Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 414/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 414/2018

Miðvikudaginn 10. apríl 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 20. nóvember 2018, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 20. september 2018 á umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 4. janúar 2018, vegna tjóns sem hann telur að rekja megi til þess að gifs hafi ekki verið sett rétt á [...] hendi hans á C.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 20. september 2018, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. nóvember 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerðin barst með bréfi, dags. 29. nóvember 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði hina kærðu ákvörðun.

Í kæru segir að kærandi hafi [...] X og við það slasast á [...] hendi, sérstaklega á [...]. Hann hafi leitað til C á slysdegi og kvartað undan miklum verkjum, sérstaklega við læknisskoðun og þreifingu. Hann hafi verið greindur með tognun og ofreynslu á fingri og hann settur í spelku ef ske kynni að [...] væri brotinn. Vegna gruns um brot í [...] hafi verið tekin tölvusneiðmynd X og hún leitt í ljós afrifubrot. Kærandi hafi þá gengist undir aðgerð á D þar sem sérfræðingar hafi metið brotið sambærilegt við [...]. Aðgerðin hafi verið framkvæmd X þar sem tveir pinnar hafi verið settir inn til að halda legu í [...] og kærandi átt að vera í gifsi í X vikur. Kærandi hafi leitað til C X þar sem gifsið hafi verið farið að meiða hann og þá verið skipt um það og ný [...] sett.

Kærandi hafi leitað til Cá ný X vegna verkja og sláttar undir spelkunni og þá komið í ljós bjúgur og að annar vírinn væri staðsettur alveg við húð en hinn í eðlilegri stöðu. Kærandi hafi aftur leitað til C X vegna mikilla verkja og þá verið skipt um umbúðir. Í samskiptaseðli hjúkrunar frá þeim degi segi um þá meðferð: „Setjum ekki plastspelkuna heldur heimageri ég stuðning undir pinnann, og yfir hendi utan um [...], hinn pinninn er genginn alveg inn en var úti áður“. Kærandi hafi leitað til D X þar sem umbúðir og pinnar hafi verið fjarlægðir og segi í vottorði deildarlæknis að þegar kærandi hafi fengið nýtt gifs hafi hann verið gifsaður í rangri legu. Í framhaldinu segi: „Viðgerðin hafi þá ekki tekið sig sem er óvanalegt en skýringuna má væntanlega finna í því að hann var gifsaður vitlaust X vikum eftir aðgerð“. Þar sem aðgerðin X hafi ekki tekið sig hafi kærandi gengist undir [aðgerð] X.

Krafa kæranda um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu sé byggð á því að hann hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna rangrar læknismeðferðar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Mótmælt sé þeim forsendum stofnunarinnar að ummæli deildarlæknis um að tjón kæranda hafi orðið vegna þess að hann hafi verið gifsaður vitlaust séu röng. Samkvæmt göngudeildarnótu frá X hafi álit læknisins þvert á móti verið að aðgerðin hafi ekki tekist þar sem kærandi hafi verið gifsaður rangt en það gagn vegi hvað þyngst í málinu. Læknirinn hafi framkvæmt fyrstu aðgerðina X og metið kæranda þegar hann hafi komið til skoðunar X. Því verði að telja að hann hafi verið í bestu stöðunni til þess að sjá hvernig hafi verið gifsað, hvaða afleiðingar það hafi haft og með hvaða hætti fingurinn hafi fengið að gróa. Vegna þessa sé vísað til athugasemda við einstakar greinar frumvarps til laga um sjúklingatryggingu. Þar segi um 1. tölul. 2. gr. laganna að líta skuli til aðstæðna eins og þær hafi verið þegar sjúklingur hafi verið til meðferðar og skuli matið byggt á raunverulegum aðstæðum þegar metið sé hvort afstýra hefði mátt tjóni. Þá sé hugtakið mistök notað í víðtækri merkingu og nái einnig til rangrar aðferðar, tækni og þegar sýnt sé gáleysi við meðferð sjúklings.

Deildarlæknirinn hafi verið best til þess fallinn að meta aðstæður eins og þær hafi verið þegar kærandi hafi verið til meðferðar og því skuli ekki líta fram hjá niðurstöðu hans um að mistök hafi verið gerð við gifsun. Þá skuli ekki litið fram hjá því að læknirinn hafi metið það þannig að mistökin hefðu leitt til þess að kærandi hafi þurft á annarri aðgerð að halda. Meðferðin hafi verið röng og mistök gerð við meðferð kæranda sem hafi leitt til þess að hann hafi þurft að gangast undir aðra aðgerð. Því megi að öllum líkindum rekja tjónið til þess að ætla megi að komast hefði mátt hjá tjóni hefði meðferðinni verið hagað eins vel og unnt hefði verið, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu, og því sé tjón kæranda bótaskylt.

Því sé mótmælt að vísað sé almennt til þess að pinnar losni oft og að fullyrt sé að ekki sé hægt að gifsa lið í rangri stöðu nema pinni sé boginn eða brotinn og að síðustu fimm dagar hafi ekki haft nein úrslitaáhrif á árangur aðgerðarinnar. Áhersla sé lögð á að deildarlæknir hafi séð að kærandi hafði verið gifsaður vitlaust, sbr. fyrrgreinda göngudeildarnótu hans. Einnig að honum hafi þótt liggja ljóst fyrir að þeir dagar sem gifsað hafi verið vitlaust hafi haft áhrif á gróanda og aðgerðin því ekki tekið sig.

Mistök við meðferð kæranda geti jafnframt fallið undir 3. tölul. sömu lagagreinar þar sem fram komi að mat sem síðar sé gert leiði í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri tækni sem völ hafi verið á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn. Fyrir liggi að kærandi hafi verið gifsaður vitlaust en hefði hann verið sendur á D eða til sérfræðings hefði verið hægt að komast hjá því. Í athugasemdum við ákvæðið segi að skilyrði bóta samkvæmt því sé: „Þegar meðferð fór fram hafi verið til önnur aðferð eða tækni og þá hafi í raun verið kostur á henni, t.d. að unnt hafi verið að senda sjúklinginn til sérfræðings eða á sérstaka deild annars staðar. Fyrir liggi að sú tækni og þekking sem hafi verið notuð við að gifsa kæranda hafi verið ófullnægjandi og starfsmanni C þegar borið að vísa honum til sérfræðings.“

Kærandi hafi þurft að gangast undir [aðgerð] vegna mistaka við gifsun sem hafi valdið því að aðgerðin frá X hafi ekki tekist. Hægt hefði verið að komast hjá þeirri aðgerð hefði ekki verið fyrir mistökin sem hafi átt sér stað við gifsun. Kærandi hafi því í tvö skipti verið tekinn til aðgerðar en lagt hafi verið upp með eina. Afleiðingar mistakanna hafi valdið kæranda töluvert meira álagi en nauðsynlegt hafi verið. Hann sé enn með einkenni í hægri hendi sem sé að rekja til mistakanna.

Skilyrði 1. og 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu uppfyllt og kærandi eigi rétt til bóta vegna þess líkamstjóns sem hafi leitt af mistökunum. Leiða megi að því líkur að hefði verið staðið rétt að læknismeðferðinni hefði kærandi ekki fundið fyrir þeim einkennum sem rakin hafi verið.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir meðal annars að á slysdegi hafi verið teknar röntgenmyndir en þær ekki sýnt fram á brot. Vegna einkenna og gruns um hugsanlegt brot í bátsbeini hafi kærandi fengið gifsspelku og síðan verið gerð tölvusneiðmyndarannsókn tveimur dögum síðar. Sú rannsókn hafi leitt í ljós afrifubrot á [...]. Leitað hafi verið ráða hjá læknum bæklunardeildar D og áverkanum þar jafnað við svokallað [...] og ákveðið að framkvæma aðgerð. Samkvæmt aðgerðarlýsingu, dags. X,  hafi skoðun í gegnumlýsingu staðfest óstöðugleika í [...] og í framhaldinu því verið settir inn tveir stálpinnar til að halda legunni í [...]. Annar pinninn hafi gengið í gegnum [...] og upp í [...] en hinn gengið í gegnum [...]. Tímalengd gifsmeðferðar hafi verið áformuð Xvikur.

Skipt hafi verið um gifsumbúðir X og skráð í dagnótu að annar pinninn hefði verið genginn inn. Kærandi hafi verið til skoðunar hjá deildarlækni á D X sem hafi framkvæmt aðgerðina og hann lýst því í nótu, dags. X að kærandi hefði verið hjá sér um það bil X eftir gifsskiptin og meðal annars skráð:

„... Í millitíðinni fékk hann nýtt gips á C og var þá gipsaður í rangri legu. Var þá [...] liðurinn spenntur í vitlausa átt. Gekk þá pinninn inn og var þá laus. Kom til mín X seinna og þá pinnarnir teknir. Rtg.mynd tekin á eftir og þá er hann ekki alveg í optimal stað en þó þannig að það ætti að geta gengið. Kemur í dag að eigin frumkvæði vegna aukinna verkja í [...] og í [...]. Tekin er rtg.mynd sem sýnir að [...] er luxeraður. Viðgerðin hefur þá ekki tekið sig sem er óvanalegt en skýringuna má væntanlega finna í því að hann var gipsaður vitlaust X vikum eftir aðgerð. ...“

Kærandi hafi gengist undir [aðgerð] á [...] í X.

Ætla megi að ástæða umsóknar kæranda hafi verið fullyrðing deildarlæknisins þess efnis að við gifsskipti um X vikum eftir aðgerðina hafi [...] verið gifsaður í rangri stöðu og því hafi pinni losnað og aðgerðin frá X því ekki borið viðunandi árangur.

Stofnunin geti ekki tekið undir framangreinda fullyrðingu með vísan til þess að miðað við fyrirliggjandi röntgenmyndir hafi það verið pinni [...] sem hafi losnað en ekki pinni sem hafi legið [...]. Á meðan síðarnefndi pinninn hafi haldið óbreyttri legu hafi ekki átt sér stað hreyfing á [...]. Þá hafi komið fram í dagnótu þegar skipt hafi verið um gifsið X að pinninn [...] hafi verið laus og genginn inn. Því hafi mátt ætla að gifsskiptin hafi ekkert haft með það að gera að sá pinni hafi losnað. Það sé oft sem pinni losni með tímanum, stundum vegna sýkingar sem ekki virðist hafa verið til staðar í tilviki kæranda, stundum vegna hreyfingar um pinna og stundum án sérstakrar sýnilegrar ástæðu þar sem beinið í kringum pinnann gisni og haldið hverfi því með tímanum. Þótt gifs hafi ef til vill verið lagt í óþægilegri stöðu síðustu X daga meðferðartímans, en kærandi hafði þar áður verið búinn að vera í gifsi í X daga, hafi það ekki haft áhrif á [...] því pinninn þar hafi setið eðlilega. Þegar liður sé pinnaður fastur sé ekki hægt að gifsa þann lið í rangri stöðu nema pinninn sé boginn eða brotinn. Fyrirliggjandi myndrannsóknir hafi staðfest að svo hafi ekki verið í tilviki kæranda. Þá hafi síðustu X dagar gifsmeðferðarinnar ekki haft úrslitaáhrif á árangur þeirrar aðgerðar sem kærandi hafi gengist undir X. Þau einkenni sem kærandi búi við í dag séu rakin til [...] eða upphaflega áverkans en ekki meðferðar.

Ljóst sé að áverkinn hafi greinst bæði réttilega og tímanlega. Kærandi hafi því fengið viðeigandi meðferð. Það að árangur meðferðar hafi ekki orðið viðunandi sé ekki unnt að fella undir ranga meðferð eða skort á meðferð. Kærandi hafi hlotið meðferð sem hafi verið fyllilega innan marka viðtekinnar og gagnreyndrar læknisfræði. Með vísan til þessa hafi skilyrði 2. gr. laganna ekki verið talin uppfyllt.

Stofnunin fallist ekki á með kæranda að göngudeildarnóta deildarlæknisins frá X vegi hvað þyngst í málinu. Röntgenmyndir hafi sýnt fram á aðra niðurstöðu og með vísan til eðlis röntgenrannsókna verði að telja að þau gögn vegi þyngst.

Ekki sé fallist á álit deildarlæknisins þegar litið sé til eðlis áverkans, meðferðar sem hann hafi hlotið og gagna málsins, þ.á m. röntgenrannsókna. Strangt til tekið sé um að ræða vangaveltur deildarlæknis þar sem hann hafi ritað að slakan árangur aðgerðarinnar væri væntanlega að rekja til þessa.

Ekkert hafi komið fram í máli þessu sem gefi tilefni til að víkja frá hinni kærðu ákvörðun og beri að staðfesta hana.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun á bótum á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna tjóns sem kærandi telur að rekja megi til þess að gifs hafi ekki verið sett rétt á hægri hendi hans á C.

Í 2. gr. laganna segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndar eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss. Afleiðingar, sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss, eru þannig ekki bótaskyldar en aftur á móti getur tjón verið bótaskylt sé það fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings leiði könnun og mat á málsatvikum í ljós að líklegra sé að tjónið stafi til dæmis af rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. og 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Hann telur að mistök hafi verið gerð þar sem gifs hafi ekki verið sett rétt á [...] hendi hans á C og það leitt til þess að hann þurfti að gangast undir [aðgerð] X og búi enn við einkenni í [...].

Kærandi gekkst undir aðgerð X vegna brots á [...] þar sem tveimur pinnum var komið fyrir til að halda legu í þumalrót. Að aðgerð lokinni átti kærandi að vera í gifsi í X vikur. Tæplega X vikum eftir aðgerðina leitaði hann til C þar sem hann fann til óþæginda. Samkvæmt samskiptaseðli hjúkrunar frá X var skipt um gifs og sett ný [...]. Kærandi leitaði síðan aftur til C X vegna verkja og sláttar undir [...]. Í samskiptaseðli hjúkrunar þann dag kemur fram að allt hafi litið vel út í gifsskiptingu viku áður en vírarnir náð um 0,4 cm út. Kærandi hafi farið að finna verki og óþægindi undir spelkunni síðustu daga og verið mjög slæmur af verkjum um nóttina og fundist hann finna slátt. Þegar spelkan var fjarlægð var sjáanlegur bjúgur á hönd og var annar vírinn alveg við húð en hinn í eðlilegri stöðu. Roði var ekki sjáanlegur. Læknir var fenginn til að líta á kæranda. Pöntuð var röntgenmynd, búið aftur um brotið og spelka sett á. Niðurstaða röntgenrannsóknarinnar var sú að afstaða beina og liðamóta væri óbreytt. Niðurstöður blóðrannsókna gáfu ekki til kynna sýkingu.

Í samskiptaseðli hjúkrunar frá X segir að kærandi sé mjög verkjaður. Hann hafi fengið nýjar umbúðir og í staðinn fyrir að setja plastspelku aftur á [...] hafi veri útbúinn heimagerður stuðningur undir pinnann og yfir hendi utan um [...]. Hinn pinninn hafi verið genginn alveg inn en áður verið úti. Í göngudeildarnótu deildarlæknis D frá X segir að eftir að gifsið var fjarlægt hafi komið í ljós að pinninn hefði gengið inn og væri alveg upp að húð og pressaði hana inn. Hann hafi verið laus og dreginn út og hinn um leið. Umbúðir hafi verið settar yfir. Í göngudeildarnótu deildarlæknisins, dags. X, segir að kærandi hafi fengið nýtt gifs á E og þá verið gifsaður í rangri legu. [...] hafi verið spenntur í vitlausa átt. Pinninn hafi þá gengið inn og verið laus. Pinnarnir hafi verið teknir viku síðar. Tekin hafi verið röntgenmynd sem sýndi liðhlaup í [...]. Viðgerðin hafi því ekki tekið sig sem sé óvanalegt en skýringuna megi væntanlega finna í því að kærandi hafi verið gifsaður vitlaust X vikum eftir aðgerðina. Kærandi gekkst síðan undir [aðgerð] X.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Þar kemur fram að þegar fjarlægja þurfti pinna úr hendi kæranda þann X var áætluðum meðferðartíma með þeim nánast lokið. Annar pinninn hafði þá gengið til en það var sá sem festi saman [...]. Hinn pinninn lá milli [...] og [...] og var þannig sá sem gegndi aðalhlutverkinu í að hindra [...] í að skríða til eins og síðar gerðist. Þar sem pinninn reyndist hvorki boginn né brotinn var ljóst að hann hafði gegnt þessu hlutverki sínu, enda sýndu röntgenmyndir sem teknar voru eftir pinnatökuna ekki merki um skrið. Það hafði aftur á móti átt sér stað við næstu myndatöku X síðar. Af þessu fær úrskurðarnefnd velferðarmála ráðið að jafnvel þótt gifsmeðferð hafi hugsanlega ekki verið fullkomin síðustu daga meðferðartímabilsins olli það ekki tjóni því sem kærandi varð fyrir. Bótaskylda verður því ekki byggð á 1. tölul. 2. gr. sjúklingatryggingarlaga.

Kærandi byggir kröfuna einnig á 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum segir að það eigi við sé unnt að slá því föstu á grundvelli upplýsinga sem liggi fyrir um málsatvik þegar bótamálið sé til afgreiðslu að líklega hefði mátt afstýra tjóni hefði verið beitt annarri jafngildri aðferð eða tækni. Í kæru er því haldið fram að „sú tækni og þekking sem hafi verið notuð við að gifsa kæranda hafi verið ófullnægjandi og starfsmanni C þegar borið að vísa honum til sérfræðings“. Eins og áður er rakið fellst úrskurðarnefnd ekki á að gifsmeðferð hafi verið orsök þess að [...] kæranda skreið til. Þar af leiðandi kemst úrskurðarnefnd að þeirri niðurstöðu að þótt gifsskipting hefði farið fram á bæklunarlækningadeild í stað [...] hefði það ekki komið í veg fyrir það tjón sem kærandi varð fyrir. Þegar af þeirri ástæðu kemur bótaskylda ekki til greina á grundvelli þessa ákvæðis.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að bótaskylda sé ekki fyrir hendi, hvorki á grundvelli 1. né 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 20. september 2018, þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótum til A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta