Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 245/2024-

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 245/2024

Miðvikudaginn 21. ágúst 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 23. maí 2024, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 8. mars 2024, um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir vinnuslysi X. Tilkynning um slys barst Sjúkratryggingum Íslands þann 22. desember 2017 sem samþykktu bótaskyldu. Með ákvörðun, dags. 12. janúar 2023, mat stofnunin varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 0%. Kærandi óskaði eftir endurupptöku ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands með beiðni, dags. 14. apríl 2024. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 8. mars 2024, var fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. maí 2024. Með bréfi, dags. 4. júní 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 18. júní 2024, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júní 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi sótt um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga samkvæmt lögum nr. 45/2015 vegna vinnuslyss sem hann hafi orðið fyrir þann X við starfa sinn fyrir C. Slysið hafi orðið með þeim hætti að hann hafi verið að […] en við það hafi hann runnið og lent illa á […]. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum.

Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og hafi bótaskylda verið samþykkt. Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 12. janúar 2023, hafi verið tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða í tilviki kæranda, þar sem örorka hans vegna slyssins hafi verið metin minni en 10%, eða 0%. Meðfylgjandi hafi verið matsniðurstaða D tryggingarlæknis Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. mars 2022. Kærandi hafi verið metinn með 8% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyssins með matsgerð E bæklunarskurðlæknis, dags. 23. janúar 2022. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu hafi verið óskað eftir að Sjúkratryggingar Íslands endurskoðuðu fyrri afstöðu sína. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. mars 2024, hafi fyrri ákvörðun verið staðfest á þeim forsendum að ekki væri til staðar orsakasamband milli einkenna kæranda og slyssins og bótaskyldu hafnað. Kærandi geti á engan hátt sætt sig við framangreinda niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands og telji orsakatengsl til staðar milli slyssins og einkenna hans.

Í matsgerð E bæklunarskurðlæknis, dags. 23. janúar 2022, sé því lýst að kærandi hafi verið fluttur á slysadeild strax eftir slysið X og í skoðun þar hafi hann verið hvellaumur í setbeini djúpt í gluteal region. Kærandi hafi leitað fjórum dögum síðar á Læknavaktina vegna einkenna sinna eftir slysið og kveðist þar hafa fengið högg á vinstri rasskinn og bak. Hann hafi leitað aftur á Læknavaktina þann X og lýst verkjum í baki og mjóbaki. Kærandi hafi leitað til heimilislæknis þremur vikum síðar, þann X, vegna einkenna í mjóbaki og þann X hafi hann leitað til læknis vegna áframhaldandi einkenna ásamt einkenna í baki. Þá liggi fyrir að kærandi hafi verið óvinnufær á tímabilinu X til X vegna afleiðinga slyssins. Kærandi sé enn í dag með einkenni í mjóbaki og lýsi hann því að hann finni alltaf fyrir verkjum og að stundum leiði þeir niður læri. Við skoðun E á matsfundi sem hafi verið haldinn þann 19. janúar 2022 hafi kærandi haft talsverð eymsli yfir vöðvum vinstra megin neðst í mjóbaki og hafi hreyfingar verið sárar, bæði hliðarbeygjur og snúningur. Kærandi hafi verið metinn með 8% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyssins með matsgerð E. Um sé að ræða ítarlega og vel rökstudda matsgerð og telji hann niðurstöðu matsins rétta. Þá vilji kærandi benda á að samkvæmt meðfylgjandi vottorðum hafi hann verið heilsuhraustur fyrir slysið og ekki haft sögu um áverka á mjóbaki. Kærandi hafi lenti í umferðarslysi þann X og hafi verið metinn með 7 stig í varanlegan miska og 8% varanlega örorku vegna einkenna í hálsi og brjóstbaki, sbr. meðfylgjandi matsgerð, en hafi verið heilsuhraustur að öðru leyti.

Með matsgerð D tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. mars 2022, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 0% og byggi niðurstaðan á því að ekki séu orsakatengsl milli einkenna hans og slyssins. Þar sé því haldið fram að kærandi hafi einungis leitað þrisvar til læknis í X og X. En af meðfylgjandi gögnum sé ljóst að hann hafi leitað fimm sinnum til læknis á tímabilinu og hafi verið óvinnufær í mánuð vegna einkenna sinna eftir slysið. Í niðurstöðu matsgerðar D segi: „Að mati undirritaðs má vera ljóst að A hefur við slysið þann X hlotið áverka sem enn í dag valda honum óþægindum og líkamlegri fæmiskerðingu.“ Strax í kjölfarið sé því haldið fram að ekki sé orsakasamband milli einkenna hans í dag og slyssins. Þá bendi tryggingalæknir á að við skoðun á slysadeild strax eftir slysið hafi kærandi ekki kvartað undan einkennum í mjóbaki heldur hafi einungis verið til staðar einkenni í spjaldhrygg og eymsli djúpt í vinstri rasskinn. Kærandi telji ekki óeðlilegt að öll einkenni hafi ekki verið komin fram strax eftir slysið, en nokkrum dögum síðar hafi hann kvartað undan verkjum í mjóbaki á Læknavaktinni sem hafi verið talið að væri að rekja til slyssins.

Kærandi telji niðurstöðu matsins ranga og byggi á því að læknisfræðileg örorka hans hafi verið of lágt metin í matsgerð tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands. Miða beri við forsendur og niðurstöður þær sem fram komi í matsgerð E læknis. Með vísan til framangreinds telji kærandi óforsvaranlegt að leggja til grundvallar niðurstöðu örorkumats tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands. Frekar skuli taka mið af matsgerð E læknis, við mat á læknisfræðilegri örorku kæranda, þ.e. 8%.

Með vísan til framangreinds og gagna málsins kæri kærandi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands á varanlegri læknisfræðilegri örorku hans samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga og krefjist þess að tekið verði mið af matsgerð E læknis við mat á læknisfræðilegri örorku sinni.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að þann 22. desember 2017 hafi Sjúkratryggingum Íslands borist tilkynning um vinnuslys sem kærandi hafi orðið fyrir þann X. Að gagnaöflun lokinni hafi Sjúkratryggingar Íslands tilkynnt með bréfi, dags. 6. febrúar 2018, að um bótaskylt slys væri að ræða.

Með ákvörðun, dags. 12. janúar 2023, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið ákveðin 0%. Ákvörðunin hafi verið byggð á tillögu að örorkumati frá D lækni að beiðni Sjúkratryggingar Íslands. Þann 14. apríl 2024 hafi verið lögð fram matsgerð E læknis og hafi verið óskað eftir endurupptöku á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands. Þann 8. mars 2024 hafi verið ákvarðað í málinu að nýju. Sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 8. mars 2024, segi:

„Vísað er til umsóknar um örorkubætur vegna slyss, sem átti sér stað X. D, læknir, vann tillögu að örorkumati að beiðni Sjúkratrygginga Íslands. Var tillagan unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna auk viðtals og læknisskoðunar. Tillaga D var dagsett 30.3.2022. Lögmaður tjónþola óskar endurupptöku og leggur í tengslum við það fram eldra gagn, sem ekki hafði áður verið lagt fram, matsgerð E, læknis, dagsetta 23.1.2022.

Það er mat Sjúkratrygginga Íslands, að í tillögu D sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með vísan til miska taflna örorkunefndar. Tillagan byggir á sjúkrasögu og læknisskoðun D. Það er niðurstaða SÍ að miski sá sem E telur að tjónþoli búi við sé ekki vegna slyssins heldur af öðrum ástæðum. M.ö.o. að ekki sé orsakasamband milli einkenna tjónþola og slyssins.

Með vísan til framangreinds er það mat SÍ, að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teljist hæfilega ákveðin engin.“

Kærð sé niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands um 0% varanlega læknisfræðilega örorku, sbr. ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 12. janúar 2023 og 8. mars 2024. Við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið byggt á örorkumatstillögu D læknis. Örorkumatstillaga D hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna auk viðtals og læknisskoðunar. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögu D sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með vísan til miskataflna örorkunefndar. Tillagan hafi því verið grundvöllur sjálfstæðrar ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands og þess að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins sé ákveðin 0%.

Í ljósi þess að ekki verði annað séð en að afstaða Sjúkratrygginga Íslands til kæruefnis hafi nú þegar komið fram í hinni kærðu ákvörðun þyki ekki efni til að svara kæru efnislega með frekari hætti. Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 8. mars 2024, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 0%.

Í bráðamótttökuskrá F sérfræðilæknis, dags. X, segir:

„Greiningar

Mar á mjóbaki og mjaðmagrind, S30.0

Tognun og mar á gluteal region vi. megin yfir setbeini.

Saga

Slys og önnur óhöpp, 2

Tímasetning slyss: X

Verkur í vi fótlegg, fall á járnbita. ---

Vinnur hjá C og var við […] þegar að hann rann til og skall harkalega á […] á vi. rasskinn. Átti vont með að koma sér á fætur og stíga í fót vegna verkja í costa gluteal region. Kemur hér á eigin vegum og er haltrandi.

Skoðun

Hann er hvellaumur samsvarandi setbeini djúpt í gluteal region en það er ekki áberandi bólga eða mar, eðlileg hreyfing í mjöðm og distal status er eðlilegur, ekki eru eymsli yfir mjóhrygg eða spjaldhrygg.

Rannsóknir

Engin rtg. mynd af pelvis m.t.t. þá helst ramus brots. Ekki sýnt fram á.

Umræða og afdrif

Fær almennar ráðleggingar og tekur því rólega og verður frá vinnu fram yfir helgina. Fær recept á Parkodin til að taka p.n. tvær mest 3 - 4 x á dag. Endurkoma eftir þörfum.

Ávísuð lyf: PARKODIN, 60 stk, 2 töflur mest 3-4 sinnum á dg við verkjum“

Í myndgreiningarsvari G læknis, dags. X, segir um röntgenmyndatöku af pelvis að ekki sjáist merki um brot.

Í samskiptaseðli H læknis á Læknavaktinni, dags. X, segir meðal annars:

„Vinnuslys fyri nokkrum dögum á C.

Fékk högg á visntri rssskinn/bak.

Fór á slysadeild. Fékk þar skoðun. RTG sýndir ekki fram á brot.

Er með bólgueyðandi og verkjalyf.

Ofn. eþ

Verkjaður en kems tvel yfir.

Cont hvíld, kæling og verkja, bólgueyðandi lyf.

Þarf lengri tíma fá vinnu. Geri vottorð.

Endurkoma hingað eða leitar til Hg eða BMT ef einkenni versna eða lagast ekki.“

Í samskiptaseðli I læknis á Læknavaktinni, dags. X, segir:

„Verið frá vinnu v slyss, sjá nótu X byrjaði að vinna.X.

X er hann í vinnu og lyftir […] (14-20 kg) og fær verk í bakið. Fór ekki í vinnu aftur vegna verkja og á tíma í skoðun í N X.

Er með verk vi megin í baki frá vi rasskinn og upp að herðablaði.

Tekið verkjalyf, tekið Voltaren 50mg x 2.

Obj Stífur og hreyfir varlega. Beygir ca 30-40°fram, lítið aftur, verkur er paravert vi megin frá herðablaði og niður í rasskinn en ekki læri. Ekki dofi.

Álit ekki perifer neurologi en aðallega spasmi. Sefur ok.“

Þá liggja fyrir læknisvottorð vegna óvinnufærni frá X til X og frá X til X. Í seinna vottorðinu segir að kærandi hafi meiðst eftir hádegi X en hann hafi klárað vinnudaginn. Einnig liggur fyrir læknisvottorð vegna óvinnufærni frá X til X.

Í læknisvottorði Í læknakandídats, dags. X, segir:

„Óskað var eftir ítarlegu vottorði með upplýsingum um lækniskomur viðkomandi sem tengjast vinnuslysi sem átti sér stað þann X við vinnu hjá C.

Komur viðkomandi á Heilsugæsluna í N eru samtals þrjár;

X samantekt á viðtali við lækni á stöðinni

Viðkomandi er ennþá slæmur eftir vinnuslys. Gengur stirður í baki, kvartar undan verki vinstra megin paralumbalt, hefur fengið mikinn sting þar þegar hann hefur þurft að lyfta í vinnunni. Við skoðun mjög spenntir vöðvar vinstra megin við lumba columna. Spurning með hvort eymslin séu vöðvatengd. Beðið viðkomandi að beygja sig fram til að skoða hreyfingu en hann neitar, þar sem honum er svo illt. mælt með sjúkraþjálfun og fær vottorð til vinnu um að lyfta ekki þungu í allavega mánuð. Ráðlagt að hafa samband ef versnun einkenna.

X samantekt á viðtali við lækni á stöðinni

Búinn að vera slæmur í baki, erfitt með að lyfta þungu. Þrátt fyrir vottorð sem hann fékk hér X þá var hann settur í að lyfta í vinnunni, orðinn slæmur núna. Kemur með skrifað bréf frá sjúkraþjálfara sem mælir með að hann fái lengra veikindaleyfi til að jafna sig betur og einbeita sér að sjúkraþjálfun. Spurt viðkomandi hvort hann vilji athuga möguleika sína á annarri vinnu, þar sem hann ekki þarf að vera lyfta. Fær veikindavottorð fyrir vinnu og ráðlagt að hafa samband eftir þörfum.

X samantekt á viðtali við lækni á stöðinni

Viðkomandi hefur mikla þörf fyrir að komast til fjölskyldu sinnar í K. Ætlar að sækja sjúkraþjálfa þar og halda áfram að gera æfingar. Talin möguleg læknisfræðileg ástæða til að viðkomandi hafi gott af því að komast í hitann, hitta fjölskyldu fyrir andlega heilsu. Hefur samband ef þörf

Fyrir utan þær komur sem eru nefndar hér að ofan hefur viðkomandi ekki leitað hingað á Heilsugæsluna í N. Er X einnig síðasta koma á Heilsugæslustöð samkvæmt sögu.

Fyrri saga.

Viðkomandi lenti í bílslysi X. Samkvæmt fyrra vottorði skrifað X fyrir utan bilslysið "kveðst viðkomandi aldrei hafa lent í slysi áður og ekki hlotið alvarlega áverka s.s beinbrot eða annað slíkt. Hann á ekki langa sjúkradagbók hjá okkur nær aðeins til X.“

Í læknisvottorði L læknis, dags. X, segir:

„Óskað var eftir viðbótarvottorði með upplýsingum um lækniskomur viðkomandi sem tengjast vinnuslys sem átti sér stað þann X við vinnu hjá C. Vísa einnig í fyrra vottorð dagsett X gert af Í, lækni. Í ósk um viðbótarvottorð er óskað eftir upplýsingum um komur vegna afleiðinga ofangreinds slyss eftir að fyrra vottorð var ritað.

Læknisvottorð.

A á bara 1 komu á Heilsugæsluna N siðan fyrra vottorð var ritað. Hann á engar komur á X þar til hann hittir undirritaðan þann X. Engar komur eftir þann tíma.

Eftirfarandi er afrit af komunótu X.

„saga um að vera viðkvæmur í mjóbaki eftir slys, sjá fyrri sögu. Fékk tak i mjóbakið í síðustu viku þegar var að […] í vinnunni. Stífleiki í mjóbaki, vinstra meginn. Versnaði smátt. Ekki leiðniverkur.

sk: mjög stífur í mjóbaki og fær verk í alla hreyfivínkla. SLR neg.

aumur paralumbal vinstra meginn og sérstaklega yfir iliolumbal ligamenti.

set á NSAID+norgesic. hvíla í nokkra daga frá vinnu. alm ráðl. re ef lagast ekki.“

Greining:

M54.5 Lumbago Acuta“

Í matsgerð E læknis á varanlegri læknisfræðilegri örorku vegna slyss, dags. X, segir svo um skoðun á kæranda 19. janúar 2022:

„Tjónþoli kemur vel fyrir og svarar spurningum matsmanns vel og greiðlega. Samtalið fer fram á ensku. Skoðun beinist að stoðkerfi og þá fyrst og fremst að baki. Tjónþoli getur gengið á tám og hælum.

Háls. Engin eymsli og eðlilegar hreyfingar.

Brjóstbak. Engin eymsli og snúningshreyfingar eru sársaukalausar.

Mjóhryggur. Talsverð eymsli yfir vöðvum vinstra megin neðst í mjóbaki. Ekki eymsli yfir beinum. Hreyfingar eru sárar bæði hliðarbeygjur og snúningur. Frambeygja er með fingurgóma til 30 cm frá gólfi. Taugaskoðun er eðlileg með tilliti til húskyns,vöðvakrafta og sinaviðbragða.“

Í samantekt og niðurstöðu matsgerðarinnar segir svo:

„Um er að ræða þá X árs gamlan mann sem við vinnu sína þann X sem við vinnu sína við […] dettur aftur fyrir sig og lendi á sitjandanum. Fær hnykk á mjóbak og hefiir enn í dag óþægindi í mjóbaki eins og að ofan er líst. Hann var óvinnufær í 1 mánuð eftir slysið og býr í dag við verki sem há honum í leik og vinnu.“

Í matsgerðinni metur E læknir kæranda til 8% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku miðað við lið VI.A.c. í miskatöflum örorkunefndar.

Í tillögu D læknis að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, dags. 30. mars 2022, segir svo um skoðun á kæranda 25. nóvember 2021:

„Um er að ræða lágvaxinn karlmann í meðalholdum. Hann situr kyrr í viðtali. Gefur ágæta sögu. Grunnstemning telst eðlileg.

Hreyfir sig lipurlega. Við mat á líkamsstöðu telst hryggur beinn og eðlilega lagaður. Skoðun á háls- og axlasvæðum og griplimum eðlileg.

Við skoðun á bakinu í heild sinni ágæt hreyfing en óþægindi í endastöðu hreyfinga neðarlega í baki með leiðni út til vinstri. Það eru þreifieymsli hliðlægt í mjóbaki vinstra megin, mest neðarlega aðallega yfir ileolumbal liðbandi. Ekki eymsli í vinstri rasskinn eða yfir setbeini. Mjaðmahreyfingar eðlilegar. Ganglimir jafnlangir. Taugaskoðun í ganglimum eðlileg.“

Um forsendur matsins segir svo:

„Að mati undirritaðs má vera ljóst að A hefur við slysið þann X hlotið áverka sem enn í dag valda honum óþægindum og líkamlegri færniskerðingu. Þar sem læknismeðferð og endurhæfingartilraunum telst lokið telst tímabært að leggja mat á varanlegt heilsutjón hans.

Við mat á orsakatengslum er lagt til grundvallar að fram kemur að ofanritaður hefur fyrri sögu um einkenni frá mjóbaki fyrir slysið. Við slysið sem var í X fær hann högg á vinstri rasskinn eftir fall. Var hann með slæma verki í rasskinn og var skoðaður á slysadeild. Þar var hann ekki í vinstri rasskinn en ekki sást neitt mar. Hann fékk ávísuð verkjalyf sem hann leysti ekki út úr apóteki. Það voru 3 heimsóknir til heimilislæknis haustið X vegna bakverkja. Hann leitaði til heimilislæknis í X á síðasta ári eða tæpum 5 árum eftir slysið með sögu um að hafa fengið tak í mjóbakið vikuna áður vegna átaks við vinnu. Við skoðun var hann stífur í mjóbaki og aumur paralumbalt meira vinstra megin, sérstaklega yfir ileolumbal liðbandi. Hann fékk ávísuð bólgueyðandi lyf og vöðvaslakandi lyf sem hann leysti ekki út úr apóteki.

Þegar litið er til allra gagna málsins, fyrri heilsufarssögu, eðli áverka þess sem hér er fjallað um og þeirrar staðreyndar að hann leitaði ekki til læknis á tímabilinu X til X vegna einkenna sem rekja hefði mátt til slyssins telur undirritaður að minni líkur en meiri séu á þvi að orsakatengsl séu til staðar milli slysaatburðar og þeirra óþæginda sem ofanritaður býr við í dag.“

Að mati D læknis teljast orsakatengsl ekki vera fyrir hendi milli slysatburðar og þeirra óþæginda sem kærandi býr við í dag.

Þá liggur fyrir matsgerð M bæklunarskurðlæknis og O lögmanns um umferðarslys kæranda X. Um læknisskoðun á matsfundi þann X segir:

„Samtalið fer fram á ensku. A gefur upp að hann X cm og X kg að þyngd. Hann kveðst vera rétthentur. Hann hreyfir sig eðlilega og klæðir sig eðlilega úr og í föt. Gangur er eðlilegur. Ekki er að sjá skekkjur eða staðbundnar rýrnanir. Við skoðun á hálshrygg vantar tvær fingurbreiddir að hann nái höku að bringu. Rétta er eðlileg. Snýr og hallar eðlilega og jafnt til beggja hliða. Hann er stirður við allar hreyfingar. Eymsli eru yfir háls og herðavöðvum en ekki yfir hryggjartindum. Skoðun axlarliða er eðlileg. Taugaskoðun handleggja er eðlileg. Við skoðun á brjósthrygg snýr hann jafnt til beggja hliða. Talsverð eymsli eru yfir vöðum á brjósthryggjarsvæði. Við skoðun lendhrygg vantar 30cm að hann nái fingrum að gólfi þegar hann beygir sig fram með beina ganglimi. Réttir eðlilega og hallar jafnt til beggja hliða. Ekki eymsli yfir vöðvum. Skoðun ganglima eðlileg.“

Í samantekt og niðurstöðu matsgerðarinnar segir:

„A lendir í hörðum árekstri fyrir einu og hálfu ári. Hann var farþegi og í öryggisbelti. Hann var skv. fyrirliggjandi gögnum áður frískur og ekki vitað til þess að hann hafi áður lent í slysi er leitt hafi til varanlegra afleiðinga. Hann leitar til Læknavaktarinnar daginn eftir slysið og kvartar um verki í höfði, hálsi og baki. Hann leitar síðar til heilsugæslunnar og teknar eru röntgenmyndir af háls- og brjósthrygg. Hann fór ekki í sjúkraþjálfun en hefur sjálfur verið að reyna minnka einkenni með eigin þjálfun. Hann er í dag með einkenni frá hálshrygg en einkum frá brjóstbaki. Einkenni þessi valda honum óþægindum í vinnu sérstaklega í kulda. Ekki er líklegt að frekari meðferð minnki þessi einkenni. Telja matsmenn orsakatengsl vera ljós milli slyssins og framangreindra einkenna. Umferðarslysið hafi sannanlega verið til þess fallið að valda slíkum einkennum, þau hafi verið staðreynd daginn eftir slys og hafa síðan reynst viðvarandi. Matsmenn telja ólíklegt að frekari meðferð muni skila árangri og að tímabært teljist að leggja mat á afleiðingar þess.“

Um varanlegan miska segir svo:

„Við mat á miska samkvæmt 4. grein skaðabótalaga skal litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola. Varanlegur miski skal metinn til stiga og skal miða við heilsufar tjónþola eins og það er þegar það er orðið stöðugt. Við mat á miska er lagt til grundvallar að um tognun á háls- og brjósthrygg sé að ræða. Með hliðsjón af miskatöflu Örorkunefndar telst miski hæfilega metin vegna slyssins X telst hæfilega metin 7 stig (liðir VI.A.a og b.)“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/ miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2020 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Fyrir liggur að kærandi var að […] þann X þegar hann rann og lenti á […]. Í slysinu fékk hann áverka á rasskinn og hnykk á bak. Í samskiptaseðli I læknis á Læknavaktinni, dags. X, segir að kærandi hafi meiðst þegar hann hafi verið að lyfta 14 til 20 kg. Kærandi á nokkrar komur til læknis um haustið X en síðan ekki fyrr en í X þegar hann kemur vegna taks í baki. Hann er skoðaður vegna matsgerðar D læknis 25. nóvember 2021 og svo síðar vegna matsgerðar E læknis 19. janúar 2022. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að vegna þess tímaferils sem er frá slysi X fram að skoðun 19. janúar 2022, þar sem eru önnur atvik sem geta valdið bakmeinum og auk þess mjög takmörkuð skráning, þá er ekki unnt að telja að orsakasamband sé milli slyssins X og einkenna sem sagt er frá og lýst árið 2022 eða síðar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því varanlega læknisfræðilega örorku kæranda eftir slysið enga vera.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 0% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 0% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum