósanngjörn og hún sé kærð á grundvelli eftirfarandi raka.

Lækkuninni sé alfarið mótmælt en hún feli í sér skerðingu á bótarétti kæranda vegna fjármagnstekna eiginmanns hennar. Ofangreindur kaupmáli geri skýra grein fyrir því að séreignir eiginmanns kæranda séu ekki sameiginlegar eignir þeirra hjóna og því ætti ekki að líta á fjármagnstekjur hans sem hluta af þeim tekjum sem bætur kæranda séu metnar út frá. Skerðingin á örorkubótarétti kæranda, byggð á fjármagnstekjum sem séu séreign eiginmanns hennar, fari gegn skýrum ákvæðum laga um eignaskiptingu milli hjóna og þeim réttindum sem séu tryggð með kaupmála, sbr. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 31/1993 um hjúskap. Kaupmálinn hafi verið skráður í kaupmálabók og þinglýstur, eins og lög kveði á um, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 31/1993 um hjúskap.

Þá megi einnig vísa til þess að samkvæmt 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skuli við útreikning á örorkubótum taka tillit til tekna viðkomandi einstaklings og maka hans. Það skuli þó eingöngu taka tillit til þeirra tekna sem teljist til sameiginlegra eigna hjóna nema kveðið sé á um annað með lögformlegum hætti, eins og raunin sé í þessu tilviki með gildan og þinglýstan kaupmála.

Skerðingin þrýsti á fjárhagslegt ósjálfstæði kæranda sem einstaklings og bindi hana alfarið við tekjur maka. Það sé siðferðilega rangt og óréttlátt að réttindi einstaklings séu ekki metin í samhengi við eigin aðstæður, heldur tekjur maka. 

Örorkulífeyrisþegi hafi ekki möguleika á því að auka tekjur sínar, en bæturnar sem örorkulífeyrisþegi hafi áunnið sér eigi að tryggja lágmarksframfærslu einstaklingsins. Örorkubætur kæranda miði við hana sem einstakling en ekki þau sem hjón og séu ætlaðar að mæta útgjöldum og þörfum vegna hennar örorku. Lækkun á örorkubótunum geri henni ekki kleift að mæta útgjöldum og þörfum vegna örorku hennar. Þetta svipti hana sjálfstæðum rétti til lífsviðurværis og geri hana fjárhagslega ósjálfstæða.

Til þess að verja rétt einstaklinga með örorku ætti löggjöf um bætur ekki að refsa þeim vegna fjármagnstekna maka þeirra. Sérstakt mat á aðstæðum einstaklinga ætti að vera undirstaða útreiknings á bótum, frekar en almenn skerðing á grundvelli tekna maka. Að tryggja jafnræði, fjárhagslegt sjálfstæði og vernda réttindi örorkuþega ætti að vera í forgrunni þegar neðangreint ákvæði af þessu tagi er endurskoðað.

Í 30. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi skýrt að: „Tekjur maka greiðsluþega hafa ekki áhrif á útreikning greiðslna. Þó skulu fjármagnstekjur skiptast til helminga milli hjóna við útreikning greiðslna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.

Þau meginrök sem rökstyðji að 30. gr. laga nr. 100/2007 eigi ekki alltaf við og að það þurfi að meta aðstæður einstaklingsins séu eftirfarandi:

Í fyrsta lagi réttlæti og einstaklingsbundin ábyrgð. Það sé ósanngjarnt að fjármagnstekjur maka hafi áhrif á réttindi og tekjur örorkulífeyrisþega, sérstaklega þar sem þær tekjur séu ekki tekjur greiðsluþegans sjálfs og geti verið byggðar á eignum sem makinn hafi safnað áður en hjónaband hafi byrjað. Tekjur einstaklings ættu að vera metnar á eigin forsendum og í samræmi við hans eða hennar eigin aðstæður, en ekki með tilliti til maka. Fjármagnstekjur séu oft afleiðing eignasöfnunar, viðskipta eða arfs og geti því ekki endurspeglað efnahag örorkulífeyrisþegans sjálfs.

Í öðru lagi vernd réttinda örorkuþega. Lagaákvæðið samræmist illa þeim sjónarmiðum sem byggi á réttindum örorkulífeyrisþega, eins og þau séu skilgreind í alþjóðasáttmálum eins og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn leggi áherslu á sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstætt líf einstaklinga sem séu örorkulífeyrisþegar. Að skerða bætur á grundvelli tekna maka veiki sjálfsákvörðunarrétt og fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga með örorku. Að auka fjárhagslegt ósjálfstæði greiðsluþega með því að tengja örorkubætur við fjármagnstekjur maka geri einstaklinginn háðan tekjum annars aðila, sem dragi úr sjálfsforræði.

Í þriðja lagi jafnræði og mismunun. Að skerða bætur á grundvelli tekna maka geti leitt til þess að örorkulífeyrisþegar njóti ekki jafnræðis. Einstaklingar í sambúð eða hjónabandi verði þannig fyrir skerðingum sem aðrir sem séu einhleypir verði ekki fyrir. Þetta geti verið brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og mismuni fólki á grundvelli hjúskaparstöðu.

Í fjórða lagi markmið laga um almannatryggingar skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 100/2007. Markmið laga um almannatryggingar, þegar komi að örorkuþegum, sé að tryggja félagslegt öryggi og fjárhagslega vernd fyrir þá sem hafi misst starfsgetu að hluta eða öllu leyti vegna sjúkdóma, slysa eða fötlunar. Lögin leitist við að bæta einstaklingum það upp sem þeir hafi misst af í tekjum vegna skertrar starfsgetu og stuðli að því að þeir geti lifað efnahagslega sjálfstæðu og mannsæmandi lífi þrátt fyrir örorku. Lög um almannatryggingar byggi þannig á grundvallarhugsjón um félagslegt réttlæti og að allir eigi rétt á öryggisneti í tilviki sjúkdóma eða slysa sem skerði möguleika þeirra til að stunda atvinnu og framfleyta sér.

Einnig sé vert að nefna 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Greinin eigi að standa vörð um rétt einstaklinga til félagslegs öryggis og aðstoðar vegna sjúkdóma, slysa, örorku, elli, atvinnuleysis o.fl. Ákvæðið feli í sér grunnrétt til að fá örorkubætur og aðrar félagslegar greiðslur við þörf, og kveði á um að lög skuli útfæra nánar hvernig þessar bætur séu greiddar. Það verndi réttindi örorkulífeyrisþega og tryggi að einstaklingar með varanlega skerta starfsgetu fái bætur til að tryggja fjárhagslegt öryggi. Fjármagnstekjur eiginmanns kæranda séu samkvæmt kaupmála séreign hans og séu alfarið í hans eigu.

Útreikningur Tryggingastofnunar leiði til skuldar upp á 2.634.823 kr. fyrir kæranda. Þetta sé mjög íþyngjandi þar sem kærandi reiði sig alfarið á örorkubætur til að standa undir hennar grunnframfærsluþörfum. Að auki hafi þessi skuld verulega áhrif á lífskjör kæranda og valdi henni fjárhagslegri óvissu og eyði fjárhagslegu sjálfstæði hennar.

Krafist sé að Tryggingastofnun endurskoði ákvörðun sína um lækkun örorkubóta kæranda fyrir árið 2023 á grundvelli fjármagnstekna eiginmanns hennar sem sé talin vera óréttmæt skuld.

 

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. júlí 2024 á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2023.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og 20 dagar frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun, dags. 2. júlí 2024, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. október 2024. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 2. júlí 2024 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í kæru er ekki að finna útskýringu á því hvers vegna kæran barst ekki til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. október 2024, sem ítrekað var 18. nóvember 2024, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Hvorki bárust athugasemdir né gögn frá kæranda.

Í ljósi þessa er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur talið að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda verður ekki ráðið af gögnum málsins að ágalli sé á hinni kærðu ákvörðun. Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta