Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 341/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 341/2019

Miðvikudaginn 22. apríl 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 20. ágúst 2019, kærði A, Þýskalandi, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um ellilífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um ellilífeyri með umsókn, dags. 28. febrúar 2019, frá Deutsche Rentenversicherung í Þýskalandi. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. mars 2019, var umsókn hans samþykkt. Kærandi var upplýstur um að greiðslur myndu hefjast 1. apríl 2019 og að réttur til ellilífeyris miðaðist við lengd búsetu. Í bréfinu kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Þjóðskrá væri búsetulengd kæranda á Íslandi 15,41 ár og greiðsluhlutfall því 38,53%. Með bréfi, dags. 12. apríl 2019, andmælti kærandi búsetutímabilinu sem lagt var til grundvallar útreikningi á ellilífeyri. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 27. maí 2019, var kærandi upplýstur um að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands og Deutsche Rentenversicherung hafi búseta kæranda á Íslandi eftir 16 ára aldur varað frá [...].

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 22. ágúst 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. september 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. september 2019. Þann 29. september 2019 bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 22. október 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. október 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 5. nóvember 2019, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. nóvember 2019. Með bréfum úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. febrúar 2020, var annars vegar óskað eftir frekari upplýsingum og rökstuðningi frá Tryggingastofnun ríkisins og hins vegar var kæranda veittur kostur á að leggja fram gögn sem sýndu fram á að hann hefði verið búsettur á Íslandi fram að hausti X. Þann 5. mars 2020 bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 24. mars 2020. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun 6. mars 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2020, var hún send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að óskað sé eftir að afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hans um ellilífeyri verði endurskoðuð.

Kærandi greinir frá því að forsendur Tryggingastofnunar varðandi lengd búsetu hans á Íslandi séu rangar en hann hafi greint frá því í bréfi frá 12. apríl 2019 til stofnunarinnar. Þá sé útreikningur Tryggingastofnunar á tekjugrundvelli hans og upphæð bóta ekki í samræmi við reglugerðir og samþykktir er varði samræmingu evrópskra almannatryggingakerfa. Þá tekur kærandi fram að mál þetta, verði að mati lögfræðings hans í Þýskalandi, að fara fyrir dómstóla. Með hliðsjón af framangreindu vilji kærandi leggja fram kæru sína í þremur hlutum.

„1. Kæra gegn mati TR á lengd búsetu minnar á Islandi. Skv. upplýsingum Hagstofunnar í [...] telst búseta mín á Islandi tvímælalaus vera framá haustdaga X eða í rúm 22 ár (en ekki 15 ár að mati TR) – sjá fylgibréf 1.

2. Kæra gegn mati TR á tekjugrundvelli mínum, sem er í þversögn við upplýsingar frá Deutsche Rentenversicherung (sem TR vísar alfarið til) – sjá fylgibréf 2.

3. Kæra gegn útreikningar TR á upphæð eillilífeyris – sjá fylgibréf 3.“

Varðandi lengd búsetu kæranda á Íslandi telji Tryggingastofnun hana vera rúmlega 15 ár. Kærandi telji að um misskilning sé að ræða en honum hafi verið tilkynnt að hann yrði tekinn af Þjóðskrá haustið X þar sem rannsóknarstörfum kæranda á Íslandi hafi þá verið lokið. Kærandi hafi reyndar ekki verið sammála því að vera tekinn út af Þjóðskrá á þeim tíma, en með útgáfu tiltekinnar bókar haustið X hafi þó mátt líta svo á.

Frá diplómaprófi [...] hafi kærandi eingöngu verið við rannsóknarstörf á Íslandi. Undantekningarlaust hafi allar rannsóknirnar verið styrktar af íslenskum sjóðum og stofnunum. Kærandi hafi aldrei sótt um styrki frá erlendum stofnunum á þessum tíma og hafi vísað frá tilboðum um fjárhagsstuðning, til dæmis frá NATO.

Á tímabilinu [...] hafi kærandi dvalið í lengri eða skemmri tíma á Íslandi við öflun gagna og úrvinnslu þeirra, [...]. Fram til X hafi kærandi sannanlega eingöngu störf, framfærslu sem og búsetu á Íslandi. Eftir þann tíma hafi kærandi unnið að doktorsritgerð, síðan við launuð rannsóknarstörf í Þýskalandi frá X og í kjölfarið hafi greiðslur kæranda í þýska lífeyrissjóðinn hafist.

Í frekari útskýringum Tryggingastofnunar á búsetutímabili kæranda á Íslandi komi eftirfarandi fram með vísan í E 205 frá Deutsche Rentenversicherung:

„Frá 16 ára aldri eða frá árinu X ert þú skráður með búsetu hér á landi hjá Þjóðskrá til X. Samkvæmt E 205 frá X virðist þú ávinna þér inn réttindi í X fyrir tímabilið sem þú andmælir n.t.t. frá árunum [...].“

Kærandi telji að í framangreindum texta séu þrjár rangfærslur eða villandi upplýsingar. Í fyrsta lagi sé gefið í skyn að kærandi hafi verið tekinn af Þjóðskrá X, eða að hann hafi flutt úr landi þennan dag, sem sé rangt. Kærandi hafi verið búsettur á Íslandi samkvæmt Þjóðskrá frá [...]. Dagsetningin X komi hvergi fram í gögnum frá Deutsche Rentenversicherung, enda skipti hún engu máli, hvorki varðandi búsetu né útreikning á ellilífeyri. Í öðru lagi hafi kærandi ekki unnið sér inn nein réttindi, hvorki gagnvart lífeyrissjóðum né varðandi búsetu. Hins vegar hafi verið sett lög í Þýskalandi árið X um sérstaka þóknun fyrir uppalendur barna þegar þeir fari á eftirlaun. Þessum lögum hafi verið breytt árið X og upphæðin fyrir þessar uppeldisbætur hækkuð. Sem eftirlifandi konu sinnar hafi kæranda verið greidd uppeldisþóknun að fullu vegna barna sinna. Kærandi hafi aldrei borgað iðgjöld til Deutsche Rentenversicherung fyrr en í lok árs X og þá hafi hann fyrst öðlast réttindi til greiðslna úr þýska lífeyrissjóðnum. Í þriðja lagi sé í útskýringum Tryggingastofnunar á búsetutímabili kæranda á Íslandi vísað beinlínis til E 205 frá Deutsche Rentenversicherung. Samt taki stofnunin ekki mark á því sem þar standi. Þar sé lífeyrisréttur kæranda í Þýskalandi samanlagt X mánuðir, eða [...], en það ár hafi kærandi stofnað sitt eigið fyrirtæki og því hætt greiðslu iðgjalda. Samanlagt séu því réttindi kæranda til lífeyris á Íslandi 22 ár og í Þýskalandi 12 ár.

Varðandi mat Tryggingastofnunar á tekjugrundvelli kæranda greinir kærandi frá því að í tekjuáætlun fyrir 2019 sé tekjugrundvöllur hans eftirfarandi:

„Allar tölur á ársgrundvelli og í EURO:

DR- lífeyrissjóður                                     X €   (skattar ekki útreiknaðir)

Uppeldisþóknun (eða -bætur)                   X €      dito

Atvinnutekjur (umsj. m. leiguhúsnæði)    X €   að frádregnum sköttum

Fjármagnstekjur     146.100 ISK   =          X €      dito

Witwer-Pension /Ekkilsbætur                 X €       dito“

 

Ágreiningur snúist hér um túlkun á „witwer-pension“. Samkvæmt þýskum lögum séu eftirlaun embættismanna ekki lífeyristekjur, enda greiði þýskir embættismenn engin iðgjöld, heldur sé hér um umhyggju ríkisins gagnvart trúnaðarmönnum sínum og þeirra fjölskyldum. Þetta þýði að aldrei megi reikna ellilífeyri maka (þ. rente) gegn ekkilsbótum ríkisins (þ. pension). Hvoru tveggja sé greitt út að fullu. Hins vegar sé til að mynda ellilífeyrir hjóna reiknaður saman og færslur algengar þar á milli.

Þeir lögfræðingar, sem kærandi hafi haft samband við í Þýskalandi, segi að þýsk lög og reglur gildi þar sem báðar greiðslurnar séu úr þýska almannatryggingakerfinu. Þær megi ekki takmarka með frádrætti samkvæmt reglugerðum og samþykktum varðandi samræmingu evrópskra almannatryggingakerfa. Þess vegna sé Tryggingastofnun ekki leyfilegt að túlka „witwer-pension“ þýska ríkisins almennt sem „lífeyrissjóðstekjur“. Samkvæmt þessum reglum verði Tryggingastofnun að sleppa „witwer-pension“ úr tekjugrundvelli kæranda.

Varðandi útreikning Tryggingastofnunar á upphæð ellilífeyris sé kæranda ómögulegt að sjá á greiðsluáætlun 2019 hvernig einstaka forsendur tekjugrundvallar gangi upp í útreikningum Tryggingastofnunar á upphæð ellilífeyris. Í einstaka tilfellum sé greinilega tekið tillit til skatta og annarra tekjutengdra gjalda en í öðrum tilfellum sé þeim alfarið sleppt. Tryggingastofnun verði, sem fyrr segir, að sleppa „witwer-pension“ úr tekjugrundvelli kæranda og byggja útreikningana á eftirstandandi tekjuliðum.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar bendir kærandi á að hann hafi sett fram kæru sína í þremur liðum en í greinargerð stofnunarinnar sé einungis fjallað um fyrsta lið kærunnar varðandi lengd búsetu kæranda á Íslandi. Þá komi engin ný rök fram í greinargerð Tryggingastofnunar. Hvaða þýðingu dagsetningin X hafi sé ekki enn rökstudd og komi hvergi fram í tilvísuðum gögnum frá Deutsche Rentenversicherung. Hvorki sé fjallað um rangt mat Tryggingastofnunar á tekjugrundvelli hans sem sé ekki í samræmi við upplýsingar frá Deutsche Rentenversicherung né útreikninga stofnunarinnar á upphæð ellilífeyris. Útreikningar stofnunarinnar á upphæð ellilífeyris séu ekki réttir og jafnvel þó að þær forsendur sem Tryggingastofnun gefi upp séu settar inn í reiknivél á heimasíðu Tryggingastofnunar, komi mun hærri upphæð út en sú sem stofnunin gangi út frá samkvæmt greiðsluskjölum.

Í athugasemdum kæranda við viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærandi hafi við mat á búsetutímabili óskað eftir skriflegum gögnum sem staðfestu þessar nýju upplýsingar frá Þjóðskrá. Slíkum gögnum hafi ekki verið skilað inn og í stað þess að leggja fram skjal með þessum nýju upplýsingum vísi Tryggingastofnun kæranda beint á Þjóðskrá Íslands en til að bera upp mál við stofnun verði frumgögn eða skjalfestur ágreiningur um málið að liggja fyrir. Það sé hlutverk stofnunarinnar að leggja þessi gögn fram. Kærandi vilji minna á að samkvæmt evrópskum rétti sé litið alvarlegum augum á „handstýringu“ í meðferð upplýsinga frá stofnunum ríkisins. Að mati lögfræðings kæranda í Þýskalandi geti fölsun sem og „taktiskt hringl“ með upplýsingar frá stofnunum leitt til kæru fyrir evrópskum dómstólum. Þá endurtaki Tryggingastofnun þá röngu fullyrðingu að kærandi hafi áunnið sér rétt til ellilífeyris í Þýskalandi fyrir X. Tryggingastofnun vísi á áttunda lið í skjali E 205 DE en tímasetji ekki þennan rétt eða greini frá í hverju þessi „réttur til ávinnslu í [Þýskalandi]“ sé fólginn. Kærandi vísar í tilgreind skjöl og tekur fram að það sem hér eigi að skipta máli sé að réttur til barnabóta, sem hafi áhrif á útreikning á foreldrabótum eftir að menn fari á eftirlaun, feli ekki í sér rétt til lífeyris, ellilífeyris eða lífeyrisbóta. Uppeldistími barna hafi hins vegar áhrif á hvort og hvenær menn geti farið fyrir fram á eftirlaun. Kærandi hafi ekki nýtt sér þennan rétt og fái eingöngu uppeldis- eða foreldrabætur greiddar. Þá tekur kærandi fram til að X hafi kærandi fyrst öðlast rétt til greiðslna úr þýska lífeyrissjóðnum.

Að lokum gerir kærandi athugasemdir við rökstuðning Tryggingastofnunar á tekjugrundvelli hans. Þessi flokkun stofnunarinnar sé í þversögn við upplýsingar frá Deutsche Rentenversicherung. Samkvæmt þýskum lögum séu eftirlaun embættismanna ekki lífeyristekjur, enda greiði þýskir embættismenn engin iðgjöld, heldur sé hér um umhyggju ríkisins gagnvart trúnaðarmönnum sínum og fjölskyldum þeirra að ræða. Þetta þýði meðal annars að aldrei megi reikna ellilífeyri maka gegn ekkilsbótum ríkisins. Hvoru tveggja sé greitt út að fullu. Ellilífeyrir kæranda sé skattfrjáls á meðan greiddur sé skattur af ekkilsbótum til ríkisins. Það fari ekki á milli mála að hér gildi þýsk lög og reglur þar sem báðar greiðslurnar séu úr þýska almannatryggingakerfinu. Þær megi ekki takmarka með frádrætti samkvæmt reglugerðum og samþykktum varðandi samræmingu evrópskra almannatryggingakerfa. Þess vegna sé Tryggingastofnun ekki leyfilegt að túlka „witwer-pension“ þýska ríkisins almennt sem „lífeyrissjóðstekjur“. Nær væri að líta á bæturnar sem áunninn arf hins látna starfsmanns sem greiddur sé út í mánaðarlegum og nákvæmlega útreiknuðum upphæðum til erfingjans.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að stofnuninni hafi borist umsókn um ellilífeyri 28. febrúar 2019 frá Deutsche Rentenversicherung í Þýskalandi. Tryggingastofnun hafi samþykkt umsókn kæranda 13. mars 2019 og sent upplýsingar um að greiðslur myndu hefjast 1. apríl 2019 ásamt upplýsingum um búsetulengd 15,41 ár og að greiðsluhlutfallið yrði 38.53%. Kærandi hafi sent bréf til Tryggingastofnunar, dags. 12. apríl 2019, þar sem hann hafi andmælt búsetutímabilinu sem lagt hafi verið til grundvallar útreikningi á ellilífeyri. Tryggingastofnun hafi svarað kæranda með bréfi frá 27. maí 2019 þar sem útskýrt hafi verið að búsetutímabil á Íslandi séu lögð til grundvallar útreikningi á ellilífeyri.

Búsetuskráning sé byggð á þeim upplýsingum sem Þjóðskrá Íslands veiti, auk upplýsinga frá Deutsche Rentenversicherung á eyðublaði E 205 DE. Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá Íslands hafi kærandi verið með skráð lögheimili á Íslandi frá X ára aldri, eða frá árinu [...]. Í þeim gögnum, sem hafi borist frá  á vottorði E 205 DE, virðist kærandi hafa áunnið sér inn réttindi á árunum [...].

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé réttur til ellilífeyris bundinn við búsetu og miðast fullur réttur til ellilífeyris við þá sem hafa náð 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, að minnsta kosti þrjú almanaksár á aldursbilinu 16-67 ára.

Fullur réttur til ellilífeyris miðist við 40 ára búsetu en sé um skemmri búsetutíma að ræða þá reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Með búsetu hér á landi sé miðað við skráð lögheimili, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. almannatryggingalaga. Skráð búseta hér á landi sé því grunnskilyrði tryggingaverndar en tryggingavernd falli almennt niður þegar búseta sé flutt frá Íslandi, sbr. 4. gr. laga nr. 100/2007, nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum sem fram komi í 5. gr. laga nr. 100/2007. Samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá hafi kærandi verið með skráða búsetu hér á landi í 15 ár og búsetuhlutfall kæranda sé reiknað út frá þeim upplýsingum sem Þjóðskrá veiti.

Tryggingastofnun starfi eftir lögum um almannatryggingar og afli sér upplýsinga um lögheimilisskráningu, bæði frá Þjóðskrá og erlendum tengistofnunum þegar búsetu- og tryggingatímabil séu metin. Tryggingastofnun byggi útreikninga sína á skráningu á lögheimili og því beri kæranda að snúa erindi sínu um leiðréttingu á búsetu og skráningu á lögheimili til Þjóðskrár en ekki til Tryggingastofnunar eins og fram hafi komið í svarbréfi Tryggingastofnunar frá 27. maí 2019.

Í bréfi Tryggingastofnunar frá 27. maí 2019 sé bent á að kærandi hafi borið ábyrgð á því að tilkynna sig til og frá landi hverju sinni. Almennt teljist lögheimili einstaklings vera þar sem hann dvelji meirihluta ársins. Í eldri lögum nr. 73/1952 um tilkynningar aðsetursskipta, með síðari breytingum, hafi verið að finna undanþágu frá þessari skyldu en undanþágan hafi átt við þá sem hafi dvalið hér í skemmri tíma en þrjá mánuði og haldið lögheimili í öðru landi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 73/1952. Í núgildandi lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur segi í 14. gr. að sá sem dvelst eða ætli að dveljast á Íslandi vegna atvinnu eða náms í þrjá mánuði eða lengur megi skrá lögheimili hér. Dvelji einstaklingur í landinu í sex mánuði eða lengur skuli hann eiga hér lögheimili.

Tryggingastofnun hafi farið yfir búsetuútreikning kæranda miðað við búsetuupplýsingar hjá Þjóðskrá. Eins og fram hafi komið ávinnist ellilífeyrir hér á landi með búsetu og sé miðað við búsetu í skilningi lögheimilislaga, sbr. 17. gr. laga um almannatryggingar, 4. gr. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi verið skráður með búsetu hér á landi í 15 ár á aldursbilinu frá 16-67 ára og reiknast búsetuhlutfallið 38,54% út frá þeim upplýsingum sem Tryggingastofnun hafi frá Þjóðskrá. Greiðslur á ellilífeyri kæranda séu þar af leiðandi reiknaðar út frá því búsetuhlutfalli. Það sé niðurstaða Tryggingastofnunar að búsetuhlutfall kæranda sé rétt reiknað út miðað við þau gögn sem liggi fyrir í málinu. Kærandi njóti einnig ellilífeyris frá Deutsche Rentenversicherung, sbr. upplýsingar á eyðublaði E 210 DE. Á það skuli bent að áunnin réttindi til lífeyris í Þýskalandi séu byggð á iðgjaldagreiðslum kæranda en ekki búsetu eins og almannatryggingakerfið hér á landi byggir á.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að í athugasemdum haldi kærandi því fram að hann hafi búið hér á landi í 22 ár en ekki 15 ár eins og Tryggingastofnun byggi útreikninga sína á. Tryggingastofnun leggi til grundvallar búsetuskráningu eins og hún sé skráð hjá Þjóðskrá, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi 15 ára búsetutíma hér á landi en ekki 22 ár. Upplýsingar um tryggingaferil á Íslandi í vottorði E 205 IS hafi verið send þýsku tryggingastofnuninni Deutsche Rentenversicherung þess efnis að kærandi hafi átt samanlagt búsetutímabil hér á landi 15 ár, 4 mánuði og 26 daga. Tryggingastofnun bendi einnig á að á eyðublaði E 205 DE í reit 8 komi fram réttur til ávinnslu í Þýskalandi.

Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að úrskurða um lögheimili einstaklinga og bendir stofnunin á að það sé hlutverk Þjóðskrá Íslands að úrskurða um lögheimili, sbr. 15. gr. laga um lögheimili nr. 80/2018. Hafi kærandi athugasemdir varðandi skráð lögheimili hér á landi beri honum að bera slíkt erindi upp við Þjóðskrá Íslands eins og honum hafi verið bent á í bréfi frá stofnuninni frá 27. maí 2019.

Ellilífeyrir sé tekjutengdur og reiknast út frá tekjuáætlun sem greiðsluþegi fylli út. Greiðsluáætlun miðist við þær tekjur sem gefnar séu upp í tekjuáætlun einstaklings og séu greiðslur hvers árs síðan gerðar upp eftir á með uppgjöri.

Tryggingastofnun leggi til grundvallar tekjuútreikningi sínum allar tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða, sbr. 1., 3., 4.  og 5. tölul. a-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Einnig varðandi sams konar tekjur sem hafi verið aflað erlendis og hafi ekki verið taldar fram hér á landi.

Með skattskyldum tekjum, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sé tekið skýrt fram að eftirlaun og lífeyrir og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur falli undir skattskyldar tekjur. Samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 beri Tryggingastofnun að greina tekjur sem bótaþegar afli og flokka þær til að kveða á um skerðingaráhrif þeirra. Tryggingastofnun telji makalífeyri kæranda rétt flokkaðan sem lífeyrissjóðstekjur og hafi því áhrif við útreikning á lífeyri til kæranda.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því að greiðsluáætlun hafi verið unnin út frá erlendri tekjuáætlun sem kærandi hafi sent Tryggingastofnun í apríl 2019. Kærandi beri sjálfur ábyrgð á þeim tekjuupplýsingum sem hann sendi inn og beri honum að gera tekjuáætlun sína eins nákvæma og kostur sé og miða áætlunina sem næst sínum rauntekjum svo að ekki komi til ofgreiðslu eða vangreiðslu síðar meir. Ellilífeyrir sé tekjutengdur og reiknaður út frá þeirri tekjuáætlun sem greiðsluþegi fylli sjálfur út. Greiðsluáætlun taki þannig mið af þeim tekjum sem séu gefnar upp í tekjuáætlun einstaklings hverju sinni og séu greiðslur hvers tekjuárs síðan gerðar upp eftir á með uppgjöri.

Þá kemur fram að samkvæmt 10. tölul. 2. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar séu lífeyrissjóðstekjur skilgreindar sem greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Hvað „witwer-pension“ frá X varði, hafi slíkar greiðslur hvað mesta samsvörun við makalífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum hér á landi og séu flokkaðar eins og hverjar aðrar greiðslur úr atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Reglugerð EB nr. 883/2004 um framkvæmd almannatrygginga hafi verið innleidd inn í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012. Í 10. gr. reglugerðarinnar komi fram að reglugerðin skuli hvorki veita né viðhalda rétti til margvíslegra bóta sömu tegundar fyrir sama tímabil skyldutrygginga, nema annað hafi verið tilgreint. Tryggingastofnun hafi litið svo á að lífeyrissgreiðslur, þar á meðal makalífeyrisgreiðslur, sem ávinnist með atvinnuþátttöku og iðgjaldagreiðslum í öðru EES ríki, séu ekki bætur sömu tegundar í skilningi reglugerðar EB nr. 883/2004. Þær greiðslur samsvari lífeyrissjóðsgreiðslum á Íslandi og geti þar með komið til skerðingar, sbr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í a-lið 5. gr. reglugerðar EB segi enn fremur: „ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki,“.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags skulu tekjur, sem sé aflað erlendis og ekki taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Tryggingastofnun beri samkvæmt fyrrgreindu ákvæði að flokka allar tekjur eftir því hvaða áhrif þær geti haft á útreikning bóta og gildi það sama hvort tekna sé aflað hér á landi eða erlendis. Til tekna samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Ellilífeyrir og örorkulífeyrir séu þar á meðal, sbr. a-lið 7. gr. laganna. Í 4. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 sé fjallað um tekjur sem hafi ekki áhrif og ellilífeyri samkvæmt 17. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds sé það túlkun Tryggingastofnunar að makalífeyrir falli undir lífeyrissjóðstekjur og hafi áhrif á útreikning á ellilífeyrisgreiðslum eins og hverjar aðrar greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um ellilífeyri. Af kæru verður ráðið að kærandi óski eftir endurskoðun á útreikningi á búsetuhlutfalli hans á Íslandi og á fjárhæð ellilífeyris.

  1. Búsetuhlutfall

    Ákvæði um ellilífeyri er í 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. mgr. 17. gr. laganna segir:

    „Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

    Samkvæmt 5. tölul. 2. gr. laganna er búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur, nema sérstakar ástæður leiði til annars.

    Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Ákvæði 1. mgr. 2. gr. laganna hljóðar svo:

    „Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Ekki er heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt er að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.“

    Þá segir í 2. mgr. 2. gr. sömu laga:

    „Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.“

    Af framangreindu má ráða að réttur til ellilífeyris ávinnst með fastri búsetu á Íslandi á tímabilinu frá 16 ára til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með 40 ára búsetu en sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Við mat á rétti kæranda til ellilífeyris miðar Tryggingastofnun við að kærandi hafi búið á Íslandi frá [...], eða samtals 15 ár, 4 mánuði og 26 daga. Útreikningur Tryggingastofnunar leiðir til þess að búsetuhlutfall kæranda hér á landi sé 38,53% og taka ellilífeyrisgreiðslur til hans mið af því.

    Kærandi byggir á því að á tímabilinu [...] hafi hann dvalið í lengri eða skemmri tíma á Íslandi við öflun gagna og úrvinnslu þeirra, að meginstefnu til í foreldrahúsum [...]. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu í X og frá Þjóðskrá í X sé búseta hans tvímælalaus fram að hausti X, eða rúm 22 ár.

    Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá var kærandi með skráð lögheimili hér á landi eftir 16 ára aldur frá [...], sbr. tölvupóst til Tryggingastofnunar 11. september 2019. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2020, veitti úrskurðarnefnd velferðarmála kæranda kost á að leggja fram gögn sem sýndu fram á að hann hefði verið búsettur á Íslandi fram að X. Kærandi svaraði þeirri beiðni með bréfi, dags. 4. mars 2020. Í bréfinu greinir kærandi frá því að tveir aðilar gætu borið vitni um dagsetninguna, annars vegar fyrrum starfsmaður Hagstofu Íslands og hins vegar tiltekinn starfsmaður Þjóðskrár. Í X hafi kærandi farið til Hagstofu Íslands þar sem starfsmaður hafi tekið kæranda af búsetuskrá. Þá hafi starfsmaður Þjóðskrár staðfest þetta í X og nefnt nákvæma dagsetningu sem kærandi hafi skráð niður á blað hjá sér en samkvæmt þeim upplýsingum teldist búseta kæranda vera til X, eða í rúm 22 ár. Þá heldur kærandi því fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi, í samráði við Þjóðskrá, ákveðið að breyta dagsetningu á búsetu kæranda á Íslandi.

    Í ljósi framangreindra upplýsinga frá Þjóðskrá, og með hliðsjón af því að kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að hann hafi haft fasta búsetu á Íslandi frá [...] þrátt fyrir að honum hafi sérstaklega verið veittur kostur á því, er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki átt lögheimili hér á landi á árunum [...] í skilningi laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Því er Tryggingastofnun ekki heimilt að taka tillit til þess tímabils við útreikning á búsetutíma í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við útreikninga Tryggingastofnunar á búsetuhlutfalli kæranda.

  2. Fjárhæð ellilífeyris

Kærandi gerir athugasemdir við að „witwer-pension“ greiðslur sem hann fær frá Þýskalandi skerði ellilífeyrisgreiðslur hans frá Tryggingastofnun.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt skal telja til tekna eftirlaun og lífeyri. Í 2. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar segir að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 25.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er undantekning frá meginreglunni um að tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt skerði ellilífeyri. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr lífeyrissjóðum umfram frítekjumark skerða ellilífeyri. Tryggingastofnun telur að greiðslur „witwer-pension“ frá Þýskalandi séu sambærilegar lífeyrissjóðstekjum og hafi áhrif á rétt kæranda til ellilífeyris. Vísar Tryggingastofnun til þess að „witwer-pension“ hafi mesta samsvörun við makalífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum hér á landi sem séu flokkaðar eins og hverjar aðrar greiðslur úr atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögum. Samkvæmt gögnum málsins og upplýsingum af vefsíðu Deutsche Rentenversicherung miðast réttur til „witwer-pension“ frá Þýskalandi við áunninn lífeyri látins maka og reiknast lífeyrinn meðal annars út frá atvinnutekjum maka. Makalífeyrisgreiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum miðast einnig við áunnin réttindi látins maka. Í ljósi þess telur úrskurðarnefnd velferðarmála að „witwer-pension“ greiðslur kæranda frá Þýskalandi hafi mesta samsvörun við makalífeyrisgreiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum. Því er fallist á það mat Tryggingastofnunar að „witwer-pension“ greiðslur séu sambærilegar við lífeyrissjóðstekjur og skuli því skerða ellilífeyrisgreiðslur til kæranda.

Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við fjárhæð ellilífeyris sem hann fær greiddan frá Tryggingastofnun með hliðsjón af þeim tekjuforsendum sem stofnunin leggur til grundvallar við útreikninginn. Óskertur ellilífeyrir á árinu 2019 var 248.105 kr. á mánuði, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1202/2018 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2019. Þær tekjur sem komu til skerðingar ellilífeyri kæranda voru lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Við útreikning á ellilífeyri var miðað við að þessar tekjur væru samtals X kr. á mánuði. Ellilífeyrir kæranda var lækkaður um 45% af framangreindum tekjum umfram 25.000 kr. almennt frítekjumark á mánuði í samræmi við 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar. Þá fékk kærandi greitt 38,53% af þeirri fjárhæð ellilífeyris sem eftir stóð í samræmi við búsetuhlutfall hans á Íslandi.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tilefni til að gera athugasemdir við fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna til kæranda. Aftur á móti er bent á að endurreikningur og uppgjör vegna ársins 2019 hefur ekki farið fram. Verði kærandi ósáttur við endurreikning Tryggingastofnunar getur hann kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu er afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um ellilífeyri staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um ellilífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                            Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta