Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 74/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 74/2024

Miðvikudaginn 24. apríl 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 12. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. desember 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri en meta henni örorkustyrk tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 28. september 2023. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. desember 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að skilyrði staðals væru ekki uppfyllt. Kæranda var aftur á móti metinn örorkustyrkur með gildistíma frá 1. október 2023 til 31. janúar 2026.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. febrúar 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. febrúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé niðurstaða Tryggingastofnunar um að hafna umsókn kæranda um örorkulífeyri. Kærandi hafi ekki haft starfsgetu síðan í desember 2021 vegna þreytu, verkja, vefjagigtar og þunglyndis. Kærandi hafi verið hjá VIRK, Þraut og nú síðast hjá Reykjalundi í september 2024 þar sem niðurstaðan hafi verið sú að endurhæfing væri fullreynd. Heimilislæknir kæranda sé einnig sama sinnis. Kærandi hafi reynt öll þau úrræði sem hafi verið boðin og hafi stundað þau vel en alltaf sé niðurstaðan sú að kærandi sé óvinnufær. Farið sé fram á endurmat.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. desember 2023, þar sem umsókn um örorkulífeyri hafi verið synjað en örorkustyrkur hafi verið veittur. Tryggingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðum fyrir greiðslu örorkulífeyris hafi ekki verið fullnægt og hafi umsókn kæranda því verið meðhöndluð sem umsókn um örorkustyrk.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilegum viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð um örorkumat nr. 379/1999 sem sett sé með skýrri lagastoð. Honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá 15 stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann hafi verið ákveðinn.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 27. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat sé heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, þ.e. utan örorkustaðals, ef tryggingayfirlæknir telji sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt í ljósi þess að 25. gr. laga um almannatryggingar mæli fyrir um staðlað mat og eins samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Í 45. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, um þau gögn sem þurfi að fylgja með umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri til Tryggingastofnunar með umsókn 28. september 2023 sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 19. desember 2023. Með vísan til læknisfræðilegra gagna hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðum fyrir greiðslu örorkulífeyris hafi ekki verið fullnægt og því hafi umsókn kæranda verið meðhöndluð sem umsókn um örorkustyrk.

Á grundvelli skýrslu sem tekin hafi verið saman í tilefni viðtals og skoðunar hjá álitslækni Tryggingastofnunar og annarra gagna hafi kærandi fengið sex stig í líkamlega hlutanum og ekkert stig í þeim andlega. Það nægi ekki til að uppfylla skilyrði til greiðslu örorkulífeyris og því hafi örorkustyrkur verið ákvarðaður í stað örorkulífeyris þar sem færni til almennra starfa hafi verið talin skert að hluta. Gildistími örorkumats hafi verið ákveðinn frá 1. október 2023 til 31. janúar 2026.

Við mat á örorku hafi legið fyrir umsókn, dags. 28. september 2023, spurningalisti, dags. 28. september 2023, læknisvottorð, dags. [20]. nóvember 2023, starfsgetumat, dags. 4. desember 2023, og skoðunarskýrsla, dags. 15. desember 2023.

Kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyri á eftirtöldum tímabilum: 1. júlí 2022 til 30. september 2022, 1. október til 31. október 2022, 1. nóvember 2022 til 31. mars 2023 og 1. apríl 2023 til 30. september 2023.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 20. nóvember 2023, og því sem fram kemur í skoðunarskýrslu læknis, dags. 15. desember 2023.

Varðandi mat á örorkulífeyri hjá kæranda hafi á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis líkamleg færniskerðing verið metin til sex stiga samtals og hafi andlegi þátturinn ekki verið metinn til stiga. Það nægi ekki til þess að uppfylla þau skilyrði sem sett séu fram í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999. Hins vegar hafi skilyrði til greiðslu örorkustyrks verið talin vera fyrir hendi, sbr. ákvæði í 27. gr. laga um almannatryggingar, en hann sé greiddur þeim einstaklingum sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Þau lagaskilyrði sem sett séu fram í lögum og reglugerðum fyrir greiðslum á örorkulífeyri hafi ekki verið talin vera fyrir hendi, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat, og því hafi umsókn kæranda verið meðhöndluð sem umsókn um örorkustyrk. Bent skuli á það að umsækjendur um örorkulífeyri þurfi að uppfylla skilyrði örorkustaðalsins til að geta átt rétt til örorkulífeyris óháð því hvort þeir hafi verið metnir óvinnufærir eða ekki.

Að áliti Tryggingastofnunar hafi læknisfræðileg skilyrði til greiðslu örorkulífeyris verið metin réttilega með viðtali og skoðun og öðrum gögnum. Við mat á örorku hjá kæranda hafi ekki verið forsendur til að bæta við stigum umfram það sem skýrsla skoðunarlæknis og önnur gögn hafi gefið tilefni til.

Með vísan til alls framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og ákvarða áframhaldandi greiðslu á örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

V.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri en meta henni örorkustyrk vegna tímabilsins 1. október 2023 til 31. janúar 2026. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eru greiðslur örorkulífeyris bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 20. nóvember 2023. Í vottorðinu er greint frá sjúkdómsgreiningunni „Fibromyalgia“, þ.e. vefjagigt. Um fyrra heilsufar segir:

„Verið of þung frá því hún var ung og mikið gert og reynt til að léttast en hefur samt með árunum bara þyngst. Er nú á Ozempic vegna þessa. Er með þekkt vélindabakflæði og er nýlega greind með B12 skort. Gekkst undir hysterectomiu fyrir 2 árum vegna menorrhagiu.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir:

„Á meðgöngu fyrir X árum fór að bera á dreifðum verkjum, stirðleika og almennri þreytu. Þessi einkenni fóru versnandi að lokinni meðgöngunni. Greind með vefjagikt af giktarlækni 2019. Verið heilmikið hjá sjúkraþjálfara og haft eitthvert gagn af. Gekk í gegnum 6 vikna endurhæfingu hjá Þraut á 12 vikna tímabili í nóv. 2020 - jan. 2021, stundaði hana vel og hafði eitthvert gagn af. Var lengi í 50% vinnu í banka en treysti sér ekki til að halda áfram haustið 2021, buguð, þreytt og með sífellda verki. Visað til VIRK haustið 2021 og var í prógrammi á þeirra vegum þann vetur en svo útskrifuð þaðan í október 2022, enn óvinnufær. Var þunglynd um tíma og fékk viðtöl hjá sálfræðingi hjá geðteymi C. Líður síðan mun betur andlega en er enn verkjuð og hefur ekki starfsþrek. Fékk loks endurhæfingu á Reykjalundi í ágúst og september. Við útskrift þaðan var það samhljóða mat endurhæfingarteymis að endurhæfing væri fullreynd. Lyf núna: Ibufen og panodil pn, Ozempic, Esomeprazpol 20 mg x1 “

Í lýsingu læknisskoðunar segir:

„Of þung, 93 kg en 162 cm. Þreytuleg en geðslag þó hlutlaust núna. Hvergi merkjanlegar liðbólgur en víða mikil eymsli í vöðvum og vöðvafestum. Hjarta- og lungnahlustun eðlileg. BÞ 122/84.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. desember 2021 og að ekki megi búast við að færni aukist. Í áliti læknis um vinnufærni segir:

„Endurhæfing fullreynd“

Meðal gagna málsins er einnig læknisvottorð B, dags. 28. júní 2022, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri. Vottorðið er að mestu samhljóða framangreindu vottorði hans, dags. 20. nóvember 2023, ef frá er talin sjúkdómsgreiningin þunglyndi ásamt vefjagigt.

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 18. október 2022, kemur fram að meginástæða óvinufærni sé gigt.

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að um sé að ræða vefjagigt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún getið ekki setið í langan tíma vegna verkja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að ef hún standi lengi verði hún verkjuð og stirð. Kærandi svarar neitandi spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga en að það fari þó eftir dagsformi hvað hún geti gengið langt, hún geti orðið þreytt við langa göngu. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga neitandi en ef hún þurfi að ganga lengi upp og niður stiga klári hún orkuna og eigi erfitt með það. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að nota hendurnar þannig að hún eigi erfitt með að lyfta mikið fyrir ofan axlir og hún geti ekki haldið á þungu nema í stutta stund. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi erfitt með að lyfta og bera þannig að hún geti hvorki borið né lyft þungum hlutum. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hana þannig að hún noti væg lesgleraugu. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða játandi.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 15. desember 2023. Samkvæmt skýrslunni metur skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún geti stundum ekki setið meira en tvær klukkustundir. Að mati skoðunarlæknis getur kærandi ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Að mati skoðunarlæknis getur kærandi ekki gengið upp og niður á milli hæða án þess að halda sér. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir kæranda ekki búa við andlega færniskerðingu. 

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Saga um þunglyndi áður en ekki lengi. Telur sig vera í góðu andlegu jafnvægi og passar það við mynd skoðunarlæknis af umsækjanda.“

Skoðunarlæknir lýsir atferli kæranda svo í skoðunarskýrslunni:

„Snyrtileg. Kemur vel fyrir. Kurteis. Gott samband og svörun.

Góð áttun. Minni og einbeiting í lagi. Heldur athygli. Ekki merki um þráhyggju.

Grunnstemning hlutlaus. Sjálfsmat eðlilegt“

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Er 90 kg og 163 sm. Hreyfingar almennt mjög liprar og sársaukalausar. Göngulag eðlilegt. Situr eðlilega. Stendur upp án þess að styðja sig við. Getur staðið á tám og hælum. Sest niður á hækjur sér. Kemst með fingur að tám við framsveigju. Axlir með eðlilega hreyfiferla.“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„Fer á fætur um kl. 7. Kemur börnum í skólann. Sefur ekki vel vegna verkja. Leggur sig ekki á daginn. Fer út daglega. Gengur eitthvað en fremur lítið. Fer í ræktina í E vikulega, keyrir í 20 mínútur. Var í sjúkraþjálfun þangað til hún útskrifaðist af Reykjalundi. Keyrir bíl. Gerir ekki æfingar heima. Engin handavinna. Aldrei unnið við það. Les lítið. Eyrir ekki við það. Hlustar ekki á neitt. Helstu áhugamál: Hreyfing. Fjallgöngur. […]. Kaupir í matinn, eldar oftast, sér um þvotta, þrífur í kringum þau. Fer í sturtu og skiptir um föt. Fer og hittir fólk, ekki félagsfælin.“

Í athugasemdum segir:

„X ára kona með sögu um vefjagigtarlík einkenni. Offita (BMI=34), er vafalítið eitt aðalvandamálið. Færniskerðing hennar er væg líkamleg en engin andleg. Samræmi er milli fyrirliggjandi gagna og þess sem fram kemur á skoðunarfundi.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið meira en tvær klukkustundir. Slíkt gefur ekki stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki gengið upp og niður milli hæða án þess að halda sér. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga samtals. Samkvæmt skoðunarskýrslu glímir kærandi ekki við andlega færniskerðingu.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er þó heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 25. gr. laga um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að misræmis gæti í gögnum málsins varðandi mat á andlegri færni kæranda.

Samkvæmt skoðunarskýrslu er það mat skoðunarlæknis að svefnvandamál hafi ekki áhrif á dagleg störf kæranda með þeim rökstuðningi að hún eigi að jafnaði ekki erfitt með svefn. Í rökstuðningi skoðunarlæknis fyrir þeirri niðurstöðu segir að kærandi sofi vel og sé ekki í starfi. Aftur á móti greinir skoðunarlæknir frá því í lýsingu á dæmigerðum degi að kærandi sofi ekki vel vegna verkja. Það er mat úrskurðarnefndar að framangreint gefi til kynna að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Ef fallist yrði á það fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt staðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Í rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu segir að kærandi hlusti á útvarp og lesi blöð og bækur og að hún muni nokkurn veginn það sem hún lesi og hlusti á. Aftur á móti greinir skoðunarlæknir frá því í lýsingu á dæmigerðum degi að kærandi lesi lítið, hún eyri ekki við það og auk þess hlusti hún ekki á neitt. Það er mat úrskurðarnefndar að framangreint gefi til kynna að kærandi geti ekki einbeitt sér a því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Ef fallist yrði á það fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt staðli. Þrátt fyrir að kæranda væri veitt stig fyrir þessi atriði myndi það hins vegar ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins þar sem að kærandi fengi einungis samtals tvö stig varðandi mat á andlegri færni samkvæmt staðlinum.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk sex sig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og gæti að hámarki fengið tvö stig úr þeim hluta staðals sem varðar andlega færni, uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. desember 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum