Mál nr. 321/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 321/2015
Miðvikudaginn 25. maí 2016
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dagsettri 6. nóvember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. október 2015 um greiðslu barnalífeyris vegna náms.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015, 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, móttekinni af Tryggingastofnun þann 5. ágúst 2015, sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris vegna náms. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2015, óskaði stofnunin eftir nánari gögnum frá kæranda varðandi námsframvindu. Umbeðin gögn bárust með bréfum þann 19. ágúst 2015 og 23. september 2015. Með bréfi, dags. 26. október 2015, synjaði Tryggingastofnun kæranda um barnalífeyri vegna náms á þeim grundvelli að eignir hennar væru yfir viðmiðunarmörkum samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 140/2006.
Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 6. nóvember 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 20. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 23. nóvember 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að Tryggingastofnun endurskoði afstöðu sína í málinu.
Kærandi kveðst hafa sótt um barnalífeyri þar sem hún sé í rúmlega 100% námi og hún hafi misst móður sína. Barnalífeyrisgreiðslum hafi verið hafnað á þeim forsendum að lög leyfi ekki að barnalífeyrir sé greiddur þeim sem eigi peninga í banka. Það hafi aldrei verið tekið fram að einhver þröskuldur gæti verið í vegi fyrir fullum barnalífeyrisgreiðslum, hvorki í tölvupóstsamskiptum né í símtölum.
Kærandi gerir athugasemdir við ópersónuleg og þung samskipti við stofnunina. Móðir kæranda hafi fyrirfarið sér fyrir nokkrum árum og kærandi hafi þurft á sálfræðiaðstoð að halda síðan. Hún sé greind með áfallastreituröskun og kvíðaröskun. Þó að kærandi hafi erft einhverja peninga eftir móður sína eigi það ekki að hafa áhrif á það hvort hún fái greiddan barnalífeyri eða ekki. Gengið hafi verið eftir því að fá gögn um viðkomandi lög sem stofnunin styðjist við í þessum efnum, en svör hafi ekki fengist og alveg eins líklegt að lögin séu ekki skýr um slíkt. Helst megi flokka synjun þessa undir óheiðarleg og ruddaleg vinnubrögð gagnvart X ára stúlku sem hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli og lifi í kvíða í nútíðinni ásamt því að kvíða fyrir framtíðinni. Þess er krafist að Tryggingastofnun endurskoði afstöðu sína í máli þessu.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar
Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé synjun um greiðslur barnalífeyris vegna náms.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. október 2015, hafi kæranda verið synjað um greiðslu barnalífeyris vegna náms þar sem eignir kæranda í peningum eða verðbréfum hafi verið hærri en fjórar milljónir króna.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum átján til tuttugu ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar séu látnir, enn fremur ef foreldrar séu ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Tryggingastofnun meti sönnun um skólavist og starfsþjálfun. Skilyrði sé að námið og þjálfunin taki að minnsta kosti sex mánuði hvert ár.
Í 2. gr. reglugerðar nr. 140/2006 um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að greiða barnalífeyri vegna náms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum átján til tuttugu ára, segir að Tryggingastofnun meti sönnun um skólavist og starfsþjálfun og ungmenni skuli framvísa staðfestum gögnum frá skóla ásamt yfirliti yfir fyrri námsárangur í upphafi hverrar annar. Skilyrði sé að ungmenni stundi sannanlega nám og að námið eða þjálfunin taki að minnsta kosti sex mánuði hvert ár.
Í 6. gr. reglugerðarinnar segir að við mat á umsókn skuli Tryggingastofnun taka tillit til allra aðstæðna umsækjanda, félagslegra sem efnahagslegra, sem áhrif geti haft á það hvort samþykkja skuli umsókn eða hafna henni. Að jafnaði skuli miðað við að umsækjandi eigi ekki eignir í peningum eða verðbréfum yfir þeim viðmiðunarmörkum sem notuð séu hverju sinni varðandi heimild til greiðslu frekari uppbótar á lífeyri.
Reglugerð nr. 1052/2009 fjalli um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Í 12. gr. reglugerðarinnar segir að uppbætur á lífeyri skuli aldrei greiddar til lífeyrisþega sem eigi eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr.
Kærandi hafi sótt um greiðslu barnalífeyris vegna náms með rafrænni umsókn móttekinni hjá Tryggingastofnun þann 5. ágúst 2015. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 11. ágúst 2015, hafi verið óskað eftir skólavottorði sem sýnt gæti fram á námsframvindu síðustu annar kæranda og staðfesti einingafjölda á yfirstandandi önn kæranda. Tryggingastofnun hafi móttekið skólavottorð kæranda þann 19. ágúst 2015, en það vottorð hafi aðeins sýnt fram á einingar núverandi annar. Það hafi ekki verið fyrr en þann 23. september 2015 sem Tryggingastofnun hafi borist skólavottorð sem hafi sýnt námsframvindu síðustu annar ásamt einingum á haustönn 2015, eins og óskað hafi verið eftir.
Samkvæmt skattframtali kæranda fyrir tekjuárið 2014 hafi bankaeign kæranda í árslok 2014 verið að fjárhæð 9.602.940 kr. Með vísan til framangreindra reglugerða hafi kæranda verið synjað um barnalífeyri vegna náms fyrir haustönnina árið 2015. Engar upplýsingar hafi legið fyrir um að kærandi eigi þessa inneign ekki lengur í banka. Því hafi Tryggingastofnun enga heimild til þess að breyta ákvörðun sinni um synjun barnalífeyris vegna náms til kæranda.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2015, þar sem umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms var synjað vegna þess að kærandi átti eignir umfram viðmiðunarmörk. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að greiða barnalífeyri þrátt fyrir peningaeignir yfir viðmiðunarmörkum.
Um barnalífeyri vegna menntunar er fjallað í 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. málsl. 3. gr. laga um félagslega aðstoð er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir eru látnir, enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Þá segir í 10. málsl. 3. gr. laganna að við ákvörðun á rétti til barnalífeyris sé heimilt að líta til efnahags barns og annarra tekna sem það hafi. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd þess.
Reglugerð nr. 140/2006, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að greiða barnalífeyri vegna náms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum 18-20 ára, hefur verið sett með framangreindri lagaheimild. Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir að við mat á umsókn skuli Tryggingastofnun taka tillit til allra aðstæðna umsækjanda, félagslegra sem efnahagslegra, sem áhrif geti haft á það hvort samþykkja skuli umsókn eða hafna henni. Samkvæmt 4. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar skuli að jafnaði miðað við að umsækjandi eigi ekki eignir í peningum eða verðbréfum yfir þeim viðmiðunarmörkum sem notuð séu hverju sinni varðandi heimild til greiðslu frekari uppbótar á lífeyri. Reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri fjallar meðal annars um hámark uppbóta og tekju- og eignamörk. Í 12. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 segir:
„Uppbætur á lífeyri skulu aldrei greiddar til lífeyrisþega sem á eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr. eða hefur heildartekjur yfir 2.400.000 kr. á ári.“
Samkvæmt framangreindu skal að jafnaði ekki greiða barnalífeyri vegna náms ef eignir umsækjanda eru yfir 4.000.000 kr. Við árslok 2014 voru eignir kæranda samkvæmt skattframtali að fjárhæð 9.602.940 kr. Eignir kæranda eru því verulega yfir viðmiðunarmörkum samkvæmt framangreindum reglugerðarákvæðum. Tryggingastofnun ríkisins var því að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga heimilt að synja kæranda um greiðslu barnalífeyris vegna náms.
Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2015, um synjun á umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms, staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um barnalífeyri vegna náms er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir