Mál nr. 115/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 115/2023
Miðvikudaginn 31. maí 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 24. febrúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um uppbót til reksturs bifreiðar frá 1. október 2020 með umsókn 19. september 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. nóvember 2022, var umsókn kæranda samþykkt vegna tímabilsins 1. október 2022 til 31. maí 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 1. mars 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. mars 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. mars 2023. Fylgigagn barst frá kæranda 19. apríl 2023 og var það sent Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. apríl 2023. Með bréfi, dags. 10. maí 2023, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. maí 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi krefjist afturvirkra greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar. Hann sé með meðfædda helftarlömun (cerebral palsy) og hafi ansi oft fellt sjálfan sig vegna göngulags. Hann hafi alla tíð þurft að reiða sig á ökutæki til að komast á milli staða. Í skýrslu skoðunarlæknis frá 2019 vegna umsóknar kæranda um styrk vegna reksturs bifreiðar hafi kærandi náð að „pína sig á þrjóskunni“ til að ganga 400 metra á mjög skertum tíma og hafi umsókn hans þess vegna verið synjað. Eftir það hafi hlutirnir farið versnandi með brjósklosi sem hafi gert það að verkum að það hafi verið vont að standa, sitja og liggja. Kærandi hafi ekki fengið viðtal við bæklunarlækni strax þar sem læknar vildu meina að sjúkraþjálfun væri ekki fullreynd, þrátt fyrir að hann hefði verið í sjúkraþjálfun meira eða minna frá því að hann hafi verið fjögurra ára gamall. Þar sem kærandi hafi ekki verið búinn að vera í samfelldri sjúkraþjálfun í nokkra mánuði hafi honum verið synjað. Svo hafi það gerst mörgum árum síðar, nánar tiltekið X 2021 þegar hann hafi vaknað að hann hafi ekki náð að hreyfa sig eða standa upp vegna brjóskloss og verkja. Hann hafi fengið aðstoð við að komast á fætur sem hafi tekið ansi langan tíma og valdið honum miklum og sárum kvölum. Kærandi hafi haft samband við 1700 og hafi honum verið sagt að fara beint á slysadeild G. Þar hafi kærandi verið lagður inn á bæklunardeild. Þann X 2021 hafi hann svo fengið að vita að það yrði gerð bráðaaðgerð á honum X 2021.
Kærandi hafi þurft að fara allar sínar ferðir akandi og hafi átt og eigi enn í stökustu vandræðum með að fara nema stuttan spöl gangandi á jafnsléttu. Frá því að kærandi hafi fengið bílpróf hafi hann þurft að fara akandi til sjúkraþjálfara tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Meðfæddri fötlun hans fylgi einnig margar heimsóknir á sjúkrastofnanir en þangað þurfi hann að fara akandi. Þá þurfi hann vegna fötlunar sinnar að nota bifreið við allar almennar ferðir.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á afturvirkni umsóknar um uppbót vegna reksturs bifreiðar, þ.e. frá 1. október 2020.
Kærandi hafi sótt um uppbót vegna reksturs bifreiðar samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra vegna bifreiða með umsókn, dags. 19. september 2022. Í umsókn hafi verið sótt um uppbót vegna reksturs bifreiðar og hafi verið óskað eftir greiðslum aftur í tímann, þ.e. frá 1. október 2020. Ákvörðun vegna uppbótarinnar hafi verið tekin þann 24. nóvember 2022 á grundvelli hreyfihömlunarmats, dags. 19. september 2022, þar sem greiðslutímabil vegna uppbótarinnar hafi verið samþykkt frá 1. október 2022 til 31. maí 2024. Í ákvörðuninni hafi einnig verið vakin athygli á því að með núgildandi hreyfihömlunarmati væru forsendur einnig uppfylltar til þess að kærandi gæti fengið uppbót/ styrk vegna kaupa á bifreið, en hann þyrfti að sækja sérstaklega um þá greiðslu með nýrri umsókn.
Kærandi hafi kært þá ákvörðun Tryggingastofnunar um að greiðslutímabil uppbótar vegna rekstrar bifreiðar næði ekki aftur til 1. október 2020 líkt og sótt hafi verið um.
Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á því að uppbót vegna reksturs bifreiðar nái afturvirkt til 1. október 2020, en ekki frá 1. október 2022 líkt og Tryggingastofnun hafi tekið ákvörðun um.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.
Í 4. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að við mat á þörf fyrir uppbætur og styrki samkvæmt reglugerðinni skuli fyrst og fremst líta á bifreið sem hjálpartæki hreyfihamlaðra. Meta skuli hvort umsækjandi þurfi nauðsynlega á bifreið að halda vegna hreyfihömlunar til að komast ferða sinna, einkum til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.
Við matið skuli einkum litið til eftirfarandi atriða:
„1. Hreyfihömlunar, þ.e. hvort mat sem staðfestir hreyfihömlun umsækjanda liggi fyrir.
2. Nauðsynjar bifreiðar, þ.e. hvort ótvírætt sé að hinum hreyfihamlaða sé nauðsynlegt að hafa bifreið.
3. Ökuréttinda, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður, sbr. þó 12. gr.
4. Ökuhæfni, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði eða skráður ökumaður sé fær um að aka viðkomandi bifreið.“
Í 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar. Samkvæmt greininni sé skilyrði að greiðsluþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og skuli sýnt fram á að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar. Þá sé einnig skilyrði að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar. Þó sé heimilt að greiða uppbót ef greiðsluþegi hafi bifreiðina á rekstrarleigu hjá viðurkenndum aðila.
Í orðskýringum 2. gr. reglugerðar nr. 905/2021 sé líkamleg hreyfihömlun skilgreind á þann hátt að átt sé við sjúkdóm eða fötlun sem skerði verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þá segi að þar sé fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma eða annars sambærilegs.
Þá segi í 13. gr. laga nr. 99/2007 að beita skuli V. og VI. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar við framkvæmd þessara laga. Í 4. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 segi að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.
Þau gögn sem hafi legið fyrir við ákvörðun málsins séu læknisvottorð vegna hreyfihömlunar, dags. 19. september 2022, skýrsla sjúkraþjálfara, dags. 25. september 2022, læknisvottorð vegna hreyfihömlunar, dags. 6. ágúst 2019, skoðunarskýrsla læknis, dags. 12. júní 2019, og umsókn vegna bifreiðamála, dags. 19. september 2022, ásamt eldri gögnum sem hafi verið til staðar hjá Tryggingastofnun.
Kærandi hafi sótt um uppbót vegna reksturs bifreiðar samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 með umsókn, dags. 19. september 2022. Samkvæmt umsókninni hafi kærandi sótt um afturvirkar greiðslur frá 1. október 2020.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. nóvember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að uppbót vegna reksturs bifreiðar hafi verið samþykkt. Gildistími hreyfihömlunarmats kæranda sé samkvæmt ákvörðuninni frá 1. október 2022 til 30. september 2026 og hafi greiðslutímabil uppbótarinnar verið ákveðið frá 1. október 2022 til 31. maí 2024.
Skilyrði hafi verið talin uppfyllt fyrir veitingu uppbótar vegna reksturs bifreiðar frá 1. október 2022 til 31. maí 2024 á þeim forsendum að göngugeta kæranda hafi verið og komi til með að vera undir 400 metrum á því tímabili. Við matið hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 19. september 2022, auk eldri gagna hjá Tryggingastofnun.
Í fyrrgreindu læknisvottorði, 19. september 2022, segi um sjúkdómsástand kæranda að hann sé greindur með Spastic hemiplegia (G81.1), Disc prolapse, other (M51) og áverka á hásin (S86.0). Um mat á göngugetu kæranda komi fram í læknisvottorðinu að göngugeta hans sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Um mat læknis á batahorfum segi að göngugeta verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Af þeim sökum sé ljóst að réttur kæranda til uppbótar vegna reksturs bifreiðar hafi verið til staðar frá 19. september 2022 og hafi verið samþykktur frá 1. október 2022.
Ekki sé því ágreiningur um að kærandi teljist hreyfihamlaður í dag í skilningi reglugerðarinnar. Hins vegar megi ekki sjá af gögnum málsins hvenær slíkur réttur hafi stofnast, hafi hann stofnast fyrir þann tíma og kærandi verið búinn að uppfylla skilyrðin. Samkvæmt læknisvottorði vegna hreyfihömlunar, dags. 6. ágúst 2019, komi fram að göngugeta kæranda hafi verið meiri en 400 metrar að jafnaði og hafi verið reiknað með því að göngugetan yrði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Þar að auki sé til í gögnum málsins skoðunarskýrsla læknis, dags. 12. júní 2019, þar sem farið sé yfir færni kæranda til þess að ganga á jafnsléttu. Þar sé hakað í að kærandi geti ekki gengið nema 800 metra án þess að nema staðar eða fá veruleg óþægindi. Af þeim sökum sé ekki að sjá af gögnum málsins að réttur til uppbótar samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 hafi verið til staðar fyrir 1. október 2022.
Það sé því mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli skilyrði uppbótar vegna reksturs bifreiðar samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 905/2021 frá 1. október 2022 til 31. maí 2024 en ekki frá 1. október 2020 þar sem ekki komi fram í læknisvottorði, dags. 19. september 2022, hversu lengi göngugeta kæranda hafi að jafnaði verið minni en 400 metrar á jafnsléttu. Réttur kæranda til uppbótarinnar hafi því stofnast frá og með þeim degi er hann hafi talist uppfylla skilyrði til greiðslu hennar, þ.e. frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur hafi verið fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007. Það miðist við umrætt læknisvottorð frá 19. september 2022 þar sem fram hafi komið að göngugeta væri undir 400 metrum.
Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglur og góða stjórnsýsluhætti.
Tryggingastofnun vilji ítreka það að þau gögn sem liggi fyrir staðfesti að kærandi hafi verið hreyfihamlaður frá 19. september 2022. Þau gögn sem liggi fyrir um hreyfihömlun kæranda fyrir þann tímapunkt séu á þann veg að þá hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði hreyfihömlunar í skilningi reglugerðarinnar. Leggi kærandi fram ný gögn sem staðfesti með óyggjandi hætti að hreyfihömlun hafi verið til staðar þau tvö ár sem kærandi hafi sótt um afturvirkt, geti Tryggingastofnun tekið mál kæranda upp á nýjan leik.
Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar frá 24. nóvember 2023 um að miða upphaf gildistíma hreyfihömlunarmats kæranda við 1. október 2022.
Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. maí 2023, segir að stofnunin hafi skoðað læknisvottorð B, dags. 19. apríl 2023, og sjái ekki ástæðu til að breyta afstöðu sinni.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar upphafstíma greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar. Kærandi gerir kröfu um að upphafstíminn verði 1. október 2020 í stað 1. október 2022.
Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar vegna reksturs bifreiða er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, en þar segir meðal annars svo:
„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.
Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.“
Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Líkamleg hreyfihömlun er skilgreind svo í 2. gr. reglugerðarinnar:
„Sjúkdómur eða fötlun sem skerðir verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar er fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma eða annað sambærilegt.“
Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbót vegna reksturs bifreiðar og hljóðar 1. mgr. ákvæðisins svo:
„Heimilt er að greiða hreyfihömluðum elli- eða örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar. Sama gildir um endurhæfingarlífeyrisþega samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Skilyrði er að greiðsluþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og skal sýnt fram á að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar.“
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Í þágildandi 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur fram að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skuli bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Í þágildandi 4. mgr. 53. gr. kemur fram að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til þess að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.
Með umsókn kæranda fylgdi læknisvottorð C, dags. 9. september 2022, þar sem tilgreindar eru eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:
„Spastic hemiplegia
Disc prolapse, other
Áverki á hásin“
Í niðurstöðu vottorðsins segir:
„A er með spastíska […] helftarlömun sem greindist við X ára aldur, en er að öllum líkindum meðfædd.
Helftarlömunin lýsir sér mestmegins í máttminnkun í […] fæti, […] og klaufsku í […] hendi. A er haltur við gang, með adduction stöðu á […] fæti, og dropfoot. Fór í brjósklosaðgerð í X 2021, er með króníska verki þó enn eftir það. Sleit nýverið hásin nýlega.“
Í vottorðinu kemur fram að göngugeta kæranda sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu og að göngugeta verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Um hjálpartæki sem kærandi notar að staðaldri segir: „Notar spelku á fæti til að fá hreyfigetu í ökkla. Reynir annars einsog hann getur að ganga sjálfur.“
Meðal gagna málsins liggur fyrir bréf D sjúkraþjálfara, dags. 25. september 2022. Um mat á göngugetu kæranda segir:
„A hefur verið hjá undirrituðum til nokkurra ára vegna verkja frá mjóbaki, mjöðmum, hálsi og herðum sérstaklega. Hann undirgekkst brjósklosaðgerð X 2021 en hefur verið slæmur í bakinu síðan. Stífelsi um […] ökkla hefur verið teygt og liðað eins og hægt er en aflið um ökklann er lítið.
Nú kemur beiðni um mat á göngufærni og notumst við við göngumyllu. Við stilltum bretti á 0° halla, gönguhraðinn var hans eiginlegi gönguhraði sem hann valdi sér eða 1,8km/klst. Hann gekk í rúmar 12 mínútur, stoppaði sjálfur brettið þá vegna stífni í hnésbót og niður í fót […] megin. Í heildina gekk hann 340m baðst undan frekari göngu vegna stífni og verkja í […] kálfa niður hásin. Miðað við skilgreiningu á hreyfihömlun á göngu getur hann ekki gengið 400m á jafnsléttu án þess að stoppa.“
Einnig liggja fyrir gögn vegna eldri umsóknar kæranda vegna reksturs bifreiðar, dags. 8. ágúst 2019.
Meðal gagna er læknisvottorð E, dags. 6. ágúst 2019, þar sem greint er frá sjúkdómsgreiningunni spastic hemiplegia. Um lýsingu á sjúkdómsástandi kæranda segir í vottorðinu:
„A er með spastíska […] helftarlömun sem greindist við X ára aldur, en er að öllum líkindum meðfædd. Helftarlömun lýsir sér mestmegnis í máttminnkun í […] fæti, aðallega fyrir neðan hné, og klaufsku í […] hendi.
A er haltur við gang, með adduction stöðu á […] fæti, og dropfoot. Hann gengur án stuðnings. Kiðfættur.
Óstöðugur ef stendur á […] fæti. […] fótur er vöðvarýrari en sá […]. Mælingar sýna um 5 cm mun á vöðvaummáli […] og […] fótleggar þegar mælt er um kálfa og læri. Hreyfigeta um […] ökkla er skert. Aktíf dorsi- og plantarflexion 15-20°, getur ekki in- eða eversion um ökkla. Jákvætt Babinski sign […] megin.
A er með óafturkræfa færniskerðingu í [...] hluta líkamans sem gerir honum erfitt fyrir m.t.t. þess að ganga og keyra beinskiptan bíl, þ.e. nota […] fót til að kúpla.
Í gönguprófi sem framkvæmt var 06.08 getur A ekki gengið 400 metra á 6 mínútum. Hann klárar 369 m á 6 mínútum. Hann gengur 400 metra á 6 og hálfri mínútu sem verður að teljast skerðing á göngugetu, þó svo að hann klári sig við að ganga 400 metra.“
Í vottorðinu kemur fram að göngugeta kæranda sé að jafnaði meiri en 400 metrar á jafnsléttu og að göngugeta verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin.
Þá liggur fyrir skoðunarskýrsla F, dags. 12. júní 2019. Í mati skoðunarlæknis á líkamlegri færni kæranda kemur meðal annars fram að kærandi geti ekki gengið nema 800 metra án þess að nema staðar eða fá veruleg óþægindi.
Í læknisvottorði B, dags. 19. apríl 2023, sem kærandi aflaði við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni, segir:
„A er með spastíska […] helftarlömun sem greindist við X ára aldur, en er að öllum líkindum meðfædd.
Helftarlömunin lýsir sér mestmegins í máttminnkun í […] fæti, aðallega fyrir neðan hné, og klaufsku í [...] hendi. A er haltur við gang, með adduction stöðu á […] fæti, og dropfoot. Hann gengur án stuðnings. Kiðfættur. Óstöðugur ef stendur á […] fæti. […] fótur er vöðvarýrari en sá […]. Mælingar sýna um 5 cm mun á vöðvaummáli […] og […] fótleggar þegar mælt er um kálfa og læri. Hreyfigeta um […] ökkla er skert. Aktíf dorsi- og plantarflexion 15-20°, getur ekki in- eða eversion um ökkla. Jákvætt Babinski sign […] megin. A er með óafturkræfa færniskerðingu í […] hluta líkamans sem gerir honum erfitt fyrir m.t.t. þess að ganga og keyra beinskiptan bíl, þ.e. nota […] fót til að kúpla. Í gönguprófi sem framkvæmt var getur A ekki gengið 400 metra á 6 mínútum.“
Í vottorðinu kemur fram að göngugeta kæranda sé að jafnaði meiri en 400 metrar á jafnsléttu og að göngugeta verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin. Þá kemur fram að það hjálpartæki sem kærandi notist við sé spelka til að ná fram hreyfigetu í ökkla. Varðandi mat læknisins á batahorfum kæranda segir í vottorðinu:
„Óafturkræf færniskerðing til staðar. Hann fór í göngumat 2019 og gat ekki klárað 400 m á undir 6 mín. Það sem flækir málin er að hann náði þessum 400 metrum með miklum verkjum og á hörkunni einni á ca 7 mín. Því má segja að hann hafi og hefur ekki staðist göngumat.“
Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um líkamlega hreyfihömlun fyrir 1. október 2022 og eigi þar af leiðandi rétt til uppbótar vegna reksturs bifreiðar lengra aftur í tímann.
Hugtakið hreyfihömlun er ekki skilgreint í lögum um félagslega aðstoð en löggjafinn hefur veitt ráðherra heimild til að útfæra áðurnefnda 10. gr. laganna í reglugerð. Í 2. gr. reglugerðar nr. 905/2021 er hreyfihömlun skilgreind þannig að um hreyfihömlun sé að ræða þegar sjúkdómur eða fötlun skerðir verulega færni viðkomandi til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Fyrir liggur að Tryggingastofnun synjaði beiðni kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar lengra aftur í tímann þegar af þeirri ástæðu að ekki kæmi fram í gögnum málsins hversu lengi göngugeta kæranda hefði verið skert þannig að hún væri að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir ekki athugasemd við að skilgreining á hreyfihömlun í 2. gr. reglugerðar nr. 905/2020 taki mið af því hvort göngugeta umsækjanda sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu.
Kærandi sótti upphaflega um styrk vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 8. ágúst 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. ágúst 2019, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um styrk vegna reksturs bifreiðar væri synjað þar sem læknisfræðileg skilyrði um hreyfihömlun væru ekki uppfyllt. Þá sagði að samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði væri göngugeta kæranda að jafnaði meiri en 400 metrar. Kæranda var jafnframt gefinn kostur á að senda inn nýtt læknisvottorð og óska eftir að mál hans yrði tekið fyrir að nýju ef hann teldi að fyrirliggjandi vottorð innihéldi ekki nægilega skýrar upplýsingar um hreyfihömlun hans. Samkvæmt gögnum málsins gerði kærandi það ekki. Kærandi sótti um uppbót vegna reksturs bifreiðar á ný með umsókn, dags. 19. september 2022.
Meðal gagna málsins er skoðunarskýrsla F, dags. 12 júní 2019. Í skýrslunni mat skoðunarlæknir það svo að kærandi gæti ekki gengið nema 800 metra án þess að nema staðar eða fá veruleg óþægindi. Samkvæmt læknisvottorði E, dags. 6. ágúst 2019, var það mat hennar að göngugeta kæranda væri að jafnaði meiri en 400 metrar á jafnsléttu en í læknisvottorði C, dags. 19. september 2022, kemur fram að göngugeta kæranda sé minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þá liggur fyrir bréf D sjúkraþjálfara, dags. 25. september 2022, þar sem fram kemur að kærandi hafi náð 340 metrum þegar hann varð að hætta göngu vegna stífni og verkja í […] kálfa niður í hásin. Í læknisvottorði B, dags. 19. apríl 2023, kemur fram að göngugeta kæranda sé að jafnaði meiri en 400 metrar á jafnsléttu.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur hreyfihömlun kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Tryggingastofnun miðaði upphafstíma hreyfihömlunarmats kæranda við 1. október 2022, þ.e. fyrsta dag næsta mánaðar eftir að staðfest var að göngugeta kæranda væri minni en 400 metrar á jafnsléttu og að hún yrði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin samkvæmt læknisvottorði C, dags. 19. september 2022. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála liggja ekki fyrir gögn sem staðfesta að kærandi hafi uppfyllt skilyrði hreyfihömlunar í skilningi 2. gr. reglugerðar nr. 905/2021 fyrir þann tíma. Úrskurðarnefndin telur að ráðið verði af læknisvottorði E, dags. 6. ágúst 2019, og skoðunarskýrslu F, dags. 12 júní 2019, að göngugeta kæranda hafi verið meiri en 400 metrar á jafnsléttu að jafnaði á árinu 2019.
Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. nóvember 2022 um að upphafstími greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar til kæranda skuli vera 1. október 2022.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þess efnis að upphafstími greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar til A, skuli vera 1. október 2022, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir