Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 150/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 150/2024

Miðvikudaginn 21. ágúst 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags 25. mars 2024, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 13. febrúar 2024 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 7. júlí 2021, sem barst Sjúkratryggingum Íslands 9. júlí 2021, vegna afleiðinga bólusetningar gegn Covid-19 þann X sem framkvæmd hafi verið á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 13. febrúar 2024, á þeim grundvelli að skilyrði bráðabirgðaákvæðis I. í lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 væru ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. mars 2024. Með bréfi, dags. 15. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. apríl 2024 og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. apríl 2024. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 13. maí 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. maí 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefjist þess að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 13. febrúar 2024, verði felld úr gildi og stofnuninni gert að endurskoða ákvörðun sína.

Kærandi hafi tilkynnt sjúklingatryggingaratburð til Sjúkratrygginga Íslands 9. júlí 2021 vegna Covid-19 bólusetningar þann X. Í kjölfarið hafi heilsa hans versnað töluvert samkvæmt læknisfræðilegum gögnum.

Kærandi byggi á því að hann hafi ekkert heyrt frá Sjúkratryggingum Íslands um málið, þrátt fyrir fyrirspurnir, fyrr en ákvörðun stofnunarinnar hafi verið send til hans. Þá byggi hann á því að andmælaregla og lögmætisregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar. Enn fremur byggi kærandi á því að rannsóknarregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin en hann hafi ekki verið upplýstur um á hvaða gögnum eða áliti ákvörðunin hafi verið reist.

Kærandi vísi til 2. gr. laga um sjúklingatryggingu í heild sinni, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.

Í athugasemdum kæranda, dags. 16. apríl 2024, segi að hann vilji ítreka fimm atriði. Í fyrsta lagi að í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands komi fram að kærandi hafi tiltekið rangt bóluefni í umsókn hans um bætur vegna aukaverkana bóluefnis. Ástæða þess sé honum hulin og í raun óviðkomandi. Honum hafi verið sagt að bóluefnið væri […] og á Heilsuveru sé það einnig skráð þannig, með tilteknu lotunúmeri. Heilsugæslan hafi því sagt honum ósatt. Í öðru lagi segi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að hann sé háður svefnlyfjum. Það séu nýjar fréttir fyrir hann. Hann kannist alls ekki við það og biðji úrskurðarnefndina að afla frekari gagna um það atriði. Kærandi sjái enga tengingu milli þess og aukaverkana bólusetningar. Í þriðja lagi komi fram í ákvörðun Sjúkratrygginga að kærandi hafi verið heilsulítill áður en hann hafi verið bólusettur og það sé notað gegn honum. „Slíku“ fólki hafi verið sérstaklega smalað í sprautuna, án þess að nokkuð hefði verið minnst á að það yrði fjötur um fót ef illa færi. Hann hafi reyndar gagngert spurt konuna sem hafi bólusett hann um það áður en hann hafi verið bólusettur en hann hafi ekki fengið svar. Í fjórða lagi geri kærandi alvarlega athugasemd að einhver ónafngreindur óháður aðili hafi skoðað umsókn kæranda, án þess að kærandi hafi fengið andmælarétt um álit hans eða upplýsingar um hver hann sé og hvaða vottun hann hafi til starfans. Í fimmta lagi geri kærandi einnig alvarlegar athugasemdir við að það hafi hvorki verið talað við hann né hann skoðaður eða hans innbú af hálfu Sjúkratrygginga Íslands í tengslum við umsóknina. Hann hafi fengið krampaflog skömmu eftir bólusetninguna og óvart brotið persónulega muni og tölvu sína. Hann hafi fengið þær upplýsingar hjá Sjúkratryggingum Íslands að skoða þyrfti það mál sérstaklega svo kærandi hafi beðið með að gera nokkuð í því. Eftir tvö og hálft ár hafi svo komið í ljós að það hafi aldrei staðið til að skoða þetta neitt af Sjúkratryggingum Íslands en þá hafi tryggingafélag kæranda sagt að málið væri of gamalt til að félagið færi að taka þátt. Tjónið teljist ef til vill óverulegt en kærandi hafi þurft að kaupa sér ný gleraugu vegna þessa, tölvan hangi ennþá saman með límbandi en viðgerð á einu málverki sé ókláruð. Hvert þessara tjóna gæti verið um fimmtíuþúsund krónur, að minnsta kosti hafi ódýr gleraugu kostað það í I. Þá hafi hann einnig hlotið óútskýrða áverka að næturlagi, meðal annars á baki og fótleggjum, reyndar grunna, en það hafi þó blætt úr þeim. Áverkarnir séu nú grónir að mestu en hafi aldrei verið rannsakaðir. Kærandi búi einn og ekki sé vitað til að utanaðkomandi hafi valdið þessu.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist stofnuninni þann 9. júlí 2021. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga bólusetningar gegn Covid-19 þann X, sem hafi farið fram á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Umsóknin hafi verið til skoðunar hjá stofnuninni og málið hafi verið talið að fullu upplýst. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 13. febrúar 2024, hafi umsókn kæranda verið synjað á þeim grundvelli að það væri mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki væri orsakasamband á milli heilsutjóns kæranda og bólusetningar þann X og þar af leiðandi væri skilyrði bráðabirgðaákvæðis I. í lögum um sjúklingatryggingu ekki uppfyllt. Synjun á bótaskyldu sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í kæru sé því haldið fram að kærandi hafi ekkert heyrt frá Sjúkratryggingum Íslands um málið, þrátt fyrir fyrirspurnir, fyrr en ákvörðun stofnununarinnar hafi verið send til hans. Sjúkratryggingar Íslands vilji benda á að í málinu liggi fyrir fjölmörg samskipti kæranda við starfsfólk stofnunarinnar þar sem kærandi hafi komið sínum sjónarmiðum á framfæri og þá hafi kærandi ítrekað verið upplýstur um stöðu málsins.

Þá sé því haldið fram í kæru að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin þar sem kærandi hafi ekki verið upplýstur um á hvaða gögnum eða áliti ákvörðunin hafi verið reist. Sjúkratryggingar Íslands telji rétt að benda á að í ákvörðun stofnunarinnar, dags, 13. febrúar 2024, séu taldar upp þær heimildir sem ákvörðunin sé byggð á. Sjúkratryggingum Íslands hafi ekki áður borist beiðni [frá kæranda] um [að veittar yrðu] upplýsingar um þann lækni sem hafi skilað minnisblaði í máli kæranda en hefði að sjálfsögðu upplýst kæranda um það ef slík beiðni hefði borist. Það hafi verið C, lyf – og smitsjúkdómalæknir, sem hafi farið yfir mál kæranda og skilað minnisblaði til Sjúkratrygginga Íslands.

Að öðru leyti komi afstaða stofnunarinnar til kæruefnisins fram með fullnægjandi hætti í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 23. febrúar 2024. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé því ekki þörf á að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Í hinni kærðu ákvörðun segi meðal annars svo:

„Málavextir

Samkvæmt sjúkraskrárgögnum málsins hefur umsækjandi glímt við fjölþættan heilsufarsvanda um langt skeið. SÍ hafa farið vandlega yfir sjúkraskrá umsækjanda frá heilsugæslunni D.

Árið X glímdi umsækjandi við þvagsýrugigt, magabólgur, stoðkerfiseinkenni vegna nokkurra bílslysa og eyrnasuð í vinstra eyra. Þá kemur fram í gögnum að hann hafi einnig verið að glíma við ofþyngd og háþrýsting. Í lok árs X kvartaði umsækjandi um verki í báðum hnjám og þráláta kvefpest. Í X leitaði umsækjandi á bráðamóttöku LSH vegna versnandi þvagsýrugigtar. Stungið var í hnéð og í ljós kom að hann var með þvagsýrukristalla í liðnum. Var hann greindur með Bakers cystu í vinstri hnésbót og blætt hafði inn í cystuna.

Árið X var umsækjandi ítrekað til meðferðar á heilsugæslunni vegna ýmissa heilsufarsvandamála. Í X leitaði hann vegna kláða í kjölfar sýklalyfjameðferðar við hálsbólgu. Í X leitaði hann á heilsugæsluna vegna svima og kom fram að hann hefði einu sinni fengið mjög slæmt svimakast og það hafi tekið nokkrar vikur að lagast og hann hafi farið til háls- nef- og eyrnalæknis í skoðun. Vaknaði grunur um að mögulega hefðu kristallar í innra eyra ruggast eitthvað til. Í X kvartaði hann undan augnþurrki og tvísýni. Í X og X var umsækjandi til meðferðar á heilsugæslu vegna verkja í vinstri síðu sem metinn var sem vöðvaverkur/stoðkerfisverkur. Þá fékk hann ávísað svefnlyfi vegna svefntruflana sem hann fékk svo endurnýjað áfram. Í X gekkst umsækjandi undir ristilspeglun þar sem fjarlægður var sepi sem talinn var góðkynja.

Árið X var umsækjandi að glíma við endurteknar kvefpestir og ennis- og kinnholubólgur og var hann ýmist meðhöndlaður með steraspreyi og sýklalyfjum.

Í X leitaði umsækjandi á heilsugæsluna vegna þvagtregðu. Kvaðst vera lengi að pissa og bunan mjög léleg. Þá hafði hann séð smá blóðtægjur í þvagi helgina áður. Í X var umsækjandi áfram með kvef og kinnholubólgur. Í X kartaði umsækjandi undan bletti aftan á baki og var honum ávísað kreminu daktacort. Í X greindi umsækjandi frá því á heilsugæslu að draga hefði þurft úr honum tönn vegna verkja. Við skoðun kom fram að tannstatus væri mjög lélegur og það vantaði nokkrar tennur.

Í X leitaði umsækjandi á bráðamóttöku LSH vegna tannholdsbólgu og sýkingar. Kom fram að hann hefði látið fjarlægja þrjár tennur síðastliðna mánuði. Ekki var talið að um alvarlega sýkingu væri að ræða og fékk hann munnskol og bólgueyðandi lyf. Í X kvartaði umsækjandi um bólgu og verk í hægra eista og við skoðun þvagfæralæknis var talið sennilegast að umsækjandi hafi fengið hematospermiu á grunni vægrar blöðruhálskirtilsbólgu. Umsækjandi gekkst undir bólusetningu með bóluefninu […] þann X. Í kjölfarið leitaði hann á Læknavaktina vegna höfuðverks og eyrnasuðs sem hann kvaðst hafa farið að finna fyrir eftir bólusetningu þann X. Taldi hann að heyrn hefði versnað en væri að koma aftur. Við skoðun reyndist hann vera með of háan blóðþrýsting og var ráðlagt eftirlit og heyrnarmæling. Umsækjandi var í kjölfarið í eftirliti og fór í blóðsykurmælingar sem sýndu sykur í efri mörkum og mataræðisbreytingar voru ráðlagðar. Blóðþrýstingsmeðferð var endurskoðuð vegna háþrýstings og sett inn Amlodipín til viðbótar við fyrri meðferð. Þá er í sjúkraskrá getið um fyrri þekkt vandamál, háþrýsting, þvagsýrugigt, andlegt álag og þvagfæravandamál í sjúkraskrá á sama tíma. Í nótu heimilislæknis þann X var getið um bólgu í handlegg og að hann hafi verið settur á sýklalyf en fengið útbrot og verk í fætur og hásin.

Forsendur niðurstöðu

Í ákvæði I. til bráðabirgða í lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu segir að þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 3. gr. laganna, sem kveður á um að bætur samkvæmt lögunum greiðast ekki ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, greiðist bætur til þeirra sem gangast undir bólusetningu á Íslandi gegn COVID-19 sjúkdómnum á árunum 2020-2023 með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til vegna tjóns sem hlýst af eiginleikum bóluefnisins eða rangri meðhöndlun þess, þ.m.t. við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu af hálfu heilbrigðisstarfsmanns.

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu nr. 114/2022 segir að markmið bráðabirgðaákvæðisins sé að þeir sem kunni að hljóta líkamstjón vegna eiginleika bóluefnis við Covid19 sjúkdómnum eða verða fyrir tjóni vegna rangrar meðhöndlunar þess, séu eins settir um rétt til bóta og þeir sem verða fyrir tjóni vegna meðferðar eða rannsóknar sem fellur undir 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Lög um sjúklingatryggingu taka til tjónsatvika ef könnun á málsatvikum leiðir í ljós að líklegra sé að tjón stafi af rannsókn eða meðferð en öðrum orsökum, t.d. fylgikvilla sem upp getur komið án þess að meðferð sjúklingsins hafi á það áhrif. Ef engu verður slegið föstu um orsök tjóns verður að vega og meta allar hugsanlegar orsakir. Ef niðurstaðan verður sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni er bótaréttur ekki fyrir hendi.

Samkvæmt gögnum málsins á umsækjandi við fjölþættan heilsufarsvanda að etja. Umkvörtunarefni umsækjanda eru margvísleg en þegar farið er yfir sjúkrasögu umsækjanda má sjá að þau einkenni sem hann kvartar yfir í umsókn og telur að rekja megi til bólusetningar gegn Covid-19, þann X, hafa flest komið fyrir síðustu 5 ár fyrir bólusetninguna. Þau einkenni sem umsækjandi kvartar yfir í umsókn og ekki hafa komið fram í sjúkraskrá hans fyrir bólusetninguna eru, að mati SÍ, þess eðlis að meiri líkur en minni séu að þau séu ekki að rekja til bólusetningarinnar heldur sé um að ræða þekkta fylgikvilla þeirra sjúkdóma sem umsækjandi glímir við og var þegar greindur með fyrir bólusetninguna, t.a.m. fylgikvillar háþrýstings sem illa hafði gengið að meðhöndla, þvagsýrugigt, ofþyngd og andlegir erfiðleikar sem tengja má […]. Að mati SÍ er ekki að sjá af gögnum málsins að umsækjandi hafi orðið fyrir heilsubresti vegna bólusetningarinnar, sbr. upplýsingar um aukaverkanir bóluefnisins.[1]

Sjúklingatryggingu er ekki ætlað að bæta tjón sem er afleiðing grunnsjúkdóms og er því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns umsækjanda og bólusetningarinnar þann X. Að mati SÍ er það orsakasamand ekki til staðar í máli umsækjanda og verður því ekki talið að þau einskenni sem hann kennir nú, megi rekja til bólusetningarinnar, heldur verða þau rakin til grunnástands hans.“

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar bólusetningar gegn Covid-19 þann X sem framkvæmd hafi verið á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins séu bótaskyldar samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu.

Kærandi byggir á því að Sjúkratryggingar Íslands brotið hafi verið gegn rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að hafa ekki upplýst hann um á hvaða gögnum eða áliti hin kærða ákvörðun hafi verið reist.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Sjúkratryggingar Íslands leggja mat á það í hverju máli fyrir sig hvort þau gögn sem stofnunin hefur undir höndum séu nægjanleg svo að unnt sé að taka ákvörðun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að nægilega skýr gögn hafi legið fyrir hjá stofnuninni til þess að unnt hafi verið að taka ákvörðun í málinu. Þá telur úrskurðarnefndin ljóst að þær heimildir sem ákvörðunin hafi verið byggð á hafi verið taldar upp í hinni kærðu ákvörðun.

Þá gerir kærandi gerir athugasemd við málsmeðferð Sjúkratrygginga Íslands þar sem honum hafi ekki verið veittur andmælaréttur vegna minnisblaðs sem hafi verið aflað í máli hans. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggur ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Úrskurðarnefndin telur að málsmeðferð Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki farið í bága við framangreint ákvæði stjórnsýslulaga þar sem samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga er ekki skylt að veita einstaklingi andmælarétt, sé slíkt augljóslega óþarft. Að mati úrskurðarnefndarinnar lág afstaða kæranda fyrir sem og fullnægjandi gögn til þess að taka ákvörðun í málinu og því var ekki þörf á að afla sjónarmiða kæranda.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 111/2000 greiðast bætur samkvæmt lögunum ekki ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð nema þegar um er að ræða klínískar lyfjarannsóknir á mönnum, án bakhjarls, samkvæmt staðfestingu viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Í bráðabirgðaákvæði með lögunum er veitt undanþága frá framangreindri 3. mgr. 3. gr. vegna Covid-19 bólusetningar, en ákvæðið er svohljóðandi:

„Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 3. gr. greiðast bætur til þeirra sem gangast undir bólusetningu á Íslandi gegn COVID-19-sjúkdómnum á árunum 2020–2023 með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til vegna tjóns sem hlýst af eiginleikum bóluefnisins eða rangri meðhöndlun þess, þ.m.t. við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu af hálfu heilbrigðisstarfsmanns. Sjúkratryggingastofnunin ber bótaábyrgð samkvæmt ákvæði þessu, sbr. 9. gr.“

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu segir að eðlilegast, og í samræmi við jafnræðisreglur, þyki að þeir sem kunni að hljóta líkamstjón vegna eiginleika bóluefnis við Covid-19 sjúkdómnum eða verði fyrir tjóni vegna rangrar meðhöndlunar þess, þar með talið við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu séu eins settir um rétt til bóta og þeir sem verði fyrir tjóni vegna meðferðar eða rannsóknar sem falli undir 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Það feli í sér vægara mat á orsakatengslum en leiði af almennum reglum skaðabótaréttarins og vægara mat á orsakatengslum en leiði af almennum reglum, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Þá segir í frumvarpinu að lagt sé til að bætur greiðist vegna tjóns sem hljótist af eiginleikum bóluefnis eða rangrar meðhöndlunar þess, þar með talið við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu af hálfu heilbrigðisstarfsmanns. Notast sé við orðalagið eiginleika bóluefnis þar sem það orðalag sé að finna í gildandi 3. mgr. 3. gr. laganna og hafi ákveðin framkvæmd skapast við túlkun þess, sem ætla megi að hægt verði að styðjast við, við framkvæmd nýs bráðabirgðaákvæðis. Undir eiginleika lyfs falli meðal annars aukaverkanir en aukaverkun hafi verið skilgreind sem viðbrögð við lyfi sem séu skaðleg og ótilætluð, sbr. reglugerð nr. 545/2018 um markaðsleyfi sérlyfja, merkingar þeirra og fylgiseðla.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á grundvelli bráðabirgðaákvæðis I. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að hár blóðþrýstingur, of hár blóðsykur, höfuðverkur, eyrnasuð, minnistap, jafnvægistruflnanir, svefntruflanir, svefnóeirð, beinverkir, bakverkur, kvef, þvagsýrugigt, bólgur í handlegg, sýking, geðsveiflur, hásinabólga, bólgur í vöðvafestingum, síþreyta, krampar í fótum, útbrot, meltingartruflanir, figradofi, lystarleysi og bylta sé að rekja til bólusetningar við Covid-19. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði I. laganna skal greiða bætur til þeirra sem gangast undir bólusetningu á Íslandi gegn Covid-19 sjúkdómnum á árunum 2020 til 2023 með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til vegna tjóns sem hlýst af eiginleikum bóluefnisins eða rangri meðhöndlun þess, þar með talið við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu af hálfu heilbrigðisstarfsmanns.

Í samskiptaseðli E heimilislæknis, dags. X, segir að blóðþrýstingur kæranda sé góður en hann hafi gleymt að taka töflu um morguninn þannig að efri mörkin hafi verið nokkuð há. Þá kemur fram að hann hafi verið settur á fyrirbyggjandi lyf við þvagsýrugigt. Í greinargerð E heimilislæknis, dags. X, kemur fram að kærandi hafi lent í umferðaslysum. Eftir að hann hafi lent í aftanákeyrslu hafi hann strax tekið eftir eyrnasuði í vinstra eyra. Í samskiptaseðli E heimilislæknis, dags. X, segir að kærandi hafi fundið fyrir svima nokkrum dögum áður. Þá kemur fram að hann hafi einu sinni fengið mjög slæmt svimakast og það hafi tekið nokkrar vikur að lagast. Í samskiptaseðli E heimilislæknis, dags. X, kemur fram að kærandi hafi fengið tvísýni þremur til fjórum vikum áður og sé að fá suð öðru hvoru í vinstra eyra. Þá kemur fram að blóðþrýstingur kæranda sé aðeins of hár. Í samskiptaseðli F svæðisstjóra- og fagstjóra hjúkrunar, dags. X, kemur fram að kærandi hafi verið með vöðvaverk í allri síðunni. Í göngudeildarnótu G gigtarlæknis, dags. X, kemur fram að kærandi hafi fengið þvagsýrugigtarkast og colic verki í síðuna sem lýsi sér sem verkur í baki með leiðni niður í nára. Í samskiptaseðli H læknis, dags. X, segir að kærandi sé búinn að vera með nefstíflu í marga mánuði. Í samskiptaseðli H læknis, dags. X, segir að kærandi sé búinn að vera með þráláta kinnholubólgu í ár og stíflaður af kvefi. Í samskiptaseðli M, læknis, dags. X, segir að tannstatus kæranda sé mjög lélegur og það vanti þónokkrar tennur. Þá sé hann aumur þegar þrýst sé á tennur í efri góm. Í bráðamóttökuskrá Í, dags. X, segir að kærandi hafi látið fjarlægja þrjár tennur síðastliðna mánuði. Í samskiptaseðli J hjúkrunarfræðings, dags. X, kemur fram að fastandi blóðsykur kæranda hafi verið 6,2. Í samskiptaseðli K hjúkrunarfræðings, dags. X, segir að blóðþrýstingur kæranda hafi mælst 182/95 og púls 56. Þá kemur fram að kærandi sé á blóðþrýstingslyfjum en hann hafi ekki verið búinn að taka þau um morguninn. Í tilvísun H læknis, dags. X, til þvagfæraskurðlæknis kemur fram að kærandi hafi sögu um þvagsýrugigt. Í samskiptaseðli L hjúkrunarfræðings, X, segir að kærandi sé búinn að vera með magapest, uppköst, niðurgang og sé lystarlaus.

Í samskiptaseðli K hjúkrunarfræðings, dags. X, segir svo:

„A fór á læknavaktina í gær vegna höfuðverks og eyrnasuðs

Fór hann að finna fyrir þessu eftir að hann fékk bólusetningu v/covid. Í nótu frá lækni á læknavakt er eftirfarandi skrifað:

Fór í bólusetningu, fékk hv og slappleika eftir. Nóttina eftir slæmt eyrnasuð. Meir en upplifað áður. Haft langvinn súð áður. Hafi verið orðið betra. Finnst heyrnin einnig hafa minnkað. Býr einn. Segir að hafi heyrt ílla í morgun. Sé betra nú. Skoðun: mött hh hæ megin en eðl vi megin. Bþ er of hár hjá honum. Hann virðist heyra ágætlega allt sem ég segi við hann. Hvet til að fara á Hg á morgun til að mæla bþ. Er á lyfjum og tók í dag. Blóðþrýstingur mælist á læknavakt 194/84 – puls: 55

Blóðþrýstingur mælist heima 170/99 nú í morgun. Læknir á læknavakt ráðlagði að hann færi á sína heilsugæslu og fá bl.þr. mælingu

Ræðum einnig að hann finnur f/skertri heyrn, spurning um að fá heyrnaskoðun.“

Í samskiptaseðli N læknanema, dags. X, segir svo:

„1) Endurtekinn háþrýstingur og tinnitus. Fór á læknavakt X vegna þrýstings og tinnitus. Mælist á læknavakt.194/84 – puls:55. Mælist heima í morgun 170/99. Mælist hér: Blþr. 183/101 p.52, blþr. 172/91 p. 49. Var ráðlagt að koma í heyrnarmælingur hér á hg og blóðþrýstings tjekk. Hélt sjálfur að aukinn þrýstingur og tinnitus væri vegna Covid bólusetningu sem hann fór í á X.

2)Andlegt álag, […]

3)Þvagfæra vandamál

4)Almennt blóðprufutjekk

5)Shrunken testicles

Þar sem ég er á vaktinni næ ég að taka á part úr vandamálum 1) og 4). Hefur verið háþrýstur af og til en í öllum mælingum frá því í X. Er vanur tinnitus, finnst það vera í báðum eyrum en meira í því vinstra. Það kemur og fer hjá honum. Jókst eftir eyrnasýkingu, og eftir Covid bólusetninguna (en það er þekkt aukaverkun smkv samtali sem hann átti við lyfjastofnun) Honum finnst heyrn vera að skerðast, heyrði ekki nógu vel í gær. Hljóð í sjónvarpinu rann saman. Finnst eins og það sé þrýstingur í höfði, þegar hann stendur upp sortnaði fyrir augun skamma stund.

Úrlausn: Reyni að beina samræðum eingöngu að því sem er brátt en hann víkur stöðugt í aðrar áttir.m Ráðlegg mig við O um flýtimeðferð, set inn Amlo 5mg og bráða tíma hjá sínum heimilislækni til þess að ræða þá punkta sem við komust ekki yfir hér. Hann kemst í endurmat á miðvikud. Panta blóðprufu.“

Í samskiptaseðli H læknis, dags. X, segir:

„Maður með sögu um HTN og þvagsýrugigt. Tekur Atenolol og Allonol. Engin önnur lyf þar til í fyrradag þegar Amlo 5mg x 1 var bætt við vegna háþrýstings, höfuðverks og eyrnasuðs. Það hafði komið í kjölfar þess að hann fór í bólusetningu í síðustu viku. Einnig verið mikið álag á honum andlega- […]. Neitar líkamlegum einkennum núna. Kynhvöt lítil sem engin. Eistun rýr- sjá fyrro nótur. í yfirþyngd. Gerst hægt og rólega yfir mörg ár. Er að hugsa um að prófa ketó. Ca 10 pakkaár að baki.

Sk. Ber sig ágætlega líkamlega en meyr andlega. […] BÞ hefur aðeins lækkað frá því síðast, sjá ofan. Hjarta- og lungnahlustun án aths. Kviðmikill. Kviður er mjúkur og eymslalaus. Blóðprufur sem teknar voru í gær sýna sykur alveg á mörkunum. Annað í lagi.

Á/P: Ræðum aðeins um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og mikilvægi þess að léttast. Hvet hann til að breyta matarræðinu, minnka kolvetni eins og hann getur. Eykur Amlo í 10mg x 1, önnur lyf óbreytt. Endurkoma eftir rúman mánuð. […].“

Í samskiptaseðli N læknanema, dags. X, segir að blóðrannsókn kæranda hafi komið út á mörkum í sykri og að hann sé í eftirfylgd hjá H lækni.

Í samskiptaseðli Ó læknis, dags. X, segir:

„Telur sig vera að mæta til síns heimilislæknis.

Hefur nokkrar hugleiðingar sem hann vill fara yfir.

-Fékk Astra Zeneca sprautu X og finnst það hafa farið eitthvað ílla í sig. Frétti að væri hægt að sækja um bætur vegna aukaverkana. Ræddi við covid.is og ráðl. að ræða við Sjúkratryggingar en engin svör að fá þar. Búin að reyna að ræða við Lyfjastofnun en segist ekki vera viss um hvert ætti að sækja um þetta.

Ráðl. að skoða málin betur og eins hvaða aukaverkanir um er að ræða.

-Finnst aðeins erfitt að ganga vegna þvagsýrugigtar en hefur áður notað Allonol en vantar að endurnýja. Hefur tekið Ibufen en hætti að taka það þar sem fannst fara ílla í magann á sér.

Sendi lyfseðil í gáttina

-Er með langan lista af einkennum en sum atriði horfin af listanum að hans sögn svo hann kýs að fara ekki yfir það. Finnst sem sé að fá óþægindi í vinstra eyrað, tinnitus. Hefur áður fengið tinnitus en þá talað um heyrnarskerðingu. Var ráðl. heyrnarmælingu. Tinnitus verið til staðar lengi. Hann spyr hvort gæti tengst […]?

-[…] Hann segist hafa orðið líka veikur og hugsar hvort gæti hafa verið Covið.

Er aðeins dapur en þyrfti að skoða betur aftur í viðtali.

-Er ekki búin að taka Amlo né Atenolol í dag.

Svo mælist hér með háan BÞ.

Búin að losna við rúm 10kg. Er að mæla BÞ heima einnig og finnst þetta allt vera á réttri leið.

Ráðl. að taka lyfin reglulega.

Fer í blóðpr. X og símatími hjá H daginn eftir.

Spurning hvort þurfi að fá tíma í viðtal hjá H ef vill fara betur yfir hlutina.“

Í samskiptaseðli H, dags. X, segir:

„Sjá mína nótu frá X og frá Ó X. Skráður á símalista í dag. Talar mikið. 15 mín símtal. Er að borða lágkolvetnafæði, borðar lágkolvetnabrauð ofl þannig að ekki alveg keto. Lést um 8-9kg. Tekinn hefur verið blóðstatus og sykur í gær sem kemur vel út. Mikil bæting á langtímasykri. BÞ heima um 160/80-85.

Hefur lent í ýmsum hremmingum síðan við hittumst síðast. Fór í bólusetningu. Fékk bólgu í handlegg, fékk sýklalyf, svo útbrot, verki í fæturna, verkur í hásin. Veltir fyrir sér hvort eitthvað af þessu hafi verið aukaverkanir af bólusetningunni. Er búinn að senda erindi til lyfjastofnunar. Líður betur núna. Betri í fótunum núna þegar hann er búinn að léttast. Almenn ráð. Heldur áfram óbreytt.

Re pn.“

Í samskiptaseðli H, dags. X, segir:

„Veltir eins og áður fyrir sér ýmum einkennum sem hann hefur tilkynnt til lyfjastofnunar sem mögulega aukaverkun af bólusetningu. Framtennur losnað- farið til tannlæknis.

BS 6,3 fastandi heima. BÞ 150/80.

Er að velta fyrir sér hvort þurfi að koma í skoðun bráðum. Bóka hann í viðtal í X. Kemur fastandi.“

Í samskiptaseðli H, dags. X, segir:

„A liggur margt á hjarta eins og áður. Hann byrjar á að segja frá ýmsum líkamlegum einkennum sem hann tengir við bólusetninguna í X - ýmist verkir í stoðkerfi og annað sem áður hefur verið upptalið. Segir frá því að stoðkerfisverkirnir hafi sumir byrjað eftir að hann hafði dottið […] en hann telur að ástæðan fyrir því að hann hafi dottið framúr ítrekað hafi verið fyrirvaralausir kippir sem hann var að fá í allan líkamann. […]. Undirrituð þarf tímans vegna að bremsa sjúkling af og biðja hann um að halda sig við verstu einkennin. Nefnir sár í munni, lausar tennur, óþægindi í síðu, verk í baki, hnjám og hásin ofl ofl ofl. Hann telur sig hafa verið með skyrbjúg því hann læknaðist af munnangrinu við að taka C vítamin eftir samráði við tannlækni.

Þegar timinn er búinn nefnir hann loks komuástæðu dagins sem er blóðþrýstingurinn sem hefur verið að mælast um 160/80 heima, púls um 60. Verið að léttast úir 111kg niður í 104 núna.

Sk. í yfirþyngd. Lífsmörk góð. Aumur í baki. Heldur rauðum þræði en skiptir um umræðuefni sí ofan í á. Ómöulegt að ná fókus í samtali.

Á/P: Sjúklingur varpar í lok samtals upp vangaveltu um sykursýki sem við höfðum ætlað að skoða.

Botna ekki neitt í neinu. Hann fær sjúkraþjálfunarbeiðni, fer í blóðprufu núna og kemur svo í endurkomutíma í næstu viku.“

Í samskiptaseðli H, dags. X, segir:

„Sjá fyrri nótu. kemur í endurkomu. Er allur hressari að eigin sögn. Léttara yfir honum. Ennþá þó að velta fyrir sér ýmsum privat málum sem valda honum hugarangri. Veltir fyrir sér mörgu sem flest er liðið hjá. Líkamlega betri. Við höfðum ætlað að ræða sykurinn og reynum að fokusera á það í dag.

Sk. í yfirþyngd. Aðeins naive í kontakt eins og áður. Ber sig samt líkamlega og andlega vel. Bjartara yfir honum en áður. BÞ mælist í sitjandi með breiðri manchettu: 156/84 vinstra megin og 154/78 hægra megin. Púls reglulegur um 50.

Blóðprufa síðsutu viku sýnir að sykur er ennþá á mörkunum: f-gl 6,5. HbA1c, status, sökk, Na, K, krea, B12, folat, TSH, ALAT, PSA allt innan eðlilegra marka. Kolesterol aðeins á mörkunum. Ferritin hátt: 419 en járnmettun ekki nema 26%, járn og Hb í lagi.

Á/P:

1. Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma. Þurfum að fylgjast áfram með sykri og þrýstingi amk árlega. Ætlar að taka sig á varðandi matarræði og hreyfingu. Sting upp á lífstílsráðgjöf eða hreyfiseðil en hann ætlar að sjá um þetta sjálfur.

2. Ferritin. Líklegast einvher akút fasa reaktion í sambandi við hversu illa honum hefur liðið líkamlega síðustu mánuði. Virðist vera á batavegi. Endurtökum mælinguna einhvern tíma næsta árið.

3. Andleg vanlíðan. […] Hann ætlar að sjá til hvernig þetta gengur. Verður í sambandi ef hann vill tilvísun til sálfræðing síðar.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Líkt og fram hefur komið telur kærandi að hár blóðþrýstingur, of hár blóðsykur, höfuðverkur, eyrnasuð, minnistap, jafnvægistruflnanir, svefntruflanir, svefnóeirð, beinverkir, bakverkur, kvef, þvagsýrugigt, bólgur í handlegg, sýking, geðsveiflur, hásinabólga, bólgur í vöðvafestingum, síþreyta, krampar í fótum, útbrot, meltingartruflanir, figradofi, lystarleysi og bylta sé að rekja til bólusetningar við Covid-19 og byggir hann rétt sinn til bóta á bráðabirgðaákvæði I. laga um sjúklingatryggingu.

Bætur eru greiddar samkvæmt bráðabirgðaákvæði I. laganna til þeirra sem gangast undir bólusetningu á Íslandi gegn Covid-19 sjúkdómnum á árunum 2020 til 2023 með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til vegna tjóns sem hlýst af eiginleikum bóluefnisins eða rangri meðhöndlun þess, þar með talið við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu af hálfu heilbrigðisstarfsmanns. Fyrir liggur að kærandi var með verulega einkennasögu áður en hann var bólusettur gegn Covid-19 samkvæmt sjúkraskrárgögnum. Þau einkenni sem kærandi hafði fyrir bólusetningu gegn Covid-19 eru fjölþætt og þó að einhver eigi það sammerkt að vera einnig skráð sem hjáverkanir bóluefna gegn Covid-19, verður að telja að allar líkur séu á því að þau tengist frekar hans sögu en bólusetningu gegn Covid-19. Ekki verður þannig séð að orsakasamband sé á milli einkenna kæranda og bólusetningarinnar. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki séu meiri líkur en minni á orsakatengslum á milli bólusetningarinnar og einkenna kæranda. Í ljósi þessa verður ekki fallist á að rekja megi tjón kæranda til þeirra atvika bráðabirgðaákvæði með lögum um sjúklingatryggingu vegna Covid-19 bólusetningar.

Varðandi kröfu kæranda til bóta úr sjúklingatryggingu vegna tjóns á tölvu, gleraugum og málverki þá vill úrskurðarnefndin taka fram að bráðabirgðaákvæði I. laga um sjúklingatryggingu gildir eingöngu um líkamstjón en ekki munatjón.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt bráðabirgðaákvæði með lögum um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 



[1] Sérlyfjaskrá. Fylgiseðill með Vaxzevria. Sjá: Viðauka með samantekt á eiginleikum lyfs á slóðinni: https://www.serlyfjaskra.is/lyf/vaxzevria-a8eadeac-f227-eb11-80fe-00155d15460a


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta