Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 471/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 471/2020

Miðvikudaginn 20. janúar 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, dags. 29. september 2020, kærði A , til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. september 2020 á umsókn hans um heimilisuppbót.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um heimilisuppbót með umsókn, dags. 7. september 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. september 2020, var samþykkt að greiða kæranda uppbót vegna dvalar á X vegna tímabilsins 1. október 2020 til 1. apríl 2021. Kærandi sótti um heimilisuppbót á ný með umsókn 21. október 2020. Með bréfi til kæranda, dags. 30. október 2020, var kæranda tilkynnt um synjun á greiðslu heimilisuppbótar og stöðvun á greiðslu uppbótar vegna dvalar á X.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. september 2020. Með bréfi, dags. 30. september 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. nóvember 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að kærandi hafi sótt um heimilisuppbót hjá Tryggingastofnun en fengið uppbót vegna dvalar á X sem sé lægri upphæð á mánuði. Hann leigi herbergi á B og þar greiði hann 110.000 á mánuði. Ekkert aukalega sé innifalið í leiguverði nema aðgangur að eldhúsi og baðherbergi, þannig að hann sé ekki í sömu stöðu og aðrir öryrkjar sem leigi annars staðar. Þetta finnist honum mjög óréttlátt, bæturnar séu auðvitað mjög lágar og það muni um allt.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á umsókn um heimilisuppbót.

Í greinargerðinni segir að í umsókn um endurmat á örorkulífeyri frá 1. maí 2020 hafi verið óskað eftir greiðslu heimilisuppbótar og fylgt hafi með staðfesting um dvöl á B.

Með bréfi, dags. 29. apríl 2020, hafi verið samþykktar greiðslur uppbótar vegna húsaleigu fyrir tímabilið 1. maí 2020 til 30. apríl 2021. Ný umsókn um heimilisuppbót, dags. 7. september 2020, hafi borist ásamt staðfestingu um dvöl á B frá 1. september 2020. Með bréfi, dags. 15. september 2020, hafi verið samþykkt að greiða kæranda uppbót vegna dvalar á X frá 1. október 2020 til 1. apríl 2021.

Greiðslur uppbótar til kæranda hafi síðan verið leiðréttar með viðbótargreiðslum dagana 16. (fyrir september) og 30. október (fyrir maí - ágúst) þar sem ranglega hafi verið afgreidd uppbót vegna húsaleigu frá 1. maí til 30. september 2020 í stað uppbótar vegna dvalar á X.

Einnig hafi borist umsókn um heimilisuppbót, dags. 21. október 2020, ásamt húsaleigusamningi um kjallaraíbúð að C frá 1. september 2020. Kæranda var með bréfi, dags. 30. október 2020, tilkynnt um synjun á greiðslu heimilisuppbótar og jafnframt stöðvun á greiðslu uppbótar vegna dvalar á X frá 1. nóvember þar sem litið væri svo á að með umsókn um heimilisuppbót ásamt innsendum leigusamningi væri hann ekki lengur staðsettur á B. Ef aðstæður hans breytist geti hann sótt um uppbót vegna dvalar á X að nýju.

Samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Óskert heimilisuppbót örorkulífeyrisþega sé 52.073 kr. á mánuði og sé greiðslan staðgreiðsluskattskyld, þ.e. frá fjárhæðinni dragist 35,04% staðgreiðsla skatta (samkvæmt skattþrepi 1) af tekjum sem séu yfir 155.902 kr. á mánuði. Kærandi fái óskertar greiðslur örorkulífeyris, aldurstengdar örorkuuppbætur og tekjutryggingu og nemi þær greiðslur samtals 238.247 kr. á mánuði. Óskert heimilisuppbót að frádreginni staðgreiðslu skatta sé 33.827 kr. á mánuði.

Uppbót á lífeyri sé heimilt að greiða lífeyrisþega samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð vegna kostnaðar sem ekki fáist greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án hennar. Kostnaður sem komi til álita í þessu sambandi sé meðal annars húsaleigukostnaður sem falli utan húsaleigubóta og dvalarkostnaðar á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafi starfsleyfi frá ráðuneyti eða reki sambærilega starfsemi.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri geti hámark uppbótar vegna húsaleigu, sbr. 3. tölul. 9. gr. reglugerðarinnar, numið 50% af fjárhæð óskerts örorkulífeyris, þ.e. 50% af 48.108 kr., eða 24.054 kr. á mánuði.

Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar geti hámark uppbótar vegna dvalarkostnaðar á sambýlum og áfangaheimilum sem fengið hafi starfsleyfi frá ráðuneytið eða reki sambærilega starfsemi numið 80% af fjárhæð óskerts örorkulífeyris, þ.e. 80% af 48.108 kr., eða 38.486 kr. á mánuði.

Eins og áður sé fram komið hafi kærandi upphaflega fengið greidda uppbót vegna húsaleigu en greiðslurnar hafi verið hækkaðar vegna dvalar á X.

Samkvæmt 11. gr. reglugerðarinnar skuli uppbætur á lífeyri aldrei greiddar til lífeyrisþega sem eigi eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr. eða hafi heildartekjur yfir 2.929.579 kr. á ári (244.132 kr. á mánuði).

Samkvæmt 13. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 teljast uppbætur samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, þar á meðal uppbót vegna dvalar á X, ekki til tekna samkvæmt II. kafla þeirra laga. Það þýði að uppbótin sé ekki skattskyld og þar með sé ekki um frádrátt vegna staðgreiðslu skatta að ræða.

Við útreikning á uppbót á lífeyri samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð sé ekki reiknað með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, orlofs- og desemberuppbótum frá Tryggingastofnun ríkisins, aldurstengdri örorkuuppbót samkvæmt 21. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eða sérstakri uppbót til framfærslu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Einu tekjur kæranda sem hafi áhrif á útreikning uppbótar á lífeyri samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð séu því óskertur örorkulífeyrir (48.108 kr. á mánuði) og óskert tekjutrygging (154.058 kr. á mánuði), eða samtals 202.166 kr. á mánuði. Heildartekjur kæranda séu þannig undir tekjumörkum uppbótar á lífeyri samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.

Athygli kæranda sé vakin á því að ef ekki sé um neinar aðrar tekjur en greiðslur frá Tryggingastofnun að ræða sé örorkulífeyrir og tengdar greiðslur, að meðtalinni 80% uppbót á lífeyri vegna dvalar á X, samtals 312.361 kr. á mánuði og útborgaðar greiðslur nemi 271.023 kr., að frádreginni staðgreiðslu skatta. Ef heimilisuppbót sé greidd séu mánaðarlegar greiðslur frá Tryggingastofnun samtals 321.678. kr. á mánuði og útborgaðar greiðslur nemi 263.590 kr. á mánuði.

Þrátt fyrir að heildargreiðslur frá Tryggingastofnun séu hærri með heimilisuppbót séu útborgaðar greiðslur þannig 7.433 kr. hærri ef uppbót vegna dvalar á X sé greidd þar sem heimilisuppbót og sérstök uppbót eru staðgreiðsluskyldar greiðslur en uppbót vegna dvalar á X ekki.

Tryggingastofnun telur að synjun á greiðslu heimilisuppbótar hafi verið rétt ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. september 2020 á umsókn kæranda um heimilisuppbót. Með framangreindri afgreiðslu var samþykkt að veita kæranda uppbót vegna dvalar á X. Í því felst að kæranda var synjað um heimilisuppbót.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Í 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri er fjallað nánar um fjárhagslegt hagræði og hljóðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar svo:

„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:

  1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.
  2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
  3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Samkvæmt gögnum málsins bjó kærandi á B þegar hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar var tekin. Í kæru kemur fram að kærandi leigi herbergi hjá X og því fylgi aðgangur að eldhúsi og baðherbergi. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af framangreindu að kærandi njóti fjárhagslegs hagræðis af samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu, meðal annars sameiginlegrar eldunaraðstöðu, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð og 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um heimilisuppbót, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta