Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Úrskurður nr. 19/2004 – Endurkrafa ofgreiddra bóta

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir   og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með kæru til Úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 16. janúar 2004 kærir A endurkröfu Trygginga­stofnunar ríkisins á ofgreiddum bótum.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir að með bréfi umboðs Tryggingastofnunar ríkisins á B dags. 11. desember 2003 var kæranda tilkynnt um ofgreiðslu á lífeyrisgreiðslum.  Í bréfinu stóð:

 

„Við endurskoðun á útreikningi á lífeyri til þín frá T.R. kom í ljós að gengið var út frá mun lægri lífeyrissjóði en hann er í raun. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum átt þú rétt á eftirtöldum mánaðargreiðslum frá TR.

 

         Örorkulífeyrir     kr. 20.630.

                    ­Tekjutrygging     kr. 26.717.

        ­Heimilisuppbót   kr. 11.475.­

                    Barnalífeyrir       kr. 15.558.- á hvert barn.

Af þessu leiðir að myndast hefur ofgreiðsla á tekjutryggingu, heimilisuppbót og tekju­tryggingarauka fyrir tímabilið 01.01.2003 - 31.12.2003 að upphæð kr. 330.290.- að teknu tilliti til skatta.

Lífeyristryggingasvið mun draga frá greiðslum þínum áðurnefnda fjárhæð, sbr 50. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Frádrætti verður dreift á u.þ.b. 22 mánuði.

Ef þú hefur einhverjar athugasemdir við ofangreinda afgreiðslu eða vilt að endurgreiðslu sé hagað á annan hátt, vinsamlegast hafðu samband innan 30 daga frá dagsetningu þessa bréfs.”

 

Í rökstuðningi fyrir kæru er vísað til bréfs Lífeyrissjóðs C dags. 15. desember 2003.  Þar segir:

 

„  A fékk leiðréttingu lífeyris frá desember 2001 til júlí 2003, ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að trúnaðarlæknir sjóðsins hafði ekki nægar læknisfræðilegar upplýsingar um heilsufar konunnar og var með hana í 50% mati, en hún var síðan metinn 100% aftur í tíman.

   Þetta er ástæðan fyrir þessari eingreiðslu til A. Fyrir árið 2001 var leiðrétting hennar kr. 29.397,-. Fyrir árið 2002 var leiðrétting hennar kr. 358.639,-.

   Fyrir tímabilið janúar -ágúst 2003 var leiðrétting hennar kr. 243.043,-. Þessar tölur frá Lsj. C og Lsj. D.

Vona að þetta séu nægjanlegar upplýsingar til þess að viðkomandi haldi greiðslum sínum að fullu.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 20. janúar 2004 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Greinargerðin er dags. 27. janúar 2004.  Þar segir:

 

„  Kærandi fékk ofgreidda tekjutryggingu, tekjutryggingarauka og heimilisuppbót fyrir tímabilið 01.01.2003 - 31.12.2003, samtals 330.290 kr. að frádreginni staðgreiðslu skatta. Tilkynnti umboð Tryggingastofnunar á B kæranda um ofgreiðsluna ásamt lækkun greiðslna frá 01.01.2004 með bréfi dags. 11.12.2003.

   Ofgreiðsla þessi myndaðist þannig að kærandi fékk eingreiðslu frá lífeyrissjóðum í ágúst 2003 fyrir tímabilið 01.12.2001 - 31.07.2003. Fjárhæð eingreiðslunnar nam 616.827 kr. en umboði almannatrygginga á B var ekki gert kunnugt um hana. Framangreindar tekjur hafa áhrif til skerðingar tekjutryggingar, tekjutryggingarauka og heimilisuppbótar, sbr. 10. og 17. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 með síðari breytingum, 9. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð með síðari breytingum, sbr. og ákvæði reglugerða nr. 939/2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, 808/1998 um tekjutryggingu og 595/1997 um heimilisuppbót og frekari uppbætur, með síðari breytingum.

 

Tryggingastofnun ríkisins telur að kærandi sé réttilega krafinn um endurgreiðslu hinna ofgreiddu bóta. Skal í því sambandi vísað til 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga sem kveður m.a. á um skyldu bótaþega til að gefa allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að endurskoða bótarétt og 3. mgr. 48. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um að endurskoða megi bótarétt hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa. Þá undirrita umsækjendur yfirlýsingu á umsóknareyðublaði þar sem þeir staðfesta að þeir muni láta Tryggingastofnunina vita ef breytingar verða á aðstæðum þeirra, m.a. tekjum, en kærandi sinnti ekki þeirri lögbundnu skyldu sinni. Er endurkröfuheimild 1. mgr. 50. gr. laga um almannatryggingar því talið réttilega beitt í máli þessu og verður ekki séð að bréf Lífeyrissjóðs C frá 15. desember sl. breyti nokkru þar um.”

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 28. janúar 2004 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum.  Slíkt barst ekki.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda vegna ofgreiddrar tekjutryggingar, tekjutryggingarauka og heimilisuppbótar tímabilið 1. janúar 2003 til 31. desember 2003  vegna hærri lífeyrissjóðsgreiðslna til kæranda en gert hafði verið ráð fyrir við útreikning bóta.

 

Í rökstuðningi kæranda er vísað til bréfs frá Lífeyrissjóði C þar sem segir að vegna skorts á læknisfræðilegum upplýsingum hafi kærandi verið metin til 50% örorku hjá sjóðnum.  Síðan hafi kærandi verið metin til 100% örorku hjá sjóðnum og í framhaldi þess hafi greiðslur til hennar verið leiðréttar til hækkunar aftur í tímann  með eingreiðslu.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til lagaákvæða sem kveða á um tekjutengingu bóta og sagt að lífeyrissjóðsgreiðslur teljist til tekna við ákvörðun  tekjutryggingar, tekjutryggingarauka og heimilisuppbótar.

 

Ákvæði um tekjutryggingu og tekjutryggingarauka eru í 17. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar ásamt síðari breytingum.  Ákvæði um heimilisuppbót er í 9. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð.  Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum eru tekjutrygging, tekjutryggingarauki og heimilisuppbót tekjutengdar bætur sem hækka og lækka eftir atvikum að teknu tilliti til tekna bótaþega.  Tekjutenging bóta er lögbundin og án undantekningarheimilda.

 

Samkvæmt  2. mgr. 47. gr. laga nr. 117/1993 hvílir upplýsingaskylda á bótaþegum.  Er hún áréttuð á umsóknareyðublöðum.  Miklu varðar að upplýsingaskyldunni sé sinnt til þess að bótaþegi fái réttar bætur lögum samkvæmt enda bætur tekjutengdar.  Þessari upplýsingaskyldu sinnti kærandi ekki þar sem hún upplýsti ekki um eingreiðslu frá lífeyrissjóði í ágúst 2003, en lífeyrissjóðsgreiðslur teljast til tekna við ákvörðun greiðslna samkvæmt framangreindum bótaflokkum sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 og 14. gr. laga nr. 118/1993.  Því kom til ofgreiðslu bóta.  Samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 117/1993 má endurskoða grundvöll bótaréttar hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa.

 

Í 1. og 2. mgr. 50. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar segir:

           

                                            ,, Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. ...

 

Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til.  Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna, sbr. 47. gr.”

 

Fyrir liggur að kærandi hefur fengið hærri bætur en henni bar samkvæmt lögum.  Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.  Samkvæmt 50. gr. almannatryggingalaga skal endurkrefja um ofgreiddar bætur. Brýnt er að allir séu jafnir fyrir lögum og fái bótagreiðslur í samræmi við rétt sinn. Endurgreiðsla ofgreiddra bóta styðst ekki aðeins við beint lagaákvæði heldur er hún reist á málefnalegum sjónarmiðum og jafnræðisreglu.  Í máli þessu hefur andmælaréttar verið gætt sbr. bréf umboðs Tryggingstofnunar dags. 11. desember  2003 sbr. og reglugerð nr. 939/2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta  og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins.  Endurkrafa er því staðfest.

 

Ú R S K UR Ð A R O R Ð:

 

Endurkrafa á hendur A  vegna ofgreiðslu tekjutryggingar, tekjutryggingarauka og heimilisuppbótar tímabilið 1. janúar 2003 – 31. desember 2003 er staðfest.

 

 

 

 

_______________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 

 

 

__________________________                                   _________________________

      Guðmundur Sigurðsson                                                   Þuríður Árnadóttir

    


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta