Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 220/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 220/2024

Miðvikudaginn 4. september 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 16. maí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. maí 2024 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri frá 1. febrúar 2024 með umsókn 26. febrúar 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. maí 2024, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að virk starfsendurhæfing undir handleiðslu fagaðila teldist vart vera í gangi og óljóst væri hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. maí 2024. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. júní 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. júní 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 20. júní 2024 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. júní 2024. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi skilji ekki af hverju Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki tekið gilda meðferðaráætlun sem hafi verið gerð með lækni. Það hafi verið starfsfólk hjá VIRK sem hafi ráðlagt kæranda að gera það. Kæranda finnist með ólíkindum að starfsmenn ríkisins skuli komast upp með það að brjóta lög ítrekað þegar sýslað sé með almannafé, en svo þegar einstaklingar þurfi aðstoð vegna tekjutaps sem hafi komið til vegna áfalla […], þá sé allt fundið til svo hægt sé að synja umsókn um endurhæfingarlífeyri. 

Kærandi sé gjörsamlega bugaður á líkama og sál. Það taki mikið á að þurfa að berjast hreinlega með kjafti og klóm til þess að fá þá framfærslu sem hann eigi rétt á. Kærandi hafi tvisvar fengið fjárhagsaðstoð frá B en hann hafi verið launalaus síðan í febrúar. Enginn eigi skilið svona framkomu, sérstaklega ekki fólk sem hafi þurft að ganga í gegnum allt það sem hann hafi og sé enn að ganga í gegnum.   

Í athugasemdum kæranda frá 20. júní 2024 kemur fram að kærandi hafi lent í ansi mörgum áföllum í gegnum árin. Líkt og Tryggingastofnun hafi minnst á í greinagerð hafi kærandi einnig þurft á endurhæfingu að halda árið 2020. Sú endurhæfing hafi skilað honum á ágætis stað í smá tíma, en hann hefði líklegast þurft að vera lengur í endurhæfingu.

[…]. Þeir viti það sem það hafi upplifað, hvað það sé að hafa hamlandi kvíða fyrir að fara út í búð, fyrir því að hitta fólk og fyrir því að fara út úr húsi.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi: „Samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð er skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til  launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum.“ Spurt sé hver þessi framkvæmdaraðili sé og hvernig hinn sami geti lagt mat á það hvort það að mæta í ræktina eða sund sé ekki endurhæfing í hans tilfelli. Kærandi eigi oft mjög erfitt með að fara út úr húsi.

Tryggingstofnun segi: „Í 5 gr. reglugerðar nr. 661/2020 kemur fram að endurhæfingaráætlun skuli ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skuli við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni.“

Það að liggja upp í rúmi heilu dagana og næturnar vegna kvíða og þunglyndis, auki ekki starfsorku neins eða heilsu. Það að fara út og mæta í ræktina og/eða sund sé eitthvað sem stuðli að aukinni almennri orku og betri heilsu sem að lokum leiði til betri starfshæfni.

Kærandi hafi ekki verið með miklar tekjur á árinu. Kæranda sé ómögulegt að skilja af hverju þetta ferli þurfi að vera svona, Tryggingastofnun taki sér mjög langan tíma til að óska eftir gögnum.

Kærandi hafi ekki haft nein úrræði til þess að bóka tíma hjá sálfræðingi, enginn auka peningur sé til. Ef kærandi væri byrjaður að fá endurhæfingarlífeyrir hefði hann hugsanlega getað bókað tíma og greitt fyrir þá, þar að segja ef hann hefði fengið tíma strax.

Kærandi hafi verið samþykktur í endurhæfingu hjá VIRK í mars á þessu ári. Þar sem biðtíminn hjá þeim sé ansi langur hafi honum verið ráðlagt af ráðgjafa í síma að halda sig við líkamsræktina og sundið á meðan beðið væri eftir ráðgjafa. Kærandi hafi hringt nokkrum sinnum til VIRK og talað við ráðgjafa.

Kærandi viti ekki betur en að Tryggingastofnun og VIRK, séu að öllu og að hluta til í eigu ríkisins. Þessi mikli biðtími hjá VIRK stafi af mikilli aukningu umsækjanda. Kærandi spyr hvort ekki væri betra að ráða inn fleira fólk svo hægt sé að stytta þessa biðtíma.

Í greinargerð Tryggingstofnunar segi:

„Í 6. gr. reglugerðarinnar segir að endurhæfingaráætlun skuli unnin af heilbrigðismenntuðum fagaðila, svo sem lækni, sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa, sálfræðingi, iðjuþjálfara eða hjúkrunarfræðingi í samvinnu við umsækjanda um endurhæfingarlífeyri hverju sinni. Þá segir í 3. mgr. að starfandi heilbrigðismenntaður fagaðili, sbr. 1. mgr., eða fagaðili skv. 2. mgr., skal hafa umsjón meðendurhæfingu umsækjanda og að endurhæfingaráætlun sé fylgt. Tryggingastofnun metur hvort tiltekinn fagaðili teljist viðeigandi aðili hverju sinni.“

Spurt sé hvort læknirinn sem hafi hjálpað kæranda við gerð endurhæfingaráætlunarinnar sé ekki heilbrigðismenntaður fagaðili.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun endurhæfingarlífeyris til kæranda.

Kveðið sé á um endurhæfingarlífeyri í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 18/2023. Í 1. mgr. 7. gr. segi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36  mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt síðustu 12 mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í 2. mgr. 7. gr. sé að finna heimild til að framlengja greiðslutímabil að vissu skilyrði uppfylltu:

„Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda  sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Nánar sé kveðið á um endurhæfingarlífeyri í reglugerð nr. 661/2020, þar sem segi til dæmis í 3. gr. varðandi mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á að hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr. ,þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris sé fjallað um í reglugerðinni. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá sé tiltekið í 6. gr. hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar og í 8. gr. komi fram að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að greiðsluþegi sinni endurhæfingu sinni, að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Tryggingastofnun hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í framangreindri 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé skýrt kveðið á um að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi fengið samþykktan endurhæfingarlífeyri fyrir nokkur tímabil frá árinu 2001, n.t.t. frá 1. júní 2001 til 1. ágúst 2002, 1. nóvember 2003 til 1. október 2004, 1. október 2007 til 1. október 2008 og 1. nóvember 2020 til 1. september 2021. Kæranda hafi verið synjað um endurhæfingarlífeyri með mati, dags. 2. maí 2024, þar sem virk endurhæfing taldist vart hafa verið í gangi. Í umsókn kæranda hafi verið óskað eftir að endurhæfingartímabil hefðist 1. febrúar 2024, eins og í kæru.

Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri þann 2. maí 2024 hafi legið fyrir umsókn, dags. 26. febrúar 2024, læknisvottorð sem hafi innihaldið endurhæfingaráætlun, dags. 26. febrúar 2024, staðfesting frá Sjúkrasjóði VR, dags. 7. mars 2024, staðfesting frá Vinnumálastofnun, dags. 7. mars 2024, staðfesting frá VIRK, dags. 25. mars 2024, og staðfesting frá C, móttekinni 28. mars 2024.

Í læknisvottorði komi fram að vandi kæranda sé kvíði og áfall. Hann eigi mikla áfalla- og neyslusögu en sé búinn að vera edrú í fleiri ár. Fram komi að kærandi hafi dottið út af vinnumarkaði árið 2018. Þá hafi hann unnið við D fyrir túrista og hafi orðið fyrir áfalli í þeirri vinnu sem hafi haft mikil áhrif á hann. Hann hafi leitað sér hjálpar og meðal annars farið í VIRK og til sálfræðings. Hann hafi fundið mun á líðan en hafi aldrei farið í fasta vinnu en hafi meðal annars sinnt verktakavinnu […]. […]. Hann sé nú kominn með fasta búsetu á E og hafi áhuga á að vinna betur í sínum málum og hafi sjálfur óskað eftir tilvísun í VIRK, sem þegar hafi verið send.

Í endurhæfingaráætlun sem komi fram í læknisvottorði sé gert ráð fyrir að endurhæfing samanstandi af eftirfarandi: „Kærandi ætli að mæta í líkamsrækt […] 3x í viku og sund tvisvar sinnum í viku. Búið er að senda umsókn um sálfræðiaðstoð á heilsugæslu en það sé langur biðlisti og að búið sé að sækja um hjá VIRK. Einnig verði kærandi í eftirfylgd heimilislæknis á 3 mánaða fresti. Tímabil starfsendurhæfingar sé 26. febrúar 2024 til 26. maí 2024.“ Í gögnum komi fram að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum úr sjúkrasjóði VR og að kærandi sé ekki á skrá hjá Vinnumálastofnun og þiggi ekki atvinnuleysisbætur. Í staðgreiðsluskrá RSK komi ekki fram tekjur frá árinu 2021 þegar kærandi hafi síðast verið að þiggja greiðslur endurhæfingarlífeyris.

Í staðfestingu frá VIRK komi fram að beiðni hafi verið tekin fyrir 11. mars 2024 og að kærandi sé á biðlista og í staðfestingu frá C komi fram að kærandi hafi verið skráður á biðlista síðan 19. mars 2024.

Samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum. Í 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020 komi fram að endurhæfingaráætlun skuli ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem valdi skertri starfshæfni hans. Leitast skuli við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Í framangreindri 5. gr. komi einnig fram að Tryggingastofnun skuli leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð sé grein fyrir í endurhæfingaráætlun, þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.

Í 6. gr. reglugerðarinnar segi að endurhæfingaráætlun skuli unnin af heilbrigðismenntuðum fagaðila, svo sem lækni, sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa, sálfræðingi, iðjuþjálfara eða hjúkrunarfræðingi í samvinnu við umsækjanda um endurhæfingarlífeyri hverju sinni. Þá segi í 3. mgr. að starfandi heilbrigðismenntaður fagaðili, sbr. 1. mgr., eða fagaðili samkvæmt 2. mgr., skuli hafa umsjón með endurhæfingu umsækjanda og að endurhæfingaráætlun sé fylgt. Tryggingastofnun meti hvort tiltekinn fagaðili teljist viðeigandi aðili hverju sinni.

Það sé mat Tryggingastofnunar, samkvæmt endurhæfingaráætlun og þeim staðfestingum sem hafi legið fyrir, að skipulögð starfsendurhæfing undir handleiðslu fagaðila þar sem tekið sé markvisst á heildarvanda kæranda hafi ekki verið hafin á umsóttu tímabili. Það sé mat stofnunarinnar að mætingar í líkamsrækt og sund teljist vera á eigin vegum án aðkomu fagaðila og geti verið stuðningur við skipulagða endurhæfingu. Í gögnum málsins komi fram að fyrirhuguð séu ýmis úrræði sem geti verið forsenda endurhæfingarlífeyris en þau úrræði hafi ekki verið hafin og óvíst hvort þau komi til með að hefjast eins og til dæmis sjúkraþjálfun, sálfræðiviðtöl og starfsendurhæfing hjá VIRK. Í úrskurðarbréfi komi fram að hefjist þau, eða önnur viðeigandi, úrræði þá sé hægt að óska eftir endurskoðun á þessari ákvörðun, frá þeim tímapunkti sem virk og skipulögð endurhæfing undir handleiðslu fagaðila teljist hafin. Einnig komi fram að ef þessar breytingar verði þá hafi kærandi verið hvattur til að hafa samband sem fyrst. Einnig hafi kæranda verið bent á að athuga með rétt sinn til tímabundins stuðnings […] í B […].

Samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með það að markmiði að stuðla að aukinni starfshæfni einstaklings. Endurhæfingarlífeyrir taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu þar sem tekið sé á þeim heilsufarsvanda sem valdi óvinnufærni með áherslu á endurkomu á vinnumarkað og með utanumhaldi fagaðila. Í ljósi þeirra gagna sem hafi legið fyrir þá hafi Tryggingastofnun ekki verið heimilt að meta greiðslur endurhæfingarlífeyris frá 1. febrúar 2024 þar sem virk endurhæfing hafi ekki verið í gangi á þeim tíma með utanumhaldi fagaðila. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni eða endurhæfing á eigum vegum án aðkomu fagaðila. Skýrt sé í lögum að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. Því hafi verið álitið að skilyrði 7. gr. áðurnefndra laga hafi ekki verið uppfyllt.

Tryggingastofnun telji ljóst að ákvörðun stofnunarinnar um synjun á greiðslu endurhæfingarlífeyris til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar, lög um félagslega aðstoð og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri. Ágreiningur máls þessa snýr að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í 2. mgr. ákvæðisins segir að heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila.

Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð hefur verið sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingar­áætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingar­innar.“

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:

„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heild­stætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu upp­fyllt.“

Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt framangreindu bundin ákveðnum skilyrðum. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort þau skilyrði séu uppfyllt.

Fyrir liggur í málinu læknisvottorð F, dags. 26. febrúar 2024, þar sem koma fram sjúkdómsgreiningarnar kvíði og áfall. Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:

„X ára maður með áfallasögu. Hefur að sögn verið edrú í fleiri ár en áður glímt við alkóhólisma og morfínfíkn. Segist hafa verið sprautufíkill í X ár en komst út úr því. Datt út af vinnumarkaði 2018 en þá vann hann við D […]. Hafði mikil áhrif á hann. Leitaði sér hjálpar, fór meðal annars í VIRK og fór til sálfræðings. Fann mun á líðan en fór aldrei í fasta vinnu. Konan hans á [fyrirtæki]. Hefur sinnt verktakavinnu m.a. þar. Hafa búið í B og […] hafa þau misst heimilið sitt og er óljóst hvað verður um […]. Eru nú komin með fasta búsetu á E. Hefur áhuga á að vinna betur í sínum málum og hefur sjálfur óskað eftir tilvísun í VIRK sem annar læknir hér á heilsugæslunni sótti um 23.1. 2024.“

Í samantekt segir:

„Núverandi vinnufærni: Er lærður D en hefur ekki áhuga á vinnu við það.

Framtíðar vinnufærni: Hefur sinnt verktakavinnu m.a. við að keyra […].

Samantekt: X ára maður með mikla áfallasögu. Hefur ekki verið á vinnumarkaði í fleiri ár. Nú hafa aðstæður heima breyst og óljóst með tekjur eiginkonu sem hefur séð fyrir þeim. Hefur áhuga á endurhæfingu.“

Í tillögu að endurhæfingu, sem áætlað er að standi yfir í þrjá mánuði, segir varðandi markmið og tilgang endurhæfingar:

„Skammtíma- og langtímamarkmið með starfhæfni að markmiði: -Ná tökum á kvíða og andlegri vanlíðan-Langtíma: Komast í fast starf.“

Í greinargerð endurhæfingaraðila segir:

„Býr með eiginkonu. Eitt barn á heimilinu, X ára. Eiga X börn samtals, X saman. Kona hans á [fyrirtæki] en óljóst hvað verður um það[…].“

Endurhæfingaráætlunin er svohljóðandi:

„-Líkamsrækt 3x í viku, klukkutíma í senn. Ætlar að mæta í World class […] -Sund 2x í viku, klukkutíma í senn. Sundlaugin E. -Fær umsókn um sálfræðiaðstoð á heilsugæslu, langur biðlist. -Búið að sækja um Virk, ekki komin með tíma í fyrsta viðtal. -Eftirfylgd heilsugæslulæknis á 3mánaða fresti.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að tímabil starfsendurhæfinger sé 26. febrúar 2024 til 26. maí 2024 og að áætlað sé að kærandi fari til vinnu á almennum vinnumarkaði 2025.

Meðal gagna málsins er staðfesting frá VIRK, dags. 25. mars 2024, þar sem fram kemur að 11. mars 2024 hafi beiðni verið vísað áfram til ráðgjafa VIRK á G og að bið eftir fyrsta viðtali geti verið um sex til átta vikur. Auk þess liggur fyrir ódagsett staðfesting frá C þess efnis að kærandi hafi verið skráður á biðlista í sjúkraþjálfun síðan 19. mars 2024.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort skilyrði greiðslna endurhæfingarlífeyris séu uppfyllt í tilviki kæranda. Í kærðri ákvörðun Tryggingastofnunar segir að ekki hafi þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem  virk starfsendurhæfing undir handleiðslu fagaðila taldist vart vera hafin.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að kærandi glími við andlega færniskerðingu sem orsaki skerta vinnugetu. Samkvæmt endurhæfingaráætlun fólst endurhæfing kæranda í klukkutíma líkamsrækt þrisvar í viku og klukkutíma sundi tvisvar í viku. Þá kemur fram að kærandi sé á biðlista eftir sálfræðiaðstoð á heilsugæslu og viðtali hjá VIRK. Auk þess liggur fyrir að kærandi er á biðlista eftir að komast í sjúkraþjálfun.

Það er mat úrskurðarnefndar að endurhæfing kæranda hafi hvorki verið nægjanlega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð gerir kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð séu ekki uppfyllt. Hvorki í lögum um félagslega aðstoð né í reglugerð nr. 661/2020 er kveðið á um undantekningu frá því skilyrði að umsækjandi um endurhæfingarlífeyri taki þátt í fullnægjandi endurhæfingu með starfshæfni að markmiði með vísan til biðlista.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta