Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 151/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 151/2018

Miðvikudaginn 5. september 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. apríl 2018, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hóf töku ellilífeyris í X 2016 frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, var kæranda tilkynnt að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2016 hafi leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 73.074 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með greinargerð, dags. 28. nóvember 2017, í kærumáli nr. 293/2017, kom fram krafa um að framangreind ofgreiðslukrafa yrði felld niður. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. mars 2018, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun stofnunarinnar að taka málið ekki til meðferðar að svo stöddu þar sem litið væri svo á að umrædd beiðni væri liður í kærumáli nr. 293/2017. Í kjölfar kæru í máli þessu var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 1. júní 2018, að greiðslur vegna ársins 2016 hefðu verið endurreiknaðar að nýju á grundvelli nýrra upplýsinga. Niðurstaða endurreikningsins var inneign að fjárhæð 55.491 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2018. Með bréfi, dags. 3. maí 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 1. júní 2018, fór Tryggingastofnun ríkisins fram á frávísun málsins með þeim rökum að fallist hafi verið á kröfu kæranda. Frávísunarkrafan var kynnt kæranda með bréfi, dags. 4. júní 2018, og var óskað eftir afstöðu hans til kröfunnar. Með bréfi, dagsettu sama dag, bárust úrskurðarnefnd athugasemdir frá kæranda. Með bréfi, dags. 18. júní 2018, bárust frekari athugasemdir kæranda þar sem meðal annars kom fram að frávísunarkröfu Tryggingastofnunar væri hafnað. Með bréfi, dags. 27. júní 2018, voru athugasemdirnar sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi. Með bréfi, dags. 10. júlí 2018, bárust frekari athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 18. júlí 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í málinu:

1. Að leigutekjur verði felldar niður í endurreikningi Tryggingastofnunar og uppgjöri tekjutengdra greiðslna kæranda og dánarbús eiginkonu hans, dags. 21. júní 2017. Til vara sé þess einungis krafist að leigutekjur verði felldar niður við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna kæranda.

2. Að Tryggingastofnun verði gert að leiðrétta útreikninga og innheimtur á hendur kæranda og dánarbús eiginkonu hans, dags. 21. júní 2017, sem nemi fjárhæð leiguteknanna.

3. Að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. júní 2018, á ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 1. júní 2018, verði sameinuð kærumáli nr. 151/2018.

4. Að ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 1. júní 2018, verði ómerkt.

5. Að kæranda og dánarbúi eiginkonu hans verði úrskurðaður kærumálskostnaður úr hendi Tryggingastofnunar að mati úrskurðarnefndar velferðarmála.

Um málavexti, rökstuðning, lagarök og önnur atvik sé að meginstefnu til vísað til fyrri greinargerða og annars málflutnings kærenda í kærumáli nr. 293/2017. Sérstaklega sé áréttuð sú krafa að úrskurðarnefnd velferðarmála átelji málatilbúnað Tryggingastofnunar.

Fram kemur í kæru að málavextir og málsástæður séu að kærandi hafi X 2016 byrjað töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnun. Við endurreikning stofnunarinnar á greiddum lífeyri, dags. 21. júní 2017, hafi honum verið reiknaður helmingur umræddra leigutekna, en þær hafi fallið til fyrir töku lífeyris þar sem tekjurnar hafi myndast með reikningi, dags. 8. janúar 2016, og hafi verið taldar kæranda til tekna og gjalda hjá greiðanda það sama ár.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. janúar 2018, hafi málið verið tekið upp, án kröfu kæranda en svo hafi stofnunin vísað því frá með ákvörðun, dags. 27. mars 2018, með þeim rökum að málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, kærumál nr. 293/2017.

Í athugasemdum kæranda, dags. 18. júní 2018, segir að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. janúar 2018, hafi Tryggingastofnun stofnað mál á fyrra stjórnsýslustigi sem hafi verið til meðferðar hjá úrskurðarnefnd. Legið hafi fyrir reikningur fyrir umræddum leigutekjum, dags. 8. janúar 2016. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 27. mars 2018, sé sérstaklega tekið fram að þau gögn sem lögð hafi verið fram, þ.e. framangreindur reikningur og yfirlýsing frá byrjun þess árs, hafi snúið að fjármagnstekjum sem bókfærðar hafi verið árið 2015 en Tryggingastofnun hafi hafnað leiðréttingu. Tryggingastofnun hafi nú tekið málið upp á nýjan leik með ákvörðun, dags. 1. júní 2018, og hafi fellt niður vaxtatekjur í endurreikningi sínum gagnvart kæranda þann 21. júní 2017 og leiðbeint um kæruheimild og kærurétt. Þann 1. júní 2018 hafi verið liðnir níu mánuðir og fimmtán dagar frá því að stofnunin hafði undir höndum fullnægjandi gögn til að leiðrétta endurreikning sinn gagnvart kæranda og dánarbúi eiginkonu hans.

Kröfuliður nr. 1. sé tvískiptur. Annars vegar að leigutekjur árið 2016 verði felldar niður gagnvart kæranda og dánarbúi eiginkonu hans. Fyrri krafan sé byggð á þeirri staðreynd sem Tryggingastofnun gangi út frá í bréfi sínu, dags. 27. mars 2018, að tekjurnar hafi verið bókfærðar árið 2015. Staðfest hafi verið að teknanna hafi verið aflað árið 2015. Tryggingastofnun hafi viðurkennt varakröfu kröfuliðar nr. 1 með ákvörðun sinni, dags. 1. júní 2018.

Kröfuliður nr. 2 sé rökrétt framhald af kröfulið nr. 1. og þarfnist ekki frekari útskýringa.

Um kröfulið nr. 3 segir að málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála og verði ekki fært einhliða af æðra stjórnsýslustigi yfir á það lægra af Tryggingastofnun. Það hafi kærandi hvorki samþykkt né óskað eftir eins og Tryggingastofnun haldi ranglega fram. Nægi hér að vísa í kærur og greinargerðir í málum nr. 293/2017 og 151/2018. Hér sé einnig vísað til niðurstöðu úrskurðarnefndar um frávísunarkröfu Tryggingastofnunar í ágúst 2017.

Um kröfulið nr. 4 segir að krafist sé að ákvörðun Tryggingastofnunar verði ómerkt með vísan til framangreindra röksemda. Það sé grundvallarregla að stjórnsýslumál verði ekki rekið á tveimur stjórnsýslustigum í einu. Kærandi hafi ekki afturkallað kæru nr. 151/2018. Þegar af þeirri ástæðu beri að fallast á þessa kröfu kæranda. Ákvörðunin hafi að öðru leyti ekkert annað gildi en það að skoða megi hana sem viðurkenningu á varakröfu kæranda undir kröfulið nr. 1.

Um kröfulið nr. 5 segir að um málskostnaðarkröfu sé vísað til rökstuðnings í máli nr. 293/2017. Því sé sérstaklega mótmælt sem röngu að það sé meginregla íslensks réttar að borgararnir verði sjálfir að borga kostnað af málarekstri gagnvart stjórnvöldum eins og úrskurðarnefnd velferðarmála fullyrði í úrskurði í máli nr. 293/2017. Niðurstöður dómstóla sýni annað. Stjórnvöld geti ekki átölu- og bótalaust valdið borgurunum tjóni með ákvörðunum sínum. Það gildi einnig um tjón, kostnað og vegna málrekstur.

Í athugasemdum kæranda, dags. 10. júlí 2018, er vísað í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. júlí 2018 í máli nr. E-2174/2017 varðandi málsmeðferð Tryggingastofnunar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í kröfu Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. júní 2018, um frávísun málsins kemur fram að kærandi hafi farið fram á að leigutekjur hans á árinu 2016, að fjárhæð 956.472 kr., hafi ekki áhrif á réttindi hans til greiðslu ellilífeyris þar sem að tekjurnar hafi myndast í janúar 2016, en hann hafi ekki byrjað töku ellilífeyris fyrr en í X 2016. Í greinargerð kæranda komi fram ósk hans um að Tryggingastofnun taki málið til afgreiðslu og breyti endurreikningi hans vegna ársins á þessum forsendum. Tryggingastofnun telji sig því hafa heimild til þess að taka mál hans til efnislegrar meðferðar.

Í greinargerð kæranda sé vísað til reiknings, dags. 8. janúar 2016. Tryggingastofnun telji að reikningurinn og yfirlýsing frá C, dags. 18. janúar 2018, sé fullnægjandi til þess að endurreikna réttindi kæranda að nýju. Búið sé að framkvæma endurreikning og tilkynna kæranda um niðurstöðu hans.

Þar sem að stofnunin hafi nú tekið nýja ákvörðun í málinu og þar með fallist á kröfur kæranda í þessu máli óski stofnunin eftir því að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 11. júlí 2018, kemur fram að stofnunin telji ekki ástæðu til að koma með frekari efnislegar athugasemdir.

IV.  Niðurstaða

Upphafleg kæra í máli þessu varðaði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. mars 2018 um að taka beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu ekki til meðferðar að svo stöddu þar sem litið var svo á að umrædd beiðni væri liður í kærumáli nr. 293/2017. Í kjölfar kæru í máli þessu var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 1. júní 2018, að greiðslur vegna ársins 2016 hefðu verið endurreiknaðar að nýju á grundvelli nýrra upplýsinga. Niðurstaða endurreikningsins var inneign að fjárhæð 55.491 kr. Mál þetta varðar þá ákvörðun.

Kærandi gerir meðal annars kröfu um að leigutekjur verði felldar niður í endurreikningi og uppgjöri Tryggingastofnunar vegna ársins 2016 að því er varðar tekjutengdar greiðslur dánarbús eiginkonu hans. Mál þetta varðar ekki uppgjör vegna dánarbúsins. Í ljósi þess verður ekki tekin afstaða til krafna sem komið hafa fram og varða endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna vegna dánarbús eiginkonu kæranda. Bent er á að uppgjör vegna dánarbúsins var til meðferðar í kærumáli nr. 293/2017 sem lokið er. Kærandi getur óskað eftir endurupptöku þess ef hann telur tilefni til.

Kröfugerð kæranda í máli þessu er óljós. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af gögnum málsins og málatilbúnaði megi ráða að meginkrafa kæranda í málinu sé sú að leigutekjur hans hafi ekki áhrif á endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum greiðslum ársins 2016.

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. júní 2018, var fallist á að leigutekjur kæranda hefðu fallið til fyrir upphaf töku ellilífeyris og ættu því ekki að hafa áhrif á greiðslur kæranda árið 2016. Niðurstaða endurreiknings og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2016 var inneign að fjárhæð 55.491 kr.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 13. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur samþykkt leiðréttingu á endurreikningi kæranda vegna bóta ársins 2016. Kærandi hefur ekki gert aðrar athugasemdir við endurreikninginn. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar um endurreikninginn er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kærandi óskar greiðslu málskostnaðar vegna reksturs kærumálsins. Það er meginregla íslensks réttar að borgararnir verða sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafa af málarekstri fyrir stjórnvöldum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 30. október 2008 í máli nr. 70/2008. Sérstök lagaheimild þarf að vera fyrir hendi svo að unnt sé að krefjast greiðslu slíks kostnaðar úr hendi stjórnvalda. Slík heimild er ekki í lögum um almannatryggingar. Þá er ekki að finna ákvæði í lögum nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála sem heimilar greiðslu málskostnaðar. Kröfu um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

Að framangreindu virtu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Kröfu um greiðslu málskostnaðar er hafnað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Kröfu um greiðslu málskostnaðar er hafnað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta