Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 495/2022-Beiðni um endurupptöku

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 495/2022

Fimmtudaginn 24. ágúst 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með tölvupósti 18. júní 2023 óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. maí 2023, þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. ágúst 2022 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 485.702 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. ágúst 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. október 2022. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 10. maí 2023. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku segir að úrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á röngum upplýsingum. Nefndin hafi tekið það trúanlegt að kærandi hafi fengið 2.770.143 kr. greiddar frá Tryggingastofnun og að engri staðgreiðslu hafi verið skilað. Úrskurðarnefndinni hafi orðið þetta á þrátt fyrir að í gögnum Tryggingastofnunar séu upplýsingar um annað, þar hafi önnur greiðslufjárhæð verið nefnd og kvittanir fyrir staðgreiðslu.

Með hliðsjón af því að Tryggingastofnun hafi látið nefndinni í té rangar upplýsingar sé farið fram á að mál 495/2022 verði tekið upp aftur og að Tryggingastofnun verði gert að nota réttar og ófalsaðar upplýsingar í málinu.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. maí 2023. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngu mati stjórnvalds.

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að niðurstaða úrskurðarnefndar hafi verið byggð á röngum upplýsingum fengnum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings þeirri málsástæðu að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi verið byggður á röngum upplýsingum. Þá vill úrskurðarnefndin benda á, eins og kemur fram í úrskurði nefndarinnar, að nefndin geti einungis fjallað um ágreining vegna ákvarðana Tryggingastofnunar samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Það falli utan valdsviðs úrskurðarnefndar velferðarmála að úrskurða um skattalega meðhöndlun greiðslna.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 495/2022 synjað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 495/2022 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta