Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 667/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 667/2021

Miðvikudaginn 16. mars 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 10. desember 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. september 2021 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2020 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 104.177 kr. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. september 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. desember 2021. Með bréfi, dags. 13. desember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. janúar 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. janúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 31. janúar 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 1. febrúar 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að samkvæmt bréfi Tryggingastofnunar ríkisins skuldi kærandi 104.177 kr. Tryggingastofnun segi skuldina tilkomna vegna hærri tekna á árinu 2020. Kærandi sé C ríkisborgari og hafi verið búsettur á C síðustu áratugi. Hann sé þar af leiðandi með sínar lífeyristekjur á C í evrum. Tryggingastofnun reikni tekjur kæranda í evrum yfir í íslenskar krónur. Á árinu 2020 hafi gengi evru verið mun hærra en 2019 og það hafi verið ástæða þess að Tryggingastofnun segi kæranda hafa verið með hærri tekjur. Kærandi hafi hins vegar verið með óbreyttar tekjur. Vegna hærra gengis evrunnar hafi heildartekjur hans í raun verið lægri þar sem greiðslur frá Tryggingastofnun hafi skilað sér í færri evrum.

Í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi að hafi Tryggingastofnun ofgreitt tekjutengdar bætur skuli ofgreiðsla dregin frá öðrum tekjutengdum greiðslum sem viðkomandi öðlist síðar rétt til. Þetta eigi einungis við ef tekjur á ársgrundvelli séu hærri en lagðar hafi verið til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafi af því að viðkomandi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna. Ekki sé um tekjuaukningu að ræða hjá kæranda og því sé óskað eftir því að viðkomandi skuld verði felld niður.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að vísað sé til kæru, dags. 10. desember 2021, til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar frá 17. september 2021 vegna ofgreiðslu og uppgjörs.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ávinnist full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár á aldursbilinu 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Kærandi fái blandaðan lífeyri bæði frá Íslandi ogC og íslenskur búsetuellilífeyrir kæranda reiknist 24,35% hér á landi..

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé mælt fyrir um endurreikning lífeyrisréttinda og eftirfarandi komi fram í 7. mgr. lagaákvæðisins.

„Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðslu ársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.“

Í 8. tölul. 1. gr. laga um almannatryggingar séu tekjur nánar skilgreindar. Í ákvæðinu komi eftirfarandi fram:

„Tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað telst ekki til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum; einnig sams konar tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi.“

Að auki sé að finna ákvæði í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, ásamt breytingareglugerðum.

Í 2. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram:  „Tekjur: Til tekna samkvæmt reglugerð þessari teljast tekjur eins og þær eru skilgreindar í 16. gr. laga um almannatryggingar. Tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, skulu sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.“

Í 9. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram varðandi ofgreiddar bætur:

„Komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skal það sem ofgreitt er dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur þær sem lagðar eru til grundvallar bótaútreikningi reynast hærri en tekjuáætlun skv. 4. gr. gerði ráð fyrir og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Í 90. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 sé kveðið á um framkvæmd reglugerðar EB nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, en þar komi eftirfarandi fram:

„Við beitingu grunnreglugerðarinnar og framkvæmdarreglugerðarinnar skal gengi milli tveggja gjaldmiðla vera það viðmiðunargengi sem Seðlabanki Evrópu birtir. Framkvæmdaráðið skal ákveða hvaða dag miða skal ákvörðun gengisins við.“

Í 5. tölul. ákvörðunar nr. H3 í EES viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins komi eftirfarandi fram:

„Þegar stofnun greiðir bætur, sem eru reglulega endurreiknaðar út frá vísitölu í samræmi við landslöggjöf og þegar fjárhæðir í öðrum gjaldmiðlum hafa áhrif á þær bætur skal hún við endurútreikning nota það umreikningsgengi sem við á fyrsta dag næsta mánaðar á undan þeim mánuði þegar endurreiknað er út frá vísitölu, nema kveðið sé á um annað í landslöggjöf.“

Kærandi hafi notið ellilífeyrisgreiðslna frá 1. desember 2017 hjá Tryggingastofnun en búseturéttur hans hér á landi sé 9,74 ár og búsetuhlutfall hans til ellilífeyris reiknist 24,35%. Í máli þessu sé hvorki deilt um búsetuhlutfall né upphæð ellilífeyris heldur eingöngu árlegt uppgjör sem Tryggingastofnum framkvæmi á hverju ári.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé mælt fyrir um endurreikning. Tryggingastofnun framkvæmi endurreikning árlega eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Í bréfi Tryggingastofnunar til kæranda frá 17. september 2021 vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2020 hafi kæranda verið tilkynnt um að greiðslur vegna ársins 2020 hafi verið endurreiknaðar á grundvelli skattframtals 2021.

Í tillögu að tekjuáætlun fyrir árið 2021 sé greint frá áætluðum árstekjum kæranda. Þar komi fram hvaða viðmiðunargengi krónu sé notað við útreikning eins og gengi íslenskrar krónu hafi verið skráð hjá Seðlabanka Íslands 2020.  Þar komi fram að miðað sé við meðaltalsgengi á evru að upphæð 163,66 kr. Til samanburðar hafi miðgengi evru verið skráð 137,71 kr. þegar tillaga að tekjuáætlun hafi verið gerð fyrir árið 2020.  Þannig geti gengisflökt íslensku krónunnar haft áhrif bæði til hækkunar og lækkunar á lífeyri til kæranda.

Til samanburðar megi benda á að kærandi hafi fengið greidda inneign að fjárhæð 27.986 kr. frá Tryggingastofnun 4. febrúar 2021 vegna greiðslna ársins 2019 á grundvelli skattframtals 2020 vegna gengismismunar.

Tryggingastofnun noti viðmiðunargengi eins og það sé skráð hjá Seðlabanka Íslands við greiðslu á lífeyri til erlendra lífeyrisþega. Þannig sé komið til móts við greiðsluþega svo að gengismismunur til þeirra verði sem minnstur hverju sinni.

Í framkvæmdareglugerð Evrópusambandsins nr. 987/2009 komi fram í 90. gr. hennar að við beitingu grunnreglugerðarinnar skuli gengi á milli tveggja gjaldmiðla vera það viðmiðunargengi sem Seðlabanki Evrópu birti. Framkvæmdaráðið ákveði hvaða dag miða skuli ákvörðun við.

Í 5 tölul. ákvörðunar nr. H3 sé ákvæði um hvernig fara eigi með bætur sem séu greiddar reglulega samkvæmt landslögum og fjárhæð í annarri mynt hafi áhrif á þær bætur. Þá skuli í endurreikningi miða greiðslu við gengi fyrsta dags næsta mánaðar, nema kveðið sé á um annað í landslöggjöf.

Ákvörðun nr. H3 hafi verið felld inn í EES samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 133/2011 og hafi verið aðlöguð, sbr. eftirfarandi:

„Liggi ekki fyrir birt umreikningsgengi að því er varðar íslenska krónu (ISK) hjá Seðlabanka Evrópu, skal túlka það sem svo að umreikningsgengið sem getið er í 1. gr. ákvörðunar nr. H3 sé daglegt umreikningsgengi sem Seðlabanki Íslands ákvarðar í viðmiðunarmánuðinum.“

Bent skuli einnig á að í auglýsingum Seðlabanka Evrópu um gengi gjaldmiða komi fram að íslenska krónan miðist við gengi Seðlabanka Íslands.

Tryggingastofnun líti því svo á að ákvæði í 5. og 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé lagagrundvöllur fyrir þeim umreikningi/útreikningi sem stofnunin beiti, þ.e. að umreikna/ endurreikna á ársgrundvelli  og miða því við meðalgengi ársins á undan. Einnig sé það stutt með ákvörðun framkvæmdaráðsins um samræmingu almannatryggingakerfa samkvæmt ákvörðun nr. H3, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 133/2011.

Tryggingastofnun vinni þar af leiðandi tekjuáætlanir um bætur næsta árs samkvæmt tilteknu gengi sem sé svo umreiknað/endurreiknað í uppgjöri miðað við meðalgengi Seðlabanka Íslands fyrir umrætt ár.

Í máli þessu sé eingöngu ágreiningur um hvernig Tryggingastofnun reikni út tekjur, yfirfærðar úr evrum í íslenskar krónur. Gjaldmiðill Íslands sé íslenskar krónur, sbr. 1. gr. laga nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands.

Þegar Tryggingastofnun reikni út erlendar tekjur, sem lífeyrisþegar fái hvort heldur sem þeir búi á evrusvæðinu eða utan þess, sé ávallt reiknað yfir í íslenskar krónur. Tryggingastofnun beri að framkvæma endurreikning, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, þar sem segi að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðslu ársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning sé Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur heyri til þess tíma sem endanlegar tekjur varði.

Slíkur útreikningur geti eðli málsins samkvæmt tekið breytingum hverju sinni eftir því á hvaða gengi Seðlabanki Íslands skráir íslenska krónu.

Við vinnslu á tekjuáætlunum sem Tryggingastofnun sendi út til greiðsluþega komi fram það viðmiðunargengi sem útreikningurinn sé unninn út frá. Slíkt viðmiðunargengi sé mismunandi eftir hverju ári og fari eftir því viðmiðunargengi sem Seðlabanki Íslands birti hverju sinni.

Það sé mat Tryggingastofnunar að útreikningur á tekjum kæranda hafi verið rétt út reiknaður og hafi miðast við það viðmiðunargengi sem Seðlabanki Íslands skrái. Með vísan í það sem að ofan greini, telji Tryggingastofnun sig hafa reiknað út tekjur kæranda á löglegan og réttmætan máta.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2020.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2019. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, skulu sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Í 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæði 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum. 

Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr.“

Samkvæmt framangreindu greiðir Tryggingastofnun lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá ber stofnunni að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, sbr. 7. mgr. 16. gr. laganna. Af 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 leiðir að þegar bótaþegar hafa tekjur sem greiddar eru í erlendum gjaldmiðli ber Tryggingastofnun að umreikna þær yfir í íslenskar krónur svo að hægt sé að ákvarða fjárhæð bóta, þ.e. fyrst samkvæmt tekjuáætlun við gerð greiðsluáætlunar ársins og síðan samkvæmt skattframtali við uppgjör ársins. Samkvæmt upplýsingum í greinargerð Tryggingastofnunar er framkvæmdin sú að stofnunin vinnur tekjuáætlanir um bætur næsta árs samkvæmt tilteknu gengi sem er svo umreiknað/endurreiknað í uppgjöri miðað við meðalgengi Seðlabanka Íslands fyrir umrætt ár. Í tilviki kæranda var miðað við meðalgengi Seðlabanka Íslands í október 2019 við gerð greiðsluáætlunar ársins 2020 en við uppgjör var miðað við meðalgengi Seðlabanka Íslands fyrir árið 2020. Við gerð greiðsluáætlunar var ein evra 137,71 kr. en var 154,59 kr. við uppgjör.

Óumdeilt er að kærandi fær lífeyristekjur frá C í evrum og að gengismunur frá gerð tekjuáætlunar til uppgjörs leiddi til ofgreiðslukröfu. Kærandi er ósáttur við það þar sem tekjur hans í evrum eru óbreyttar. Ágreiningur málsins lýtur einungis að framangreindu.

Eins og áður hefur komið fram skulu tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Úrskurðarnefndin gerir því ekki athugasemdir við þá framkvæmd Tryggingastofnunar að umreikna tekjur í erlendum gjaldmiðlum yfir í íslenskar krónur við gerð greiðsluáætlunar fyrir hvert ár og jafnframt við uppgjör viðkomandi árs. Hvorki í lögum um almannatryggingar né reglugerð nr. 598/2009 er kveðið á um við hvaða gengisskráningu skuli miðað.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 kveður á um framkvæmd reglugerðar nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa. Reglugerðirnar voru innleiddar með reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Reglugerðirnar taka meðal annars til bóta vegna elli, sbr. d-lið 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 442/2012.

Í 90. gr. framkvæmdareglugerðar EB nr. 987/2009 er fjallað um umreikning gjaldmiðils. Þar segir:

„Við beitingu grunnreglugerðarinnar og framkvæmdarreglugerðarinnar skal gengi milli tveggja gjaldmiðla vera það viðmiðunargengi sem Seðlabanki Evrópu birtir. Framkvæmdaráðið skal ákveða hvaða dag miða skal ákvörðun gengisins við.“

Framkvæmdaráðið um samræmingu almannatryggingakerfa hefur sett ákvörðun nr. H3 um ákvörðun dagsetningar sem taka þarf tillit til varðandi umreikningsgengi sem um getur í 90. gr. framkvæmdareglugerðarinnar. Kemur fram í 1. gr. að hvað ákvörðunina varðar sé umreikningsgengið það dagsgengi sem Seðlabanki Evrópu birtir. Þá segir í 5. tölul. ákvörðunarinnar:

„Þegar stofnun greiðir bætur, sem eru reglulega endurreiknaðar út frá vísitölu í samræmi við landslöggjöf, og þegar fjárhæðir í öðrum gjaldmiðlum hafa áhrif á þær bætur skal hún við endurútreikning nota það umreikningsgengi sem við á fyrsta dag næsta mánaðar á undan þeim mánuði þegar endurreiknað er út frá vísitölu, nema kveðið sé á um annað í landslöggjöf.“

Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133/2011 er kveðið á um að fella beri inn í samninginn ákvörðun nr. H3 en í 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. fyrrnefndu ákvörðunarinnar segir:

„Liggi ekki fyrir birt umreikningsgengi að því er varðar íslenska krónu (ISK) hjá Seðlabanka Evrópu, skal túlka það sem svo að umreikningsgengið sem getið er í 1. gr. ákvörðunar nr. H3 sé daglegt umreikningsgengi sem Seðlabanki Íslands ákvarðar í viðmiðunarmánuðinum.“

Þegar um ræðir fjárhæð í öðrum gjaldmiðlum skal samkvæmt framangreindu nota við endurútreikning það umreikningsgengi sem Seðlabanki Íslands ákvarðar í viðmiðunarmánuðinum. Úrskurðarnefndin telur því að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að endurreikna bætur í tilviki kæranda og miða við meðalgengi ársins 2020 á grundvelli umreikningsgengis Seðlabanka Íslands.

Kærandi byggir einnig á því að tekjur hans hafi ekki verið hærri á ársgrundvelli en lagðar hafi verið til grundvallar við útreikning bóta og að ofgreiðsla hafi ekki stafað af því að kærandi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna í skilningi 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Ákvörðun Tryggingastofnunar um innheimtu bóta hefur ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og því verður sú ákvörðun ekki tekin til endurskoðunar. Úrskurðarnefndin telur þó rétt að benda á að meginreglan er sú að Tryggingastofnun ber að innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar eins og áður hefur komið fram. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laganna á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþegum samkvæmt almennum reglum. Í ákvæðinu er einnig fjallað um heimild Tryggingastofnunar til að draga skuld, sem myndast við uppgjör, frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlast síðar rétt til, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Eitt af þeim skilyrðum er að ofgreiðslan stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukningu eða aðrar breyttar aðstæður. Burtséð frá því hvort það skilyrði verði talið uppfyllt hefur Tryggingastofnun samt sem áður endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum. Óski kærandi eftir að greiða skuldina með öðrum hætti er honum bent á að hafa samband við Tryggingastofnun til að semja um annars konar fyrirkomulag endurgreiðslu.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. september 2021 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta