Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 8/2012

Miðvikudaginn 13. júní 2012


A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. janúar 2012, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu barnalífeyris aftur í tímann. 

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. 23. september 2011, sótti kærandi um barnalífeyri vegna dóttur sinnar sem er fædd þann X 2005. Í umsókninni kemur fram að kærandi sæki um greiðslur frá fæðingardegi dóttur sinnar. Með bréfi, dags. 1. nóvember 2011, samþykkti Tryggingastofnun ríkisins að greiða kæranda barnalífeyri frá 1. október 2011. Í bréfinu kemur fram að almenna reglan sé sú að bætur séu ákvarðaðar frá þeim tíma sem beiðni um þær sé lögð fram og til að ákvarða bætur aftur í tímann þurfi eitthvað sérstakt að koma til. Í máli þessu fer kærandi fram á greiðslu barnalífeyris frá þeim tíma sem dóttir hans fluttist alfarið til Íslands í desember 2009.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

2. Upplýsingar um kæruefni:

B er dóttir undirritaðar. Hún fæddist í C og var reglulega hér á landi frá 3 mánaða aldri, nokkra mánuði í senn. Hún fluttist hingað alfarið ásamt móður sinni í desember 2009. Undirritaður var ekki upplýstur um að hann ætti rétt á að sækja um barnalífeyri. Þegar það var gert í október 2011, samþykkti TR það mánuði seinna.

3. Rökstuðningur fyrir kæru:

Þar sem undirritaður var ekki upplýstur um möguleikann á að sækja um barnalífeyri er óskað eftir að Tryggingastofnun greiði hann afturvirkt frá þeim tíma sem B flutti alfarið á heimili undirritaðs í desember 2009.“

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 9. janúar 2012. Í greinargerðinni, dags. 23. janúar 2012, segir:

„Kærð er synjun Tryggingastofnunar um greiðslu barnalífeyris til kæranda aftur í tímann.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um greiðslu barnalífeyris með dóttur sinni með umsókn dags. 23. september 2011, móttekinni sama dag.  Kærandi sótti um afturvirkar greiðslur en umsókn kæranda var einungis samþykkt frá 1. október 2011 með bréfi dags. 1. nóvember 2011.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007, með síðari breytingum, er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. 

Í 1. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga segir að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins svo og greiðslur skv. 63. gr.  Örorkulífeyrisþegar þurfa þó ekki að sækja sérstaklega um ellilífeyri skv. 17. gr. þegar þeir ná 67 ára aldri.  Umsóknir um bætur skulu vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar.

Í 1. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga kemur fram að allar umsóknir skulu ákvarðaðar svo fljótt sem kostur er á og skulu bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandinn hefur uppfyllt skilyrðin til bótanna.  Bætur skv. III. kafla, aðrar en lífeyrir skv. IV. kafla, reiknast þó frá fyrsta næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi og falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

Þá kemur fram í 2. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga að bætur, aðrar en slysalífeyrir, skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.

Meginreglan er sú, sem fengist hefur staðfest meðal annars með úrskurði Úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 181/2010, að almennt skuli ákvarða bætur frá þeim tíma sem beiðni um þær er lögð fram og eitthvað sérstakt þurfi til að koma til að ákvarða bætur aftur í tímann.  Það að hafa ekki haft vitneskju um bótarétt getur ekki talist til sérstakra ástæðna þannig að réttlæti afturvirkar greiðslur.

Eins og áður hefur komið fram sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris með dóttur sinni með umsókn móttekinni hjá Tryggingastofnun þann 23. september 2011.  Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda skylt að veita stofnuninni nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt.  Á umsókn kæranda kemur fram að sótt sé um aftur í tímann eða frá 5. desember 2005 og að lögheimili dóttur hans hafi flust til landsins 21. desember 2009.  Í kæru kemur fram að kærandi hafi ekki verið upplýstur um möguleikann á að sækja um barnalífeyri með dóttur sinni fyrr.

Tryggingastofnun getur ekki séð að í tilviki kæranda sé um sérstakar aðstæður að ræða sem réttlætt geti greiðslu barnalífeyris aftur í tímann.  Með vísan til alls ofangreinds telur Tryggingastofnun að ekki hafi verið heimilt að samþykkja greiðslu barnalífeyris aftur í tímann til kæranda og telur ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. janúar 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu barnalífeyris aftur í tímann.

Í kæru til úrskurðarnefndar vísar kærandi til þess að þar sem hann hafi ekki verið upplýstur um þann möguleika að sækja um barnalífeyri óski hann eftir að Tryggingastofnun ríkisins greiði sér afturvirkt barnalífeyri frá þeim tíma sem dóttir hans hafi flutt alfarið á heimili hans í desember 2009.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað til þess að meginreglan sé sú að almennt skuli ákvarða bætur frá þeim tíma sem beiðni um þær sé lögð fram og að eitthvað sérstakt þurfi til að koma til að ákvarða bætur aftur í tímann. Stofnunin geti ekki séð að um sérstakar aðstæður sé að ræða í tilviki kæranda.

Kærandi sótti um greiðslu barnalífeyris með umsókn dagsettri 23. september 2011, móttekinni sama dag af Tryggingastofnun, vegna dóttur sinnar sem er fædd þann X 2005.  Umsókn kæranda var samþykkt af Tryggingastofnun og fallist á að greiða barnalífeyri frá 1. október 2011, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í máli þessu fer kærandi fram á greiðslu barnalífeyris aftur í tímann frá þeim tíma sem dóttir hans flutti alfarið til hans í desember 2009.

Við úrlausn þessa máls lítur úrskurðarnefnd almannatrygginga til þess sem greinir í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar:

 „Allar umsóknir skulu ákvarðaðar svo fljótt sem kostur er á og skulu bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandinn hefur uppfyllt skilyrðin til bótanna. Bætur skv. III. kafla, aðrar en lífeyrir skv. IV. kafla, reiknast þó frá fyrsta næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi og falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

Í framangreindu ákvæði kemur fram að bætur samkvæmt III. kafla laga nr. 100/2007 skuli reiknast frá fyrsta næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Um barnalífeyri er fjallað í 20. gr. laga nr. 100/2007, sem er að finna í III. kafla laganna. Þar segir í 1. mgr.:

 „Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið með örorkumat frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. desember 1999 og þegið örorkulífeyri á grundvelli þess. Þá er dóttir kæranda fædd á árinu 2005. Í 5. mgr. framangreindrar 20. gr. er síðan að finna skilyrði um að börn sem barnalífeyrir greiðist með skuli vera á framfæri bótaþega. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi borið framfærsluskyldu gagnvart dóttur sinni frá fæðingu hennar.

Barnalífeyrir er ekki sjálfkrafa greiddur af Tryggingastofnun ríkisins heldur verður að sækja sérstaklega um slíkar greiðslur með umsókn, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007. Kærandi sótti um barnalífeyri með umsókn dagsettri 23. september 2011 og voru honum reiknaðar bætur frá 1. október 2011 eða frá fyrsta næsta mánaðar eftir umsókn barst Tryggingastofnun, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007. Í máli þessu fer kærandi fram á greiðslur aftur í tímann. Ber því næst að líta til 2. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 þar sem segir:   

 „Bætur, aðrar en slysalífeyrir, skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.“

Af framangreindu ákvæði verður ráðið að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni. Bætur verða hins vegar ekki ákvarðaðar aftur í tímann nema skilyrði greiðslnanna séu uppfyllt. Eins og áður greinir hefur kærandi þegið örorkulífeyri frá árinu 1999, dóttir hans er fædd á árinu 2005 og ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi borið framfærsluskyldu gagnvart dóttur sinni frá fæðingu hennar. Skilyrði barnalífeyris tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn barst Tryggingastofnun eru því uppfyllt með hliðsjón af 2. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007.

Eins og áður greinir er í 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 gert ráð fyrir að bætur samkvæmt III. kafla laganna greiðist frá fyrsta næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Með hliðsjón af því ákvæði og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 telur úrskurðarnefnd að greiða beri kæranda barnalífeyri frá 1. október 2009. Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma barnalífeyris kæranda hrundið.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma barnalífeyris A, er hrundið. Barnalífeyrir skal greiðast frá 1. október 2009.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta