Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 551/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 551/2024

Miðvikudaginn 29. janúar 2025

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. október 2024 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með rafrænni umsókn, móttekinni 14. október 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. október 2024, var umsókn kæranda um uppbót til bifreiðakaupa synjað á þeim grundvelli að greiðslur endurhæfingarlífeyris veittu ekki rétt til uppbótar vegna kaupa á bifreið. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni sem var veittur með bréfi, dags. 28. október 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. október 2024. Með bréfi, dags. 30. október 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Athugasemdir bárust frá kæranda 9. nóvember 2024 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. desember 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda samdægurs og 6. desember 2024 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfum úrskurðarnefndar, dags. 5. og 11. desember 2024. Með bréfi, dags. 13. desember 2024, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. desember 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi, sem sé í endurhæfingu, hafi sótt um styrk til bifreiðakaupa og hafi lagt fram umbeðin gögn vegna umsóknarinnar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. október 2024, hafi umsókn hans verið synjað þar sem að styrkur til bifreiðakaupa sé eingöngu ætlaður elli- og örorkulífeyrisþegum. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni 24. október 2024.

Ástæða þessarar kæru sé sú að lögum samkvæmt eigi þeir sem séu í endurhæfingu rétt á að styrk til að kaupa bifreið. Vísi kærandi þar til upplýsinga sem komi fram á heimasíðu stofnunarinnar. Að mati kæranda sé ákvörðun Tryggingastofnunar ekki rétt og þá hafi hann ekki skilið sjálfa ákvörðunina.

Framangreind ákvörðun sé kærð. Lögum samkvæmt geti sá sem sé í endurhæfingu fengið styrk til að kaupa bifreið.

Í athugasemdum kæranda frá 9. nóvember 2024 er vakin athygli á því að í 1. gr. reglugerðar nr. 509/2021 segi að markmið hennar sé að efla möguleika hreyfihamlaðra til að lifa sjálfstæðu lífi með því að gera þeim kleift að fara nauðsynlegar ferðir í þágu reglubundinnar þjónustu innan heilbrigðiskerfisins.

Í 4. gr. sömu reglugerðar komi fram að bifreiðin verði að teljast hjálpartæki fyrir fatlaða, einkum vegna vinnu, skóla, skipulagðrar endurhæfingar eða læknismeðferðar. Í 2. gr. komi fram að líkamlega fötlun sé skilgreind sem sjúkdómur eða fötlun sem skerði verulega hreyfigetu einstaklings þannig að göngufærni hans sé innan við 400 metrar á jafnsléttu.

Við lestur ákvæðisins í heild sé ljóst að ekki allir einstaklingar í endurhæfingu fái bætur til að kaupa bifreið. Þá uppfylli ekki allir örorkulífeyrisþegar skilyrði til að fá uppbót/styrk til bifreiðakaupa nema samkvæmt skilyrðum 2. gr. reglugerðar nr. 509/2021.

Kærandi sé hreyfihamlaður og samkvæmt læknisvottorði uppfylli hann skilyrði til að fá bætur til bifreiðakaupa eins og Tryggingastofnun hafi staðfest. Sem endurhæfingarlífeyrisþegi eigi hann rétt á bótum, eins og getið sé um í 1. gr. og 4. gr. reglugerðar nr. 509/2021. Ef kærandi eigi ekki rétt á uppbót til að kaupa bifreið sé farið fram á að sú ákvörðun verði rökstudd.

Í athugasemdum kæranda frá 4. desember 2024 greinir hann frá því að í rökstuðningi Tryggingastofnunar komi fram að kærandi uppfylli skilyrði bóta vegna bifreiðakaupa og hafi verið vísað í 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstakling vegna bifreiða. Í lok rökstuðningsins hafi komið fram að þar sem að kærandi væri endurhæfingarlífeyrisþegi væri ekki réttur til greiðslna.

Það hafi komið kæranda á óvart að bætur vegna bifreiðakaupa séu ekki á greiddar nema öryrki sé í hjólastól eða á hækjum. Þetta sé sönnun þess að sá sem hafi tekið þessa ákvörðun hafi ekki lesið fyrirliggjandi læknisvottorð. Í því komi fram að kærandi geti ekki notað hækjur, ekki vegna þess að fötlun hans krefjist þess, heldur vegna meiðsla í hendi sem hindri hann í að nota hækju.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 23. október 2024, þar sem kæranda hafi verið synjað um uppbót vegna bifreiðakaupa.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um uppbót vegna reksturs bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegar og örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé einnig heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, sem sett sé á grundvelli laga um félagslega aðstoð, komi fram að við mat á þörf fyrir uppbætur og styrki samkvæmt reglugerðinni skuli fyrst og fremst líta á bifreið sem hjálpartæki hreyfihamlaðra. Meta skuli hvort umsækjandi þurfi nauðsynlega á bifreið að halda vegna hreyfihömlunar til að komast ferða sinna, einkum til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð. Við matið skuli einkum líta til eftirfarandi atriða:

„1. Hreyfihömlunar, þ.e. hvort mat sem staðfestir hreyfihömlun umsækjanda liggi fyrir.

2. Nauðsynjar bifreiðar, þ.e. hvort ótvírætt sé að hinum hreyfihamlaða sé nauðsynlegt að hafa bifreið.

3. Ökuréttinda, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður, sbr. þó 12. gr.

4. Ökuhæfni, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði eða skráður ökumaður sé fær um að aka viðkomandi bifreið.“

Í 6. gr. reglugerðarinnar vegna uppbótar til kaupa á bifreið segi að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi sé talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerðinni.. Þá sé heimilt að veita uppbót til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóti umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar komi fram að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti, til dæmis að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði sé að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi.

Kærandi hafi sótt um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið með umsókn, dags. 14. október 2024, og með henni hafi fylgt læknisvottorð, dags. 7. október 2024.

Með bréfi, dags. 16. október 2024, hafi stofnunin óskað eftir vottorði þar sem fram kæmi rökstutt mat á göngufærni kæranda. Í bréfinu hafi komið fram að mikilvægt væri að matið kæmi frá fagaðila sem hefði skoðað kæranda sérstaklega með hliðsjón af göngufærni og að sú skoðun fæli í sér prófun á þeirri færni. Slík möt myndu til dæmis sjúkraþjálfarar framkvæma en einnig væri hægt að koma með sambærilegt mat frá lækni.

Borist hafi nýtt læknisvottorð, dags. 18. október 2024, og í kjölfarið hafi kæranda verið synjað um uppbót til kaupa á bifreið. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi 24. október 2024 sem hafi verið veittur með bréfi, dags. 28. október 2024. Sú ákvörðun hafi verið kærð.

Skilyrði fyrir veitingu uppbótar vegna kaupa og reksturs bifreiðar séu talin uppfyllt í máli kæranda. Við matið hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 18. október 2024. Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá sjúkdómsgreiningum sem greint er frá í vottorðinu.

Í vottorðinu komi fram að göngugeta kæranda sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu og að göngugeta verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Læknir hafi merkt við að kærandi noti önnur hjálpartæki en hjólastól eða tvær hækjur.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá rökstuðningi læknis fyrir notkun hjálpartækis í vottorði, dags. 7. október 2024.

Í synjunarbréfi Tryggingstofnunar, dags. 23. október 2024, komi fram að hreyfihömlun kæranda hefði verið metin á grundvelli fyrirliggjandi læknisvottorðs og gildistími hreyfihömlunarmats væri frá 1. nóvember 2024 til 31. desember 2026. Kæranda hafi verið synjað á þeim grundvelli að þar sem hann væri með greiðslur endurhæfingarlífeyris væri ekki réttur á uppbót vegna kaupa á bifreið.

Í umbeðnum rökstuðningi Tryggingastofnunar, komi eftirfarandi fram:

„Samkvæmt hreyfihömlunarmati uppfyllir þú skilyrði þess að fá greidda uppbót til kaupa á bifreið, skv. 6. gr. reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í ákvæðinu segir að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi er talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerð þessari.

Í ákvæðinu er talið upp hvaða lífeyrisþegar með hreyfihömlun eiga rétt á uppbót vegna kaupa á bifreið, en það eru elli- og örorkulífeyrisþegar og örorkustyrkþegar. Þar sem þú ert með greiðslur endurhæfingarlífeyris er ekki til staðar réttur á til að fá uppbót greidda. Af þeim sökum var umsókn þinni um uppbót synjað.“

Ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 24. október 2024. Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli skilyrði uppbótar samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 en ekki styrks samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar. Eftir að farið hafi verið yfir gögn málsins sé ekki hægt að sjá að kærandi sé verulega hreyfihamlaður í skilningi 7. gr. reglugerðarinnar, þ.e. að hann sé sambærilega hreyfihamlaður og einstaklingur sem sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur.

Samkvæmt framangreindum upplýsingum hafi skilyrði um hreyfihömlun verið talin uppfyllt en ekki viðbótarskilyrði vegna styrks samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar. Þar sem kærandi hafi uppfyllt skilyrði hreyfihömlunar samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar en ekki önnur skilyrði ákvæðisins, eigi hann ekki rétt á greiðslu uppbótar, þar sem í ákvæðinu komi fram að einungis sé heimilt að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi sé talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerð þessari.

Þar sem kærandi sé með greiðslur endurhæfingarlífeyris falli hann ekki innan skilyrða ákvæðis 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 yfir þá sem geti átt rétt á greiðslu uppbótar. Af þeim sökum hafi kæranda verið synjað um greiðslu uppbótar vegna kaupa á bifreið.

Með vísan til framangreinds telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun, sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum, sem eigi stoð í gildandi lögum og reglum. Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun, dags. 23. október 2024, verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er líkamleg hreyfihömlun skilgreind á eftirfarandi máta:

„Sjúkdómur eða fötlun sem skerðir verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar er fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma eða annað sambærilegt.“

Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa að fyrir liggi mat sem staðfesti hreyfihömlun. 

Um skilyrði til að hljóta uppbóta vegna kaupa á bifreið samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar segir meðal annars svo í 1. mgr. þeirrar greinar:

„Heimilt er að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi er talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerð þessari. Þá er heimilt að veita uppbót til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.“

Þá er í 7. gr. reglugerðarinnar að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið. Svohljóðandi er 1. mgr. þeirrar greinar:

„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta, t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi.“

Í máli þessu liggur fyrir að Tryggingastofnun ríkisins hefur synjað umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir uppbót vegna kaupa á bifreið samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 og skilyrði fyrir greiðslu styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar.

Til skoðunar kemur hvort skilyrði 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, um að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til kaupa á bifreið, sé uppfyllt í tilviki kæranda. Óumdeilt er að kærandi er hreyfihamlaður í skilningi framangreinds ákvæðis, þ.e. uppfyllir skilyrði 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar um líkamlega hreyfihömlun. Aftur á móti liggur fyrir að kærandi er endurhæfingarlífeyrisþegi en ekki elli- og örorkulífeyrisþegi eða örorkustyrkþegi. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 905/2021 fyrir uppbót vegna kaupa á bifreið.

Þá kemur til skoðunar hvort skilyrði fyrir greiðslu styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar, um að einstaklingur þurfi að vera verulega hreyfihamlaður, til dæmis bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri, sé uppfyllt í tilviki kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir af orðalagi reglugerðarákvæðisins að við mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrðið um að teljast verulega hreyfihamlaður sé horft til þess hvort viðkomandi sé bundinn hjólastól og/eða þurfi að notast við tvær hækjur að staðaldri. Upptalning á hjálpartækjum sé þannig tiltekin í dæmaskyni til skýringar á því hvað átt sé við með verulegri hreyfihömlun. Sú túlkun er einnig í samræmi við orðalag 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð en þar er veiting styrks til bifreiðakaupa ekki bundin því skilyrði að umsækjandi þurfi að nýta sér hjálpartæki. Það er því ekki fortakslaust skilyrði fyrir veitingu bifreiðastyrks að umsækjandi sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir hins vegar af orðalagi reglugerðarákvæðisins að viðkomandi verði að vera hreyfihamlaður til jafns við þá sem hafa þörf fyrir framangreind hjálpartæki að staðaldri.

Við mat á því hvort skilyrði um verulega hreyfihömlun sé uppfyllt þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig. Fyrir liggur læknisvottorð B, dags. 18. október 2024, þar sem fram koma eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„Injury of extensor muscle and tendon of other finger(s) at forearm level

Dofi í útlimum

Árás / áverki af hendi annars manns

Post-traumatic stress disorder

Kvíði“

Í vottorðinu er ekki merkt við að kærandi noti hjólastól eða tvær hækjur að staðaldri heldur er merkt við dálk sem heitir „annað“. Í rökstuðningi fyrir notkun hjálpartækis segir í læknisvottorðinu:

„VIÐBÓT VIÐ FYRRA VOTTORÐ:Segir að þegar hann reynir að ganga stuttar vegalengdri þá dettur hann framfyrir sig vegna kreppu í tám. Hann dofnar upp í fætinum vegna þess að tærnar eru bognar og þarf hann þá að hætta. Við skoðun hér eru tær bognar og nær hann ekki að rétta úr þeim þegar ég bið hann um það. Hann er með ör framantil á sköflungi eftrir stungu áverka, hann segir að hann fái rafstraum í þann skurð þegar hann gengur. Hann kvartar undan verkjum þegar ég rétti úr tánum passíft. Bið hann um að labba nokkrar ferðir í stofunni hér og hann þarf að hætta eftir um 30 metra vegna þess að hann segist finna til verkja. Hann gegnur með tærnar bognar. Sést við skoðun á skóm að innlegg er eytt upp við tærnar.Hann segir að þegar hann gegnur um 2000metra byrjar hann að dofna allur upp í fætinum sem veldur því að hann dettur oft, sýnir mér marbletti því til stuðnings. Notar stundum staf til að hjálpa við gang en á erfitt með að nota hækjur og staf vegna áverka á höndum sem lýst er að o“

Þá er merkt við í vottorðinu að göngugeta kæranda sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu og verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin.

Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 7. október 2024, þar er greint frá sömu sjúkdómsgreiningum og framangreindu vottorði en að auki er tilgreind sjúkdómsgreiningin „Essential (primary) hypertension“.

Í rökstuðningi fyrir notkun hjálpartækis segir:

„Segir að þegar hann reynir að ganga stuttar vegalengdri þá dettur hann framfyrir sig vegna kreppu í tám. Notar stundum staf til að hjálpa við gang en á erfitt með að nota hækjur og staf vegna áverka á höndum sem lýst er að ofan. Þolir illa að vera úti lengi þar sem kuldi fer illa verkjaupplifun við ör. Hann er einnig með alvarlegt PTSD og þolir illa að vera í margmenni svosem í almenningsamgöngum.“

Í niðurstöðu segir:

„[…]. Verið á framfærslu frá félagsþjónustunni. […] Hann er óvinnufær vegna andlegar vanlíðunar og stoðkerfisverkja í kjölfar líkamsárásar […]. Hlaut við það fjöláverka. […]. Einnig með skurð dorsalt a vi. upphandlegg þar sem vöðvar hafa farið í sundur að sögn. […]. Einnig áverkar eftir bruna á vi. handlegg og fleiri stungusár […]. Hann hlaut alvarlega áverka á extensor sinar og einnig volart á hæ framhandlegg. Gert var að þessum áverkum erlendis en engar upplýsingar um aðgerð eða hvort endurhæfing hafi átt sér stað liggja fyrir. Extensor sinarnar(dorsalt) virka ekki eins og þær ættu að gera þrátt fyrir að þær hafi verið saumaðar á sínum tíma. Hann er með litla hreyfigetu um úlnlið og nánast enga hreyfigetu um fingur hæ. handar. Hann hefur farið í ítarletgt mat hjá handaskurðlæknum vegna þessa vnadamáls og tekið var MRI og taugaleiðnipróf sem komu eðlilega út. Talið er að vandamálið sé að hluta til vegan krónískar verkja og samvaxta en einni stafrænt vandamál, greining sem A sættir sig ekki við. Fengið var annað álit frá öðrum handaskurðlækni sem var sammála greiningu og væntir þess ekki að neinn bati sé væntanlegur […]. Áverkar einnig a vi. fót, taugaáverki sem gerir það að verkum að hann getur ekki rétt úr tám, aðallega stóru tá.[…]“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að ráðið verði af gögnum málsins að kærandi búi við skerta göngugetu. Af fyrrgreindum læknisvottorðum B má ráða að kærandi notist ekki við hjálpartæki að staðaldri en noti stundum staf. Úrskurðarnefndin telur að ekki verði ráðið af sjúkdómsástandi kæranda að hann sé hreyfihamlaður til jafns við þá sem bundnir eru hjólastól eða háðir því að nota tvær hækjur að staðaldri. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um verulega hreyfihömlun.

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. október 2024 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um uppbót/styrk til kaupa á bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta