Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 148/2013

Miðvikudaginn 27. nóvember 2013


A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. maí 2013, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru eftirfarandi samkvæmt málsgögnum. Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn sem barst stofnuninni þann 15. ágúst 2012. Kæranda var vísað í athugun hjá endurhæfingarmatsteymi til að meta möguleika til endurhæfingar. Niðurstöður teymisins bárust Tryggingastofnun þann 30. október 2012 og var kæranda vísað í starfsendurhæfingu á B. Endurhæfingaráætlun barst Tryggingastofnun þann 1. febrúar 2013 og kvað á um að kærandi myndi stunda nám í D auk sjúkraþjálfunar og æfinga á tímabilinu 1. janúar 2013 til 1. júlí 2013. Með endurhæfingarmati, dags. 8. mars 2013, synjaði Tryggingastofnun um endurhæfingarlífeyri á þeirri forsendu að áætlunin væri ekki nægilega markviss eða umfangsmikil með endurkomu á vinnumarkað í huga. Í matinu kemur einnig fram að kærandi hafi ekki fylgt tillögum endurhæfingarmatsteymis eða þegið þá endurhæfingu sem honum hafi verið boðið.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir svo:

 „við leggjum fram kæru vegna synjunar á endurhæfingalífeyri þar sem að endurhæfingaáætlunin þótti ekki nógu fullnægjandi er hún var sett saman af G taugalækni, E lækni og D […] Okkur þótti þessi áætlun falla vel að mínum áformum um mína framtíð og möguleikar til vinnu mun meiri með menntun og æfingum en bara þjálfun. […]

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 16. maí 2013. Í greinargerð stofnunarinnar, dags. 12. júní 2013, segir:

 „1. Kæruefni

Kærð er synjun Tryggingastofnunar á umsókn um endurhæfingarlífeyri.

2. Lög sem málið snerta

Um endurhæfingarlífeyri er fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

Lagagreinin hljóðar svo:

Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.  Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar.  Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.  Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga.  Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.

3. Málavextir og öflun gagna

Tryggingastofnun bárust umsókn um örorkulífeyri dags. 15. ágúst 2012 og læknisvottorð vegna umsóknar um örorku frá E dags. 13 sama mánaðar. Ákveðið var að meta þyrfti möguleika til endurhæfingar og var umsækjanda vísað í athugun hjá endurhæfingarmatsteymi.

Niðurstöður teymisins bárust 30. okóber 2012 og var lagt til að umsækjandi færi í atvinnulega endurhæfingu á B. Afrit niðurstaðna voru sendar til utanumhaldandi læknis auk þess sem umsækjanda var vísað í starfsendurhæfingu á B. Nýtt vottorð vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri barst 21. desember 2012 og kallað var eftir endurhæfingaráætlun og upplýsingum frá skóla um fjölda eininga sem umsækjandi var skráður í á vorönn 2013. Þann 29. janúar 2013 barst staðfesting frá D þar sem fram kom að umsækjandi var skráður í 16 einingar á vorönn 2013. Þann 6. febrúar 2013 bárust upplýsingar um að umsækjandi væri búinn að segja sig úr 5 einingum og var því skráður í 11 einingar. 1. febrúar 2013 barst endurhæfingaráætlun og læknisvottorð hvorttveggja frá G, lækni.

4. Mat v. endurhæfingarlífeyris

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð með síðari breytinum er heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi, né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.  Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Greiðslur endurhæfingarlífeyris  grundvallast á því að viðkomandi sé að fylgja virkri endurhæfingaráætlun og tekur þannig mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í skipulagðri endurhæfingaráætlun með starfhæfni að markmiði en ekki af því tímabili sem viðkomandi er óvinnufær.

Endurhæfingaráætlun gilti fyrir tímabilið 1. janúar 2013 til 1. júlí 2013 og kvað á um að umsækjandi myndi stunda nám í D auk sjúkraþjálfunar og æfinga.

Í skrám Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að umsækjandi hefur mætt í sjúkraþjálfun á árinu dagana 31. janúar, 7. febrúar, 14. febrúar, 15. febrúar, 28. febrúar, 1. mars og 15. mars.

Haft var samband við starfsendurhæfingu B þar sem umsækjanda hafði verið vísað af TR í endurhæfingu á þeirra vegum og fengust upplýsingar um að umsækjanda hefði verið boðin innlögn en afþakkað það.

Beiðni um mat á endurhæfingartímabili var tekin fyrir á fundi endurhæfingarteymis Tryggingastofnunar ríkisins.  Við skoðun máls þóttu ekki rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem endurhæfingaráætlun þótti ekki nógu markviss eða umfangsmikil með endurkomu á vinnumarkað í huga auk þess sem umsækjandi fylgdi ekki tillögum endurhæfingarmatsteymis eða þáði þá endurhæfingu sem honum var boðið.

Af þeim sökum var synjað.

5. Niðurstaða

Tryggingastofnun telur ljóst að synjun stofnunarinnar á umsókn um endurhæfingarlífeyri til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar, lög um félagslega aðstoð og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Tryggingastofnun telur því ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni.”

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 18. júní 2013, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust ekki.

Málið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar almannatrygginga þann 14. ágúst 2013. Ákveðið var að fresta ákvörðun í málinu og óska eftir nánari upplýsingum með það í huga að upplýsa málið betur, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi til kæranda, dags. 16. ágúst 2013, var óskað eftir nánari upplýsingum og viðbótargögnum vegna endurhæfingar hans. Þann 17. september 2013 bárust umbeðin gögn og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 17. september 2013. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins þann 4. október 2013 þar sem segir svo:

 „Tryggingastofnun barst afrit af viðbótargögnum í máli nr. 148/2013.

Tryggingastofnun hefur skoðað gögnin og vill fá að bæta eftirfarandi atriðum við fyrri greinargerð.

1. Kærandi er kominn með örorkumat.

Eins og sjá má á bréfi Tryggingastofnunar dags. 18. september sl. hefur kærandi nú fengið örorkumat sem gildir frá 1. júlí 2013 til 30. september 2015. Það er því ljóst að kærandi getur ekki átt rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris í dag þar sem að greiðslur örorkulífeyris skv. 18. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 fara ekki saman með greiðslu endurhæfingarlífeyris sem greiddur er skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007.

2. Endurhæfing á tímabilinu 1. janúar 2013 til 21. maí 2013.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.  Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar.  Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi, né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. 

Ljóst er að viðbótargögnin sem bárust staðfesta það mat stofnunarinnar að sú endurhæfing sem kærandi var í á þessu tímabili (1. jan til 21. maí) var ekki nógu markviss eða umfangsmikil með endurkomu á vinnumarkað í huga auk þess sem umsækjandi fylgdi ekki tillögum endurhæfingarmatsteymis eða þáði þá endurhæfingu sem honum var boðið. Er rétt að vísa 4. hluta greinargerðar Tryggingastofnunar dags. 12. júlí sl. varðandi frekari umfjöllun um mat stofnunarinnar.

3. Tímabilið frá 21. maí 2013 til 30. júní 2013.

Tryggingastofnun fékk fyrst að vita að kærandi hefði innskrifast á starfsendurhæfingu B þann 21. maí 2013 með viðbótargögnunum sem bárust stofnuninni frá úrskurðarnefnd þann 19. september sl.

Tryggingastofnun ákvað því að kanna fyrirliggjandi gögn á þessu tímabili sérstaklega.  Við yfirferð gagna kom í ljós að staðfest hefur verið að kærandi hafði fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi til 30. júní 2013.

Það hefur verið venja hjá Tryggingastofnun að meta ekki endurhæfingarlífeyri og örorku það langt aftur í tímann að tímabil lífeyrisgreiðslna skarist verulega við það tímabil sem einstaklingurinn hefur fengið framfærlsugreiðslur frá félagslegri aðstoð sveitarfélaga. Mat Tryggingastofnunar á tímabili greiðslu endurhæfingarlífeyris kæranda studdist við þesa venju.

Þessi venja hefur verið staðfest í úrskurðum úrskurðarnerfndar almannatrygginga. Í máli nr. 28/2001 reyndi m.a. á þessa venju Tryggingastofnunar. Í úrskurði sínum sagði úrskurðarnefndin m.a.

 „Örorkulífeyrir frá TR er framfærslulífeyrir í kjölfar óvinnufærni viðkomandi sbr. 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Ekki er dregin í efa sú staðhæfing í læknisvottorði að kærandi hafi verið óvinnufær frá árinu 1998. Hinsvegar liggur fyrir að kærandi hefur notið opinberrar framfærslu allt til 1. desember 2000. Úrskurðarnefndin telur þá venju TR að láta framfærslugreiðslur frá Félagsþjónustunni og lífeyrisgreiðslur frá stofnuninni skarast sem minnst reista á málefnalegum sjónarmiðum. Réttur til tvöfalds framfærslueyris er ekki fyrir hendi. Kærandi ber auk langvinnra veikinda fyrir sig fjárskort. Þeim rökum er ómótmælt en fjárskortur nægir ekki til frekari greiðslna aftur í tímann. Úrskurðarnefndin staðfestir því ákvörðun Tryggingastofnunar um greiðslu örorkulífeyris frá og með 1. október 2000.“

Það hefur oftar reynt á þetta atriði og hefur úrskurðarnefnd staðfest niðurstöðu Tryggingastofnunar má þar m.a. benda á mál nr. 470/2009.

4. Niðurstaða

Tryggingastofnun vill að öðru leyti vísa til fyrri greinargerða í máli kæranda.

Tryggingastofnun telur ljóst að synjun stofnunarinnar á umsókn um endurhæfingarlífeyri til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar, lög um félagslega aðstoð og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Tryggingastofnun telur því ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. október 2013, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann telji að möguleikar til vinnu séu mun meiri með menntun og æfingum en bara þjálfun. Hann sé að standa sig mjög vel í námi og það sé bæði að hjálpa honum í daglegum samskiptum og andlegu hliðinni sem og að tryggja það að hann geti fengið góða vinnu að námi loknu óháð hreyfigetu í fótum.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því að endurhæfingaráætlun kæranda hafi hvorki þótt nógu markviss né umfangsmikil með endurkomu á vinnumarkað í huga. Kærandi hafi auk þess ekki fylgt tillögum endurhæfingarmatsteymis eða þegið þá endurhæfingu sem honum hafi verið boðið.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Ákvæðið er svohljóðandi:

 „Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Endurhæfingarlífeyrir er samkvæmt framangreindu lagaákvæði bundinn ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verður til að greiðslur samkvæmt ákvæðinu séu heimilar. Í fyrsta lagi verður viðkomandi að uppfylla aldursskilyrði sem enginn vafi leikur á í máli þessu. Í öðru lagi verða aðstæður viðkomandi að vera þannig vaxnar að ekki verði séð hver starfshæfni viðkomandi verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.

Í gögnum málsins liggur fyrir læknisvottorð E, dags. 17. janúar 2013, þar sem segir svo um sjúkrasögu kæranda:

 „xx ára gamall karlmaður, sem er með vaxandi einkenni um h í fótum, einkenni sem hafa versnað frá því að hann var var um 14 ára.

Móðir segir að hann hafi alla tíð gengið sérkennilega og um 10-12 ára var farið að skoða þetta hjá barnataugalækni, T, sem gerði MRI, sem sýndi einhverjar breytingar í afturhornum hliðarventircela og hann staðfesti h í neðri útlimum. Frá xx ára aldri hefur A reglulega verið í sjúkraþjálfun og hefur það hjálpað þannig að hann er betri e/sjúkraþjálfunar tímabil og það eru teygjur sem hjálpa honum mest, en það er stífni í vöðvum fótanna sem hann finnur mest fyrir, þannig að hann fer að ganga upp á tærnar, draga fæturnar og sveifla mjöðmunum.     [...]“

Í samantekt vottorðsins segir m.a. svo:

 „Sótt um 75 % varanlega örorku fyrir þennan mann, en hann er með taugasjúkdóm í fótum sem mun trufla hann alla ævi, en búast má við því að það komi misgóð tímabil og hann geti unnið létt störf, í sínum góðu tímabilum.

Hann hefur ekki verið að sinna sér nógu vel, en er að fara í skoðun til taugalæknis og meðferð hjá sjúkraþjálfara í byrjun september.

Þannig er sá chroniski taugasjúkdómur sem A er með að valda verulegri skerðingu á hans starfsgetu.“

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í tilvitnuðu vottorði eru aðstæður kæranda með þeim hætti að ekki verður séð hver starfshæfni hans verður til frambúðar vegna sjúkdómsins sem hann glímir við.

Í þriðja lagi er gerð sú krafa samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 að greiðsla endurhæfingarlífeyris fari fram á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Endurhæfingarlífeyrir tekur þannig mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í skipulagðri endurhæfingaráætlun með starfshæfni að markmiði en ekki af því tímabili sem viðkomandi er óvinnufær. 

Í vottorði E læknis er lögð fram eftirfarandi tillaga að meðferð:

 „Búinn að sækja um atvinnulega endurhæfingu á B, samkvæmt ráðleggingum endurhæfingamatsteymis – og er kominn á biðlista þar .

Búinn að senda hann til G, taugalæknis, sem hefur mælt með sjúkraþjálfun. -- og hann Er byrjaður í sjúkraþjálfun , hjá I , og mun fara x 2-3 í viku.

Fer 6 daga í viku , í líkamsrækt , í J , og gerir þar sjálfur æfingar og teygjur sem sjúkra þjálfarinn hefur lagt fyrir hann , og hefur gagn af heitupottunum , til að mykja sig .

A er byrjaður í D , á almennri braut , 16 einingar fram á vor og mun svo verða áfram í eftirliti hjá mér og G, endurhæfinga og taugalækni .“

Í málinu liggur fyrir endurhæfingaráætlun, dags. 30. janúar 2013, undirrituð af G taugalækni. Endurhæfingartímabil var áætlað frá 1. janúar 2013 til 1. júlí 2013 en áætlun um endurhæfingu kæranda er lýst með eftirfarandi hætti:

 „Er í námi í D og byrjaði þar 1.1.sl. Er samfara í ræktinni x5-6/vika. Hann ráðgerir þar að leggja meir áherslur á teygjur. Hefur jafnframt fengið beiðni í sjúkraþjálfun sem hann mun nýta sér þegar hann hefur efni á því en þar er ráðgert að fara yfir teygjuprógramm og leiðbeina með stöður, göngur og æfingar til að minnka stoðkerfisverki sem eru stundum til staðar. Einnig er hafin lyfjameðferð til að minnka spennu í vöðvum en sjúkraþjálfun samfara er mikilvæg sem og að kenna A að sinna réttri þjálfun sjálfur. Þessi áætlun er talin nægileg með námi og heimanámi. Þetta tímabil endurhæfingar er mikilvægt til að fóta sig í lifinu með breyttan lífstíl.“

Að lokum er gerð sú krafa samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 að viðkomandi eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri byggir á því að endurhæfing kæranda sé hvorki nógu markviss né umfangsmikil til að byggja kæranda undir þátttöku á atvinnumarkaði. Þá hefur Tryggingastofnun einnig vísað til þess að kærandi hafi þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi til 30. júní 2013. Það sé venja hjá stofnuninni að meta ekki endurhæfingarlífeyri og örorku það langt aftur í tímann að tímabil lífeyrisgreiðslna skarist verulega við það tímabil sem viðkomandi hafi fengið framfærslugreiðslur frá félagslegri aðstoð sveitarfélaga. Úrskurðarnefnd almannatrygginga, sem m.a. er skipuð lækni, leggur á það sjálfstætt mat í máli þessu hvort skilyrði endurhæfingarlífeyris séu uppfyllt. Til að eiga rétt á greiðslu endurhæfingarlífeyris þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. 

Tilvísun Tryggingastofnunar ríkisins, um að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hafi áhrif á greiðslur endurhæfingarlífeyris, hefur að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga hvorki stoð í lögum né reglum. Í 7. gr. laga um félagslega aðstoð er kveðið á um að umsækjandi þurfi að tæma rétt sinn til launa í veikindaleyfi og greiðslna frá sjúkrasjóðum áður en greiðslur endurhæfingarlífeyris eru fyrir hendi. Þá er ekki heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri ef umsækjandi telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði ekki bundin því skilyrði að umsækjandi eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Þá bendir úrskurðarnefndin einnig á að í 14. gr. laga um félagslega aðstoð er kveðið á um að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi. Í 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð segir að um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Í 5. mgr. nefndrar 18. gr. segir svo:

 „Örorkulífeyri skal skerða ef tekjur örorkulífeyrisþega skv. 2. og 3. mgr. 16. gr. eru hærri en 2.095.501 kr. á ári og um framkvæmd fer skv. 16. gr. Ef tekjur eru umfram umrædd mörk skal skerða örorkulífeyri um 25% þeirra tekna sem umfram eru uns hann fellur niður.“

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 3. mgr. 16. gr. er m.a. kveðið á um að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga teljist ekki til tekna við ákvörðun bótagreiðslna frá Tryggingastofnun. Að því virtu telur úrskurðarnefndin að Tryggingastofnun ríkisins skorti heimild til að líta til fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga við ákvörðun um greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga felst í orðinu endurhæfingarlífeyrir að tilgangurinn með þeim bótum sé að þær skuli greiddar meðan reynt er að endurhæfa sjúkling sem átt hefur við veikindi að stríða eða lent í slysi. Endurhæfingin lýtur fyrst og fremst að sjúkdómnum sjálfum og er greiddur í þeim tilvikum þar sem örorka er ekki ljós. Af eðli máls leiðir að endurhæfingarlífeyrir kemur fyrst til skoðunar þegar læknismeðferð vegna sjúkdóms eða slyss er lokið. Sé það stutt læknisfræðilegu mati að virk meðferð bæti stöðu viðkomandi getur verið heimilt að veita endurhæfingarlífeyri. Samkvæmt gögnum málsins stundaði kærandi nám í D á vorönn 2013 og fór í starfsendurhæfingu á B eftir að þeirri önn lauk. Þá var kærandi einnig í sjúkraþjálfun á tímabilinu janúar 2013 til mars 2013. Að því virtu telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi tekið þátt í fullnægjandi endurhæfingu með starfshæfni að markmiði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki annað ráðið að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga en að kærandi uppfylli skilyrði endurhæfingarlífeyris, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, á því tímabili sem endurhæfingaráætlun kveður á um. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri er því hrundið. Viðurkenndur er réttur kæranda til endurhæfingarlífeyris frá 1. janúar 2013 til 1. júlí 2013.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu endurhæfingarlífeyris til handa A, er hrundið. Endurhæfingarlífeyrir skal reiknast frá 1. janúar 2013.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga  

Friðjón Örn Friðjónsson formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta