Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 529/2010

Föstudaginn 19. ágúst 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. febrúar 2011, kærir A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða lífeyrisréttindi hans vegna búsetu erlendis.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi dags. 26. mars 2010 samþykkti Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda um örorkulífeyri og var kæranda tilkynnt um að réttur hans til lífeyris taki mið af búsetutíma hér á landi. Kærandi andmælti þeirri ákvörðun stofnunarinnar að skerða lífeyrinn í hlutfalli við búsetu hans í Bandaríkjunum og fór fram á fullar bætur. Með bréfi dags. 22. desember 2010 synjaði stofnunin þeirri beiðni kæranda.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 „Rökstuðningur minn er einfaldur mjög, það er ekki fræðilegur möguleiki að ég geti framfleytt mér og minni fjölskildu á þessum bótum því er ver og miður. Það er viðmið í gangi á lægstu launum lægst bótum o.s.frv. Það er ástæða fyrir þessum lámörkum en þegar kemur að mér þá sýnist sem svo það ekkert af þessu eigi við. Hver er mismunur á að ég hef búið erlendis bróðurpart minnar æfi, þar er fullt af fólki hér á íslandi sem er ekki fætt hér og er ekki Íslenskir ríkisborgarar, en ef það blessað fólk vinnur í eitt ár fær það atvinnuleysis bætur í 3 ár á eftir upp á fyllan styrk Kr. 170.000 á mánuði. Fyrir mig þá kom ég hér heim til að geta eitt síðustu metunum með mínum foreldrum og þá aðstoðað þau á sínum elli árum, var svo óheppin að veikjast þetta mikið og missa heilsuna. Ég er ekki að ætlast til að stjórnvöld finni leið fyrir mig til að fá heilsuna til baka það er mitt vandamál en að maður þurfi að svelta er bara ekki boðlekt nokkrum manni. Nú er svo komið eftir um 2 ½ ár í mínum veikindum að ég er búinn með allan minn sparnað, yfirdráttur fyll nýttur og ekkert eftir nema lepja dauðan úr skel. Ég ætla ekki að setjast upp á foreldra mína sem eru vel á nýrætt núna svo, það þarf að koma einhver leiðrétting á þessu kerfi hérna. Með bestu von um að þetta verði lagfært, og þá aftur í tíman svo einhvern sanngirni sé í þessu kerfi og við vesalingarnir getum skrumtað, það er ekki að gerast á 66.411 á mánuði.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 23. febrúar 2011. Greinargerð dags. 9. mars 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

 „Kærð er skerðing örorkulífeyris vegna búsetutíma erlendis.

Kærandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri frá 1. mars 2010 og eru greiðslur skertar vegna búsetu í Bandaríkjunum á tímabilinu 18. desember 1979-18. september 2003, þ.e. í 23 ár og 9 mánuði.

Heimild til greiðslu örorkulífeyris byggist á 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (ATL). Þar segir í 1. og 4. mgr.:

Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á

aldrinum 16 til 67 ára og:

a. verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Fullur örorkulífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

 

Í 1. mgr. 17. gr. segir:

Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

 

Kærandi var búsettur erlendis í 23,77 ár af þeim 51 árum sem koma til skoðunar við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyris. Búseta hans hér á landi reiknast því 27,23 ár af þeim 40 árum sem þarf til að fá fullar greiðslur, þ.e. 68%.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 10. mars 2011 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar skerðingu á bótagreiðslum kæranda vegna búsetu hans í Bandaríkjunum.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru greindi kærandi frá því að hann gæti ekki framfleytt sér og fjölskyldu sinni á bótunum. Kærandi hafi flutt til landsins til að geta aðstoðað foreldra sína á elliárum en hann hafi veikst og misst heilsuna. Hann sé nú búinn með allan sparnað og yfirdráttur sé full nýttur. Þá fór kærandi fram á greiðsluleiðréttingu aftur í tímann.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að örorkulífeyrir væri skertur vegna búsetu kæranda í Bandaríkjunum frá 18. desember 1979 til 18. september 2003. Kærandi hafi verið búsettur erlendis í 23,77 ár af þeim 51 árum sem komi til skoðunar við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyris. Búseta hans hér á landi hafi því reiknast 27,23 ár af þeim 40 árum sem þurfi til að fá fullar greiðslur, þ.e. 68%.

 

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Í 1. mgr. 18. gr. segir að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi og eru á aldrinum 16-67 ára og hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu. Í 4. mgr. nefndrar 18. gr. segir að örorkulífeyrir skuli greiðast eftir sömu reglum og ellilífeyrir. Við ákvörðun á búsetutíma skuli reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

 

Um greiðslu ellilífeyris er fjallað í 17. gr. laga um almannatryggingar. Í 1. mgr. 17. gr. segir m.a. svo:

 

„Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera [... ] kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs ... Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann....“

 

Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum koma fullar greiðslur örorkulífeyris og tekjutryggingar því aðeins til álita hafi verið um búsetu í a.m.k. 40 almanaksár að ræða frá 16 til 67 ára aldurs framreiknað í samræmi við 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu uppfyllir kærandi búsetuskilyrðin ekki að fullu vegna búsetu erlendis á þessu tímabili. Nýtur kærandi því skertra lífeyrisréttinda. Kærandi hóf töku lífeyris 1. mars 2010. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi búsettur erlendis frá 18. desember 1979 til 18. september 2003. Hann hefur verið búsettur hérlendis frá þeim tíma. Samanlagður búsetutími kæranda hér á landi frá 16 ára aldri þar til hann hóf töku lífeyris eru 11 ár, 1 mánuður og 13 dagar. Búseta hans erlendis eftir 16 ára aldur eru 23,77 ár. Framreiknaður búsetutími kæranda hérlendis frá 16 ára aldri til 67 ára aldurs eru 27,23 ár. Samkvæmt framangreindu ákvæði 4. mgr. 18. gr. laga um almannatrygginga vinnur kærandi sér inn full réttindi á 40 árum og á hann því rétt á 68% greiðsluhlutfalli örorkulífeyris.

 

Vegna þeirrar kröfu kæranda um að fá greiddan fullan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem hann eigi engan rétt þar sem hann bjó áður í Bandaríkjunum er vert að árétta að stofnunin greiðir örorkulífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Líkt og rakið hefur verið er örorkulífeyrir greiddur í samræmi við búsetuhlutfall viðkomandi bótaþega og hefur stofnunin engar greiðsluheimildir umfram þær sem fram koma í lögunum. 

 

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða kæranda 68% örorkulífeyri í samræmi við búsetuhlutfall.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um 68% greiðsluhlutfall örorkulífeyris til A vegna búsetuhlutfalls er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta