Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 390/2020 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 390/2020

Miðvikudaginn 21. apríl 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. ágúst 2020, kærði B lögfræðingur, f.h. A , til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. maí 2020 á umsókn hennar um heimilisuppbót.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um heimilisuppbót frá 14. mars 2018 með rafrænni umsókn 13. mars 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. apríl 2020, var samþykkt að greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2020 en henni var synjað um greiðslu aftur í tímann á þeim forsendum að enginn leigusamningur lægi fyrir hjá Tryggingastofnun. Í kjölfar framlagningar gagna samþykkti Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 7. maí 2020, greiðslu heimilisuppbótar frá 1. apríl 2018 til 31. desember 2020 en upplýsti um að ekki væri réttur til greiðslna á árinu 2019 vegna tekna.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 23. september 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. október 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 3. nóvember 2020. Með tölvubréfi 9. desember 2020 bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. desember 2020. Með bréfi, dags. 21. janúar 2021, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. janúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að Tryggingastofnun hafi synjað kæranda um heimilisuppbót fyrir árið 2019 vegna tekna. Varðandi rökstuðning fyrir kæru er vísað til kæru í máli nr. 412/2020.

Tryggingastofnun beri að endurskoða ákvörðun sína um að synja kæranda um heimilisuppbót á árinu 2019 vegna tekna í ljósi þess að sú eingreiðsla, sem hafi borist frá C, hafi verið vegna áranna 2009 til 2019. Tryggingastofnun beri einnig að verða við ósk kæranda um að fá útreikning á því hvernig það kæmi út ef eingreiðsla frá C, sem greidd hafi verið árið 2019 fyrir árin 2009 til 2019, yrði dreift á þau ár með upptöku framtala. Það liggi í hlutarins eðli að kærandi eigi og hafi átt rétt á því að fá þann útreikning áður en ákvörðun hafi verið tekin um að synja henni um heimilisuppbót. Hefði sá útreikningur sýnt að það kæmi betur út fyrir kæranda að dreifa eingreiðslunni á árin 2009 til 2019 og kærandi hefði í framhaldinu óskað eftir að eingreiðslunni yrði dreift, sé óheimilt að telja eingreiðsluna til fullra tekna á árinu 2019.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda frá 9. desember 2020 sé ítrekað að Tryggingastofnun hafi verið óheimilt að telja eingreiðsluna til fullra tekna á árinu 2019, án þess að verða við beiðni kæranda um að reikna út hvernig það kæmi út ef eingreiðslunni yrði dreift á árin 2009 til 2019.

Auk þess beri að líta til þess hversu langan tíma það hafi tekið Tryggingastofnun að aðstoða kæranda vegna umsóknar hennar um lífeyrisgreiðslur frá C á árunum 2016-2019. Jafnframt beri að líta til þess að stofnunin hafi ekki sinnt þeirri ríku leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sem hvíli á stofnuninni í tengslum við umsókn kæranda um örorkulífeyri frá öðru EES-ríki, dags. 12. mars 2010. Afleiðingarnar hafi verið þær að kærandi hafi fengið afturvirkar greiðslur frá C í formi eingreiðslu á árinu 2019. Hefði Tryggingastofnun staðið rétt að málum kæranda væri staða hennar ekki sú að hafa þurft að lúta því að tapa rétti sínum til greiðslu heimilisuppbótar á árinu 2019.

Að öðru leyti sé vísað í athugasemdir vegna greinargerðar Tryggingastofnunar í kærumáli nr. 412/2020.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um heimilisuppbót fyrir árið 2019.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. apríl 2020, hafi verið samþykkt að greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2020. Í bréfinu komi fram að umsókn um heimilisuppbót aftur í tímann, þ.e. frá 14. mars 2018 hafi verið synjað, þar sem enginn leigusamningur væri hjá Tryggingastofnun frá þeim tíma. Eftir að leigusamningur hafi borist Tryggingastofnun hafi kæranda verið tilkynnt með bréfi, dags. 7. maí 2020, að samþykkt hefði verið heimilisuppbót frá 1. apríl 2018 til 31. desember 2020 en að ekki væri réttur á greiðslum fyrir árið 2019 vegna tekna.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða einhleypingi, sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum. Í 13. og 14. gr. laga um félagslega aðstoð segi að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur laganna. Nánar sé fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1200/2018.

Kærandi hafi sótt um greiðslu heimilisuppbótar með umsókn, dags. 13. mars 2020. Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi kærandi ekki átt rétt á tekjutryggingu árið 2019 vegna tekna. Þar sem skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar sé að njóta tekjutryggingar hafi Tryggingastofnun ekki verið heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót fyrir árið 2019. Af þeim sökum hafi umsókn kæranda um heimilisuppbót fyrir árið 2019 verið synjað.

Kærandi hafi óskað eftir því að kannað yrði hvort það myndi koma henni betur að láta dreifa eingreiðslu lífeyrisgreiðslna frá C, sem kærandi hafi fengið greidda árið 2019, á rétt tekjuár. Tryggingastofnun hafi kannað þann möguleika með því að endurreikna bætur kæranda frá árinu 2009 og sé niðurstaðan sú, með fyrirvara, að hún yrði líklega ofgreidd fyrir öll árin og heildarskuldin yrði svipuð og hún sé fyrir árið 2019. Kærandi þurfi því að meta þann möguleika að fara slíka leið og leita upplýsinga hjá Skattinum um hvort slíkt sé mögulegt þar sem umræddar tekjur komi ekki fram á skattframtali kæranda. Á meðan slíkt hafi ekki verið gert teljist eingreiðsla lífeyris frá C til tekna árið 2019 og hafi áhrif þau áhrif að kærandi eigi ekki rétt á neinni tekjutryggingu árið 2019 og þar af leiðandi ekki rétt á heimilisuppbót það ár.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. janúar 2021, er vísað til fyrri greinargerðar í málinu og greinargerðar í máli kæranda nr. 412/2020.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. maí 2020 á umsókn kæranda um heimilisuppbót. Með framangreindri afgreiðslu var kæranda synjað um greiðslu heimilisuppbótar á árinu 2019 sökum tekna.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðisins segir að uppbótina skuli lækka eftir sömu reglum og tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Tryggingastofnun ríkisins synjaði greiðslu heimilisuppbótar til kæranda á þeirri forsendu að þar sem hún átti ekki rétt á tekjutryggingu á árinu sökum tekna uppfyllti hún ekki skilyrði 8. gr. laganna um rétt til greiðslna heimilisuppbótar.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 1205/2018 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2019 var efra tekjumark heimilisuppbótar 6.622.185 kr. á ári. Í því felst að heimilisuppbót fellur niður ef tekjur eru umfram þá fjárhæð. Samkvæmt upplýsingum úr endurreikningi og uppgjöri Tryggingastofnunar vegna ársins 2019 var meðaltal innlendra og erlendra tekna kæranda 6.623.858 kr. í greiðslur yfir árið. Ljóst er að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar á árinu 2019 þar sem tekjur hennar voru umfram framangreint tekjumark.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi á árinu 2019 greidda eingreiðslu lífeyristekna frá C vegna áranna 2009 til og með 2019 og er það óumdeilt. Í málatilbúnaði kæranda kemur fram að taka beri tillit til þess að um eingreiðslu vegna fyrri ára sé að ræða og að Tryggingastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sinni gagnvart kæranda. Einnig er byggt á því að líta beri til þess hversu langan tíma það hafi tekið að aðstoða kæranda vegna umsóknar um lífeyrisgreiðslur frá C á árunum 2016-2019.

Í kæru þessari vísar umboðsmaður kæranda til málsástæðna í kærumáli nr. 412/2020. Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í framangreindu máli var úrskurðað um réttmæti meðhöndlunar Tryggingastofnunar á eingreiðslu þeirri sem kærandi fékk frá C á árinu 2019 og vísast til þess rökstuðnings sem fram kemur í úrskurðinum, auk leiðbeininga sem rökstuðningnum fylgdu. Í framangreindum úrskurði er einnig fjallað um athugasemdir kæranda er varða meint brot Tryggingastofnunar á leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sinni og um þann langa tíma sem umsóknarferli um greiðslur fráC hafi tekið og er vísað til þess sem þar kemur fram. Ekki er fallist á að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi með vísan til framangreindra málsástæðna kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu heimilisuppbótar á árinu 2019.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um heimilisuppbót á árinu 2019, er staðfest.

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta