Mál nr. 308/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 308/2017
Mánudaginn 4. desember 2017
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.
Með kæru, dags. 22. ágúst 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 13. júní 2017 um bætur úr sjúklingatryggingu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 1. desember 2016, vegna meðferðar á Landspítala í kjölfar þess að hún leitaði á bráðamóttöku spítalans vegna áverka á öxl. Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst þannig að þegar kærandi hafi leitað á bráðamóttöku Landspítala X, eftir að hafa farið úr lið í öxl, hafi verið tekin röntgenmynd. Henni hafi verið sagt að hún væri ekki brotin og ráðlögð sjúkraþjálfun að tveimur vikum liðnum. Mánuði síðar, eftir miklar kvalir, hafi kærandi leitað til C læknis og lýst ástandi sínu. Tekin hafi verið ný röntgenmynd og kæranda, sagt að hún væri ekki brotin og skyldi halda áfram í sjúkraþjálfun. Í X hafi D læknir sent kæranda í röntgenmyndatöku á nýjan leik og þá komið í ljós nokkuð stórt brot. Sjúkraþjálfun hafi þá verið hætt í bili og kærandi send til E læknis og taugaskemmd komið í ljós. Þá lýsir kærandi því að í endurkomu á Landspítala X hafi henni nánast verið sparkað út þótt hún hafi kvartað mikið. Þá hafi hún haldið að hún ætti að fara í myndatöku þann dag en verið bent á að leita til F ef frekari vandræði yrðu.
Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda um bætur með ákvörðun, dags. 13. júní 2017, á þeim grundvelli að skilyrði 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu væru ekki uppfyllt.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. ágúst 2017. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. september 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. september 2017. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og viðurkennt að vangreining á áverkum á vinstri öxl hafi valdið henni tímabundnu, varanlegu og öðru fjárhagslegu tjóni.
Í kæru kemur fram að við skoðun hjá G í endurkomu X segi að kærandi sé með minni dofa í upphandlegg. Hvaðan viðkomandi læknir hafi það sé óvíst þar sem kærandi hafi búið við stöðugan dofa á þessum tíma. Engin mynd hafi verið tekin af öxl við þessa skoðun, þrátt fyrir beiðni kæranda þar um. Hins vegar hafi viðkomandi læknir bent kæranda á að leita til axlarsérfræðings í F.
Við ómskoðun C hafi verið greind „trosnun á supraspinatus“ á vinstri öxl. Sú skoðun hafi átt sér stað X, eða réttum mánuði eftir slysið.
Kærandi hafi fyrst heyrt af því að brot hafi verið uppgötvað hjá D lækni X. Sá læknir hafi fyrstur lækna kynnt sér stöðu kæranda. Fram að því hafi þeir allir tjáð henni að hún væri óbrotin og ætti að hreyfa sig sem mest og fara í sjúkraþjálfun.
Þá hafi kærandi eftir E að hún sé trúanlega með varanlegan taugaskaða og þangað hafi hún leitað að beiðni H læknis. Ekkert vottorð frá E eða öðrum taugalækni liggi fyrir um hvort líkur séu á að umrædd vangreining hafi skaðað sinar eða taugar í öxl og hvort staða hennar væri mögulega betri hefði viðkomandi áverki verið rétt greindur þegar í byrjun.
Hálseymsli kæranda hafi tekið sig upp og hún þurft á sjúkraþjálfun að halda vegna þeirra síðan, en við það hafði hún sloppið í um 15 ár fram að umræddu slysi.
Andlega hliðin hafi farið alveg úr skorðum sökum erfiðra tíma í kjölfar viðkomandi atburða, en kærandi hafi ekki haft nein slík einkenni fyrir viðkomandi atburð. Horfa verði til þess að hún hafi liðið miklar kvalir frá slysi þar til í lok X án þess að vita hvað væri að plaga hana. Þá fyrst hafi komið í ljós að um brot hafi verið að ræða. Síðan þá hafi heilsa hennar verið slæm og hún meðal annars þurft að hætta vinnu.
Kærandi hafi orðið fyrir varanlegu, tímabundnu og fjárhagslegu tjóni sökum vangreiningar á áverkum hennar á vinstri öxl og hún liðið miklar þjáningar.
Ljóst megi vera að kærandi hafi verið illa kvalin frá slysdegi til X þegar hún hafi leitað til D læknis. Hann hafi lesið úr myndum og greint brot. Allan tímann hafi verið búið að stunda mikla hreyfingu á öxl og stífa og markvissa sjúkraþjálfun eftir ráðleggingum lækna. Kæranda hafi verið einatt ráðlagt að stunda sjúkraþjálfun til að takmarka tjón sitt, og hún gert það og þjáðst allan tímann á meðan það hafi staðið yfir. Telja verði að Sjúkratryggingar Íslands beri sönnunarbyrði fyrir því að kærandi hafi ekki mögulega orðið fyrir tjóni vegna vangreiningar.
Kærandi byggi á því að hún hafi sýnt nægilega fram á að hún hafi orðið fyrir tímabundnu, varanlegu og fjárhagslegu tjóni við vangreiningu heilbrigðisstarfsmanns Landspítala, dags. X. Beri embættið, kæruþoli, sönnunarbyrði um að áverkar hennar, sem hún hafi glímt við í dag, séu vegna slyssins en ekki vangreiningar. Ljóst megi vera að um mistök starfsmanns Landspítala sé að ræða og sé það óumdeilt. Mikil einföldun sé að segja að sami taugaskaði og sömu verkir hafi þjakað kæranda í dag hefði brot verið greint rétt á sínum tíma. Eingöngu fólk án rökhyggju geti látið slíkt út úr sér. Þann vafa sem umleiki ástand kæranda í dag verði að túlka henni í hag og fella mál þetta undir gildissvið sjúklingatryggingarlaga.
Þá sé réttilega bent á að ekkert vottorð frá hlutlausum taugalækni liggi fyrir í málinu sem staðfesti að öruggt sé að ástand kæranda hefði orðið það sama hefði hún verið rétt greind í upphafi. Slíkt álit sé nauðsynlegt áður en hægt sé að taka ákvörðun í þessu máli. Fyrri ákvörðun sé því markleysa.
Þá hafi sá læknir, sem hafi tekið á móti kæranda við endurkomu á Landspítala, neitað henni um myndatöku og sagt henni að leita til F, sem hann sé einn eigenda að. Slíkt hegðun sé ekki heppileg fyrir starfandi lækna á Landspítala og langt frá því að samræmast siðareglum þeirra.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að í hinni kærðu ákvörðun sé málavöxtum lýst með eftirfarandi hætti:
„Þann X leitaði umsækjandi á bráðamóttöku LSH vegna verkja í vinstri öxl eftir fall. Fram kemur að hún hafi verið slæm af verkjum og öxlin aflöguð og jafnframt var lýst dofa á deltoideus svæðinu sem var nýtt samkvæmt umsækjanda, og einnig á handarbaki. Eftir gjöf verkjastillandi lyfja var dregið í liðinn og rétt lega í axlarliðnum staðfest með nýrri röntgenrannsókn. Í niðurstöðum þeirrar rannsóknar var lýst óreglu í kanti liðskálar neðarlega og velt upp möguleikanum á Bankart áverka. Þessa var getið í niðurstöðum röntgenrannsóknar en ekki í dagnótu í sjúkraskrá. Í dagnótu var lýst dofa utanvert á ofanverðum upphandlegg. Umsækjandi fékk umbúðir sem héldu handlegg að líkamanum (fatla, netbol og leiðbeiningar) og áformað var eftirlit eftir 7-10 daga, með tilliti til brots og taugaskaða.
Það eftirlit fór fram X og segir í dagnótu að dofinn utanvert á upphandlegg hafi enn verið til staðar þótt umfang hans hafi minnkað og kraftar í hendi voru sagðir algerlega eðlilegir. Við skoðun var öxlin í liðnum. Umsækjanda voru kenndar pendúlæfingar fyrir öxlina sem henni gekk vel að framkvæma og skrifuð beiðni til sjúkraþjálfara, þar sem m.a. kom fram „ekkert brot.“ Ekki fór fram myndrannsókn við þetta endurmat. Gögn frá sjúkraþjálfara liggja ekki fyrir en samkvæmt umsækjanda gekk sjúkraþjálfunin illa og náðist enginn árangur. Umsækjandi var einnig til skoðunar hjá C þann X vegna verkja í vinstri öxl. Hann lýsti stirðleika í öxlinni og dofa utanvert á upphandlegg en hann lét ómskoða öxlina til að kanna ástand sina í lyftihulsu axlarinnar, sem reyndust heilar.
Tölvusneiðmyndarannsókn var gerð af vinstri öxl umsækjanda í F þann X og kom þá í ljós brot úr neðri hluta framkants liðskálar í öxlinni, eða það sem síðar í gögnum er kallað bony Bankart. Umsækjandi var svo til skoðunar hjá H þann X og lýsti hann aðallega lélegri hreyfigetu, verkjum og skertu skyni utanvert á upphandlegg. Hann sendi umsækjanda í vöðva- og taugarit hjá E taugalækni og fór sú rannsókn fram X og staðfesti hún merki um skaða á axlartaug, en það kemur heim og saman við lýsingar á dofa utanvert á upphandlegg frá upphafi. Rannsóknin sýndi einnig fram á viss merki um bata og taldi E horfur vegna taugaskaðans vera góðar. Umsækjandi var aftur til skoðunar hjá H þann X og þá voru enn til staðar verkir í öxlinni og veruleg hreyfiskerðing, en í nótu hans kemur fram að þá hafi ekki verið eins áberandi merki um áðurnefndan skaða á axlartaug. Hann ráðlagði áfram sjúkraþjálfun, að bíða skyldi átekta og ef fram kæmu einhver merki um óstöðugleika þá þyrfti að skoða möguleika á hugsanlegri aðgerð.
Í millitíðinni hafði umsækjandi verið til skoðunar á LSH en umsækjandi hitti fyrst I sem staðfesti verulega hreyfiskerðingu og taugaeinkenni. Hann vísaði umsækjanda til J, en hann taldi rétt að halda áfram með sjúkraþjálfun og að reyna mætti að gefa sterasprautu undir axlarhyrnu síðar ef einkenni gæfu sig ekki.“
Kærandi telji sig hafa hlotið varanlegar afleiðingar vegna vangreiningar á broti á Landspítala X. Í máli þessu sé ekki deilt um hvort vangreining hafi átt sér stað þann dag, heldur hvort tjón hafi hlotist af vangreiningunni. Að mati stofnunarinnar sé ljóst að svo hafi ekki verið. Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu skuli greiða bætur ef ætla megi að komast hefði mátt hjá tjóni hefði rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
Með vísan til hinnar kærðu ákvörðunar sé að mati stofnunarinnar ljóst að læknar hafi ekki greint brot á vinstri öxl vegna slyssins fyrr en 45 dögum eftir slysdag. Það sé þó mat bæklunarskurðlæknis stofnunarinnar að vangreiningin hafi ekki leitt til tjóns fyrir kæranda. Hefði réttri greiningu verið náð í upphafi hefði það ekki leitt til annarrar meðferðar en þeirrar sem hún hafi fengið.
Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að þegar hafi komið upp grunur um taugaskaða hjá kæranda, þ.e. skaða á axlartaug. Það sé þekktur fylgikvilli við liðhlaupi í öxl. Þegar slíkur fylgikvilli fari með liðhlaupi gildi almennt að horfur verði verri og endurhæfing erfiðari og langdregnari og lokaárangur lakari. Hefði beinbiti, sem hafi brotnað úr framkanti liðskálar, verið stærri og sérstaklega ef óstöðugleiki í öxl hefði fylgt, hefði verið rétt að kanna hvort rétt væri að mæla með aðgerð til að minnka hættu á óstöðugleika til framtíðar og frekari liðhlaupum. Raunin hafi hins vegar orðið sú að kærandi hafi ekki verið að glíma við óstöðugleika, þótt hún hafi verið með erfiða verki og verulega hreyfiskerðingu. Fram komi í nótum að öxlin hafi ekki verið óstöðug við skoðanir og stirðleiki mæli einnig gegn því að svo geti hafa verið.
Hefði brot verið greint í upphafi hefði það ekki leitt til aðgerðar heldur hefði verið veitt meðferð án inngrips til að meðhöndla verki. Samkvæmt gagnreyndri læknisfræði sé við meðferð slíkra brotáverka beitt verkjastillingu með verkjalyfjum og ráðlögð hreyfing að sársaukamörkum þar sem best sé að reyna að fá sjúklinga í hreyfingu sem fyrst eftir getu og láta verki stjórna álagi. Þá sé sjúklingum ráðlagt að leita aftur á bráðamóttöku ef einkenni versni. Af gögnum málsins sé ljóst að þessi meðferð hafi verið veitt, þrátt fyrir að læknar hafi ekki greint brot í upphafi.
Ekkert í gögnum málsins hafi bent til að batatímabil kæranda eftir slysið hafi verið lengra en búast hafi mátt við, þ.e. hefðu læknar greint brotið í upphafi, þar sem ljóst sé að vangreining hafi ekki leitt til versnunar einkenna vegna brotáverkans. Þar af leiðandi verði þau miklu óþægindi, sem kærandi hafi kvartað undan í umsókn, að öllu leyti rakin til upphaflega áverkans.
Kærandi telji óvíst hvaðan K hafi fengið upplýsingar um að hún væri með minni dofa í upphandlegg við skoðun X þar sem hún hafi verið með stöðugan dofa á þessum tíma. Eftirfarandi hafi verið skráð í sjúkraskrá: „A er X ára gömul kona sem kemur í eftirlit vegna axlarliðhlaups fyrir níu dögum síðan. Hún var með dofa á upphandlegg eftir liðhlaupið sem er enn til staðar, þó umfang hans hafi minnkað. […] Við skoðun nú situr hún greinilega vel í liðnum. Það er dofi í efra hluta utanverðs upphandleggs en kraftar í hendi eru algerlega eðlilegir. […] Ég útskýri fyrir henni með dofann að hann geti gengið til baka þó ekki sé hægt að fullyrða það og er lítið við því að gera“. Sjúkratryggingar Íslands telji að sjúkraskrárnótan feli ekki í sér að læknirinn hafi haldið því fram að dofi sé ekki lengur stöðugur, heldur að umfang hans hafi minnkað.
Kærandi hafi bent á að við ómskoðun hafi trosnun á supraspinatus sin á vinstri öxl verið greind. Sú skoðun hafi átt sér stað X, réttum mánuði eftir slysið. Sjúkratryggingar Íslands geri ekki athugasemdir við það þar sem eftirfarandi komi fram í niðurstöðum, dagsettum sama dag: „Biceps sinin er heil og situr í sulcus. Það er vökvi aðlægt sininni. Subscapularis sinin er heil. Infraspinatus sinin er heil. Í supraspinatus sininni sést lítil kölkun. Það er einnig til staðar smávægileg trosnun á supraspinatus sininni en engar gegnumgangandi rifur. Dálítill þroti í bursa subacromialis. Ekki er unnt að meta hvort impingement er til staðar“.
Þá taki kærandi fram að hálseymsli hafi tekið sig upp og hún þurft á sjúkraþjálfun að halda vegna þeirra síðan. Einnig hafi andleg líðan farið úr skorðum sökum erfiðra tíma í kjölfar viðkomandi atburða, en hún hafi ekki haft slík einkenni fyrir slysið. Stofnunin ítreki að ljóst sé að kærandi hafi verið með erfiða verki og verulega hreyfiskerðingu, en það megi rekja til áverkans sjálfs en ekki tafar á greiningu.
Um fullyrðingu kæranda þess efnis að stofnunin beri sönnunarbyrði um að áverkar þeir sem hún glími við í dag séu vegna slyssins en ekki vangreiningar skuli bent á þá meginreglu í skaðabótarétti að tjónþoli sjálfur, eða sá sem leiði rétt sinn frá tjónþola, þurfi að sanna tjón sitt og einnig orsakatengsl á milli háttsemi tjónvalds og tjónsins. Það sé því undantekningarregla að snúa skuli sönnunarbyrði við. Því sé mótmælt af hálfu stofnunarinnar að hún þurfi að sanna að ekki séu orsakatengsl á milli vangreiningar og þess tjóns sem kærandi hafi orðið fyrir. Þvert á móti sé það hlutverk kæranda að sýna fram á slík orsakatengsl. Sú regla byggi meðal annars á meginreglum skaðabótaréttar og þeim sönnunarreglum sem fram komi í lögum um sjúklingatryggingu. Tilgangur laganna hafi meðal annars verið sá að auðvelda sönnunarbyrði tjónþola með því að gera ekki lengur kröfu um að tjónþoli sanni orsakatengsl á milli háttsemi heilbrigðisstarfsmanna og tjóns þannig að hafið sé yfir allan vafa. Í stað þeirrar sönnunar nægi nú að sanna að tjón hafi að öllum líkindum orðið vegna háttseminnar. Með öðrum orðum sé það enn á herðum tjónþola, eða þess sem leiði rétt sinn frá tjónþola, að sanna tjón og orsakasamband á milli háttsemi aðila og tjónsins.
Það sé þannig mat stofnunarinnar að vangreining hafi átt sér stað en hún ekki leitt til tjóns, hvorki tímabundins né varanlegs. Þau einkenni sem kærandi kenni nú verði því að öllu leyti rakin til upphaflega áverkans en ekki meðferðarinnar sem hafi verið veitt við áverkanum. Með vísan til þessa séu skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu ekki uppfyllt.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna vangreiningar, sem átti sér stað á Landspítala X, á áverka sem kærandi hlaut á vinstri öxl.
Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:
„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:
1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.
3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.
4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“
Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.
Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka þá skal að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.
Kærandi telur að meint vangreining á áverkum hafi valdið henni tjóni. Í ljósi þess var 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu til skoðunar í málinu.
Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.
Samkvæmt bráðamóttökuskrá bráðadeildar Landspítala, dags. X, leitaði kærandi þangað þann dag eftir að hafa fallið á vinstri öxl. Tekið var fram að hún væri slæm í öxlum fyrir. Samkvæmt skoðun á slysdegi var kærandi mikið verkjuð að sjá og öxlin aflöguð. Hún var með dofa á svæði axlarvöðva (m. deltoideus ) vinstra megin sem var nýtilkomið að sögn kæranda og einnig á handarbaki. Ástand blóðrásar var gott. Niðurstaða röntgenmyndar af vinstri axlarlið sýndi liðhlaup fram úr liðskálinni á vinstri öxl og fékk kærandi sjúkdómsgreininguna liðhlaup axlarliðar. Á slysdegi var kærandi sett í liðinn og fékk fatla, netbol og leiðbeiningar. Þá var endurmat fyrirhugað að 7-10 dögum liðnum.
Samkvæmt bráðamóttökuskrá Landspítala, dags. X, mætti kærandi í endurkomu þann dag. Skoðun leiddi í ljós dofa á efri hluta utanverðs upphandleggs en kraftar í hendi voru algjörlega eðlilegir. Kærandi fékk leiðbeiningar um „pendúlhreyfingar“. Ekki var fyrirhugað frekara eftirlit en skrifuð beiðni um sjúkraþjálfun. Samkvæmt göngudeildarskrá I dags. X, leitaði kærandi þangað þann dag vegna verkja í vinstri öxl og taugaeinkenna í handlegg eftir liðhlaup. Tekið var fram að í kjölfar slyssins hafi verið talið að hún væri óbrotin og mætti hreyfa aftur sem fyrst. Vegna mikilla verkja hafi hún ekki getað það og því leitað til bæklunarlækna í F. Þar hafi verið teknar tölvusneiðmyndir og tauga- og vöðvarit (EMG) sem hafi leitt í ljós svonefndan Bankart I áverka og taugatruflanir eins og við áverka á armflækju (plexus brachialis). Í göngudeildarskrá J læknis, dags. X, segir að á röntgenmynd sjáist merki um brot, væntanlega frá frambrún liðskálar (cavum glenoideale), en enga aðra beináverka. Tekið var fram að kærandi hafi verið með verki og skerta hreyfigetu frá því hún fékk áverkann. Hún hafi verið hjá sjúkraþjálfara en versnað við það og fyrirhugað að hún færi til sjúkraþjálfara þegar verkir minnkuðu. Samkvæmt dagál sama læknis, dags. X, sýndi segulómun frá X að sin ofankambsvöðva (m. supraspinatus) væri heil og ekki merki um rof, sinar herðablaðsgrófarvöðva (m. subscapularis) og neðankambsvöðva (m. infraspinatus) litu ágætlega út og því ekki um að ræða áverka á axlarhólk (rotator cuff). Mælt var með sjúkraþjálfun og yrði hún ekki orðin góð eftir 6-8 vikur væri hægt að prófa sterasprautu.
Í vottorði H læknis, dags. 25. maí 2017, kemur fram að hann geti ekki annað en talið að meðferð hafi verið rétt í tilviki kæranda en setja mætti út á eftirfylgni á bráðadeild og það hefði verið góður praksís að fylgja viðkomandi lengur eftir. Fyrir vikið hefði hún ekki þurft að leita til hinna og þessara lækna í kjölfarið.
Kærandi telur að varanleg einkenni sem hún búi við sé að rekja til þess að henni hafi verið ráðlögð hreyfing og sjúkraþjálfun á Landspítala í kjölfar áverka sem hún hlaut á vinstri öxl X og jafnframt að hún hafi ekki verið send í myndatöku þegar hún mætti í endurkomu á Landspítala X. Brotið hafi verið greint seint og viðeigandi meðferð því ekki fengist í kjölfar áverkans.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg.
Brotið sem um ræðir er í fremri brún liðskálar axlarliðs. Ástand þess hefur ekki svo að séð verði versnað við það að töf varð á greiningu. Meðferð hefði ekki orðið önnur þótt brotið hefði greinst fyrr og til dæmis var ekki þörf á skurðaðgerð við þessu broti. Hins vegar er hugsanlegt að brotið hafi valdið kæranda verkjum sem hafi háð henni lengur en ella hefði orðið, þ.e.a.s. ef eingöngu hefði verið um eftirstöðvar liðhlaups að ræða. Hafi svo verið verður það þó ekki rakið til tafar á greiningu þar sem sú töf hafði hvorki áhrif á val á meðferð né á batahorfur.
Dofinn á svæði axlarvöðvans var til staðar strax eftir liðhlaupið og stafar hann af skaða á holhandartaug (n. deltoideus). Þetta er vel þekktur fylgikvilli axlarliðhlaups sem í tilfelli kæranda er tilkominn af völdum áverkans en ekki meðferðarinnnar sem veitt var. Brotið í liðskálinni hefur ekki áhrif á batahorfur vegna þessa taugaáverka þar sem brotið var frá byrjun án tilfærslu og það breyttist ekki þótt brotið greindist ekki strax. Tilvik kæranda verður því ekki fellt undir 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Þá eiga aðrir töluliðir ákvæðisins ekki við um tilvik þetta samkvæmt gögnum málsins.
Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála sú að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson