Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 54/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 54/2020

Þriðjudaginn 16. júní 2020

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 29. janúar 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 29. október 2019 á umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 5. nóvember 2018, vegna tjóns sem hann telur að megi rekja til meðferðar á Landspítala og C. Í umsókn kemur fram að kærandi telji að frá árinu 2012 sé hann búinn að vera með vangreinda sýkingu sem heilbrigðisstarfsmenn hafi ekki brugðist við, þrátt fyrir klínísk einkenni sem hafi eindregið bent til sýkingar. Þá hafi hann orðið fyrir auknum sýkingum á meðan hann hafi legið á Landspítala.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 29. október 2019, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. janúar 2020. Með bréfi, dags. 30. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 7. febrúar 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. febrúar 2020, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að vísað sé til rökstuðnings í máli kæranda fyrir Sjúkratryggingum Íslands. Lyfjameðferð við sýkingu hafi verið ófullnægjandi.

Í umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu greinir kærandi frá málsatvikum. Þar kemur fram að kærandi telji að allt frá árinu 2012 sé hann búinn að vera með vangreinda sýkingu sem heilbrigðisstarfsmenn hafi ekki brugðist við, þrátt fyrir klínísk einkenni sem hafi bent eindregið til virkrar sýkingar. Kærandi telji að salmonellusýking í lok september 2017 hafi leitt til þess að líkami hans hafi ekki ráðið við meira. Þá sé rétt að kanna hvort kærandi hafi orðið fyrir auknum sýkingum á meðan hann hafi legið á Landspítala. Í þessum efnum sé bent á aukningu á bakteríufjölda í þvagsýnum á milli daga.

Kærandi byggi tilkynningu og umsókn á öllum töluliðum 2. og 3. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Með tilliti til 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu telji kærandi að hann hafi verið ranglega sjúkdómsgreindur vegna sýkingar, allt þar til niðurstöður ræktana hafi legið fyrir. Þá telji kærandi að rannsóknin á sýkingunni hafi verið ófullnægjandi þar sem ekki hafi verið rannsakað hverjar hinar þrjár bakteríutegundir hafi verið. Í þeim skilningi hafi kærandi áfram verið vangreindur með tilliti til sýkingar. Kærandi vísi til þeirra klínísku einkenna sem hann hafi haft allt frá árinu 2012. Kærandi telji að í komum sínum til lækna frá 2012 allt til dagsins í dag hafi hvílt á læknum að rannsaka kæranda með fullnægjandi hætti með tilliti til sýkingar og velja sýklalyf sem væru markhæf til að ráða niðurlögum sýkingarinnar. Kærandi telji að vanhöld á framangreindu feli í sér meðferð, greiningu og rannsókn á sýkingunni sem hafi ekki verið hagað eins vel og mátt hafi og í samræmi við bestu þekkingu á þeim tíma sem hann hafi verið til meðferðar.

Í framangreindum efnum bendi kærandi meðal annars á að hann hafi orðið fyrir nýrnaskemmdum. Þá bendi kærandi á að varnarviðbrögð líkamans við sýkningu séu meðal annars bólgur í vef og líffærum. Bólginn vefur verði minna næmur fyrir insúlíni. Kærandi telji ómeðhöndlaða sýkingu því vera ástæðu þess að hann sé nú greindur með sykursýki II. Þá telji kærandi að bakteríur, sem nú greinist einnig í ennisholum hans, séu að valda skaða á augum. Kærandi telji að meiri líkur séu á því en minni að framangreind vanhöld hafi valdið honum tjóni. Byggi hann í því sambandi á 3. gr. og 1. og 2. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Með tilliti til 2. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu telji kærandi að heilsugáttin hafi ekki virkað á legutíma á Landspítala í september og október 2017 og hafi falið í sér að „annar búnaður“ sem hafi verið notaður til meðferðar, hafi bilað. Með því hafi kærandi orðið fyrir tjóni þar sem ekki hafi verið mögulegt að nálgast þær upplýsingar sem hefðu getað leitt til réttrar og fullnægjandi meðferðar hans. Í framangreindum efnum bendi kærandi á að heilsugáttin sé uppflettiforrit og hugbúnaður sem heilbrigðisstarfsmenn byggi framkvæmdir og meðferð á, rétt eins og tæki sem mæli hjartslátt og önnur tæki sem ákvarðanir séu teknar út frá.

Með tilliti til 3. tölul. 2. gr. laganna bendi kærandi á að samkvæmt TS-mynd af heila, sem hafi verið tekin þann 12. september 2019, hafi hann greinst með sýkingu í ennisholum. Kærandi telji að sú rannsókn hafi leitt í ljós að sú meðferð, sem hann hafi verið settur á vegna sýkingar, hafi verið ófullnægjandi. Þá hafi í síðasta lagi verið ljóst að sú meðferð hafi verið ófullnægjandi og önnur meðferð til þess fallin að gagnast betur. Í framangreindum efnum bendi kærandi á það að minnsta kosti hluti meðferðaraðila hans hafi vitað til þess að hann hafi tekið phenoxymethylpenicillin áður en hann hafi lagst inn með sýkingu. Engu að síður hafi meðferðaraðilar ákveðið að ávísa honum beta lactam penicillini.

Kærandi bendi á að fjöldi bakteríutegunda séu nú ónæmar fyrir framangreindum penicillin tegundum og því hafi TS-myndin átt að leiða í ljós að kærandi hafi verið á ófullnægjandi meðferð við sýkingu og að grípa hafi þurft inn í með öðru lyfi.

Í framangreindum efnum og með tilliti til 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu bendi kærandi á að það hafi verið ákvörðun útskrifandi lækna þann 6. október 2017 að útskrifa kæranda án þess að leita álits sýkla- og veirufræðings og án þess að slíkur sérfræðingur eða meltingarsérfræðingur hafi fylgt kæranda eftir. Kærandi bendi á að hann finni enn fyrir ógleði og að heilbrigðisstarfsmenn hafi tengt ógleðina sýkingu.

Með tilliti til 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu þá skori kærandi á Landspítala að upplýsa, án persónugreinanlegra upplýsinga, hversu margar sýkingar og hverrar tegundar hafi verið meðhöndlaðar á bráðamóttökudeild og meltingar- og nýrnadeild á tímabilinu 29. september 2017 til 6. október sama ár. Kærandi telji að ef heilbrigðisstarfsmenn eða áhöld hafi borið sýkingu með sér til hans á framangreindu tímabili falli slík viðbótarsýking undir framangreindan tölulið. Kærandi bendi á að sýkingu sé nú að finna í ennisholum hans og hann finni reglulega fyrir ógleði og þrekleysi. Hafi því einkenni bæst við eftir framangreinda innlögn sem hafi ekki verið áður og sem séu þess eðlis að ósanngjarnt verði að telja að hann beri bótalaust.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi farið fram á Landspítalanum og C. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og hafi málið í framhaldinu verið tekið fyrir á fundi fagteymis sem hafi meðal annars verið skipað bæklunarskurðlækni. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 29. október 2019, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að skilyrði 1.–4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu væru ekki uppfyllt.

Afstaða Sjúkratrygginga Íslands til kæruefnis hafi nú þegar komið fram í ákvörðun stofnunarinnar frá 29. október 2019. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram:

„Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni eða hvort heilsustjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikivlli þarf að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo skilyrði séu fyrir greiðslu bóta. Sjúklingatrygging bætir ekki tjón sem er afleiðing grunnsjúkdóms eða grunnáverka og er það því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsustjóns sjúklings og þeirrar meðferðar sem hann gekkst undir.

Það liggur fyrir að umsækjandi fékk svæsna salmonellasýkingu í aðdraganda innlagnar á Landspítala þann 29. september 2017. Ekki var um að ræða þá tegund salmonella, sem veldur taugaveiki, en sjúkdómsgangurinn var engu að síður þungbær framan af með miklu vökvatapi og nýrnabilun. Hinn ræktaði sýkill var  S. Kottbus, sem er fremur sjaldgæf orsök iðrasýkinga.[1] Ákveðið var að gefa umsækjanda ekki sýklalyf og styðst sú ákvörðun við algenga venju, enda er talin aukin hætta á að sjúklingar gerist smitberar, ef sýklalyfjum er beitt. Ekki er annað að sjá, en að nýru umsækjanda hafi náð sér til fullnustu með viðeigandi vökvagjöf, enda var vökvatap grunnorsök nýrnaskaðans.

Ekkert bendir til þess, að umsækjandi hýsi enn salmonellasýkingu, þótt smitberaástand sé þekkt. Hins vegar virðast sjúklingar sem fengið hafa salmonellasýkingu vera næmari fyrir meltingartruflunum og kann það að vera meðverkandi orskök ógleðinnar, sem umsækjandi kvartaði yfir, a.m.k. fyrst eftir sýkinguna.

Umsækjandi telur að hann hafi haft ómeðhöndlaða sýkingu allt frá 2012. Að mati SÍ styðst sú niðurstaða varla við nein önnur gögn en nokkrar talningar á hvítum blóðkörnum, þar sem tala þeirra reyndist umfram viðmiðunarmörk. Talningarnar voru gerðar á LSH, þar sem eðlileg efri mörk teljast vera 10,5. Umræddar mælingarniðurstöður frá 2012 til 14. febrúar 2017 voru allar innan 11,5. Slíkar niðurstöður geta ekki talist sterkur vitnisburður um sýkingu, ef þær fara ekki saman við klínísk einkenni sýkinga. Þá er þess einnig að geta, að eðlileg algengismörk lífeindamælinga gera yfirleitt ráð fyrir því, að u.þ.b. 2,5% heilbrigðra einstaklinga hafi gildi lítið eitt umfram algengismörkin.[2] Einnig eru ýmis dæmi um að einstaklingar, sem voru heilbrigðir að öðru leyti hafi haft verulega fjölgun hvítra blóðkorna, allt að 40.000 án þess, að vart hafi orðið neinna undirliggjandi sjúkdóma við langa eftirfylgd. Yfirleitt er þó talið að gildi yfir 25.000 gefi tilefni til gruna um alvralega sýkingu.[3] Mælingagildi umsækjanda fóru óverulega yfir viðmiðunarmörk. Kenning umsækjanda um ómeðhöndlaða, óstaðsetta og langvarandi sýkingu telst því ólíkleg að mati SÍ.

Hugsanlegt er, að sígeng skútabólga eigi þátt í fjölgun hvítra blóðkorna, þótt það sé með öllu ósannað. Slík sýking er  algeng, hún uppgötvaðist af tilviljun og virðist ekki hafa valdið neinum umtalsverðum einkennum.

Það verður einnig að teljast ólíklegt, að einhvers konar sýkinga hafi valdið miklu um að umsækjandi fékk sykursýki. Hann þjáðist af offitu og var fíkill í sykur að eigin sögn. Sömuleiðis er með öllu óljóst, hvernig hin meinta sýking á að hafa valdið miklu um augnsjúkdóma umsækjanda, latt auga, sjónskekkju, fjarsýni og der. Aðalkvartanir umsækjanda virðist nú snúast um afleiðingar slyssins, sem hann varð fyrir 8. september 2018. Ekkert bendir heldur til að meint bilun á heilsugátt LSH hafi valdið umsækjanda tjóni. Ekki er heldur að sjá að sýkingu í ennisholum megi rekja til ófullnægjandi læknismeðferðar.

Með vísan í ofangreinda umfjöllun og gögn málsins er það niðurstaða SÍ eftir sjálfstæða skoðun að ekkert í fyrirliggjandi gögnum bendi til þess að meðferð hafi ekki verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði sbr. 1. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Þá á 2. tl. sömu greinar ekki við enda ekkert sem bendir til bilunar eða galla í tækjum, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður var við rannsókn eða meðferð sem valdið hafi tjóni. Hvað varðar 3. tl. sömu greinar þá er það ekki svo að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferð enda varð umsækjandi ekki fyrir tjóni vegna meðferðar eða skorts á henni að mati SÍ. Hvað varðar 4. tl. er það niðurstaða SÍ að einkenni sem umsækjandi lýsir í umsókn sinni séu ekki fylgikvillar meðferðar eða aðgerðar.“

Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun á bótum á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna tjóns sem kærandi telur að rekja megi til meðferðar á Landspítala og C.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar, sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs, eru þannig ekki bótaskyldar, en aftur á móti getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi telur að lög um sjúklingatryggingu taki til þess tjóns sem hann varð fyrir vegna ófullnægjandi meðferðar á Landspítala og á C.

Í fyrsta lagi byggir kærandi kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu og vísar til þess að hann hafi verið ranglega sjúkdómsgreindur og því vangreindur allt frá árinu 2012. Þá telji kærandi að rannsókn á sýkingu hans hafi verið ófullnægjandi. Sjúkratryggingar Íslands benda á að ekkert í fyrirliggjandi gögnum bendi til þess að meðferð hafi ekki verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Í greinargerð D, yfirlæknis bráðalækninga á Landspítala, dags. 7. janúar 2019, kemur meðal annars fram að ekki verði annað séð en að kærandi hafi fengið eðlilega og góða meðferð við komur sínar í desember 2016 og að þá hafi ekki verið til staðar óútskýrð merki um bólgu eða önnur vandamál út frá skráðri sögu, skoðun eða niðurstöðum rannsókna. Töf hafi orðið á innlögn kæranda af bráðadeild á legudeild við komu hans í september til október 2017 vegna skorts á einangrunarrýmum á legudeildum. Meðferð hans hafi frá upphafi verið í samráði við viðeigandi lyflækna og ekki verði annað séð en að hann hafi fengið rétta og góða meðferð þann tíma sem hann hafi dvalið á bráðadeild.

Í greinargerð E, sérfræðings í lyflækningum og meltingarsjúkdómum, dags. 19. janúar 2019, kemur meðal annars fram að í umsókn um bætur sé því haldið fram að ekki hafi verið gerð fullnægjandi skoðun á nýrum kæranda. Þetta eigi ekki við rök að styðjast. Um hafi verið að ræða bráðan nýrnaskaða sem hafi gengið til baka, auk þess sem fengið hafi verið sérfræðiálit nýrnalæknis. Þá sé talað um ófullnægjandi meðferð sýkinga í legunni sem eigi heldur ekki við rök að styðjast. Ekki hafi verið marktækur vöxtur úr þvagræktunum og ekki sé að jafnaði ábending fyrir sýklalyfjameðferð við bráðri salmonellasýkingu. Þá sé talið ámælisvert að hafa verið útskrifaður á degi þegar hvít blóðkorn hafi mælst 20,8. Þegar tekin sé ákvörðun um útskrift skipti niðurstöður blóðrannsókna vissulega máli en það sem vegi þó meira sé klínískt ástand sjúklings. Kærandi hafi sýnt mikinn bata og ekki þurft lengur á vökvagjöf í æð að halda og því hafi ekki verið nein ástæða til að halda honum á legudeild. Einnig hafi verið tekin ákvörðun um að fylgja þessum gildum eftir í blóðprufu þremur dögum eftir útskrift og hvítu blóðkornin orðin eðlileg við endurtekningu á blóðprufum. Þá sé talið sérstakt sjúklingatryggingaratvik í þeirri ákvörðun að kærandi hafi ekki verið talinn þarfnast eftirlits meltingarsérfræðings. Salmonella gastroenteritis sé bráður kvilli sem gangi yfir og alls ekki ástæða til sérhæfðs eftirlits meltingarlæknis í þessu tilviki. Niðurstaðan sé sú að kærandi hafi í alla staði fengið góða og viðeigandi meðferð á meðan á dvöl hans á legudeild meltingarlækninga hafi staðið svo og viðeigandi eftirlit með blóðprufum í tvígang eftir útskrift af legudeild.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Af gögnum máls liggja ekki fyrir vísbendingar um að kærandi hafi verið ranglega greindur. Hann var með væga hækkun á hvítum blóðkornum frá árinu 2012 sem fylgt var eftir með viðeigandi hætti. Hvort sem ástæða þess hafi verið eðlilegt frávík, væg kinnholusýking eða aðrar skýringar verður ekki annað séð en að meðhöndlun hafi verið eðlileg. Kærandi veiktist síðan illa af salmonellusýkingu með vökvatapi og nýrnabilun og var meðhöndlaður án sýklalyfja. Hann jafnaði sig en glímdi þó eftir þetta við ógleði, en meltingartruflanir eru þekktar í kjölfar slíkra sýkinga. Þá verður ekki séð að sykursýki II sem kærandi glímir við, auk augnsjúkdóms, tengist vangreindum sýkingum. Í ljósi alls framangreinds verður ekki annað séð en að meðferð kæranda hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að bótaskylda sé ekki fyrir hendi á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í öðru lagi byggir kærandi kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 2. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 og vísar til þess að heilsugáttin hafi ekki virkað á legutíma hans á Landspítala í september og október 2017 og það hafi falið í sér að „annar búnaður“ sem hafi verið notaður til meðferðar, hafi bilað. Sjúkratryggingar Íslands benda á að ekkert sem bendi til bilunar eða galla í tækjum, áhöldum eða öðrum búnaði, sem notaður var við rannsókn eða meðferð, hafi valdið tjóni.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur ekkert komið fram í gögnum málsins sem bendir til að bilun eða galli í tækjabúnaði hafi átt sér stað í tengslum við meðferð kæranda á Landspítala. Bótaskylda samkvæmt 2. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu er því ekki til staðar.

Í þriðja lagi byggir kærandi kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 3. tölul. 2. gr. og vísar til þess að TS-mynd af heila hefði átt að leiða í ljós að hann hafi verið á ófullnægjandi meðferð við sýkingu og að grípa hafi þurft inn í með öðru lyfi. Sjúkratryggingar Íslands benda á að kærandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna meðferðar eða skorts á henni.

Samkvæmt 3. tölul. 2. gr. kemur til skoðunar hvort unnt hefði verið að beita annarri meðferðaraðferð eða tækni en gert var og hvort það hefði gert sama gagn við meðferð sjúklings. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum segir að það eigi við, sé unnt að slá því föstu á grundvelli upplýsinga, sem liggi fyrir um málsatvik þegar bótamálið sé til afgreiðslu, að líklega hefði mátt afstýra tjóni hefði verið beitt annarri jafngildri aðferð eða tækni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fær ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að hægt hefði verið að beita annarri meðferð sem hefði verið betur til þess fallin að uppræta sýkingu kæranda. Sú staðreynd að kærandi greinist 12. september 2019 með skútabólgu eftir tölvusneiðmynd og var aftur settur á beta lactam penicillin bendir ekki til þess að beita hefði átt annarri lyfjameðferð til að uppræta sýkingu kæranda eða að upphafleg meðferð hafi verið ófullnægjandi. Þar af leiðandi er bótaskylda ekki til staðar á grundvelli 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í fjórða lagi byggir kærandi kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 4. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 og vísar til þess að ef heilbrigðisstarfsmenn eða áhöld hafi borið með sér sýkingu til hans þá falli slík viðbótarsýking undir framangreindan tölulið. Kærandi bendi á að sýkingu sé nú að finna í ennisholum hans og um sé að ræða einkenni sem hafi ekki verið fyrir innlögn á Landspítala og séu þess eðlis að ósanngjarnt verði að telja að hann beri bótalaust.

Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. sjúklingatryggingarlaga skal greiða bætur ef tjón hlýst af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meira en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í lagaákvæðinu eru gefin eftirfarandi viðmið þar að lútandi:

  1. Líta skal til þess hve tjónið er mikið.
  2. Líta skal til sjúkdóms og heilsufars viðkomandi að öðru leyti.
  3. Taka skal mið af því hvort algengt sé að tjón verði af umræddri meðferð.
  4. Hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

 

Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laganna kemur fram að markmið með nefndum 4. tölul. 2. gr. sé að ná til heilsutjóns, sem ekki sé unnt að fá bætt samkvæmt 1.–3. tölul. greinarinnar, en ósanngjarnt þyki að menn þoli bótalaust, einkum vegna misvægis á milli þess hve tjónið sé mikið og þess hve veikindi sjúklings voru alvarleg. Þá segir að við matið skuli taka mið af eðli veikinda og hve mikil þau séu svo og almennu heilbrigðisástandi sjúklings. Ef augljós hætta sé á að sjúklingur hljóti mikla örorku eða deyi ef sjúkdómurinn sé látinn afskiptalaus verði menn að sætta sig við verulega áhættu af alvarlegum eftirköstum meðferðar.

Samkvæmt gögnum málsins eru ekki læknisfræðilegar forsendur til þess að ætla að kærandi hafi orðið fyrir sýkingu sem eigi sér upptök á sjúkrahúsinu. Þá eru meltingartruflanir þekktar í kjölfar salmonellusýkingar. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki séu meiri líkur en minni á því að sýkingar kæranda í ennisholum hafi verið að rekja til þeirrar meðferðar sem kærandi hlaut á Landspítala og C. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefnd að bótaskylda sé ekki til staðar samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 29. október 2019, þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótum til A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 



[1] Journal of the American Medical Association 2002;51:7-9. S.Kottbus is a rarely reported cause of salmonellosis in the United States. During1968–1998, a median of 42 S. Kottbus isolates were reported each year to CDC through the Public Health Laboratory Information System…

 

[2] Clinical Advisor 15.02.2007. It may be more common than realized for otherwise healthy patients to have an isolated elevated WBC count. The normal adult WBC count ranges from 4,400 to 11,000/μL. Elevation is considered to be >11,000 or a count that is two standard deviations above the mean. Therefore, more than 2.5% of adults will have WBC counts >11,000 under “normal” circumstances…Ward and Reinhard in 1971 reported on 34 healthy subjects with leukocytosis who had normal bone marrow aspirates and leukocyte alkaline phosphatase scores. The patients were followed for longer than 20 years without medical problems (Ann Intern Med. 1971;75:193-198)

 

UpToDate: There is considerable variability in neutrophil counts in asymptomatic normal populations. Because neutrophilia is defined as at least two standard deviations above the mean, by definition, 2.5 percent of the normal population will be classified as having neutrophilia

 

[3] UpToDate: Infection — Infections are a common cause of neutrophilia in adults and children, in both the inpatient and outpatient settings. Acute infection should be particularly suspected in patients with a total white blood cell (WBC) count >25,000/microL.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta