Mál nr. 157/2023-Úrskurðru
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 157/2023
Miðvikudaginn 28. júní 2023
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Kristinn Tómasson læknir og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, sem barst 20. mars 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 7. júní 2021 um greiðslu bóta úr sjúklingatryggingu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu en Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókninni með bréfi, dags. 7. júní 2021, þar sem ekki lá fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem falli undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. mars 2023. Með bréfi, dags. 22. mars 2023, var lögmanni kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Engar athugasemdir bárust.
II. Sjónarmið kæranda
Ráða má af kæru að kærandi óski endurskoðunar á synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur úr sjúklingatryggingu. Greint er frá því að sótt hafi verið um bætur úr sjúklingatryggingu vegna meintra mistaka starfsmanna C, bæði við meðferð við fæðingu barns kæranda og eftir fæðinguna. Kærandi hafi farið í keisaraskurð og hafi þurft að þola alvarlegar og varanlegar afleiðingar í kjölfarið.
III. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 7. júní 2021 um greiðslu bóta úr sjúklingatryggingu.
Fram kemur í 16. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu að niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands megi skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal kæra vera skrifleg og berast úrskurðarnefndinni innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Samkvæmt gögnum málsins leið 21 mánuður og 13 dagar frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 7. júní 2021, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. mars 2023. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála var því liðinn þegar kæran barst nefndinni. Í hinni kærðu ákvörðun var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Samkvæmt gögnum málsins leið meira en ár frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands með bréfi, dags. 7. júní 2021, og þar til kæra barst úrskurðarnefndinni 20. mars 2023. Þegar af þeirri ástæðu skal kæru ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson