Nr. 323/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 323/2018
Miðvikudaginn 14. nóvember 2018
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.
Með kæru, dags. 11. september 2018, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 12. júní 2018 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi varð fyrir slysi X þegar hún féll [...] og lenti illa. Tilkynning um slys, dags. X, var send til Sjúkratrygginga Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með bréfi, dags. 13. júní 2018, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 0%.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. september 2018. Með bréfi, dags. 21. september 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 11. október 2018, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. október 2018. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að tekið verði mið af matsgerð C læknis, dags. 26. júní 2017, við mat á læknisfræðilegri örorku kæranda.
Í kæru segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi fallið [...] í D og lent illa. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins.
Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 13. júní 2018, hafi verið tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða í tilviki kæranda þar sem örorka hennar vegna slyssins hafi verið metin minni en 10%, eða 0%. Meðfylgjandi hafi verið matsniðurstaða E læknis.
Kærandi geti á engan hátt sætt sig við niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands og telji afleiðingar slyssins hafa verið of lágt metnar.
Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum meðal annars á höfði, hálsi, herðum, […] öxl og […] hendi.
Kærandi hafi upphaflega gengist undir örorkumat vegna slysatryggingar launþega en með matsgerð C læknis, dags. X 2017, hafi hún verið metin með 8% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyssins. Um sé að ræða ítarlega og vel rökstudda matsgerð. Við matið hafi verið lagt til grundvallar að kærandi hafi hlotið tognun á hálshrygg með viðvarandi verkjum sem aukist við álag, eymslum og ósamhverfri hreyfiskerðingu, tognun á […] öxl með álagsverkjum og eymslum en engri hreyfiskerðingu og tognun á […] úlnlið með álagsverkjum, en ekkert sé að finna þar óeðlilegt við skoðun. Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku hafi C læknir tekið mið af töflum örorkunefndar frá 21. febrúar 2006, liðum VI.A.a., VII.A.a.1. og VII.A.c. og hafi varanleg örorka þótt hæfilega metin 8%, þar af 5% vegna hálshryggjar að teknu tilliti til fyrri sögu til lækkunar og 3% vegna […] axlar, en ekki hafi talist vera mælanleg varanleg örorka vegna […] úlnliðs.
Með matsgerð E læknis, dags. X 2017, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins hins vegar verið talin engin vera. Í matsgerðinni segi kærandi meðal annars að aðspurð um þau vandamál og óþægindi sem hún hafi nú og tengist slysinu að hún hafi verki í hálsi […] megin og aftan til. Þá komi fram að kærandi hafi kvaðst vera að fá höfuðverki mest út frá vöðvabólgunni […] megin sem leiði upp í hnakka og höfuðverk þaðan og hafi verið í meðferð sjúkraþjálfara mest vegna þessa. Um þessi einkenni segi E í matsgerð sinni að þessir verkir muni hafa komið fram um haustið eða um hálfu ári eftir slys.
Í lok matsgerðar E segi loks eftirfarandi: ,,Þegar í heildina er litið telur undirritaður um að ræða minniháttar áverka. Einkenni sem A lýsir í dag eru almenn óþægindi, verkjaeinkenni sem geta vel samrýmst hennar vinnu, einkenni þessi í hálsi hafa ekki komið fram eftir slys, saga er um óþægindi, sjúkraþjálfunarmeðferðir í fjölda mörg ár fyrir slysið og telur undirritaður slys og áverkamekanisma ekki til þess fallinn að valda varanlegu líkamstjóni.“
Kærandi telji niðurstöðu matsins ranga og byggi á því að læknisfræðileg örorka hennar hafi verið of lágt metin í matsgerð E læknis. Miða beri við forsendur og niðurstöður þær sem fram komi í matsgerð C læknis.
Vísað er til áverkavottorða F læknis, dags. X og X, þar sem fram komi um afleiðingar slyssins X að kærandi hafi dottið fram fyrir sig [...] á vinnustað sínum og borið fyrir sig hendur og sú […] beyglast undir hana. Þá segi að hún hafi fengið skurð á [...] augnlok sem hafi verið saumaður og áverka á […] hönd. Þá komi fram að hún sé með verki og bólgin yfir miðlægum hluta úlnliðar, bæði ofan og neðan við úlnliðinn. Hún sé með þreifieymsli yfir nærhluta handarbeina, meira miðlægt og mjúkvefjabólga til staðar. Geta til beygju og réttu sé skert og hún sé aum í handarbakinu. Engin merki séu um innri áverka á heila og myndataka hafi ekki sýnt brot.
Vegna áframhaldandi einkenna hafi kærandi leitað á heilsugæsluna og í beiðni um sjúkraþjálfun, dags. X, komi fram að kærandi hafi dottið fram fyrir sig í X og hafi fengið högg á höfuðið. Hún hafi í kjölfarið orðið slæm af verkjum og þyngslum yfir höfði. Þá segi að kærandi hafi farið til sjúkraþjálfara í X og þá verið mjög stíf og aum yfir vöðvafestum í hálsi og hnakka.
Kærandi byggi á því að hún hafi allt frá slysinu haft verki í höfði, hálsi og […] öxl og það komi einnig fram í matsgerð C. Þá komi einnig fram í matsgerð C að dregið hafi úr verkjum í […] úlnlið en hún fái þreytuverki við álag. Þá hafi verkir sem hún hafði í […] læri horfið með tímanum.
Þá segir að í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi lent í umferðarslysi í Y og eftir það slys hafi hún haft einkenni frá lendhrygg og einnig frá hálsi, sbr. upplýsingar úr sjúkraskrá. Í matsgerð sinni taki C tillit til þess, þ.e. hann meti hana með 5% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyssins X vegna hálshryggjar, að teknu tilliti til fyrri sögu til lækkunar. Þá hafi hann metið hana með 3% varanlega læknisfræðilega örorku vegna […] axlar, samanlagt 8% vegna slyssins þann X. Þá komi einnig fram í niðurstöðum C að núverandi einkenni kæranda verði að hluta rakin til fyrra ástands, en sú örorka sem metin sé hér að framan verði einungis rakin til slyssins þann X.
Með vísan til framangreinds þá telji kærandi að E læknir hafi í sinni matsgerð horft of mikið til fyrra heilsufars hennar þar sem hann telji að ekkert af þeim einkennum sem hún finni fyrir nú sé að rekja til slyssins X. Þá ítreki kærandi það sem áður hafi komið fram, að hún hafi allt frá slysinu haft verki í höfði, hálsi og […] öxl og telji að þau einkenni sem hún finni fyrir nú sé sannanlega að rekja til slyssins, sbr. matsgerð C og gögn málsins.
Með vísan til framangreinds telji kærandi óforsvaranlegt að leggja til grundvallar niðurstöðu örorkumats E læknis. Frekar skuli taka mið af matsgerð C læknis við mat á læknisfræðilegri örorku kæranda.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að bætur úr slysatryggingum almannatrygginga séu sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur, sbr. 9. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, sbr. einnig 31. gr. þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku sé sjálfstætt mat sem stofnuninni sé falið að gera lögum samkvæmt, sbr. 2. gr. þágildandi almannatryggingalaga. Stofnunin byggi ákvörðun sína á fyrirliggjandi gögnum þegar litið sé svo á að mál sé að fullu upplýst og stofnunin sé ekki bundin af niðurstöðu annarra matsgerða. Þá taki stofnunin sjálfstæða ákvörðun um hvort orsakatengsl séu á milli einkenna og hins tilkynnta slyss. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um læknisfræðilega örorku taki mið af þeim einkennum og ætluðum áverkum sem tilgreindir séu út frá viðurkenndum viðmiðum miskataflna örorkunefndar og hliðsjónarritum hennar. Í töflum þessum sé metin skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá einstaklingum sem orðið hafi fyrir líkamstjóni. Þessi skerðing hafi í seinni tíð verið kölluð læknisfræðileg örorka til aðgreiningar frá fjárhagslegri örorku.
Um greiðslu bóta vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku gildi reglur 34. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Í 6. mgr. ákvæðisins segi að örorkubætur greiðist ekki ef orkutapið sé metið minna en 10%. Í 2. gr. reglugerðar nr. 187/2005 um eingreiðslu örorkubóta Tryggingastofnunar ríkisins (nú Sjúkratryggingar Íslands) segi að hafi hinn slasaði hlotið örorku vegna tveggja eða fleiri slysa, sem bótaskyld séu samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga, sé heimilt að greiða bætur sé samanlögð örorka vegna slysanna 10% eða meiri.
Líkt og fram komi í hinni kærðu ákvörðun byggi efnisleg niðurstaða hennar á tillögu að örorkumati sem E, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum og mati á líkamstjóni, hafi unnið að beiðni Sjúkratrygginga Íslands og á grundvelli fyrirliggjandi gagna, auk viðtals og læknisskoðunar. TillagaE byggi á því að um sé að ræða minniháttar áverka og einkenni sem séu almenn óþægindi, verkjaeinkenni sem vel geti samrýmst starfi kæranda. Einkenni í hálsi hafi ekki komið strax fram eftir slysið og fyrri saga sé um óþægindi og sjúkraþjálfunarmeðferð í fjölda ára fyrir slysið. Það hafi verið niðurstaða E að kærandi hefði ekki hlotið varanlegan miska í slysinu, enda hafi slysið og áverkar ekki verið til þess fallnir að valda varanlegu líkamstjóni. Beiðni Sjúkratrygginga Íslands um örorkumat til E sé dagsett X 2017 og tillaga hans að mati sé dagsett X 2017. Það hafi verið mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögunni væri forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt væri metið.
Þá segir að kærandi telji að varanlegar afleiðingar slyssins séu vanmetnar af hálfu Sjúkratrygginga Íslands og telji jafnframt að miða eigi við framlagða matsgerð C, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum og mati á líkamstjóni, dags. X 2017. Matsfundur muni hafa farið fram þann X 2017.
C vísi til liða VI.A.a., VII.A.a.1. og VII.A.c. í miskatöflum örorkunefndar með vísan í skoðun. Niðurstaða matsins sé sú að kærandi búi við 8 stiga miska, þar af 5 stig á grunni hálshryggjar að teknu tilliti til fyrri sögu og 3 stiga miska vegna […] úlnliðs.
Eftir skoðun á tillögu E annars vegar og C hins vegar virðist ljóst að einkenni kæranda hafi batnað síðan skoðun C fór fram en skoðun E á kæranda hafi farið fram um X mánuðum eftir að skoðun sú sem sé grundvöllur að mati C fór fram.
Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands, þegar litið sé til niðurstöðu beggja matsgerða, að í mati E sé með mun ítarlegri hætti farið yfir á hverju matsmaður byggi niðurstöðu sína og þá sérstaklega með vísan í fyrri sögu. Þá sé rétt að ítreka að E sé sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum.
Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi því ekkert komið fram í málinu sem gefi tilefni til þess að víkja frá hinni kærðu ákvörðun.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 12. júní 2018, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 0%.
Í læknisvottorði F læknis vegna slyss, dags. X, segir um slys kæranda:
„Kemur kl. X en rétt áður hafði A dottið [...] á vinnustað sínum í D. Hún fékk skurð á [...] augnlok sem er saumað með 2/Ethylon 6/0. Eins fékk hún áverka í […] hendi er hún skall í gólfið. Við skoðun á hendinni er ekki að finna bólgur né klinisk merki um brot. Hún er aftur á móti aum á handarbakinu. Engin merki um innri áverka á heila.
[…]
X:
Datt framfyrir sig í gær [...], bar fyrir sig hendur og […] hendi beyglaðist undir hana. Er með verki og bólgin yfir medial hluta úlnliðar bæði proximalt við úlnlið og distalt. Er með þreifieymsli yfir proximal hluta handabeina meira medialt. Mjúkvefjabólga til staðar. Skert geta til flexionar og extensionar. Send í myndatöku sem var eðl.
Samantekt: Datt og fékk skurð á [...] augnlok sem þurfti að sauma. Auk þess fékk hún áverka á […] hendi. Ekki brotin en finnur enn til í hendinni.
Frekari meðferð hefur ekki verið talin nauðsynleg. Batahorfur voru strax góðar. Fór að vinna aftru X.“
Samkvæmt læknisvottorðinu fékk kærandi eftirfarandi sjúkdómsgreiningar: Sár umhverfis augu, S01.1 og yfirborðsáverki á ótilgreindu líkamssvæði (e. Contusion nos), T14.0.
Í matsgerð C læknis, dags. X 2017, segir svo um skoðun á kæranda X 2017:
„A kemur eðlilega fyrir og gefur greinargóðar upplýsingar. Fram kemur að hún er rétthent. Við hámarks frambeygju höfuðs vantar tvær fingurbreiddir upp á að hún komi höku niður að bringu. Aftursveigja höfuðs er eðlileg. Hámarks snúningur höfuðs er um 70° til hægri og um 60° til vinstri. Hámarks hliðarsveigja höfuðs er um 20° til hægri og um 25° til vinstri. Það tekur í hálsinn í endastöðum allra hreyfinga. Það eru eymsli í vöðvafestum í hnakka og vöðvum á hálsi og herðum. Það eru eðlilegir kraftar, sinaviðbrögð og húðskyn í griplimum. Hreyfingar í öxlum eru samhverfar og eðlilegar. Það eru eymsli ofan og framan á […] öxlinni. Hreyfingar í úlnliðum og fingrum eru samhverfar og eðlilegar. Það eru hvergi nein þreifieymsli á […] úlnliðnum.“
Í samantekt og niðurstöðu matsgerðarinnar segir:
„Slysið þann X átti sér stað í [...] D og varð með þeim hætti að A [...] og féll niður á steingólf og kom niður á […] hliðina og fékk högg á höfuð, öxl og læri. Hún bar hendurnar fyrir sig og sú […] bögglaðist undir henni. Hún fékk skurð á efra augnlokið á [...] auganu og leitaði samdægurs á Heilsugæsluna í G og skurðurinn var saumaður. Hún var mjög aum í […] úlnliðnum næsta dag og leitaði því aftur á Heilsugæsluna og var send í myndatöku og reyndist ekki vera um brot að ræða. A hefur allt frá slysinu haft verki í höfði, hálsi og […] öxl. Dregið hefur úr verkjum í […] úlnlið, en hún fær þreytuverki þar við álag. Verkir sem hún hafði í […] læri hurfu með tímanum.
Eftir umferðarslys sem A lenti í þann Y hafði hún einkum einkenni frá lendhrygg, en einnig frá hálsi, sbr. upplýsingar úr heilsgæslusjúkraskrá hennar […]
Varanlegar heilsufarslegar afleiðingar slyssins verða raktar til tognunar á hálshrygg með viðvarandi verkjum sem aukast við álag, eymslum og ósamhverfri hreyfiskerðingu, tognunar á […] öxl með álagsverkjum og eymslum, en engri hreyfiskerðingu og tognunar á […] úlnlið með álagsverkjum, en ekkert er að finna þar óeðlilegt við skoðun.
Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er tekið mið af töflu örorkunefndar frá 21. febrúar 2006, liðum VI.A.a., VII.A.a.1. og VII.A.c. og þykir varanleg örorka hæfilega metin 8% (átta af hundraði), þar af 5% vegna hálshryggjar að teknu tilliti til fyrri sögu til lækkunar og 3% vegna […] axlar, en ekki telst vera mælanleg varanleg örorka vegna […] úlnliðs.
Núverandi einkenni verða að hluta rakin til fyrra ástands, en sú örorka sem metin er hér að ofan verður einungis rakin til slyssins þann X.“
Í tillögu E læknis að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, dags. X 2017, segir svo um skoðun á kæranda:
„A kveðst vera X cm á hæð, X kg og rétthent. Hún gengur óhölt, hún lyftir sér upp á táberg og hæla, sest á hækjur sér og stendur upp án vandræða. Við skoðun á hálsi eru hreyfiferlar þannig við frambeygju vantar 1 cm á að haka nái bringu. Bakfetta 50°. Snúningur hægri 80, vinstri 80. Hliðarhalli hægri 30, vinstri 30. Við þreifingu hér er um að ræða mjúka vöðva í herðum, eymsli í hnakkafestu […] megin, ekki eymsli yfir hálshrygg. Skoðun á öxlum er þannig axlarvöðvar eru að sjá samhverfir. Hreyfiferlar eðlilegir hægri og vinstri og eins og styrkur axlar er góður. Styrkur og skyn handa og fingra jafn og eðlilegur. Hreyfiferlar úlnliðar er eðlilegir eins hægri og vinstri. Það er við þreifingu ekki að fá fram eða finna eymsli. Sár á augabrún [...] er vel gróið og sést nánast ekki, engin lýti af þessu.“
Í útskýringu tillögunnar segir svo:
„Í sjúkraskrá A kemur fram fyrri saga um vöðvabólgur í herðum og baki, verki í […] öxl og dofa, verki í mjóbaki, sjúkraþjálfun regluleg í gegnum alla tíð. Í læknisvottorði þar sem lýst er slysinu kemur fram að slysdaginn var um að ræða sár yfir [...] augnloki, eymsli á handarbaki og er það skoðað daginn eftir og tekin röntgenmynd af […] úlnlið sem reynist eðlileg. A lýsir sjálf að einkenni og óþægindi í úlnliðum hafi horfið en nú í seinni tíma komið fram eins og minni styrkur í úlnliðum og þá meira í […]. Höfuðverkir og verkir […] megin í hálsi og hnakkafestu virðast hafa komið fram síðar, ekki er nein lýsing á því í vottorði læknis frá samtímaskoðunum. Í sjúkraskrá A sem fylgir með er aftur lýst slysinu og komu X og X það kemur fram að tekin var röntgenmynd af […] úlnlið og svar úr H þar sem lýsing er „Það eru töluverðar slitbreytingar í CMC-1. Vægar skerpingar í DIP liðum, en brot greinast ekki í hendi. Í úlnlið er ekki að sjá sjúklegar beinbreytingar. Ekki merki um fracturur. Niðurstaða: Slitbreytingar.“
Næstu færslur á heilsugæslu snúast eingöngu um vottorðaskriftir en næsta heimsókn er X og lýsing þannig „Datt fram fyrir sig í X, fékk högg á höfuðið. Var í kjölfarið slæm af verkjum og þyngslum fyrir höfði. Hélt áfram að vera með þyngsli og verki yfir höfði, fór til sjúkraþjálfara í júlí og var þá mjög stíf og aum yfir vöðvafestum í hálsi og hnakka. Við skoðun eru ekki markverð þreifieymsli yfir hryggjartindum hálshryggjar en paravertebral eymsli til staðar og stífleiki og eymsli í hnakka.“
Þegar í heildina er litið telur undirritaður um að ræða minniháttar áverka. Einkenni sem A lýsir í dag eru almenn óþægindi, verkjaeinkenni sem geta vel samrýmst hennar vinnu, einkenni þessi í hálsi hafa ekki komið fram strax eftir slys, saga er um óþægindi, sjúkraþjálfunarmeðferðir í fjölda mörg ár fyrir slysið og telur undirritaður slys og áverkamekanisma ekki til þess fallinn að valda varanlegu líkamstjóni.“
Ákvörðun slysaörorku samkvæmt lögum IV. kafla almannatryggingalaga nr. 100/2007, nú laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Samkvæmt gögnum málsins bar slysið að með þeim hætti að kærandi féll af [...] og lenti illa og hlaut skurð á [...] augnlok og áverka á […] hönd. Í matsgerð C læknis, dags. X 2017, eru varanlegar heilsufarslegar afleiðingar slyssins raktar til tognunar á hálshrygg með viðvarandi verkjum, sem aukast við álag, eymslum og ósamhverfri hreyfiskerðingu, tognunar á […] öxl með álagsverkjum og eymslum án hreyfiskerðingar og tognunar á […] úlnlið með álagsverkjum en skoðun þar ekki óeðlileg. Samkvæmt örorkumatstillögu E læknis, dags. X 2017, eru núverandi einkenni kæranda almenn óþægindi, verkjaeinkenni sem geta vel samrýmst vinnu hennar.
Úrskurðarnefnd fær ráðið af gögnum málsins að við slysið hafi kærandi hlotið sár á augnlok og tognun á […] úlnlið. Ekki er lýst í samtímagögnum einkennum frá hálsi eða öxl fyrr en all löngu síðar. Í beiðni heilsugæslulæknis um sjúkraþjálfun, dags. X, er því meðal annars lýst að kærandi hafi leitað til sjúkraþjálfara í X sama ár og þá verið „mjög stíf og aum í vöðvafestum yfir hálsi og hnakka.“ Sjúkdómsgreiningar læknisins eru vöðvaverkir (myalgia, M79.1) og festumein (M77.9). Sömu greiningar eru síðar notaðar af fleiri heilsugæslulæknum sem fylgdu kæranda eftir. Hvorug greiningin er áverkagreining og má af því ætla að læknarnir hafi ekki talið orsakasamhengi á milli áðurnefndra einkenna og slyssins sem varð í X sama ár. Fyrir liggur í sjúkraskrá heilsugæslu að kærandi hafði áralanga fyrri sögu um vöðvaverki í herðum og hálsi. Um verki í öxl er ekki getið fyrr en í beiðni heilsugæslulæknis um sjúkraþjálfun, dags. X, X ári eftir slysið. Áðurnefndum matsmönnum ber saman um að áverki á úlnlið kæranda hafi ekki skilið eftir sig varanleg mein sem metin verði til örorku.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að áverkar þeir sem kærandi hlaut við slysið X, sár á andliti og tognun á úlnlið, hafi ekki valdið varanlegu heilsutjóni. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að orsakasamhengi hafi verið á milli slyssins og einkenna frá hálsi, herðum og öxl.
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 0% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 0% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir