Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 325/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 325/2015

Miðvikudaginn  1. júní 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 8. nóvember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. september 2015, þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en honum metinn tímabundinn örorkustyrkur.  

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 5. júní 2015. Með örorkumati, dags. 22. september 2015, var umsókn kæranda synjað en honum metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. júlí 2015 til 30. september 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 12. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 23. nóvember 2015, óskaði nefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 4. desember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann óski eftir því að synjun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og umsókn hans um örorkulífeyri samþykkt.

Kærandi greinir frá því í kæru að honum sé metin minni örorka en vinnugeta sé til. Þá séu nokkrar rangfærslur í ákvörðun Tryggingastofnunar, meðal annars varðandi brjósklosaðgerð á kæranda. Kærandi kveðst hafa versnað í hægra hné eftir blóðtappa.

Kærandi kveðst aldrei vera verkjalaus og stundum geti hann ekki sofið vegna verkja í baki. Hann geti oft ekki gengið í stiga vegna verkja. Varðandi hjarta- og æðasjúkdóma, þá sé hann með háþrýsting. Kærandi hafi fengið blæðandi magasár, en hann sé með svokallaðan pokaristil. Af þeim sökum sé ekki gott fyrir hann að taka sterk verkjalyf og hann eigi helst ekki að taka bólgueyðandi lyf. Hann kveðst vera með offitu og kæfisvefn. Hann noti vél við kæfisvefninum og ef hann noti ekki vélina sé hann með 62 öndunarstopp. Hann kveðst ekki geta unnið fyrr en hann hafi náð sér eitthvað eftir þá vinnu sem hann hafi stundað síðastliðið sumar. Þá kveðst hann fara í sund reglulega og sækja tíma hjá sjúkraþjálfara.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kært sé örorkumat stofnunarinnar sem fram fór þann 22. september 2015.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga sé greiddur þeim sem skorti a.m.k. helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Kærandi hafi sótt um örorku með umsókn dagsettri þann 5. júní 2015. Áður hafi hann notið greiðslna endurhæfingarlífeyris og tengdra bóta frá 1. janúar 2014 til 30. júní 2015. Umsókn kæranda hafi fyrst verið tekin til örorkumats þann 22. september 2015. Niðurstaða örorkumatsins hafi verið sú að kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar en hann hafi verið talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laganna. Matið gildi frá 1. júlí 2015 til 30. september 2017.

Við mat á örorku styðjist tryggingayfirlæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat lífeyristrygginga þann 22. september 2015 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 2. júní 2015, með fylgiskjali, svör við spurningalista, dags. 26. júní 2015, starfsgetumat frá VIRK, dags. 16. maí 2015, skoðunarskýrsla, dags. 27. ágúst 2015 og umsókn, dags. 5. júní 2015, auk eldri gagna.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í andlega hlutanum. Þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi stríði við bakvanda, ofþyngd og fleira. Honum hafi verið metið endurhæfingartímabil 1. janúar 2014 til 30. júní 2015. Frekari endurhæfing hafi ekki virst líkleg til að skila aukinni vinnufærni að sinni og því hafi komið til örorkumats.

Við skoðun með tilliti til staðals komi fram að kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað, stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur, ekki staðið nema þrjátíu mínútur án þess að ganga um og ekki gengið upp og niður stiga milli hæða án þess að halda sér.

Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið uppfyllt en kærandi hafi fengið tólf stig í líkamlega hlutanum og ekkert í þeim andlega. Færni kæranda til almennra starfa hafi talist skert að hluta og honum hafi verið metinn örorkustyrkur frá 1. júlí 2015 til 30. september 2017. Engin ný gögn hafi borist með kæru nema athugasemdir kæranda sjálfs sem hafi ekki áhrif á mat stofnunarinnar í máli þessu. Það sé niðurstaða stofnunarinnar að sú afgreiðsla á umsókn kæranda að synja honum um örorkulífeyri en veita honum örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. september 2015, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. júní 2015 til 30. september 2017. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin a.m.k. 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni. Í því mati leggjast öll stig saman og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn a.m.k. 75% öryrki nái hann a.m.k. sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 2. júní 2015, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreiningar kæranda séu sem hér greinir:

„Offita, ótilgreind

Bakverkur, ótilgreindur

Frumkominn háþrýstingur

Diverticular disease

Sprain and strain of other and unspecified parts of knee

Hypercholesterolemia

Gastritis, unspecified“

Í fylgiskjali með læknisvottorðinu segir svo um fyrra heilsufar og sjúkrasögu kæranda:

HJARTA/ÆÐASJÚKDÓMAR : / :

Sterk ættarsaga um kransæðasjúkdóm. Háþr. meðferð og blóðfitulækkandi meðferð undanfarin ár.

STOÐKERFI: / :

Viðkvæmur í baki og hnjám. Verið óvinnufær talsvert á þessu ári vegna mjóbaksverkja. MRI hrygg gaf ekki skýringar.

MELTINGARVEGUR: / :

Gallblöðruaðgerð fyrir X árum. Sarpasjúkdómur í digurgirni.

OFFITA: / :

Skert sykurþol. Vaxandi miðlæg offita frá X. Þyngst mikið síðustu X árin, óhollt mataræði og fremur óreglulegt, líkamsrækt mjög af skornum skammti og engin regluleg. Er í hámarki þyngdar sinnar nú. hefur verið í atferlismeðferð fyrir offitusjúklinga á C á X ári. Fólst sú meðferð í blandaðri þjálfun, fræðslu hópstarfi og endurnýjun markmiðssetninga“

Um skoðun á kæranda þann X segir svo í vottorðinu:

„Skýr, eðlilegt geðslag, contact svolítið grunnur. Eðlilegt göngulag. Fitudreifing miðlæg, talsverð ýstra. Þyngd X kg, hæð X cm, BMI X mittismál X cm. Blóðþr. 135/85, púls reglulegur 84/mín. Stirður í mjóbaki, fingur-gólf fjarlægð ca 40 cm við framlútu. Aumur við þreifingu í mjóbaksvöðvum neðst vinstra megin. Taugaviðbrögð á neðri útlimum eðlileg og samhverf. Laseque neikvæður bilat

[…]

ÁSTAND 151014 :/:

STOÐKERFI: / :

BAK:

Alltaf með verki í mjóbakinu sem leiðir upp í brjóstbakið . Leiðir ekki niður í fætur. Þessir verkir versna ef beygir sig skakkt, lyftir þungu, liggur lengi, situr lengi. Þarf helst að vera á rjátli. Verkir trufla svefn.

HNÉ:

Oft verkir í hnjám. Finnur fyrir því að ganga langa stiga eða brekkur en þá aukast verkir. G hefur speglað hæ hné og lagað liðþófa og þar sást veruleg brjósk eyðing að innanverðu. G hefur sprautað í hæ hnéð. Á erfitt með að krjúpa á hnén. þarf að stiðja sig þegar stendur upp aftur, G er farinn að tala um liðskifti.

HJARTA / ÆÐASJÚKDÓMAR: / :

Hann er með hækkaðan blóðþrýsting. Er að taka lyf. Á stundum gengið illa að halda blþr niðri en er með eðlilegan blóðþrýsting í dag eftur lyfjabreytingu. Hann er einnig á blóðfitulækkandi meðferð.

MELTINGARVEGUR: / :

Alltaf með einhvern seiðing í kvið neðarlega en hann hefur sögu um diverticulitis og þurft annað slagið á lyfjameðferð að halda til að stoppa þetta.

OFFITA: / :

Gengur mjög hægt að léttast. Vegur X kg en var X kg í júní á þessu ári.

SVEFN: / :

Verkir trufla svefn.

VINNA: /:

Ekkert unnið síðan X en var þó í atvinnu með stuðningi sumarið X stutt eða tæpar X vikur á vegum D.

HREYFING / SJÚKRAÞJÁLFUN

Fer í sjúkraþjálfun tvisvar í viku. Fer í sund tvisvar í viku. Gönguferðir einu sinni í viku.

[…]

SKOÐUN: / :

Óþreyja í honum þar sem hann situr í viðtalinu. Beið uppistandandi frammi í biðstofu. Gengur hægum skrefum. Veruleg offita. Stirður í mjóbaki við flexion fjarlægð fingurgóma frá gólfi 40 cm. Kemst upp á hæla og tær. Óöruggur að standa á einum fæti. . Blþr 128 /85 P 78.

NÚVERANDI ÁSTAND: / :

STOÐKERFI: / :

BAK: / :

Versnar í baki ef lendir í að liggja lengi í rúmi. Verkir frá baki eiga það til að vekja hann.

HNÉ: / :

Seinnipart dags alltaf verri af verkjum sem einnig koma fram neðan hnés. Á erfitt með að ganga einhverjar vegalengdir og meðal annars tekst honum bara að ganga eina mínútu á göngubretti en þá koma inn verkir í hnén. Erfitt með að setjast inn í bíla sem eru lágir frá götu. Verkir eru þó ekki að vekja hann hvað hnén varðar.

HJARTA / ÆÐASJÚKDÓMAR: / :

Blóðþrýstingur helst núna niðri með lyfjum. Tekur einnig blóðfitulækkandi lyf.

MATSSTAÐA hjá VIRK í apríl 2015: / :

A er hættur vinnu, telur sig það slæman að hann geti ekki sinnt vinnunni sem skyldi. Hafi hann mætt stopult til vinnu í X mánuði sem honum hefur fundist að gangi ekki upp hvorki gagnvart sér eða vinnuveitanda. Hefur þó verið í reglulegum viðtölum hjá ráðgjafa VIRK.

MELTINGARVEGUR: / :

Endurtekið að fá sýkingar í ristilpoka og þarf þá sýklalyf. Er nokkuð góður núna á mebeverin dura og omeprazol

OFFITA: / :

Gengur illa að léttast . Vegur í dag X, en var X í X

SVEFN: / :

Verkir frá baki trufla stundum svefn .

HREYFING / SJÚKRAÞJÁLFUN: / :

Ekki eins duglegur að fara í sund og út að ganga. Eins og fram kemur að ofan þá á hann erfitt með allar lengri gönguferðir. Sjúrkaþfjálfun einu sinni í viku.

VINNA: / :

Er ekki í neinni vinnu eins og er og vann síðast í X er hann vann við [...]. Í raun unnið mjög stopult síðan í X.

[…]

SKOÐUN: / :

Situr allt viðtalið. Gengur hægum skrefum til skoðunarherbergis. Verulegur obesitas.“

Einnig liggur fyrir greinargerð starfsgetumats VIRK, dags. 16. maí 2015, en þar segir svo:

„X ára gamall maður sem er í ofþyngd og er þjakaður af verkjum í mjóbaki og hnjám. Farið í brjósklosaðgerð og hnéaðgerð. Farið í úrræði á vegum VIRK sem hafa skilað nokkrum árangri árangri en hann hefur þurft hvatningu. Ekki eru taldar líkur á að frekari úrræði leiði til aukinnar starfsgetu og því er lagt til að þjónustunni sé hætt.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. X, sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hann sé með brjósklos í baki og hnévandamál. Hann hafi lítinn þrótt og sé með ristilvandamál. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að sitja þannig að hann geti setið í einn til tvo tíma í senn. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum við að beygja sig eða krjúpa svarar hann þannig að hann geti ekki kropið. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum við að standa þannig að hann geti ekki staðið lengi án hreyfingar. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum við að ganga á jafnsléttu svarar hann þannig að hann geti gengið styttri vegalengdir. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum við að ganga upp og niður stiga þannig að hann geti gengið tvær til þrjár hæðir í einu. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera svarar hann þannig að hann geti ekki borið þyngra en einn innkaupapoka sem sé fimm til tíu kíló að þyngd upp tvær hæðir. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hann þannig að hann sé með gleraugu. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hann eigi við geðræn vandamál að etja neitandi.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann X. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hann geti ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Hann geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Kærandi geti ekki staðið nema þrjátíu mínútur án þess að ganga um. Hann geti ekki gengið nema 800 metra án þess að stoppa eða fá veruleg óþægindi. Þá geti kærandi ekki gengið upp og niður stiga milli hæða án þess að halda sér. Skoðunarlæknir telur að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Í vel rúmum meðalholdum, kviðmikill. Stirður að standa upp. Gengur hægum varfærnum skrefum, nánast haltrandi. Beygir sig og bograr með talsverðum erfiðleikum. Hreyfi- og þreifieymsli í mjóbaki. Brakar í báðum hnjám, meira því hægra með talsverðum eymslum. Skoðun á efri hluta líkamans innan eðlilegra marka. Taugaskoðun eðlileg.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Andlega hraustur.“

Í athugasemdum skoðunarskýrslunnar segir svo:

„Maður með skerta starfsorku vegna fjölþætts heilsuvanda, offita og efnaskiptaheilkenni. Bakverkir og slitgigt í hnjám, sérstaklega því hægra. Undirritaður setur spurningu um áhugahvöt ofanritaðs til frekari starfa á almennum vinnumarkaði en hann virðist geta starfað að minnsta kosti í hlutastarfi í léttu hreyfanlegu starfi eða sem [...] ef slíkt starf byðist.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur engin stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema þrjátíu mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki gengið nema 800 metra án þess að stoppa eða fá veruleg óþægindi. Slíkt gefur engin stig samkvæmt örorkustaðli. Þá metur skoðunarlæknir það svo að kærandi geti ekki gengið upp og niður stiga milli hæða án þess að halda sér. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Samtals metur skoðunarlæknir því líkamlega færniskerðingu kæranda til tólf stiga. Andleg færniskerðing var ekki metin af skoðunarlækni.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda a.m.k. 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk tólf stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og ekki hafi verið ástæða til þess að meta andlega færni, þá uppfylli hann ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er staðfest.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta