Mál nr. 451/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 451/2024
Miðvikudaginn 6. nóvember 2024
A
gegn
Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 22. september 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. júní 2024, um að vísa frá beiðni kæranda um úrskurð um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með beiðni, dags. 12. mars 2024, óskaði kærandi eftir úrskurði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur sinnar samkvæmt 41. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og 60. gr. barnalaga nr. 76/2003. Með bréfi, dags. 21. júní 2024, vísað Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu beiðni kæranda frá á þeim forsendum að þriggja mánaða frestur samkvæmt lögunum til að senda inn umsókn hafi verið liðinn.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. september 2024. Með bréfi, dags. 8. október 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. október 2024, bárust gögn málsins frá sýslumanninum en ekki var óskað eftir að koma að athugasemdum vegna kærunnar. Bréfið var sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Meðfylgjandi kæru var ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. júní 2024, um að vísa frá umsókn kæranda um um sértakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar.
III. Sjónarmið Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafi 12. mars 2024 borist beiðni kæranda um að úrskurðað yrði um sérstakt framlag samkvæmt 41. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 60. gr. barnalaga nr. 76/2003, vegna útgjalda við tannréttingar dóttur kæranda, á tímabilinu frá 10. október 2019 til 14. febrúar 2024. Nánar tiltekið hafi verið óskað eftir úrskurði um kröfu að fjárhæð 280.350 kr.
Með lögum nr. 127/2018 hafi verið gerð sú breyting á lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar að Tryggingastofnun ríkisins hafi verið heimilað að ákveða sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni. Framlagið sé einungis ákveðið ef sýslumaður hafi úrskurðað um slíkt framlag samkvæmt beiðni sem honum hafi verið send innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu. Að mati sýslumanns eigi sömu sjónarmið hvað þetta varði og gildi um sérstakt framlag á grundvelli 60. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Lagaskilyrði, samkvæmt 41. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 60. gr. barnalaga, geri ráð fyrir að unnt sé að krefjast úrskurðar um sérstakt framlag, fyrir barn undir 18 ára aldri, meðal annars vegna tannréttinga. Þau tímamörk sem sett séu fram í framangreindum lagaákvæðum miðist við að umsókn berist ekki síðar en þremur mánuðum frá því stofnað hafi verið til útgjalda og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að barn hafi orðið 18 ára gamalt.
Samkvæmt skýrslu tannréttingalæknis, dags. 14. febrúar 2024, hafi föst tæki verið fjarlægð af tönnum barnsins þann 16. desember 2021, en barn kæranda hafi orðið 18 ára þann 23. október 2022. Beiðnin sem hafi verið móttekin 12. mars 2024, hafi samkvæmt því verið lögð of seint fram.
Með bréfi, dags. 3. júní 2024, hafi kæranda verið gefið tækifæri á að senda sýslumanni frekari rökstuðning fyrir því að eðlilegt hafi verið að bíða með að setja kröfuna fram. Þann 11. júní 2024 hafi embættinu borist umsögn kæranda þar sem hún kveðist hafa talið eðlilegt að setja fram kröfuna vegna tannréttinga þegar tannréttingameðferðinni væri að fullu lokið.
Ekki verði séð að eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með framlagningu kröfunnar og teljist hún því ekki komin fram innan þeirra tímamarka sem lögin kveði á um.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. júní 2024, um að vísa frá umsókn kæranda um um úrskurð um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar.
Um sérstakt framlag er fjallað í 41. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Ákvæðið hljóðar svo:
„Tryggingastofnun getur greitt sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.
Framlag skv. 1. mgr. er einungis heimilt að greiða vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir með skv. 40. gr. og annað hvort foreldra er látið, barn ófeðrað eða móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.
Framlag skv. 1. mgr. verður aðeins ákveðið ef sýslumaður hefur úrskurðað um slíkt framlag samkvæmt beiðni sem honum skal send innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.
Um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög gilda sömu reglur og um úrskurði vegna sérstakra útgjalda skv. 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003.“
Í 1. mgr. 40. gr. laga um almannatryggingar segir að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára, að öðrum ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir greiðslu sérstaks framlags vegna tannréttinga barns að barn sé yngra en 18 ára. Þá skal beiðni um framlag send sýslumanni innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda, nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu. Talið hefur verið eðlilegt að bíða með kröfu vegna tannréttinga þar til meðferð er lokið og að leggja þurfi fram beiðni þess efnis innan þriggja mánaða frá því tímamarki, sbr. athugasemdir við 60. gr. í frumvarpi til barnalaga nr. 76/2003. Þar sem ekki er heimilt að greiða vegna tannréttinga með einstaklingi sem orðinn er 18 ára, sbr. 1. mgr. 40. gr. og 2. mgr. 41. gr. laga um almannatryggingar, telur úrskurðarnefnd velferðarmála að beiðni um framlag þurfi að leggja fram í síðasta lagi innan þriggja mánaða frá því að barn varð 18 ára.
Samkvæmt gögnum málsins barst Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þann 12. mars 2024 beiðni kæranda um úrskurð um sérstakt framlag vegna dóttur hennar. Dóttir kæranda varð 18 ára þann 23. október 2022. Liðu því rúmir 16 mánuðir frá því að dóttir kæranda var orðin lögráða þar til kærandi lagði fram beiðni um sérstakt framlag vegna tannréttinga til sýslumanns. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að beiðni kæranda um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar hafi ekki verið lögð fram innan tilskilinna tímamarka 2. og 3. mgr. 41. gr. laga um almannatryggingar.
Að því virtu er ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að vísa frá beiðni kæranda um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að vísa frá beiðni A, um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir