Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 118/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 118/2021

Miðvikudaginn 25. ágúst 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. febrúar 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. desember 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 12. nóvember 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. desember 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði um búsetu á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár áður en umsókn var lögð fram.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. mars 2021. Með bréfi, dags. 2. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 19. mars 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sé í þjónustu hjá sveitarfélaginu samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Ljóst sé að kærandi sé lögblind og þurfi á mikilli þjónustu að halda. Kærandi sé jafnframt mikill sjúklingur og njóti einnig þjónustu heimahjúkrunar. Kærandi sé með öllu óvinnufær og fái fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá sveitarfélaginu þar sem henni hafi verið synjað um örorku. Kærandi eigi ekki rétt hjá Tryggingastofnun þar sem hún sé ekki með alþjóðlega vernd. Þeirri niðurstöðu sé hér með áfrýjað og beðið sé um undantekningu og endurskoðun málsins vegna sérstakra aðstæðna.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri. 

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt til örorkulífeyris sem séu 18 ára eða eldri og hafi ekki náð ellilífeyrisaldri og hafi verið búsettir á Íslandi í að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram, eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert er þeir tóku hér búsetu.

Samkvæmt 5. tölul. [2. gr.]. laga um almannatryggingar sé búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar ávinnast full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga komi eftirfarandi fram:

„Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.“

Málavextir séu þeir að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. desember 2020, hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyrisgreiðslur þar sem hún hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem komi fram í 18. gr. laga um almannatryggingar. Í bréfinu hafi þau skilyrði verið áréttuð sem kærandi þurfi að uppfylla til að hægt sé að taka umsókn hennar um örorkulífeyri til meðferðar. Á meðal þeirra skilyrða sé að kærandi uppfylli búsetuskilyrði laga um almannatryggingar, þ.e.a.s. að hafa verið búsett á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn um örorkulífeyri hafi verið lögð fram. 

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri til Tryggingastofnunar þann 12. nóvember 2020 og hafi fengið synjun þar sem þriggja ára búsetuskilyrði laga um almannatryggingar hafi ekki verið uppfyllt. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi kærandi flutt til Íslands 7. júlí 2020 og sé B skráð sem upprunaland. Kærandi uppfylli þar af leiðandi ekki skilyrði um þriggja ára búsetu áður en umsókn um örorkulífeyri hafi verið lögð fram samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar.

Með umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi einnig fylgt tímabundið dvalarleyfi hér á landi til 7. júlí 2021, útgefið af Útlendingastofnun. Með tímabundnu dvalarleyfi sé kæranda ekki heimil atvinnuþátttaka hér á landi á fyrrgreindu tímabili.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem endurspegli efni flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, eigi sá sem sæti ofsóknum í heimalandi sínu vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður hér á landi.

Einnig eigi þeir rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða heyra af öðrum ástæðum undir flóttamannahugtakið samkvæmt íslenskum lögum. Þegar knýjandi ástæður á borð við alvarlega sjúkdóma eða sérlega erfiðar félagslegar aðstæður í heimalandi séu til staðar sé heimilt að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Kærandi hafi ekki hlotið alþjóðlega vernd hér á landi og falli þar af leiðandi ekki undir þá vernd sem flóttamenn geti fengið. Útlendingastofnun hafi einungis veitt kæranda tímabundið dvalarleyfi hér á landi sem geti svo skapað grundvöll fyrir búsetuleyfi síðar. Slík mál heyri undir málefni Útlendingastofnunar en ekki Tryggingastofnunar.

Tryggingastofnun starfi eftir lögum um almannatryggingar og séu skilyrði til greiðslu örorkulífeyris tilgreind í 18. gr. laganna. Skilyrði um þriggja ára búsetu hér á landi sé eitt af grundvallarskilyrðum fyrir því að geta átt rétt til örorkulífeyris og séu engar undanþágur frá því búsetuskilyrði í lögunum. Kærandi komi frá landi utan EES og engir alþjóðasamningar eða tvíhliða samningar um almannatryggingar á milli Íslands og B komi hér til álita.

Það sé grundvallarskilyrði fyrir veitingu örorkulífeyris að umsækjendur uppfylli þau lagaskilyrði sem sett séu fram í lögum um almannatryggingar. Eins og áður hafi komið fram sé búseta á Íslandi þrjú síðustu árin áður en umsókn um örorkulífeyri sé lögð fram nauðsynleg. Þar sem kærandi uppfylli ekki búsetuskilyrði laga um almannatryggingar hafi synjun á örorkulífeyri því verið niðurstaðan í ákvörðun Tryggingastofnunar, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. desember 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um örorkulífeyri á þeim grundvelli að búsetuskilyrði væru ekki uppfyllt.

Ákvæði um örorkulífeyri er að finna í 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum. Í a-lið 1. mgr. nefndrar 18. gr. segir að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem hafi verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla, séu á aldrinum 18 til 67 ára og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram, eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert þegar þeir hafi tekið hér búsetu.

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 12. nóvember 2020. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að framangreind skilyrði um búsetu í 18. gr. laga um almannatryggingar væru ekki uppfyllt.

Með kæru fylgdi læknisvottorð C, dags. 19. febrúar 2021, og þar segir í athugasemd:

„Það vottast hér með að viðkomandi er að mati undirritaðs ekki vinnufær og þarfnast fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga um sinn, en afstaða Tryggingastofnunar m.t.t. örorku liggur ekki fyrir eins og sakir standa af hálfu Tryggingastofnunar.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð C, dags. 28. október 2020, vegna umsóknar kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi lengi verið með sykursýki og hafi fyrir X árum misst sjónina á báðum augum.

Samkvæmt upplýsingum úr breytingaskrá Þjóðskrár hefur kærandi verið skráð með lögheimili á Íslandi frá 7. júlí 2020. Samkvæmt framangreindu var skilyrði um þriggja ára búsetu hér á landi ekki uppfyllt þegar umsókn kæranda um örorkulífeyri barst Tryggingastofnun 12. nóvember 2020. Þá verður ráðið af læknisvottorði C, dags. 28. október 2020, að starfsorka kæranda hafi verið skert við flutning til landsins. Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd að skilyrði a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar um búsetutíma á Íslandi séu ekki uppfyllt í máli þessu.

Í kæru kemur fram að kærandi eigi ekki rétt hjá Tryggingastofnun þar sem hún sé ekki með alþjóðlega vernd. Óskað sé eftir undantekningu og endurskoðun málsins vegna sérstakra aðstæðna. Í 18. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá segir að einstaklingar, sem íslenska ríkisstjórnin hafi veitt hæli sem flóttamenn, skuli teljast tryggðir í íslenskum almannatryggingum frá komudegi við framlagningu gagna frá Útlendingastofnun eða Þjóðskrá. Óumdeilt er að kæranda hefur ekki verið veitt hæli sem flóttamaður í skilningi framangreinds ákvæðis en hún hefur fengið útgefið tímabundið dvalarleyfi, án leyfis til atvinnuþátttöku. Engar heimildir eru til að víkja frá búsetuskilyrðum a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar með vísan til aðstæðna kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta