Mál nr. 243/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 243/2017
Miðvikudaginn 13. desember 2017
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.
Með kæru, 27. júní 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2017 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2016.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. júní 2017, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum til hennar á árinu 2016 hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 23.984 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfinu var kærandi krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. júní 2017. Með bréfi, dags. 3. júlí 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. ágúst 2017. Með bréfi, mótteknu 15. ágúst 2017, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar stofnuninni með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. ágúst 2017, var kæranda sent nýtt afrit af greinargerð Tryggingastofnunar. Þann 14. september 2017 bárust að nýju athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar stofnuninni með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 4. október 2017, barst viðbótargreinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. október 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún óski eftir því að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2016 verði endurskoðuð.
Í kæru kemur fram að samkvæmt tekjuáætlun fyrir árið 2016 hafi kærandi gert ráð fyrir 2.645.652 kr. í launatekjur en samkvæmt skattframtali fyrir árið 2016 hafi þær verið 2.850.417 kr. Mismunurinn sé 204.765 kr. umfram áætlun. Lífeyrissjóðstekjur hafi verið áætlaðar í tekjuáætlun 5.236.284 kr. en samkvæmt skattframtali hafi þær verið 3.117.258 kr. eða 2.119.026 kr. lægri upphæð en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Samtals hafi því launatekjur og lífeyrissjóðstekjur verið 1.914.261 kr. undir þeim greiðslum sem gert hafi verið ráð fyrir og gefnar hafi verið upp á tekjuáætlun Tryggingastofnunar.
Samkvæmt sundurliðun tekna hjá Tryggingastofnun sé ekki gerður greinarmunur á launatekjum annars vegar og lífeyrissjóðstekjum hins vegar. Hvoru tveggja teljist vera tekjur. Því hafi kærandi fremur vanmetið tekjur sínar en ofmetið og tengist það fyrst og fremst lægri greiðslum úr lífeyrissjóði. Ef stofnunin geti gert greinarmun á þessum tekjum þarfnist það greinargóðs rökstuðnings.
Iðgjöld í lífeyrissjóði til frádráttar greiðslum hafi verið hærri en gert hafi verið ráð fyrir vegna breytinga á samningum á almennum markaði.
Greiðslur í lífeyrissjóð hafi verið 114.018 kr. en gert hafi verið ráð fyrir 105.816 kr. Mismunur sem ætti að koma til frádráttar sé því 8.202 kr. Greiðslur í séreignarsjóð hafi verið 114.018 kr. en gert hafi verið ráð fyrir 56.292 kr. Mismunur sé 57.726 kr. Samtals séu því umfram greiðslur í lífeyrissjóð að upphæð 65.928 kr. sem koma ættu til frádráttar.
Samkvæmt fylgiskjalinu komi fram að heildargreiðslur Tryggingastofnunar á árinu 2016 hafi verið 526.176 kr. en réttindi samkvæmt skattframtali 2016 ættu að vera 488.028 kr. Mismunurinn sé 38.148 kr. í skuld. Samkvæmt B hjá Ríkisskattstjóra hafi Tryggingastofnun upphaflega sent inn að greiðslur til kæranda hefðu numið 482.520 kr. en eftir leiðréttingu hefðu þær hækkað í 488.028 kr.
Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar segir:
„1. Þessar tekjur (hvaða tekjur?) að teknu tilliti til frítekjumarks atvinnutekna (árstekjur?), frítekjumarks lífeyrissjóðstekna (mánaðartekur?), og frítekjumark fjármagnstekna (á ársgrundvelli?), sem 4.187.22 kr. tekjur (heildartekjur á ársgrundvelli?) gagnvart tekjutryggingu og öðrum bótaflokkum (hvaða bótaflokkum?) en sú fjárhæð var yfir þeim mörkum að um greiðslurétt væri að ræða.
Mörkin geta verið á bilinu 3.994.326 – 4.488.596 kr. en voru 4.133.070 kr.
Hvernig skýrist lækkun um 138.744 kr. ef upphæðin 4.133.070 kr. innan uppgefinna marka?
2. Hvernig frádrátt á að vera hægt að sýna fram á í tengslum við fæðishlunnindi?
Ætlast TR til þess að lífeyrisþegar svelti í vinnu við hlið samstarfsmanna sinn eftir að hafa þegar greitt skatta af fæðishlunnindum sínum?“
Þá gerir kærandi athugasemd við að greinargerð stofnunarinnar sé illskiljanleg, bæði innihaldslega og málfarslega. Að nota kaflaheiti yfir ólíka bótaflokka, greinarmerkjasetningu og taka út óþarfa orð væri til bóta. Það sé óhjálplegt að setja upphæðir í málfarslega illskiljanlegar setningar.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003, varðandi hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 39. gr. sömu laga en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.
Í 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Stofnunin hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.
Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. almannatryggingalaga. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.
Í tekjuáætlun kæranda vegna ársins 2016 hafi verið reiknað með að tekjur yrðu launatekjur 2.483.544 kr. að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð, lífeyrissjóðstekjur 5.236.284 kr. og að fjármagnstekjur yrðu helmingur af sameiginlegum fjármagnstekjum hjóna, þ.e. 159.948 kr.
Lífeyrissjóðstekjur hafi ekki áhrif á útreikning örorkulífeyris og aldurstengdrar örorkuuppbótar og þar reiknist því tekjur kæranda að teknu tilliti til þess og frítekjumarks fjármagnstekna (98.640 kr.) sem 2.544.852 kr. Tekjur kæranda hafi þannig reiknast lægri en almennt frítekjumark örorkulífeyris og aldurstengdrar örorkuuppbótar (2.575.220 kr.) og höfðu ekki áhrif á fjárhæð þeirra bótaflokka.
Hvað tekjutryggingu og tengda bótaflokka varðar reiknist þessar tekjur, að teknu tilliti til frítekjumarka atvinnutekna (1.315.200 kr.), lífeyrissjóðstekna (328.800 kr.) og fjármagnstekna (98.640 kr.) sem 6.137.136 kr. tekjur en sú fjárhæð hafi verið á árinu 2016 yfir þeim mörkum að um greiðslurétt tekjutryggingar og tengdra bótaflokka væri að ræða. Mörkin geti verið á bilinu 3.994.326 kr. – 4.488.596 kr., sbr. 4. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga, en hafi hér verið 3.994.326 kr. vegna þess að örorkulífeyrir hafi ekki lækkað vegna tekna.
Greiðslur til kæranda á árinu 2016 hafi því numið fullum örorkulífeyri, þ.e. 39.862 kr. á mánuði, og aldurstengdri örorkuuppbót, þ.e. 3.986 kr. á mánuði, eða samtals 43.848 kr. á mánuði.
Við endurreikning og uppgjör ársins 2016 hafi tekjur kæranda fyrir árið 2016 reynst vera launatekjur að fjárhæð 2.622.381 kr. að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð, fæðishlunnindi 16.715 kr. og náms- og vísindastyrkur 37.202 kr., þ.e. samtals 53.917 kr., sem ekki hafði verið færður til frádráttar í framtali, lífeyrissjóðsgreiðslur 3.117.258 kr. og fjármagnstekjur sem hafi reiknast til helmings af 272.612 kr. af sameiginlegum fjármagnstekjum hjóna, þ.e. 136.306 kr.
Lífeyrissjóðstekjur hafi ekki áhrif á útreikning örorkulífeyris og aldurstengdrar örorkuuppbótar og að teknu tilliti til frítekjumarks fjármagnstekna (98.640 kr.) reiknist tekjur kæranda sem 2.713.964 kr. gagnvart þeim bótaflokkum. Tekjur hennar umfram almennt frítekjumark örorkulífeyris og aldurstengdrar örorkuuppbótar (2.575.220 kr.) hafi því verið 138.744 kr.
Þessar tekjur hafi reiknast, að teknu tilliti til frítekjumarks atvinnutekna (1.315.200 kr.), frítekjumarks lífeyrissjóðstekna (328.800 kr.) og frítekjumarks fjármagnstekna (98.640 kr.) sem 4.187.222 kr. tekjur gagnvart tekjutryggingu og öðrum bótaflokkum, en sú fjárhæð hafi verið yfir þeim mörkum að um greiðslurétt væri að ræða. Mörkin geti verið á bilinu 3.994.326 – 4.488.596 kr., sbr. 4. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga, en hafi hér verið 4.133.070 kr. vegna þess að örorkulífeyrir hafi lækkað á grundvelli 138.744 kr. tekna.
Þrátt fyrir að heildartekjur kæranda á árinu 2016 hafi verið lægri við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2016 en reiknað hafi verið með í tekjuáætlun hennar hafi það ekki í för með sér hærri örorkulífeyrisgreiðslur til hennar vegna þess að lækkun lífeyrissjóðstekna hennar hafi ekki haft áhrif á útreikninginn. Þær tekjur sem hafi haft áhrif hafi á hinn bóginn verið 138.744 kr. hærri við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2016 heldur en reiknað hafi verið með í tekjuáætlun.
Örorkulífeyrir hafi þannig lækkað um 25% af 138.744 kr. eða 34.686 kr. Það geri 2.890 kr. í hverjum mánuði eða samtals 34.680 kr. fyrir alla 12 mánuði ársins. Greiðsluréttur örorkulífeyris hafi því lækkað úr 478.344 kr. í 443.664 kr.
Með sama hætti hafi aldurstengd örorkuuppbót lækkað um 25% af 13.874 kr. eða 3.468 kr. Það geri 298 kr. í hverjum mánuði eða samtals 3.468 kr. fyrir alla 12 mánuði ársins. Greiðsluréttur aldurstengdrar örorkuuppbótar hafi því lækkað úr 47.832 kr. í 44.364 kr.
Ofgreiðsla í endurreikningi og uppgjöri ársins 2016 hafi því numið 38.148 kr. sem að endurgreiddri áður frádreginni staðgreiðslu skatta hafi orðið að 23.984 kr.
Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að þar sem ekki verði séð að skriflegar útskýringar á útreikningi myndu koma að gagni séu upplýsingar málsins settar fram sem reikningsdæmi. Í greinargerðinni segir:
„Í tekjuáætlun kæranda vegna ársins 2016 hafði verið reiknað með að tekjur yrðu:
Launatekjur 2.645.652 kr.
Frádráttarbær iðgjöld -162.108 kr.
Launatekjur reiknaðar 2.483.544 kr.
Lífeyrissjóðstekjur 5.236.284 kr.
Fjármagnstekjur 159.948 kr. (1/2 af 319.896 kr.)
Samtals tekjur 7.879.776 kr.
Tekjuútreikningur örorkulífeyris skv. tekjuáætlun var:
Launatekjur reiknaðar 2.483.544 kr.
Lífeyrissjóðstekjur 0 kr. (lífeyrissjóður skerðir ekki örorkulífeyri)
Fjármagnstekjur 61.308 kr. (tekið tillit til 98.640 kr. frítekjumarks)
Viðmiðunartekjur 2.544.852 kr. (frítekjumörk örorkulífeyris 2.575.220 kr.)
Frítekjumörk 2.575.220 kr.
Tekjur til lækkunar 0 kr.
Óskertur örorkulífeyrir 478.344 kr.
Lækkun v/tekna 0 kr.
Greiddur örorkulífeyrir 478.344 kr. /39.862 kr. á mánuði
Tekjuútreikningur aldurstengdrar örorkuuppbótar skv. tekjuáætlun var:
Launatekjur reiknaðar 2.483.544 kr.
Lífeyrissjóðstekjur 0 kr. (lífeyrissjóður skerðir ekki örorkulífeyri)
Fjármagnstekjur 61.308 kr. (tekið tillit til 98.640 kr. frítekjumarks)
Viðmiðunartekjur 2.544.852 kr.
Frítekjumörk 2.575.220 kr.
Tekjur til lækkunar 0 kr.
Óskert uppbót (10%) 47.832 kr.
Lækkun v/tekna (10% af 25%) 0 kr.
Greidd uppbót 47.832 kr. /3.986 kr. á mánuði
Tekjuútreikningur tekjutryggingar skv. tekjuáætlun var:
Launatekjur reiknaðar 1.168.344 kr. (tekið tillit til 1.315.200 kr. frítekjumarks)
Lífeyrissjóðstekjur 5.565.084 kr. (tekið tillit til 328.800 kr. frítekjumarks)
Fjármagnstekjur 61.308 kr. (tekið tillit til 98.640 kr. frítekjumarks)
Viðmiðunartekjur 6.794.736 kr.
Frítekjumörk 0 kr.
Tekjur umfram greiðslurétt 2.800.410 kr. (3.994.326 kr. núllmark)
Óskert tekjutrygging 1.531.824 kr.
Lækkun v/tekna (38,35%) 1.531.824 kr.
Greidd tekjutrygging 0 kr.
Greiðslur sem áttu sér stað skv. tekjuáætlun ársins 2016 voru:
Örorkulífeyrir 478.344 kr. /39.862 kr. á mánuði
Aldurstengd örorkuuppbót 47.832 kr. /3.986 kr. á mánuði
Tekjutrygging 0 kr. /0 kr. á mánuði
Samtals 526.176 kr. /43.848 kr. á mánuði
Við endurreikning skv. skattframtali kæranda reyndust tekjur hafa verið:
Launatekjur reiknaðar 2.850.417 kr.
Frádráttarbær iðgjöld -228.036 kr.
Launatekjur utan hlunninda 2.622.381 kr.
Hlunnindi 16.715 kr.
Styrkir 57.202 kr.
Frádráttur frá styrkjum -20.000 kr.
Önnur hlunnindi og styrkir 53.917 kr.
Launatekjur reiknaðar 2.676.298 kr.
Lífeyrissjóðstekjur 3.117.258 kr.
Fjármagnstekjur 136.306 kr. (1/2 af 272.612 kr.)
Samtals 5.929.862 kr.
Við endurreikning reiknuðust þannig launatekjur kæranda 192.754 kr. hærri, lífeyrissjóðstekjur 2.119.026 kr. lægri og fjármagnstekjur 23.642 kr. lægri.
Tekjuútreikningur vegna endurreiknings örorkulífeyris var:
Launatekjur reiknaðar 2.676.298 kr.
Lífeyrissjóðstekjur 0 kr. (lífeyrissjóður skerðir ekki örorkulífeyri)
Fjármagnstekjur 37.666 kr. (tekið tillit til 98.640 kr. frítekjumarks)
Viðmiðunartekjur 2.713.964 kr.
Frítekjumark örorkulífeyris 2.575.220 kr.
Tekjur sem lækka greiðslur 138.744 kr.
Óskertur örorkulífeyrir 478.344 kr.
Lækkun v/tekna (25%) 34.680 kr. /2.890 kr. á mánuði
Greiddur örorkulífeyrir 443.664 kr. /36.972 kr. á mánuði
Tekjuútreikningur vegna endurreiknings aldurstengdrar örorkuuppbótar var:
Launatekjur reiknaðar 2.676.298 kr.
Lífeyrissjóðstekjur 0 kr. (lífeyrissjóður skerðir ekki örorkulífeyri)
Fjármagnstekjur 136.306 kr. (tekið tillit til 98.640 kr. frítekjumarks)
Viðmiðunartekjur 2.713.964 kr.
Frítekjumark uppbótar 2.575.220 kr.
Tekjur sem lækka greiðslur 138.744 kr.
Óskert uppbót (10%) 47.832 kr.
Lækkun v/tekna (10% af 25%) 3.468 kr. /289 kr. á mánuði
Greidd uppbót 44.364 kr. /3.697 kr. á mánuði
Tekjuútreikningur vegna endurreiknings tekjutryggingar var:
Launatekjur reiknaðar 1.361.098 kr. (tekið tillit til 1.315.200 kr. frítekjumarks)
Lífeyrissjóðstekjur 2.788.458 kr. (tekið tillit til 328.800 kr. frítekjumarks)
Fjármagnstekjur 37.666 kr. (tekið tillit til 98.640 kr. frítekjumarks)
Viðmiðunartekjur 4.187.222 kr. (tekjur yfir 3.994.326 kr.+ 90.446 kr.
Frítekjumörk 0 kr. hækkun á tekjumörkum v/lækkunar
Tekjur umfram greiðslurétt 102.450 kr.
Óskert tekjutrygging 1.531.824 kr. á lækkun um 34.686 kr. sem lækkuðu
Lækkun v/tekna (38,35%) 1.478.616 kr. örorkulífeyri = 4.084.772 kr. núllmörk)*
Lækkun v/tekna(13,35%) 18.522 kr.
Lækkun v/tekna (38,35%) 34.686 kr.
Greidd tekjutrygging 0 kr.
*Í greinargerð voru þessi mörk tilgreind sem 4.133.070 kr. en þau eru leiðrétt hér í 4.084.772 kr. Mismunurinn byggist á því að 34.686 kr. frádráttur af örorkulífeyri vegna 25% lækkunar v/tekna dregst frá tekjulækkun tekjutryggingar. Þær 138.744 kr. sem lækka örorkulífeyri lækka því tekjutrygginguna um 13,35% í stað 38,35%. Við venjuleg 3.994.326 kr. núllmörk tekjutryggingar standa þannig eftir 34.686 kr. greiðslur en 38,35% af tekjum umfram þau mörk skerða þá fjárhæð um 38,35%. Þannig hækka núllmörkin, þ.e. það mark sem greiðslur falla niður við um 90.446 kr. hærri tekjur, þ.e. 4.084.772 kr. Núllmörkin sem höfðu komið fram í greinargerðinni, 4.133.070 kr., miðuðust við 25% lækkun í staðinn fyrir 38,35% lækkun. Þessi flókna sérregla (sem ekki er hægt að útskýra betur en þetta) um að lækkun á örorkulífeyri dragist frá lækkun á tekjutryggingu hafði þó ekki í för með sér að greiðsluréttur vegna tekjutryggingar myndaðist þar sem viðmiðunartekjur voru yfir hækkuðum núllmörkum.“
Hvað varði athugasemdir kæranda um frádrátt af fæðispeningum þá sé það ekki í höndum Tryggingastofnunar að ákvarða hvort slíkt sé heimilt heldur fari það alfarið eftir þeim upplýsingum um tekjur sem komi fram í skattframtali viðkomandi einstaklings hvaða tekjum reiknað sé með. Ákvörðun um hvaða tekjur eigi að koma fram í skattframtali sé tekin af skattyfirvöldum.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2016.
Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun á árinu 2016. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.
Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Aftur á móti segir í 3. mgr. 16. gr. að þegar um er að ræða örorkulífeyri teljist ekki til tekna, þrátt fyrir 2. mgr., greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
Samkvæmt gögnum málsins gerði upphafleg tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2016 ráð fyrir launatekjum að fjárhæð 2.654.652 kr., iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð 105.816 kr., iðgjaldi í séreignarsjóði til frádráttar að fjárhæð 56.292 kr., lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð 5.236.284 kr. og vöxtum og verðbótum að fjárhæð 319.896 kr. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2016 reyndust launatekjur hins vegar hærri eða 2.850.417 kr. en 2.622.381 kr. að frádregnum iðgjöldum í lífeyris- og séreignasjóð. Þá reyndust lífeyrissjóðstekjur vera lægri eða 3.117.258 kr. og vextir og verðbætur einnig vera lægri eða 272.612 kr. Að lokum reyndust aðrar tekjur vera 53.917 kr. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2016 leiddi í ljós að grunnlífeyrir hefði verið ofgreiddur auk aldurstengdrar örorkuuppbótar um samtals 23.984 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið útreikninga Tryggingastofnunar ríkisins og fellst á að kærandi hafi fengið ofgreiddar bætur að fjárhæð 23.984 kr. á árinu 2016.
Kærandi telur að ekki sé gerður greinarmunur á launatekjum og lífeyrissjóðstekjum samkvæmt sundurliðun tekna hjá Tryggingastofnun. Hún hafi vanmetið tekjur sínar frekar en ofmetið þar sem hún hafi fengið lægri greiðslur úr lífeyrissjóði en hún hafi áætlað. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að þær bætur sem hún hlaut á árinu 2016 frá Tryggingastofnun, þ.e. örorkulífeyrir og aldurstengd örorkuuppbót, skerðast ekki vegna lífeyrissjóðstekna, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá myndaðist ekki réttur til tekjutryggingar þrátt fyrir að lífeyrissjóðsgreiðslur væru lægri en áætlað var. Ofáætlun kæranda á lífeyrissjóðstekjum sínum hafði því ekki áhrif á endurútreikninginn. Ástæða ofgreiðslu bótanna er að rekja til vanáætlunar launatekna og annarra tekna í tekjuáætlun sem var forsenda Tryggingastofnunar við útreikning og greiðslu bóta á árinu 2016.
Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2016.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir