Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 119/2010

Föstudaginn 19. ágúst 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. mars 2010, kærir A, endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta á tímabilinu 1. apríl 2007 til 18. nóvember 2009.

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum með bréfi dags. 30. nóvember 2009 fór Tryggingastofnun ríkisins fram á endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2008 að fjárhæð 315.784 kr. Með öðru bréfi dags. 30. nóvember 2009 fór stofnunin fram á endurkröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2007 og nam sú krafa 218.514 kr. Endurgreiðslukröfurnar voru á því byggðar að kærandi hafi hvorki verið búsettur á Íslandi né Þýskalandi á tímabilinu 1. apríl 2007 til 18. nóvember 2009. Kærandi greindi frá því að hann hafi verið búsettur innan evrópska efnahagssvæðisins á tímabilinu og hafi því átt rétt til að þiggja örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. 

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir svo:

 

„Það er rangt að ég hafi dvalið í Thailandi tímabilið apríl 2007 – nóv 2009, ein og fullyrt er í bréfi TR 30. nóv. sl. Í bréfinu segir að þær upplýsingar séu frá C hdl. Ég er með email C til TR 6. nóv. 2008 þar sem segir orðrétt: “Ég veit að A dvelur nú í Thailandi og heimilisfang hans er:” Hér er því beinlínis farið rangt með hjá TR. Ég dvaldi sannanlega í Thailandi í nóv 2008. Undanfarin 10 ár hef ég reglulega farið sem ferðamaður til Thailands og dvalið þar mér til heilsubóta. Í apríl 2007 hugðist ég flytja til Íslands og skráði mig þangað. Ég hætti við og dvaldi áfram í Þýskalandi á heimili dóttur minnar. Árið 2008 dvaldi ég einnig á heimili bróður míns í Danmörku, þá dvaldi ég í mánuð í Thailandi í nóv 2008. Árið 2008 var ég búsettur í Evrópu og því var ekki verið að greiða lífeyri til ríkis utan EES. Einu tekjur mínar sem öryrki eru örorkulífeyrir TR og bætur frá Þýskalandi 460 ? á mánuði. Með því að TR skerðir bætur mínar er framfærsla mín komin undir 100 þkr á mánuði. Á því getur enginn lifað á Íslandi.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 17. mars 2010. Greinargerð dags. 24. júní 2010 barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

 

Kærður er endurreikningur á bótum 2008 og innheimta á meintum ofgreiddum bótum.

 

Greiðslur örorkulífeyris til kæranda hófust hér á landi 1. september 2006. Vegna búsetu kæranda í Þýskalandi var um að ræða greiðslur á grundvelli EES-samningsins og reglugerðar ESB 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja.

 

Með bréfi dags. 27. apríl 2007 var óskað eftir upplýsingum um tekjur erlendis á árinu 2006 vegna endurreiknings og uppgjörs á bótagreiðslum ársins 2006. Farið var fram á að skilað væri inn staðfestu afriti af skattskýrslu og að útfyllt væri meðfylgjandi tekjuyfirlýsing. Frestur til að skila inn upplýsingum var tilgreindur 2. júní 2007.

 

7. júní 2007 barst úrskurður frá Deutsche Rentenversicherung Vestfalen (tryggingastofnun í Vestfalen héraði) dags. 29. maí 2007 um ellilífeyrisgreiðslur vegna atvinnuleysis frá 1. nóvember 2006. Í úrskurði þessum er heimilisfang kæranda tilgreint að E-götu nr. 1, sveitarfélaginu R, Íslandi.

 

31. júlí 2007 var sent bréf á þýskt heimilisfang kæranda þar sem ítrekuð var beiðni um upplýsingar um tekjur erlendis á árinu 2006 og gefinn lokafrestur til að skila inn gögnum til 15. ágúst 2007. Athygli var vakin á því að berist gögn ekki verði áframhaldandi greiðslu bóta frestað frá og með október 2007.

 

Umbeðin gögn bárust ekki og voru örorkulífeyrisgreiðslur til kæranda að lokum stöðvaðar frá 1. janúar 2008.

 

Með tölvupósti dags. 16. júní 2008 óskaði C hrl. hjá X lögmenn ehf. eftir upplýsingum um hvers vegna greiðslur hefðu stöðvast um síðustu áramót. Honum var svarað 23. júní með því að stöðvunin hefði verið vegna þess að tekjuupplýsingar vegna ársins 2006 hefðu ekki borist og þar sem það væri nú verið að gera upp bótaárið 2007 vantaði líka tekjuupplýsingar vegna ársins 2007.

 

C svaraði 26. júní og kvaðst hafa fengið tölvupóst frá skattayfirvöldum í Saarbrucken í Þýskalandi sem staðfesti að A þurfti ekki frá árinu 2004 að skila skattframtölum.

 

Sama dag barst síðan tölvupóstur frá C þar sem hann framsendi tölvupóst dags. 24. júní til D (tölvupóstfang hjá X) með staðfestingu á því að A þyrfti ekki að skila inn skattframtölum í Þýskalandi. Honum var svarað með því að A þyrfti samt að skila inn gögnum og í framhaldi af því var beiðni C um að gögn yrðu send á hann og að öll bréf frá TR yrðu eftirleiðis send á sig svarað með því að ef hann ætlaði að gerast umboðsmaður A yrðu að berast umboð frá honum.

 

15. september 2008 barst bréf frá C dags. 8. september þar sem fylgdu með tölvupóstur um staðfestingu á því að A þyrfti ekki að skila inn skattframtali í Þýskalandi, tekjuyfirlýsingar fyrir árin 2007 og 2008 dags. 1. júlí 2008 og tilkynningar frá Seðlabanka Íslands um millifærslur á greiðslum á Þýskalandi inn á reikning A hér á landi. Á tekjuáætlun 2007 var nýtt heimilisfang A tilgreint sem E-götu nr. 1, sveitarfélaginu R, Íslandi og sama heimilisfang kom fram á tilkynningum um millifærslu. Óskað var eftir því að greiðslur hæfust að nýju.

 

24. september 2008 var C sendur tölvupóstur vegna nýs heimilisfangs A sem komið hafði fram í gögnum sem hann hafði sent inn og sagt að ekki væri hægt að skrá annað heimilisfang heldur en lögheimili sem í A tilfelli sé í Þýskalandi og hann yrði því að tilkynna um aðsetursbreytingu hjá póstinum. Í tengslum við þennan tölvupóst virðist hafa verið uppi sá misskilningur hjá viðkomandi starfsmanni um að A væri búsettur í Þýskalandi en væri að óska eftir að póstur væri sendur til sín á sitt fyrra heimilisfang hér á landi. Þá fór fram endurreikningur á greiðslum áranna 2006 og 2007 og greiðslur settar af stað frá 1. janúar 2008.

 

6. nóvember 2008 var C sendur tölvupóstur þar sem óskað var upplýsinga um nýtt heimilisfang A þar sem póstur sem sendur væri á uppgefið heimilisfang væri endursendur. Hann svaraði sama dag með því að hann vissi ekki betur en að uppgefið heimilisfang væri lögheimili hans en hann vissi að A dveldi nú í Tælandi og gaf upp heimilisfang hans þar.

 

Tryggingastofnun ríkisins sendi fyrirspurn til tryggingastofnunarinnar í Þýskalandi þann 6. nóvember 2008 og óskaði eftir upplýsingum um heimilisfang A. Þeirri fyrirspurn var svarað með bréfi dags. 11. nóvember með því að E-götu nr. 1, 200 sveitarfélaginu R, Íslandi væri eina heimilisfang samkvæmt þeim upplýsingum sem lægju fyrir hjá þeim og að póstur sem hefði verið sendur til hans þangað kæmi endursendur. Jafnframt kom fram að hann væri nú giftur tælenskri konu þannig að líklega væri hann í Tælandi. Stungið var upp á því að finna út úr því í gegnum banka hans hvar hann væri búsettur. Meðfylgjandi var yfirlit yfir þær upplýsingar sem væru til þar um búsetu og bankareikning A.

 

Bréf sem send voru A á heimilisfangið sem hann hafði verið með í Þýskalandi var áfram endursendur og voru greiðslur því stöðvaðar að nýju frá og með 1. febrúar 2009.

 

Að nýju kom bréf frá C dags. 10. september 2009 þar sem óskað var upplýsinga um hvers vegna greiðslur hefðu stöðvast til A og var það ítrekað 15. september. Síðan kom bréf frá honum dags. 25. september þess efnis að um nýtt heimilisfang í Þýskalandi hefði verið að ræða (F-strasse,G-borg, Þýskalandi) og að óskað var eftir að greiðslur hæfust að nýju.

 

15. október 2009 var ítrekun á beiðni um tekjur erlendis á árinu 2008 á það sem tilgreint hafði verið sem nýtt heimilisfang A í Þýskalandi. Gögn um tekjur bárust 19. nóvember 2009.

 

A hefur verið með skráð lögheimili að H-götu nr. 41c, sveitarfélaginu T, Íslandi síðan 18. nóvember 2009.

 

23. nóvember 2009 var A sent bréf á nýtt íslenskt heimilisfang sitt þar sem óskað var betri upplýsinga um tekjur á árinu 2008 en upplýsingar sem hefðu borist hefðu átt við um árið 2009.

 

26. nóvember 2009 barst síðan í símbréfi frá sýslumanninum í sveitarfélaginu T (líklega frá umboði almannatrygginga þar) staðfesting frá bæjaryfirvöldum í þeim bæ þar sem A hafði verið búsettur í Þýskalandi um að hann hefði tilkynnt um að hann hefði flutt þaðan og til Íslands þann 1. apríl 2007.

 

Í þeim gögnum sem borist höfðu frá og vegna A var ekki að finna upplýsingar um hvar hann hefði verið búsettur frá því hann hafði tilkynnt að hann væri fluttur frá fyrra heimili sínu í Þýskalandi 1. apríl 2007 og þar til hann flutti til Íslands 18. nóvember 2009.

 

30. nóvember voru A send tvö bréf þar sem tilkynnt var að vegna upplýsinga um að hann hefði hvorki verið búsettu í Þýskalandi eða á Íslandi tímabilið 1. apríl 2007 – 18. nóvember 2009 og hann hefði skv. upplýsingum frá C hrl. dvalist í Tælandi á því tímabili bæri honum að endurgreiða lífeyri fyrir það tímabil sem um ræðir þar sem lífeyrir sé ekki greiddur til ríkja sem eru ekki aðilar að EES samningnum.

 

Í tölvupósti dags. 22. febrúar 2010 óskaði C eftir því að upplýst væri hvenær hann hefði gefið upplýsingar um að A hafi dvalið í Tælandi því hann kannist ekki við það. Honum var svarað daginn eftir með því að það hefði komið fram í tölvupósti dags. 6. nóvember 2008.

 

Í kæru dags. 1. mars 2010 er því haldið fram að A hafi ekki dvalið í Tælandi tímabilið apríl 2007 – nóvember 2009 og með því að vísa í tölvupóst C frá 6. nóvember 2008 sé beinlínis farið með rangt mál hjá TR. Hann hafi sannanlega dvalið í Tælandi í nóvember 2008 en þangað hafi hann reglulega farið sem ferðamaður og dvalið þar sér til heilsubóta. Í apríl 2007 hafi hann hyggst flytja til Íslands og skráð sig þangað en hætt við og dvalið áfram í Þýskalandi á heimili dóttur sinnar. Árið 2008 hafi hann einnig dvalið á heimili bróður síns í Danmörku. Hann hafi því verið búsettur í Evrópu árið 2008 og því hafi ekki verið að greiða lífeyri til ríkis utan EES.

 

Með kærunni fylgja ljósrit úr vegabréfi A gefnu út í Danmörku 8. júní 2008, tölvupóstum milli starfsmanns TR og C dags. 6. nóvember 2008 og útskriftum sem munu vera af farmiðum milli Þýskalands og Tælands þar sem ferð frá Þýskalandi til Tælands er tilgreind 27. september 2009, ferð frá Tælandi til Þýskalandi er tilgreind 21. október 2009 og tilgreint heimilisfang er hjá F-strasse 81a, G-borg, Þýskalandi (sem merkt er við að sé dóttir).

 

Þær upplýsingar sem voru þarna að berast TR um búsetustað A voru þannig fyrst heimilisfang í Þýskalandi sem hann flutti frá 1. apríl 2007 og síðan annað heimilisfang sem fram kemur í gögnum sem fylgdu með kærunni að er heimilisfang dóttur hans. Í Þýskalandi voru fyrirliggjandi upplýsingar um búsetustað hans að hann væri búsettur að E-götu nr. 1, sveitarfélaginu R, Íslandi en þar hefur hann ekki átt lögheimili fyrir utan það að lögheimilisflutningur hans þangað á árinu 1994 var leiðréttur (kvótinn 89 sem heimild í útskrift þýðir leiðrétting) frá sama tíma af Þjóðskrá á árinu 1996.

 

Í bréfi frá þýskum yfirvöldum í nóvember 2008 kemur fram að hann eigi tælenska konu og að hann sé líklega í Tælandi. Í breytingaskrá Þjóðskrár kemur fram erlendur maki frá 14. febrúar 2006 en A hefur ekki framvísað neinum upplýsingum um breytingu á hjúskaparstöðu sinni hjá TR.

 

Tryggingastofnun telur að þau gögn og þær upplýsingar sem sýni ekki fram á að A hafi verið búsettur á Evrópska efnahagssvæðinu á tímabilinu 1. apríl 2007 – 18. nóvember 2009 og hann hafi því réttilega verið endurkrafinn um þær greiðslur sem hann hafi ranglega fengið greiddar á því tímabilinu.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi dags. 28. júní 2010 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ágreining um búsetu kæranda á tímabilinu 1. apríl 2007 til 18. nóvember 2009. Kærandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli EES samningsins og samkvæmt honum er skilyrt að búseta bótaþega sé innan EES svæðisins.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru tók kærandi fyrir að hafa dvalið í Tælandi á tímabilinu apríl 2007 til nóvember 2009. Hann hafi hins vegar farið þangað undanfarin ár sem ferðamaður sér til heilsubóta. Kærandi kvaðst hafa áætlað að flytja til Íslands í apríl 2007 en hafi hætt við og dvalið á heimili dóttur sinnar í Þýskalandi þess í stað. Þá hafi hann einnig dvalið á heimili bróður síns í Danmörku árið 2008. Kærandi kveðst hafa verið búsettur á EES-svæðinu á tímabilinu apríl 2007 til nóvember 2009 og þar af leiðandi hafi hann átt rétt til bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að vegna búsetu kæranda í Þýskalandi hafi hann fengið greiddar örorkulífeyrisbætur á grundvelli EES-samningsins og reglugerðar ESB nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja. Stofnunin hafi farið fram á upplýsingar um erlendar tekjur kæranda með bréfi dags. 27. apríl 2007 vegna endurreiknings og uppgjörs bótagreiðslna ársins 2006. Fullnægjandi gögn hafi ekki borist frá kæranda. Í framhaldinu hafi stofnunin ítrekað beiðni sína með bréfi dags. 31. júlí 2007. Umbeðin gögn hafi hins vegar ekki borist. Það hafi ekki verið fyrr en þann 26. júní 2008 og síðar 15. september 2008 sem frekari upplýsingar um erlendar tekjur kæranda bárust frá lögmanni kæranda. Þær upplýsingar hafi hins vegar ekki verið nægjanlega upplýsandi að mati stofnunarinnar. Stofnunin hafi síðan sent fyrirspurn á lögmann kæranda með tölvupósti dags. 6. nóvember 2008 varðandi búsetu kæranda. Þau svör hafi þá fengist að uppgefið heimili væri lögheimili kæranda en hann dveldi hins vegar í Tælandi. Þá hafi stofnunin sent fyrirspurn á Landeshauptstadt Saarbrücken Die Oberbügermeisterin í Þýskalandi og óskað eftir upplýsingum um heimilisfang kæranda. Svör hafi borist frá stofnuninni þess efnis að kærandi hefði flutt frá Þýskalandi 1. apríl 2007. Í ljósi þessara upplýsinga hafi stofnunin stöðvað greiðslur til kæranda. Endurkröfuna á hendur kæranda hafi stofnunin byggt á því að með hliðsjón af framkomnum gögnum hafi búseta kæranda verið óljós fyrir tímabilið 1. apríl 2007 til 18. nóvember 2009.

 

Ágreiningur málsins lýtur að því hvar búseta kæranda var tímabilið 1. apríl 2007 til 18. nóvember 2009. Stofnunin krafði kæranda um endurgreiðslu samtals að fjárhæð 534.298 kr. vegna bóta sem kærandi hafði þegið frá Tryggingastofnun ríkisins á árunum 2007 til 2008 þar sem lögheimili hans hafi ekki verið skráð innan evrópska efnahagssvæðisins.

 

Kærandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli EES samningsins og reglugerðar ESB nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launaþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, vegna búsetu Þýskalandi. Samkvæmt þeim reglum er gert ráð fyrir greiðslum á milli landa innan evrópska efnahagssvæðisins og er þar með skilyrt að búseta viðkomandi bótaþega sé innan svæðisins til þess að bótagreiðslur milli landa séu heimilar.

 

Kærandi greinir frá því í kæru að hann hafi dvalið í Þýskalandi og Danmörku á tímabilinu 1. apríl 2007 til 18. nóvember 2009 að undanskildum einum mánuði sem hann dvaldi í Tælandi.

 

Í gögnum málsins liggur fyrir útprentun úr gagnagrunni Þjóðskrár Íslands varðandi lögheimilisskráningu kæranda. Í gagnagrunni Þjóðskrár Íslands er unnt að fá yfirlit yfir skráð lögheimili á Íslandi og Norðurlöndum. Flutningar kæranda frá Íslandi voru skráðir frá 23. mars 1996 til Þýskalands og síðan var skráð að kærandi hafi flutt aftur til Íslands þann 18. nóvember 2009. Þjóðskrá Íslands býr ekki yfir frekari upplýsingum um það hvar búseta kæranda var á þeim tíma sem hann var ekki skráður á Íslandi eða Norðurlöndum. Samkvæmt framangreindu bjó kærandi því hvorki á Íslandi né í Danmörku á tímabilinu 1. apríl 2007 til 18. nóvember 2009. Samkvæmt fyrirliggjandi bréfi frá Landeshauptstadt Saarbrücken Die Oberbügermeisterin dags. 31. maí 2007 er kærandi ekki skráður með lögheimili í Þýskalandi frá 1. apríl 2007.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga ritaði lögmanni kæranda bréf dags. 4. maí 2011 þar sem farið var fram opinbera staðfestingu á því hvar lögheimili kæranda var tímabilið 1. apríl 2007 til 18. nóvember 2009. Kærandi svaraði erindi úrskurðarnefndar með tölvupósti dags. 27. maí 2011 þar sem hann framsendi tölvupóst frá starfsmanni Þjóðskrár Íslands. Í tölvupósti frá starfsmanni Þjóðskrár kom fram að kærandi hafi verið skráður í Þýskaland frá 23. mars 1994 til 18. nóvember 2009. Opinber staðfesting á lögheimili kæranda hefur ekki borist.

 

Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga er ekki upplýst í málinu hvar lögheimili kæranda var tímabilið 1. apríl 2007 til 18. nóvember 2009. Úrskurðarnefndin hefur gætt að rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem lögmanni kæranda var gefinn kostur á að leggja fram opinbera staðfestingu á lögheimili kæranda umrætt tímabil og hefur slík staðfesting ekki borist. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að meta kæranda það í óhag að hafa ekki upplýst málsatvik nægjanlega í máli þessu. Ekki verður tekin frekari efnisleg afstaða til endurgreiðslukrafna Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda.

 

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta beri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja kæranda um 534.298 kr. vegna ofgreiddra bóta á árunum 2007 til 2008.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja A um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árunum 2007 til 2008 er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta