Mál nr. 514/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 514/2024
Miðvikudaginn 27. nóvember 2024
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 16. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. október 2024 þar sem umsókn kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 26. júlí 2024, sótti kærandi um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá 1. apríl 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. júlí 2024, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að kærandi væri með tímabundið dvalarleyfi og uppfyllti því ekki skilyrði fyrir greiðslu félagslegs viðbótarstuðnings. Kærandi sótti á ný um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá 1. júlí 2024 með rafrænni umsókn 12. október 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. október 2024, var umsókn kæranda synjað á sömu forsendum og áður en að viðbættum þeim rökstuðningi að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir undanþágu frá framangreindu skilyrði þess efnis að veruleg breyting hafi orðið á forsendum fyrir veitingu dvalarleyfis, s.s. ef framfærandi falli frá eða missi tekjur.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. október 2023. Með bréfi, dags. 17. október 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. nóvember 2024. Athugasemdir umboðsmanns kæranda bárust 7. nóvember 2024 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. nóvember 2024. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi hafi flutt til Íslands 2022 og búi hér til frambúðar og hafi verið tryggður hjá Sjúkratryggingum Íslands frá 25. júlí 2022. Kærandi sé X ára, hættur að vinna og sé fatlaður. Kona kæranda hafi flutt til Íslands […]. Þau búi bæði á Íslandi og séu með dvalarleyfi sem sé grundvöllur varanlegs dvalarleyfis. Þau séu bæði fötluð og tekjulaus.
Þau hjónin búi hjá syni þeirra og séu háð honum fjárhagslega. Frá árinu 2022 hafi sonur kæranda þjáðst af […]. Í nóvember 2023 hafi læknir ráðlagt honum að hætta að vinna vegna heilsubrests. Í kjölfarið hafi tekjur sonar kæranda lækkað mikið, en hann hafi verið á endurhæfingarlífeyri síðan hann hafi hætt að vinna. Þar sem sonur kæranda þurfi að sjá um foreldra sína hafi hann ákveðið að hefja störf aftur í apríl 2024. Í júlí 2024 hafi hann veikst aftur alvarlega og hafi þá þurft að hætta að vinna. Samkvæmt læknisráði sé hann í 48 vikna meðferð og með endurhæfingarlífeyri. Líðan hans hafi ekki batnað og líkur séu á að hann fari í aðgerð í lok árs 2024.
Þegar sonur kærand hafi hætt störfum hafi hann verið með 447.166 kr. í laun á mánuði og í júlí 2024 þegar hann hafi hætt aftur að vinna hafi hann verið með 618.277 kr. í laun á mánuði. Sonur kæranda sé nú á endurhæfingarlífeyri og hafi nú 201.807 kr. í tekjur á mánuði.
Kærandi hafi sótt um viðbótargreiðslur til fólks með takmörkuð ellilífeyrisréttindi og hafi lagt fram nauðsynleg gögn. Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda með bréfi, dags. 30. júlí 2024, á þeim forsendum að til þess að eiga rétt á greiðslu viðbótarstyrks þurfi viðkomandi að hafa búsetu og eiga lögheimili á Íslandi. Samdægurs hafi kærandi sent Tryggingastofnun upplýsingar um að hann væri með tímabundið dvalarleyfi sem sé byggt á sama grundvelli og ótímabundið dvalarleyfi og hafi óskað eftir undanþágu. Kærandi hafi vísað í upplýsingar sem komi fram á heimasíðu stofnunarinnar. Kærandi hafi sótt að nýju um greiðslur með umsókn 12. október 2024 sem hafi verið svarað með bréfi, dags. 15. október 2024. Í bréfinu hafi umsókn hans verið synjað á þeim grundvelli að ekki væri hægt að veita undanþágu frá tilgreindum skilyrðum nema ef verulegar breytingar hafi orðið hjá framfæranda, þ.e. syni kæranda.
Sonur kæranda sjái alfarið fjárhagslega um foreldra sína sem hann geri með tekjum frá Tryggingastofnun. Hann hafi nú þegar skuldsett sig mikið vegna þess. Þau hafi það mjög erfitt fjárhagslega þar sem að sonur kæranda þurfi að sjá fyrir þeim öllum með lágum tekjum.
Það sé mat kæranda að Tryggingastofnun hafi ekki rannsakað málið nægilega áður en umsókninni hafi verið synjað. Kærandi telji að aðstæðurnar séu slíkar að hann eigi að fá undanþágu frá ótímabundnu dvalarleyfi vegna viðbótargreiðslna til fólks með takmörkuð lífeyrisréttindi að teknu tilliti til heilsufars hans, fjárhagsstöðu og veikinda sonar kæranda sem hann sé háður fjárhagslega. Þess sé krafist að kærandi fái greiðslur frá 25. júlí 2024.
Í athugasemdum kæranda, dags. 7. nóvember 2024, kemur fram að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn hans um viðbótarstuðning við aldraða hafi verið byggð á þeim rökum að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um ótímabundna búsetu, vegna núverandi dvalarleyfis. Með vísun í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 74/2020 um félagslega viðbótarstuðning við aldraða sé það mat kæranda að túlkun stofnunarinnar sé ekki rétt. Jafnframt sé dvalarleyfi kærandi á við það að uppfylla skilyrði um fasta búsetu eins og kveðið sé á um í 58. og 72 gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Síðan í júlí 2022 hafi kærandi verið samfellt búsettur á Íslandi samkvæmt tímabundnu dvalareyfi sem veitt hafi verið vegna fjölskyldusameiningar. Gildistími leyfisins sé til júní 2025 og samkvæmt 58. og 72. gr laga um útlendinga sé þetta leyfi grundvöllur fastrar búsetu.
Sonur kæranda, sem sé með fasta búsetu á Íslandi, hafi verið fjárhagslegt bakland hans og hafi uppfyllt skilyrði til að halda dvalarleyfi kæranda. Mánaðartekjur sonar kæranda hafi verið um 360.000 kr. fyrir skatta eins og Útlendingastofnun hafi krafist. Hann muni áfram uppfylla þessar kröfur fram yfir júní 2025 og kærandi geri ráð fyrir að fá fasta búsetu í ágúst 2026. Það sé engin ástæða til að ætla að dvalarleyfi kærandi verði fellt niður í framtíðinni.
Kærandi sé ósammála þeirri fullyrðingu Tryggingstofnunar að dvalarleyfi hans uppfylli ekki skilyrði fastrar búsetu. Samkvæmt 58. og 72. gr. laga um útlendinga geti dvalarleyfi sem gefið sé út vegna fjölskyldusameiningar verið grundvöllur varanlegrar dvalar og 3. mgr. 2. gr. laga um félagslegan stuðning við aldraða. Heimilt sé að gera undanþágu frá kröfum um fasta búsetu ef umsækjandi hafi dvalið samfellt hér á landi í að minnsta kosti tvö ár.
Sonur kæranda, sem sé hans fjárhagslega bakland, þjáist af […] sem krefjist langtímameðferðar sem taki venjulega um 12 til 18 mánuði. Ef ástand hans muni ekki batna fyrir ágúst 2025 muni hann líklega þurfa að fara í aðgerð og muni hann þá líklega vera áfram á endurhæfingarlífeyri til að minnsta kosti apríl 2026. Veikindin hafi leitt til fjárhagslegra erfiðleika hjá fjölskyldunni.
Endurhæfingarlífeyrir sonar kæranda hafi verið framlengdur til apríl 2025 og líkur séu á frekari framlengingu. Vegna veikindanna hafi tekjur hans sveiflast en hafi í október 2023 verið 450.000 kr. og í júlí hafi þær verið 630.000 kr. þegar hann hafi verið á vinnumarkaðnum fyrir veikindin. Þessi sveifla í tekjum sýni áhrif veikindanna á fjárhagsstöðu fjölskyldunnar.
Kærandi sé meðal annars með sykursýki, háan blóðþrýsting, mjaðmabrot og mikla bakverki. Hann hafi gengist undir tvær skurðaðgerðir árið 2023 og þarfnist áframhaldandi læknismeðferðar og sjúkraþjálfunar. Þessar aðstæður hafi haft veruleg áhrif á fjárhagsstöðu fjölskyldunnar og Tryggingastofnun hafi gert lítið úr heilsufarsvandamálum hans.
Eiginkona kæranda sé óvinnufær og bíði eftir að komast inn í sjúkratryggingakerfið. Þetta hafi aukið fjárhagslegar byrðar sonar kæranda sem sé nú ábyrgur fyrir þeim báðum.
Kærandi hafi óskað eftir félagslegum viðbótarstuðningi við aldraða til að draga úr álagi á son hans sem standi í erfiðum veikindum og fjárhagserfiðleikum. Í því sambandi vísar kærandi til 3. mgr. 2. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða er varði undanþágur ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Lögin takmarki ekki sérstakar aðstæður við andlát eða óvinnufærni. Viðvarandi heilsufarsvandi sonar kæranda og óvinnufærni eiginkonu kæranda séu greinilega slíkar aðstæður.
Ágreiningsefnið sé túlkun Tryggingstofnunar á búsetuskilyrðum. Stofnunin haldi því fram að tímabundið dvalarleyfi leiði til þess að kærandi uppfylli ekki skilyrði greiðslan félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða. Stofnunin hafi auk þess fullyrt að dvalarleyfið teljist ekki grundvöllur varanlegrar búsetu. Kærandi sé ósammála því þar sem að dvalarleyfi hans sé byggt á 58. og 72. gr. laga um útlendinga og að hann sé við það að uppfylla skilyrði um varanlega búsetu.
Tryggingastofnun hafi metið sérstakar aðstæður kæranda mjög þröngt. Samkvæmt stofnuninni sé eingöngu undanþága samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga um félagslegan stuðning við aldraða. Það sé mat kæranda að gert sé ráð fyrir víðtækari túlkun á sérstökum aðstæðum sem feli í sér tímabundna óvinnufærni sonar kæranda. Þrátt fyrir að kærandi hafi lagt fram læknisfræðileg gögn hafi Tryggingastofnun ekki tekið mark á þeim. Heilsufar sonar kæranda sé slíkt að ekki séu líkur á að hann byrji að vinna aftur fyrr en í apríl 2026. Kærandi muni einnig fá fasta búsetu á árinu 2026.
Tryggingstofnun hafi gert lítið úr fjárhagslegum áhrifum vegna veikinda sonar kæranda. Tekjur hans hafi verið óreglulegar sem hafi áhrif á fjárhagslegan stöðugleika þeirra.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á félagslegum viðbótarstuðningi á þeim grundvelli að kærandi væri með tímabundið dvalarleyfi.
Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/2020 um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða segi að lögin taki til einstaklinga sem séu 67 ára eða eldri, hafi fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelji varanlega á Íslandi.
Í 2. mgr. 2. gr. komi fram að ef um erlendan ríkisborgara sé að ræða sé það skilyrði að hann hafi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Í 3. mgr. 2. gr. segi að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrði 2. mgr. hafi erlendi ríkisborgarinn dvalarleyfi hér á landi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis eða hann uppfylli skilyrði 84. eða 85. gr. útlendingalaga, enda hafi hann verið búsettur hér á landi, sbr. 1. mgr., samfellt í að minnsta kosti tvö ár þegar sótt sé um félagslegan viðbótarstuðning og sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.
Kærandi hafi sótt um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða með umsókn, dags. 26. júlí 2024. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi kærandi verið með tímabundið dvalarleyfi hér á landi frá 4. ágúst 2022 til 1. júní 2023 og aftur frá 27. september 2023 til 14. júní 2025. Á skírteininu komi fram að um sé að ræða tímabundið dvalareyfi vegna fjölskyldusameiningar, að atvinnuþáttaka sé ekki heimil og að breyttar forsendur gætu ógilt leyfið.
Með bréfi, dags. 30. júlí 2024, hafi umsókn kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða verið synjað á þeim grundvelli að kærandi væri með tímabundið dvalarleyfi.
Með tölvupósti 30. júlí 2024 hafi kærandi andmælt ákvörðun Tryggingastofnunar og hafi krafist rökstuðnings á þeim grundvelli að dvalarleyfi hans telji upp í ótímabundið dvalarleyfi og hafi hann haft skráð lögheimili á Íslandi í tvö ár.
Kærandi hafi sótt um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða að nýju með umsókn, dags. 12. október 2024, og hafi vísað í undantekningu 3. mgr. 2. gr. laga um viðbótarstuðning við aldraða á þeim grundvelli að dvalarleyfi kæranda telji upp í ótímabundið dvalarleyfi, hann hafi haft skráð lögheimili á Íslandi í tvö ár auk þess að framfærandi hafi veikst og sé nú orðin óvinnufær.
Með bréfi, dags. 15. október 2024, hafi umsókn kæranda verið synjað á þeim grundvelli að kærandi væri með tímabundið dvalarleyfi og hafi ekki uppfyllt skilyrði til þess fá undanþágu frá skilyrðinu um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi eða rétt til ótímabundinnar dvalar.
Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafi kærandi haft tímabundið dvalarleyfi hér á landi frá 27. september 2023 til 14. júní 2025. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 2. gr. laga um félagslegan viðbótastuðning við aldraða um að hafa ótímabundið dvalarleyfi eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi samkvæmt ákvæðum útlendingalaga.
Tímabundið dvalarleyfi kæranda geti engu að síður verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 5. mgr. 69. gr. útlendingalaga. Hafi því komið því til skoðunar hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði 3. mgr. 2. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða um undanþágu frá skilyrðinu um ótímabundið dvalarleyfi eða rétt til ótímabundinnar dvalar. Ákvæði 3. mgr. 2. gr. sömu laga sé undantekning frá meginreglunni um að erlendir ríkisborgarar þurfi að hafa ótímabundið dvalarleyfi og því beri að skýra hana þröngt.
Kærandi hafi verið hér á landi í að minnsta kosti tvö ár þegar sótt hafi verið um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Ákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna heimili að veitt sé undanþága frá skilyrði um ótímabundna búsetu þegar hinn erlendi ríkisborgari hafi verið löglega búsettur hér á landi samfellt í að minnsta kosti tvö ár fyrir umsókn. Þá hafi verið litið til þess hvort sérstakar aðstæður hafi verið fyrir hendi.
Sérstakar aðstæður séu taldar vera fyrir hendi þegar um sé að ræða mjög erfiðar eða breyttar aðstæður, til dæmis þegar framfærsla umsækjanda hafi fallið niður, svo sem vegna andláts þess sem hana hafi ábyrgst áður en hann fái ótímabundið dvalarleyfi.
Kæranda hafi verið veitt dvalarleyfi á grundvelli heimildar í 2. mgr. 72. gr. útlendingalaga sem heimili veitingu dvalarleyfa til útlendings sem sé 67 ára eða eldri eigi hann uppkomið barn hér á landi. Þegar slík dvalarleyfi séu veitt sé heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur ef barn hans sýni fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi. Við mat á sérstökum aðstæðum hafi því verið horft til þess að núgildandi tímabundna dvalarleyfi kæranda hafi verið veitt frá 27. september 2023. Horft sé til þess tímapunkts við mat á því hvort að aðstæður þess sem hafi ábyrgst framfærslu kæranda þegar dvalarleyfið hafi verið veitt hafi breyst frá því tímamarki. Þegar litið sé til þess verði ekki talið að tekjur framfæranda hafi lækkað frá því að dvalarleyfi kæranda hafi seinast verið veitt og sonur hans hafi tryggt framfærslu hans. Þá verði að telja af gögnum málsins að framfærandi sé aðeins óvinnufær tímabundið. Tryggingastofnun líti svo á að meira þurfi að koma til svo að skilyrðið um sérstakar aðstæður teljist uppfyllt, til dæmis andlát framfæranda eða verulega skert vinnugeta hans til framtíðar.
Skert færni eða slæmt heilsufar umsækjanda geti talist til sérstakra aðstæðna í skilningi 3. mgr. 2. gr. laga um um félagslega aðstoð við aldraða. Farið hafi verið yfir innsend læknisvottorð og hafi niðurstaðan verið sú að heilsufar kæranda hafi ekki gefið tilefni til þess að samþykkja greiðslu félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða. Þrátt fyrir að aðstæður kæranda geti talist erfiðar vegna heilsu þá verði þær ekki taldar svo sérstaklega erfiðar að þær uppfylli skilyrði 3. mgr. 2. gr. framangreindra laga. Við það mat sé tekið tillit til þess að heilsufar kæranda hafi ekki tekið miklum breytingum undanfarin ár.
Kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 2. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða þar sem hann sé með tímabundið dvalarleyfi. Þá uppfylli kærandi ekki heldur skilyrði undanþáguákvæðis 3. mgr. 2. gr. laganna vegna þess að hann teljist ekki búa við sérstakar aðstæður í skilningi ákvæðisins.
Í ljósi alls framangreinds fari Tryggingastofnun fram á það að kærð ákvörðun, dags. 15. október 2024, um að synja umsókn kæranda um greiðslu félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða verði staðfest fyrir úrskurðarnefndinni. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. október 2024 á umsókn kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða.
Um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða er fjallað í lögum nr. 74/2020. Í 2. gr. laganna er kveðið á um gildissvið laganna sem er svohljóðandi:
„Lög þessi taka til einstaklinga sem eru 67 ára eða eldri, hafa fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelja varanlega á Íslandi.
Ef um erlendan ríkisborgara er að ræða er það skilyrði að hann hafi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.
Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði 2. mgr. hafi erlendi ríkisborgarinn dvalarleyfi hér á landi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis eða hann uppfyllir skilyrði 84. eða 85. gr. laga um útlendinga, enda hafi hann verið búsettur hér á landi, sbr. 1. mgr., samfellt í a.m.k. tvö ár þegar sótt er um félagslegan viðbótarstuðning og sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.“
Samkvæmt framangreindu er meginreglan sú, ef um erlendan ríkisborgara er að ræða, að viðkomandi þurfi að uppfylla það skilyrði að hafa ótímabundið dvalarleyfi hér á landi eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga. Heimilt er að veita undanþágu frá þessu skilyrði hafi erlendi ríkisborgarinn dvalarleyfi hér á landi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis eða hann uppfylli skilyrði 84. eða 85. gr. laga um útlendinga, enda hafi hann verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti tvö ár samfellt og sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fengið tímabundið dvalarleyfi hér á landi vegna tímabilsins 4. ágúst 2022 til 1. júní 2023 og aftur frá 27. september 2023 til 14. júní 2025. Því er ljóst að hann uppfyllir ekki skilyrði 2. mgr. 2. gr. um ótímabundið dvalarleyfi. Af gögnum málsins verður ráðið að tímabundið dvalarleyfi kæranda hafi verið byggt á heimild í 2. mgr. 72. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga sem heimili slíkt leyfi til útlendings sem sé 67 ára eða eldri og eigi uppkomið barn á landinu. Við útgáfu slíks dvalarleyfis er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur ef barn hans sýnir fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir þau skilyrði 3. mgr. 2. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða að því er varðar dvalarleyfi og búsetu. Kemur þá til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði 3. mgr. 2. gr. sömu laga um sérstakar aðstæður.
Í frumvarpi til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða segir um sérstakar aðstæður:
„Hér getur t.d. verið um að ræða mjög erfiðar eða breyttar aðstæður, t.d. andlát maka og að ekkert bendi til þess að ótímabundið dvalarleyfi verði ekki veitt.“
Þá segir svo í nefndaráliti velferðarnefndar:
„Nefndin bendir á að með ákvæðinu er aðeins vísað til þeirra tegunda dvalarleyfa sem geta verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, en ekki til þess að viðkomandi uppfylli öll skilyrði ótímabundins dvalarleyfis þegar hann sækir um viðbótarstuðning. Þannig sé Tryggingastofnun heimilt að líta til sanngirnissjónarmiða við ákvörðun um að veita undanþágu á grundvelli 3. mgr. og getur þetta t.d. átt við þegar framfærsla hefur fallið niður, svo sem vegna andláts þess sem hana ábyrgist, eða ef viðkomandi þarf að hætta störfum sökum varanlegrar örorku áður en hann fær ótímabundið dvalarleyfi.“
Meðal gagna málsins er læknisvottorð B, dags. 25. júlí 2024. Þar segir:
„X years old man originally from C.
Has several chronich diseases including diabetes treated with insuline, coronary artery heart disease, chronich obstructive lung disease, hypertension, hypercholesterolemia, chronich low back pain, hypertension and benign enlargened prostate.
Has very limitied walking capacity due to breathing problem as well as impaired balance because he is not able to feel touch underneath his feet and strong back pain.“
Einnig liggur fyrir beiðni B um sjúkraþjálfun, dags. 25. júlí 2024, og vottorð D sjúkraþjálfara, dags. 8. ágúst 2024, um göngugetu kæranda.
Þá liggja fyrir upplýsingar um tekjur sonar kæranda frá árinu 2022.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af gögnum málsins að sonur kæranda er ekki með miklar tekjur. Útlendingastofnun virðist þó telja tekjurnar nægjanlegar til þess að tryggja framfærslu hans og einnig framfærslu kæranda, enda fékk kærandi upphaflega dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga í ágúst 2022 og framlengingu í september 2023 þrátt fyrir að sonur kæranda væri einungis að þiggja atvinnuleysisbætur á þeim tíma. Af framangreindum athugasemdum í frumvarpi til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða og nefndaráliti velferðarnefndar verður ráðið að með skilyrðinu um sérstakar ástæður sé átt við mjög erfiðar eða breyttar aðstæður, til að mynda ef framfærsla hefur fallið niður. Í máli þessu er ekki um slíkt tilvik að ræða. Við túlkun á ákvæðinu lítur úrskurðarnefndin einnig til þess að um er að ræða undantekningu frá því skilyrði fyrir veitingu félagslegs viðbótarstuðnings að erlendur ríkisborgari sé með ótímabundið dvalarleyfi eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi. Þrátt fyrir að aðstæður kæranda séu erfiðar vegna veikinda hans og tekjusögu sonar hans telur úrskurðarnefndin þær ekki sérstakar í skilningi 3. mgr. 2. gr. um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. október 2024 um að synja kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir