Mál nr. 648/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 648/2024
Miðvikudaginn 19. febrúar 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 11. desember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. desember 2024 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 29. nóvember 2024. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 10. desember 2024, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. desember 2024. Með bréfi, dags. 12. desember 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. desember 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. desember 2024. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda 30. desember 2024, 7. janúar 2025 og 12. febrúar 2025 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfum úrskurðarnefndar, dags. 8. janúar 2025 og 18. febrúar 2025. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi verið í endurhæfingu í nokkur ár og sé í dag mun verri en hann hafi verið í upphafi endurhæfingar. Kærandi hafi sótt um tímabundna örorku en Tryggingastofnun ríkisins hafi hafnað umsókninni vegna þess að endurhæfingu hafi ekki verið fullreynd sem sé ekki rétt.
Í athugasemdum kæranda frá 30. desember 2024 kemur fram að frá árinu 2020 hafi hann hafi verið í gagnslausri endurhæfingu. Tryggingastofnun hafi ekki tekið tillit til alls þess sem kærandi hafi verið að gera til að reyna að ná bata. Sund, göngutúrar, yoga, teygjur, hnykk hjá kírópraktor, bakrúlla til að smella bakinu lausu, hálskragi, bakbelti og fleira. Kærandi eigi nógu erfitt með daglegt líf, hann sé verkjaður allan daginn frá því þegar hann vakni þar til að hann sofni. Það komi ekki til greina að eyða einni klukkustund lengur í endurhæfingu, enda hafi það verið fullreynt fyrir löngu.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 10. desember 2024, um að synja kæranda um örorkumat. Kæranda hafi verið synjað um örorkumat á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.
Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, þeim sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur skv. 2. mgr. 25. gr. laganna.
Heimilt sé þó að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar, 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.
Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. fyrrnefndrar greinar segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir slys eða sjúkdóma. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð um allt að 24 mánuði, enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.
Málavextir séu þeir að kærandi hafi fengið metna samtals 26 mánuði af endurhæfingarlífeyri á árunum 2020–2024.
Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 29. nóvember 2024, meðfylgjandi henni hafi verið læknisvottorð, dags. 25. nóvember 2024, og spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 29. nóvember 2024.
Kæranda hafi verið synjað um örorkumat með ákvörðun, dags. 10. desember 2024, þar sem talið hafi verið að endurhæfing væri ekki fullreynd, sú ákvörðun hafi verið kærð 11. desember 2024.
Kæranda hafi stuttu áður verið synjað um endurhæfingarlífeyri, n.t.t. í nóvember 2024, sbr. bréf Tryggingastofnunar, dags. 11. nóvember 2024.
Við mat á örorku sé stuðst við þau gögn sem liggi fyrir. Með umsókn um örorkulífeyri, dags. 29. nóvember 2024, hafi fylgt læknisvottorð, dags. 25. nóvember 2024, og spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 29. nóvember 2024.
Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá sjúkdómsgreiningum og því sem fram kemur um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda í læknisvottorði, dags. 25. nóvember 2024.
Eins og fram hafi komið hafi kæranda verið synjað um mat á örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið talin fullreynd. Í bréfinu komi meðal annars fram:
,,Með bréfi dags. 11.11.2024 var synjað um endurhæfingarlífeyri á þeim forsendum að endurhæfingaráætlun væri ekki nógu ítarleg í ljósi heildarvanda. Fram koma upplýsingar um fjölþættan, líkamlegan og andlegan heilsuvanda. Upplýst er að andleg vanlíðan hafi áhrif á þátttöku í sjúkraþjálfun og sálfræðimeðferð virðist hafa orðið endaslepp. Að mati Tryggingastofnunar er meðferð/endurhæfing ekki fullreynd og telst þá ekki tímabært að taka afstöðu til örorku þinnar. Beiðni um örorkumat er því synjað.“
Tryggingastofnun vilji ítreka að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. almannatryggingalaga, 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.
Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarssögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem kærandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingstofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti þannig máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu rökstudd. Loks horfi stofnunin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.
Kæranda hafi verið synjað um mat á örorku á þeim grundvelli að endurhæfing hafi ekki verið talin fullreynd en stuttu áður hafði kærandi fengið synjun á endurhæfingu þar sem endurhæfingaráætlun hafi ekki verið talin nægilega ítarleg í ljósi heildarvanda. Kærandi hafi fengið metna 26 mánuði í endurhæfingu yfir fjögurra ára tímabil.
Í læknisvottorði sem hafi fylgt umsókn um endurhæfingu, dags. 18. janúar 2024, komi fram að áætluð tímalengd meðferðar sé 1,5 ár. Kærandi hafi fengið átta mánuði á árinu metna, n.t.t. 1. apríl 2024 til 30. júní 2024 og 1. júlí 2024 til 30. nóvember 2024. Út frá gögnum málsins sé ekkert sem bendi til að heilsufar kæranda hafi versnað frá læknisvottorði, dags. 18. janúar 2024. Í skýrslu sjúkraþjálfara sem hafi verið móttekin 19. júlí 2024, segi eftirfarandi: ,,A hefur verið í meðferð hjá B sjúkraþjálfara. Hann hefur ekki getað uppfyllt mætingar sem samsvara endurhæfingaráætlun vegna fjarveru bæði vegna veikinda og utanlandsferðar.“
Í almennu vottorði, dags. 18. júlí 2024, komi eftirfarandi fram: ,,Það vottast hér með að A komst ekki í sjúkraþjálfun eins oft og stendur í endurhæfingaráætlun vegna utanlandsferðar og veikinda 2 vikum fyrir utanlandsferð.“
Út frá fyrirliggjandi gögnum málsins, s.s. endurhæfingaráætlun, virðist sem að kærandi hafi ekki reynt á frekari úrræði en sjúkraþjálfun og sundæfingar þess á milli. Þá hafi kærandi verið að bíða eftir að komast að hjá sálfræðingi. Kæranda hafi verið synjað um örorkumat þar sem endurhæfing hafi ekki verið talin fullreynd. Telji Tryggingastofnun því rétt að reyna endurhæfingu á ný. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnum það vera í fullu samræmi við gögn málsins að hafna örorkumati í tilviki kæranda að svo stöddu.
Tryggingastofnun bendi á að í 1. gr. reglugerðar um örorkumat nr. 379/1999 segi að þeir sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eigi rétt á örorkulífeyri. Það sé því mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir örorkumati að svo stöddu, þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd og sé talið að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda til þess að auka vinnuhæfni.
Það skuli áréttað að hlutverk Tryggingstofnunar sé ekki að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði, heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.
Kærandi hafi áður kært synjun Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, sbr. úrskurð í máli nr. 513/2023, dags. 13. desember 2023, en þar hafi synjun Tryggingstofnunar verið staðfest þar sem endurhæfing hafi ekki verið talin fullreynd í tilfelli kæranda. Að mati Tryggingastofnunar hafi endurhæfing ekki verið talin fullreynd, þar sem vísað hafi verið til þess að kannabisneysla hafi hamlað endurhæfingu kæranda. Álitið hafi verið að grundvöllur væri fyrir því að halda áfram endurhæfingu áður en til örorkumats kæmi, þar sem að kærandi hafi tilgreint að hann væri hættur í kannabisneyslu. Í fyrrnefndum úrskurði sé vísað til læknisvottorðs frá C, dags. 30. mars 2023, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri. Þar komi fram að kærandi sé óvinnufær en geti öðlast vinnufærni með þverfaglegri aðstoð.
Að öllu framangreindu sé niðurstaða mats Tryggingastofnunar sú að endurhæfing kæranda hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt því mati uppfylli kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar um að viðeigandi endurhæfing skuli hafa verið fullreynd. Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Með endurhæfingarúrræðum sé í þessum skilningi átt við þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni.
Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að hafna umsókn hans um örorkulífeyri að svo stöddu, sé rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum. Ásamt fyrri sambærilegum fordæmum fyrir úrskurðarnefndinni þar sem staðfest hefur verið að Tryggingastofnun hafi heimild til þess að krefjast þess af umsækjendum um örorkulífeyri að þeir fullreyni fyrst öll þau úrræði sem þeim standa til boða áður en til örorkumats komi.
Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar frá 10. desember 2024 um að synja kæranda um mat á örorku.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. desember 2024, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eru greiðslur örorkulífeyris bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.
Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð segir:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt síðustu 12 mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“
Í læknisvottorði D, dags. 25. nóvember 2024, vegna umsóknar kæranda um örorkulífeyri er greint frá eftirfarand sjúkdómsgreiningum:
„ANDLEG VANLÍÐAN
ASTHMA, UNSPECIFIED
ATTENTION DEFICIT HYPERACTIVITY DISORDER
EINHVERFA
HYPOPITUITARISM
HÖFUÐVERKUR
ANNAR BAKVERKUR
LÍKAMLEG VANLÍÐAN“
Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir:
„1) löng saga um þunglyndi kvíða og félagsfælni. hefur prófað sertral, leið ekki vel á því, hefur ekki áhuga á þunglyndis og kvíðalyfjum sem stendur. Félagsfælnin kemur mest fram í samskiptum við vini og kunningja, þarf að mana sig upp í að mæta í veislur og samkomur, versnar mjög í verkjum við að fara í hittinga.
2) Er á einhverfurófi, greindist fyrir ca 3 árum síðan á vegum einhverfusamtakana. Finnst líf sitt ekki hafa breyst mikið eftir greininguna en hefur áttað sig á ýmsum hlutum sem hann telur að sé vegna einhverfunnar. Mikið um einhverfu í fjölskyldunni.
3) er með spondylolysu með olisthesu L5-S1. Voru plön um spengingu, en horfið burt frá þeim vegna möguleika á versnun á einkennum eftir aðgerð, krónískir bakverkir vegna þessa.
4) Er með adhd, er á elvanse 50 mg, var á adhd lyfjum fyrir 9 árum síðan og var á þeim í 2 ár, tók svo nokkurra ára pásu, byrjaði aftur á þeim fyrir ca 2 árum síðan. Líður betur andlega á adhd lyfjum en án þeirra
5) Tilhneiging til nýrasteina, blóðugt þvag í mörg ár. Fór í steinbrjót fyrir 3 árum síðan, Fannst aftur nýrnasteinar fyrir ári síðan. Er ekki undir föstu eftirlit, en á að hafa samband við lækni við blóðmygu eða verkjum í nýra.
6) Er með hækkað kólesteról og er á lyfjum við því og hefur verið í nokkur ár. Lipistad 20 mg ná að halda kólesteróli í skefjum. Frekar ungur til að byrja á kólestróllyfjum.
7) Er greindur með beinþynningu, verandi X ára karlmaður, tengist líklega brenglun á hormónaöxli.
8) Krónískir verki, móðir með gigt og systir með lúpus, á tíma hjá gigtarlækni á föstudaginn næstkomandi.
9) Veikist mjög auðveldlega, ef það eru einhverjar pestar að ganga þá tekur hann þær til sín. Versnar mikið í króníkum verkjum þegar hann veikist.
10) Hann er búinn að vera í endurhæfingu í mörg ár bæði í E og í sjúkraþjálfun í F. Hefur stundum gengið mjög illa að mæta vegna andlegar vanlíðanar og vegna félagskvíðans. Magnast verkirnir hjá honum því upp við það að fara í sjúkraþjálfunina í stað þess að hjálpa.
11) Hefur farið til sálfræðinga, segir að þeir hafi ekki treyst sér í að taka á öllum vandamálunum hans.
12) Fékk lipoma á bak, sem var fjarlægt fyrir um 3 árum síðan. Hefur ekki vaxið aftur, en fær stundum stingi á skurðsvæði.
13) Er með brenglun á hormónaöxli, líklegast eftir höfuðhögg sem ungur maður, og hefur það leitt að sér mörg af ofangreindum vandræðum, Hann er hjá innkirtlalækni og sér viðkomandi um lyfjagjöf fyrir hann. Reiknað er með að hann muni þurfa að taka vaxtarhormón til æviloka.
Hefur stunda sjúkraþjálfun eftir getu, en félagsfælni gerir það að verkum að hann er iðulega verri í verkjum eftir sjúkraþjálfun en fyrir hana.
Því ósk um tímabundna örorku.“
Í vottorðinu kemur fram að mat læknisins sé að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. janúar 2020 og að ekki megi búast við því að færni aukist. Í nánara áliti á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:
„Hefur verið óvinnufær til lengri, tíma, ekki er talið að endurhæfing muni bæta úr því á næstu árum, því ósk um tímabundna örorku.“
Undir rekstri málsins lagði kærandi fram göngudeildarnótu G læknis, dags. 29. nóvember 2024, þar er tilgreind sjúkdómsgreiningin „Fibromyalgia“. Í vottorðinu segir:
„X ára gamall maður sem ég sá fyrir tæpum 10 árum síðan. Hann hefur verið með dreifða verki og stirðleika, þreytu, svefntruflanir, ADHD einkenni og hefur glímt við kannabis fíkn. Hefur verið óvinnufær undanfarin ár.
Heilsufarssaga:
Það er saga um spondylolisthesu L5 S1 og vægt skrið, stóð til að spengja hann en hætt var við.Hann var með nýrnastein í vi. nýra sem gefur ekki lengur einkenni. Hefur lent í fjölmörgum áverkum eftir slagsmál og fleira.
Félagssaga:Býr í heimahúsi, ógiftur og barnlaus.
Lyf:Lipistad, Imovane, Melatonin, Elvanse og Coxerit p.n.
Skoðun:
Liðugur í hálsi og baki, með eðl. brjóstþan.
Liðstatus algjörlega eðlilegur. Dreifð festumein.
Hjarta og lungnahlustun eðlileg. Kviður er mjúkur.
Blþr. og púls innan marka.
Álit:
Ég tel að þessi maður sé með ástand eftir fjölmarga áverka og vefjagigt er líklegasta greiningin. Fer yfir gamlar rannsóknir og hann er ekki með nein merki um spondylit og ekki með slit í hrygg. Engin slitgigt í liðum heldur.
Blóðprufur allar eðl. og gigtarpróf neikvæð. Þannig vefjagigt. Óbreytt meðferð.
Eftirlit hjá heimilislækni hvað þetta varðar.“
Meðal gagna málsins eru gögn vegna umsókna kæranda um endurhæfingarlífeyri og gögn í kærumáli nr. 513/2023. Í læknisvottorði D, dags. 10. júní 2024, vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri segir um endurhæfingaráætlun að kærandi sé í sjúkraþjálfun tvisvar sinnum í viku og sundæfingum þess á milli en hann sé að bíða eftir að komast til sálfræðings.
Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, svaraði hann spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi bak, háls- og höfuðverki. Af svörum kæranda verður ráðið að hann eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir sökum verkja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann glími við geðræn vandamál með því að tilgreina ADHD, einhverfu, þunglyndi og kvíða.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda bent á reglur um endurhæfingarlífeyri.
Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af andlegum og líkamlegum toga. Í fyrrgreindu læknisvottorði D, dags. 25. nóvember 2024, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við því að færni aukist. Í vottorðinu kemur fram að sótt sé um tímabundna örorku þar sem hann sé búinn að vera óvinnufær til lengri tíma og ekki sé talið að endurhæfing muni bæta úr því á næstu árum. Í læknisvottorði D, dags. 10. júní 2024, er greint frá endurhæfingaráætlun kæranda.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að hvorki verði ráðið af þeim upplýsingum sem koma fram í framangreindum gögnum né af eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Þá liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í 26 mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 60 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á áframhaldandi endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. desember 2024, um að synja kæranda um örorkumat.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir