Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 364/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 364/2022

Miðvikudaginn 23. nóvember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 18. júlí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. apríl 2022, um stöðvun meðlagsgreiðslna og barnalífeyris og endurkröfu ofgreiddra greiðslna vegna tímabilsins 13. ágúst 2021 til 5. nóvember 2021 og ákvörðun stofnunarinnar, dags. 23. júní 2022, um að synja kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. apríl 2022, var kæranda tilkynnt um stöðvun meðlagsgreiðslna og barnalífeyris frá 13. ágúst 2021 og endurkröfu ofgreiddra greiðslna vegna tímabilsins X 2021 til 5. nóvember 2021 með þeim rökum sonur hennar hefði ekki verið búsettur hjá henni frá X 2021. Var kæranda veittur frestur til 22. apríl 2022 til að koma að andmælum eða koma á framfæri gögnum sem sýndu fram á annað. Með umsókn 24. apríl 2022 óskaði kærandi eftir niðurfellingu ofgreiðslukröfu og byggði á því að sonur hennar hefði verið á hennar framfæri til 18 ára aldurs. Með bréfi, dags. 23. júní 2022, var kæranda synjað um niðurfellingu ofgreiðslukröfu. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með tölvupósti 26. júní 2022 og var hann veittur með bréfi, dags. 7. júlí 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. júlí 2022. Með bréfi, dags. 19. júlí 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 19. ágúst 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. ágúst 2022. Með bréfi, dags. 25. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir efnislegri greinargerð vegna ákvarðana Tryggingastofnunar, dags. 8. apríl 2022, um stöðvun meðlags og barnalífeyris til kæranda. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 14. september 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að málið snúist um meðlag og barnalífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins segi að kærandi hafi fengið ofgreitt fyrir tímabilið frá X 2021 til 6. nóvember 2021. Sonur kæranda, þá 17 ára, hafi farið í nám við B í C haustið 2021. Hann hafi útskrifast úr D ári á undan jafnöldrum sínum. Sonur kæranda hafi fengið herbergi á leigu í C og hafi þurft að flytja lögheimili sitt líka til þess að komast inn í kerfið hvað varði alla þjónustu, svo sem lækna og fleira. Á þessum tíma hafi kærandi farið til Tryggingastofnunar til að kynna sér hvernig málum yrði háttað með meðlag og fleira þar sem hún sé öryrki og hafi viljað hafa allt á hreinu svo að ekki kæmi bakreikningur seinna. Starfsmaðurinn hafi fullvissað kæranda um að engar breytingar yrðu á hennar fjármálum þar sem sonur hennar væri á hennar framfæri til 18 ára aldurs, þrátt fyrir að hann þyrfti að færa lögheimili sitt vegna námsins. Kærandi hafi trúað starfsmanninum. Síðan hafi kærandi líka ákveðið að flytja út X 2021. Kærandi hafi vitað að við flutninginn myndu ýmsar bætur falla niður, svo sem meðlag og barnalífeyrir, þó svo að sonur hennar yrði ekki 18 ára fyrr en X 2021. Kærandi hafi haldið Tryggingastofnun upplýstri um allar breytingar jafnóðum til að komast hjá svona uppákomum. Hún eigi enga peninga nema bæturnar sínar sem séu 220.000 kr. á mánuði.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að stofnunin líti svo á að í máli þessu sé eingöngu verið að kæra ákvörðun samráðsnefndar Tryggingastofnunar, dags. 23. júní 2022. Stöðvun og endurkrafa barnalífeyris og meðlags hafi verið tilkynnt kæranda með bréfum, dags. 8. apríl 2022, og með vísan til 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kærufrestur vegna þeirra ákvarðana liðinn.

Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar, sem sé svohljóðandi: „Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi: „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Tryggingastofnun hafi borist umsókn kæranda um niðurfellingu á kröfu vegna ofgreidds barnalífeyris og ofgreidds meðlags þann 24. apríl 2022. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna hafi tekið málið fyrir á fundi og hafi umsókninni verið synjað með bréfi, dags. 23. júní 2022. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi með tölvupósti, dags. 26. júní 2022, og hafi henni verið svarað með bréfi, dags. 7. júlí 2022.

Í 55. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Með ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé veitt heimild til þess að falla frá endurkröfu, að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem fram komi í reglugerðinni. Ákvæðið sé undantekningarheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Eins og skýrt og greinilega komi fram í ákvæðinu eigi það eingöngu við um kröfur sem myndist vegna endurreiknings á grundvelli III. kafla reglugerðar nr. 598/2009 en ekki aðrar kröfur.

Umrædd krafa hafi ekki orðið til við endurreikning samkvæmt III. kafla reglugerðar nr. 598/2009 heldur vegna þess að kærandi hafi ekki uppfyllt tiltekin skilyrði ákveðinna greiðslna. Krafa Tryggingastofnunar gagnvart kæranda falli því ekki undir undanþáguheimild 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Af þeim sökum hafi beiðni kæranda verið synjað.

Að lokum taki Tryggingastofnun  fram að gefnu tilefni að ákvörðun stofnunarinnar hafi engin áhrif á skyldu barnsföður kæranda samkvæmt meðlagsákvörðun, dags. 16. febrúar 1998, til að greiða kæranda meðlag vegna þess tíma sem Tryggingastofnun hafi ekki milligöngu um. Kærandi geti því sótt þær greiðslur samkvæmt almennum reglum úr hendi barnsföður síns.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar segir að úrskurðarnefndin hafi óskað eftir efnislegri greinargerð stofnunarinnar vegna ákvarðana, dags. 8. apríl 2022, um stöðvun meðlags og barnalífeyris til kæranda. Í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að kærufrestur vegna þeirra ákvarðana sé liðinn með vísan til 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og sé það ítrekað hér.

Með tveimur bréfum Tryggingastofnunar, dags. 8. apríl 2022, hafi kæranda verið tilkynnt um annars vegar stöðvun og endurkröfu barnalífeyris frá 1. september 2021 og hins vegar stöðvun og endurkröfu meðlags frá 13. ágúst 2021 þar sem sonur kæranda væri ekki lengur búsettur hjá kæranda samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá og því ekki lengur á framfæri kæranda sem sé skilyrði greiðslna.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra sé látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Þá segi í 5. mgr. 20. gr. að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annist framfærslu þeirra að fullu.

Í 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar, með síðari breytingum, segi að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 16. gr. reglugerðarinnar segi að hafi Tryggingastofnun ofgreitt meðlagsmóttakanda meðlag eða önnur framfærsluframlög eigi stofnunin endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum.

Á Tryggingastofnun hvíli rannsóknarskylda samkvæmt 38. gr. laga um almannatryggingar og eftirlitsskylda samkvæmt 45. gr. sömu laga, en þar segi að Tryggingastofnun skuli reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á og að stofnuninni sé heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum frá þeim aðilum sem taldir séu upp í 43. gr. laganna og nauðsynleg séu til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.

Tryggingastofnun hafi borist upplýsingar frá Þjóðskrá í apríl 2022 um það að lögheimili sonar kæranda væri ekki lengur hjá henni heldur væri það skráð í F. Sú skráning í Þjóðskrá hafi átt sér stað 17. mars 2022 með gildistöku frá X 2021.

Skilyrði fyrir milligöngu meðlags frá Tryggingastofnun sé að börn séu á framfæri viðkomandi, sbr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Það sama eigi við um greiðslu barnalífeyris, sbr. 20. gr. sömu laga.

Þar sem sonur kæranda hafi ekki lengur verið búsettur hjá henni heldur í F hafi Tryggingastofnun litið svo á að hann væri ekki lengur á framfæri hennar og hefði ekki verið frá X 2021. Því hafi greiðslur barnalífeyris verið stöðvaðar frá 1. september 2021 og milliganga meðlagsgreiðslna stöðvaðar frá X 2021 og kærandi endurkrafin um greiðslur frá þeim tíma.

IV.  Niðurstaða

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt með hliðsjón af málatilbúnaði kæranda og gögnum málsins að líta svo á að ágreiningur máls þessa varði ekki einvörðungu ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. júní 2022, um að synja kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu heldur jafnframt ákvarðanir stofnunarinnar, dags. 8. apríl 2022, um stöðvun meðlagsgreiðslna og barnalífeyris frá 13. ágúst 2021 og endurkröfu ofgreiddra greiðslna vegna tímabilsins X 2021 til 5. nóvember 2021.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Eins og áður hefur komið fram tilkynnti Tryggingastofnun kæranda um stöðvun meðlagsgreiðslna og barnalífeyris og endurkröfu framangreindra greiðslna með bréfum, dags. 8. apríl 2022. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. júlí 2022 og var kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar því liðinn þegar kæra barst nefndinni vegna framangreindra ákvarðana.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæra á framangreindum ákvörðunum hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að taka þann hluta kæru til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Í málinu liggur fyrir að Tryggingastofnun stöðvaði meðlagsgreiðslur til kæranda með þeim rökum að sonur hennar hefði ekki verið búsettur hjá henni frá X 2021 og vísaði til 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga því til stuðnings. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að framangreint reglugerðarákvæði hafi ekki lagastoð, sbr. til að mynda úrskurð í máli nr. 227/2016. Þá eru jafnframt áhöld um hvort ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva barnalífeyrisgreiðslur til kæranda sé í ósamræmi við eldri úrskurði úrskurðarnefndarinnar, sbr. til að mynda úrskurð í máli nr. 166/2021. Í ljósi þess að gögn málsins benda til þess að ákvarðanir Tryggingastofnunar hafi byggst á röngum lagagrundvelli og rangri túlkun lagaákvæða telur úrskurðarnefnd velferðarmála veigamiklar ástæður mæla með því að sá hluti kæru, sem varðar ákvarðanir stofnunarinnar frá 8. apríl 2022, verði tekinn til efnislegrar meðferðar.

A. Meðlag

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er mælt fyrir um rétt til fyrirframgreiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Í málinu liggur fyrir staðfesting á faðernisviðurkenningu og samningi um meðlagsgreiðslur frá Sýslumanninum á G, dags. 13. febrúar 2004, þar sem fram kemur að barnsfaðir kæranda skuli greiða henni meðlag. Tryggingastofnun hefur haft milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda á grundvelli framangreindrar meðlagsákvörðunar. Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá var sonur kæranda skráður með lögheimili í F frá X 2021. Þar sem sonur kæranda var ekki lengur búsettur á heimili hennar felldi Tryggingastofnun ríkisins niður milligöngu meðlagsgreiðslna og endurkrafði kæranda um greiðslur á tímabilinu X 2021 til 5. nóvember 2021. Kærandi byggir á því að sonur hennar hafi farið í nám til C og því þurft að flytja lögheimili sitt til F en að hann hafi enn verið á framfæri hennar á framangreindu tímabili. Fyrir liggur einnig staðfesting á því að sonur kæranda hafi verið skráður í nám í H.

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur þegar umsækjandi hefur lögformlega meðlagsákvörðun. Það skilyrði er sett fyrir milligöngunni að það barn sem greiða skuli meðlag með sé á framfæri umsækjanda. Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, með síðari breytingum, hefur verið sett með stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Í 8. gr. reglugerðarinnar eru talin upp þau tilvik þar sem meðlagsgreiðslur falla niður. Í 2. tölul. 8. gr. segir að greiðslur falli niður ef „barn flytur af heimili meðlagsmóttakanda eða er af öðrum ástæðum ekki lengur á framfæri meðlagsmóttakanda.“

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er gerð krafa um að meðlagsmóttakandi hafi barn á framfæri sínu en ekki verður ráðið af orðalagi ákvæðisins að ætlun löggjafans hafi verið að milliganga meðlagsgreiðslna einskorðist við þau tilvik sem barn býr á heimili meðlagsmóttakanda, sbr. 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009. Hafa ber í huga að um íþyngjandi skilyrði er að ræða sem takmarkar verulega rétt til milligöngu meðlagsgreiðslna. Í lagaákvæðinu er ekki kveðið á um að barn skuli búa á heimili meðlagsmóttakanda og kemur því til skoðunar hvort framangreint skilyrði reglugerðarinnar hafi næga lagastoð, en almennt er ekki unnt að skerða réttindi til greiðslna samkvæmt almannatryggingalögum með reglugerð nema hún hafi stoð í skýru og ótvíræðu lagaákvæði.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fær hvorki ráðið af 6. mgr. 63. gr. né 70. gr. laga um almannatryggingar að í þeim felist heimild til að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarkar verulega rétt til milligöngu meðlagsgreiðslna. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefðu framangreind skilyrði í reglugerð nr. 945/2009 annaðhvort þurft að koma fram í lögunum sjálfum eða að ráðherra hefði verið veitt heimild til að setja sjálfstæð efnisleg skilyrði í reglugerð með skýrri og ótvíræðri reglugerðarheimild í lögum. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvæði 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um að meðlagsgreiðslur falli niður flytji barn af heimili meðlagsmóttakanda, eigi sér ekki næga stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Þá liggja engin gögn fyrir um að sonur kæranda sé ekki á framfæri hennar í skilningi 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun á milligöngu meðlags til kæranda er felld úr gildi.

B. Barnalífeyrir

Tryggingastofnun ríkisins greiðir barnalífeyri á grundvelli 20. gr. laga um almannatryggingar. Í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins segir að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára sé annað hvort foreldra látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Í 5. mgr. sömu greinar segir að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annist framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 64. gr.

Í 4. mgr. 64. gr. laganna segir svo:

„Þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni skv. 1. mgr. 63. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris skv. 20. gr. vegna barnsins er stofnuninni þó heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verður þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.“

Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af orðalagi 5. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, forsögu ákvæðis 20. gr. og tilgangi barnalífeyrisgreiðslna að í þeim tilvikum sem barnalífeyrir er greiddur vegna örorku foreldris beri almennt að greiða barnalífeyri til þess foreldris, enda séu börnin á framfæri þess. Eins og áður hefur komið fram liggur fyrir meðlagsákvörðun þar sem fram kemur að barnafaðir kæranda skuli greiða henni meðlag. Þá liggja engin gögn fyrir um að sonur kæranda sé ekki á framfæri hennar í skilningi 5. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar.

Í ljósi framangreinds er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur barnalífeyris til kæranda felld úr gildi.

Þegar af þeirri ástæðu að ákvarðanir Tryggingastofnunar um að stöðva greiðslur meðlags og barnalífeyris til kæranda eru felldar úr gildi, kemur hvorki endurgreiðslukrafa Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda vegna þeirrar stöðvunar né synjun stofnunarinnar á niðurfellingu þeirrar kröfu, til skoðunar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. apríl 2022, um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna og barnalífeyris til A, eru felldar úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta